07.03.1983
Efri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2583 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er að vísu nokkuð skammt liðið frá því að þetta óhapp varð, svo að ég hef ekki fengið fullkomnar upplýsingar um sumt af því sem ég hef sett í gang í þessu sambandi. Þó get ég svarað a. m. k. hluta af því sem hv. þm. spurði um.

Í fyrsta lagi segja mér sérfróðir menn að það sé mjög ólíklegt að unnt sé að bjarga Gretti þar sem hann liggur. Þó verður það eitthvað nánar kannað. En svarið sem ég fékk var að það væri mjög ólíklegt.

Hvaða áhrif hefur þetta á verkin í sumar? Fyrirhugaðar voru dýpkanir í sumar á eftirtöldum höfnum: Á Húsavík 19 þús. m2. Það er talið munu kosta 4 millj. kr. Á Þórshöfn 7 þús. m2 á 1750 þús. kr. Á Stöðvarfirði 6 þús. m2 á 1500 þús. kr. Á Breiðdalsvík 4800 m2 á 1200 þús. kr. Í Sandgerði 2200 m2 á 500 þús. kr. Í Grindavík 4800 m2 á 1200 þús. kr. Í Hafnarfirði 3200 m2 á 1. millj. kr. Þetta eru samtals 47 þús. m2 og talið munu kosta 11 millj. 150 þús. kr. Í landinu eru ekki tæki til að framkvæma a. m. k. sumar þessar dýpkanir, t. d. á Húsavík og Þórshöfn, Breiðdalsvík, Sandgerði og Hafnarfirði. Í Sandgerði og Hafnarfirði hefur þetta áhrif á síðari verkáfanga sem einnig var fyrirhugað að vinna á þessu ári. Þar átti að nota Gretti til að moka upp sprengdri klöpp úr fyrirhuguðum skurði fyrir stálþil. Þetta hefur því enn önnur eftirköst í för með sér eins og ljóst má vera af þessu.

Þá er spurt hvort þetta leiði til fækkunar í áhaldahúsi Hafnamálastofnunar. Í fyrsta lagi má segja að án Grettis eða sambærilegs skips sé rekstrargrundvöllur áhaldahússins í raun og veru brostinn. Nú skal ég ekki um það segja á þessu stigi hvort unnt er að fá sambærilegt skip á skömmum tíma. Það er einmitt eitt af því sem ég hef óskað eftir að verði athugað en ekki fengið svör við. Ef það tekst ekki er ekki um annað að ræða en endurskipuleggja reksturinn. Að öllum líkindum hefði það verulega fækkun á mannskap í för með sér, og mætti nánast segja að áhaldahús í núverandi mynd yrði ekki starfrækt. Í áhaldahúsinu starfa nú 33 menn.

Ég held að öllum megi vera ljóst af því sem ég las áðan um þær framkvæmdir sem Gretti voru ætlaðar að það verður allt gert til að komast yfir annað skip. Hins vegar höfum við ekki upplýsingar um það á þessu stigi. Ég hef einnig látið athuga hvort komi til greina að bjóða verkin út a. m. k. núna og fá þau þannig unnin. En það eru erfiðleikar á því með mörg þessara verka því að það eru ekki til tæki í landinu til að vinna þau. Það kann að vera að einstök verk megi fá verktaka til að gera, en það er mikill minni hluti. Eins og menn vita var Grettir mjög sérhæft skip og notað til dýpkana á hörðum botni, sprengdri klöpp og öðrum slíkum verkefnum, sem önnur dýpkunartæki ráða ekki við. Þessi verkefni eru þar að auki takmörkuð að umfangi og ekki þörf fyrir nema eitt slíkt tæki í landinu. Við aðstæður sem þessar er ekki grundvöllur til heilbrigðs útboðs og því er að mínu mati eðlilegt að ríkið eigi svona sérhæft tæki. Ég held að varla sé hægt að gera ráð fyrir því að verktakar, sem gjarnan þyrftu að vera fleiri en einn til að sem sanngjörnust tilboð fengjust, fái sér svona tæki og reyndar alls ekki æskilegt. Ég hygg að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem eðlilegt er að Vita- og hafnarmálaskrifstofan sjálf annist.