08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umr. er ekkert nýtt fyrir hv. þdm. og þá á ég við efnishlið þess máls. Að vísu má segja að frv. eins og það er núna sé í nokkuð breyttum búningi og kannske mætti segja í fljótheitum séð aðgengilegri en áður þegar málið hefur komið fyrir augu hv. þm., en eigi að síður er vissulega um nokkuð mikið mál að ræða.

Ég hef áður gert grein fyrir minni afstöðu til breytinga á vinnulöggjöfinni. Mín grundvallarskoðun er sú, að verkalýðshreyfingin eigi sjálf innan sinna vébanda að komast að samkomulagi um það, með hvaða hætti hún vill að löggjöfin sé hverju sinni. Ég skal hins vegar taka fram, að það vantar mikið á að verkalýðshreyfingin hafi sinnt þessum þætti í sínu starfi, að ræða ítarlega skipulagsmál sín. Þess vegna má segja að það stendur í raun og veru upp á hreyfinguna sem slíka að framkvæma þá niðurstöðu sem komist var að fyrir um 20 árum eða meira.

Ég skal segja það hér strax, að ég hefði talið skynsamlegra, ef menn á annað borð vildu að löggjafinn skærist í þetta mál, að flytja málið inn á Alþingi með þeim hætti að hreyfingunni væri t.d. gefinn ákveðinn aðlögunartími til þess að hún sjálf kæmist að niðurstöðu um málið, en ef það yrði ekki kæmi að því að löggjafinn kynni að grípa inn í. Ég hefði t.d. talið miklu eðlilegra og æskilegra í alla staði, ef menn vilja á annað borð ganga frá frv. í svipuðu formi og hér er um að ræða, að ætla því ekki gildistöku fyrr en eftir tvö ár eða svo, þannig að verkalýðshreyfingin sæi fram á að hún kæmist ekkert undan að ræða þessi mál og komast að niðurstöðu og segja hvað hún vildi.

En að því er þetta frv. varðar eru nokkur atriði sem ég vildi gjarnan víkja að. Það er líka rétt að geta þess, að frá því að frv. svipaðs efnis var flutt síðast hefur flm. fjölgað um helming. Kannske má því segja að það sé viss árangur í meðförum málsins þegar slíkt á sér stað. En ég vil segja það strax, að það sem hér er lagt til held ég að hljóti að vera á misskilningi byggt af þeim sem leggja það til. Þeir þekkja ekki nægilega til hvernig mál í raun og veru eru og eiga sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar í starfi hennar á hverjum tíma.

Í 1. gr. frv. er breytingin sú, að nú eru menn að tala um að heimila í staðinn fyrir að ákveða í raun og veru stofnun hinna svokölluðu vinnustaðafélaga. Breytingin er í því fólgin, að í eldra frv. var um að ræða skyldu á vinnustað sem hafði yfir 25 launþega. Þeir gátu ótvírætt stofnað svokallað vinnustaðafélag. Nú er þetta komið í það form, að það er heimild fyrir í þessum tilfellum að slíkir aðilar stofni slík launþegafélög. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé verið að opna fyrir vægast sagt hæpnar breytingar og í mínum huga verður það ekki í þessu formi til að styrkja verkalýðshreyfinguna inn á við. Ég skal ekki fara mikið út í að ræða þetta að því er varðar hinar stóru einingar, eins og t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég þekki þar ekki mikið til og þess vegna tala ég fyrst og fremst út frá þeirri reynslu sem ég tel mig hafa fengið í slíku starfi í nær 25 ár í tiltölulega litlu verkalýðsfélagi, þó undir þeim kringumstæðum að ef þetta yrði gert með breytingu á vinnulöggjöfinni á þann veg sem hér er gert ráð fyrir kynnu að geta starfað á stað sem telur 1200–1300 íbúa líklega 3–4 verkalýðsfélög. Ég held að það sé ekki launafólkinu til bóta, allra síst því sem verst er sett og lökust hefur kjörin. ef slík breyting, sem hér um ræðir, yrði gerð frá því sem nú er.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að allir þeir sem eru á vinnustaðnum geti ákvarðað með þessum hætti. Nú er það svo mjög víða, að ég held, að þó að verkalýðsfélag sé fyrir hendi á viðkomandi stað fer því víðs fjarri að allir þeir sem á viðkomandi vinnustað vinna séu félagar í því stéttarfélagi. Það er þó nokkuð um að einstaklingar gerast ekki félagar. Þeir eru svokallaðir aukafélagar, greiða vinnuréttindagjald, en hafa ekki fullkomin félagsréttindi. Mér sýnist t.d. að í ekkert stóru frystihúsi gætu hinir svokölluðu aukafélagar, þ.e. þeir sem á engan hátt hafa viljað bera ábyrgð á því starfi sem hið raunverulega verkalýðsfélag á staðnum hefur verið að reyna að sinna í gegnum árin, yfirtekið ákvörðunarréttinn og stofnað sérstaki vinnustaðafélag, þ.e. þeir félagar sem aldrei hafa viljað ganga til liðs við stéttarfélag á staðnum og veita því sitt liðsinni.

Það er ótalmargt fleira, held ég, sem menn þurfa að skoða í þessu samhengi. Mér sýnist t.d. að gert sé ráð fyrir því í síðustu línunni í 1. gr., að það verði í raun og veru félmrn. sem stjórni hinum svokölluðu vinnustaðafélögum með reglugerðarsetningu. Þó að hv. flm. treysti kannske vel núv. hæstv. félmrh. til góðra verka, þá held ég, burtséð frá hvaða einstaklingur sæti í stól félmrh., að það sé afskaplega varasamt að meðhöndla málin með þessum hætti, að ætlast til þess í raun og veru að tiltekið rn. setji fram starfsgrundvöll viðkomandi vinnustaðafélags. En ég sé ekki betur en hér sé gert ráð fyrir því. Það eina sem hér er slegið föstu er það, að þar sem 25 launþegar eða fleiri eru á vinnustað geti þeir stofnað vinnustaðafélag. Síðan er það félmrn. að segja til um það, með hvaða hætti slíkt félag verði rekið.

Ég hef áður sagt það og get ítrekað það, að það er margt sem ég tel að þurfi að breyta í starfsháttum innan verkalýðshreyfingarinnar og ótalmargt sem þar má betur fara. En það sem hér er lagt til verður ekki að mínu viti til þess að styrkja launafólk í mjög svo erfiðri launa- og kjarabaráttu. Allra síst verður það til þess að styrkja þá sem verst eru settir nú þegar. Hvað t.d. með þau réttindi sem einstaklingar hafa öðlast eftir tiltölulega langt starf á viðkomandi vinnustað, réttindi áunnin við samninga, ef farið væri út í að stofna þessi vinnustaðafélög, sem ég hygg þá að yrðu frá grunni að vinna upp sín mál og sem ja þar um? Og ég held að það sé ótalmargt sem kemur þarna inn í. Hvað t.d. með rétt til greiðslu úr sjúkrasjóðum, orlofssjóðum, svo að eitthvað sé nefnt? Hvað með félagsgjöld og annað slíkt? Ég skil það svo eftir orðanna hljóðan í frvgr., að það verði þá félmrn. sem ákvarði þetta. Ég skil málið svo og ég er algerlega andvigur því. Það er ekki hægt að skilja þetta á annan hátt. (VG: Þetta er gagnkvæm atkvgr.) Við skulum taka það gott og gilt, sem hv. 1. flm. segir um þetta. En hvað þá með önnur ákvæði sem fylgja stéttarfélagsstofnun? Hver á að ákvarða þar um? (VG: 2. gr. segir það.) „Þar sem í lögum þessum eru nefnd stéttarfélög komi: stéttarfélög og vinnustaðafélög.“ (VG: Hefurðu ekki lesið frv.?) Þetta segir ekki neitt, hv. flm. Þetta segir ekki neitt. (Gripið fram í.) Þó að ég virði hv. flm. mikils og hafi ætíð gert það og hann sé á margan hátt vel af guði gerður, þá held ég þó að reynsla þeirra sem starfað hafa í verkalýðshreyfingunni, verið hafa félagar í stéttarfélögum í gegnum árin, segi æðimiklu meira en hinna, sem koma að þessu aðvífandi á. hverjum tíma og ætla sér að leysa allan vanda með svo til einu töfrabragði að því er þetta mál varðar. Málið er ekki svo einfalt. (Gripið fram í: Menn verða nú að lesa sér til áður en þeir fara að gagnrýna.) Enn einn spekingurinn kallar hér fram í, líklega úr gáfumannadeildinni. Þeir virðast vera komnir hér margir. Að því er þessa tvo hv. þm. varðar sameinast þeir í fáfræðinni innan þessara vébanda.

Mér er það alveg ljóst, eins og ég hef áður sagt og dreg ekki í efa, að hv. flm. þessa frv. meina gott með málinu. Ég hef a.m.k. ekki heyrt, eins og hv. frummælandi þessa máls var að tala um þegar hann mælti fyrir þessu frv., ásakanir í hans garð um að hann vildi mönnum illt með þessu eða hreyfingunni. Ég lít miklu frekar á þetta sem nokkurs konar misskilning á starfsháttum og starfsemi. Ég veit að hann er þannig sinnaður að hann metur vel og tekur vel til greina góðar ábendingar og ráðleggingar.

Hv. flm. og frsm. hefur oft talað um að þessi mál ætti að ræða „á gólfinu,“ eins og hann kallar það, og þá geri ég ráð fyrir að hann eigi við gólfið á vinnustaðnum. Ekki hef ég á móti því og ég hygg að svo sé. A.m.k. hef ég þá reynslu, að þróunin hafi orðið að einstaklingarnir, starfsfólkið á vinnustöðunum, hafa í miklu meira mæli en áður hefur gerst verið látnir ákvarða um það með hvaða hætti hefur verið farið með þessi mál, a.m.k. í mínu félagi. Tókum frystihúsin sem dæmi. Í samningargerð, og ég geri ráð fyrir að þeir flm. eigi fyrst og fremst við þann þátt mála, er það vilji fólk . þar sem ræður ferðinni í samningamálunum. Vinnustaðirnir eru farnir að hafa miklu meiri áhrif á ákvarðanir um samningamál en áður var. hví má segja að þróunin hefur verið í þessa átt þó að menn hafi ekki samhliða þeirri þróun viljað fara inn á braut sem gæti skaðað verulega meira en hún kæmi til með að vera til góða.

Því er haldið fram, að þetta mál eigi miklu fylgi að fagna meðal fólksins „á gólfinu“, ef við vildum áfram að nota það orð, en ég hef ekki orðið var við það í einu einasta verkalýðsfélagi eða heyrt um það réttara sagt að í einu einasta stéttarfélagi hafi þetta mál verið tekið upp af félögunum sjálfum, sem er vissulega opin leið og sjálfsögð.

Ég hef sagt það áður, að ég tel gott að flutningur þessa máls hefur orðið til þess að málið allt hefur fengið mikla umræðu í þjóðfélaginu. Auðvitað er með þetta mál eins og flest önnur að það þarf að ræða, ekki síst í ljósi þess að hreyfingin sjálf hefur ekki staðið sig sem skyldi í því að leiða þetta mál til lykta innan sinna vébanda. Ég held t.d., að þó að það hafi verið haft í yfirlýsingum mörg undanfarin ár, nokkuð langan tíma, af hálfu heildarsamtakanna að fyrst og fremst skyldi nú barist fyrir því að þeir sem verst væru settir skyldu bera mest úr býtum í samningum eftir samninga, hafi eftir sem áður, þrátt fyrir þessar yfirlýsingar og heitstrengingar, oftar verið staðið upp með hvað minnstan feng fyrir þá sem minnst höfðu fyrir. Út frá þessu segir hv. 1. flm. og frummælandi að þetta sýni fram á að þörf sé breytinga í þá átt sem hér er lagt til. Ég hef notað það sem dæmi í umr. um þetta að í mínu byggðarlagi er starfandi eitt stéttarfélag sem heitir verslunarmannafélag. Líklega eru í því 25 launþegar, jafnmargir og eftir frv. þessu geta stofnað vinnustaðafélag. Það stéttarfélag hefur vegna fámennis, vegna þess hve einingin er lítil, ekki verið starfandi í reynd í mörg ár. Það hefur ekki einu sinni getað sinnt þeirri frumskyldu slíks félags að vera með lágmarksþjónustu fyrir sína félagsmenn. Ég held að það gerist miklu víðar, verði farið út á þá braut að brjóta þessar einingar þannig upp, einingarnar verði lítils sem einskis megnugar að þjóna sínum umbjóðendum. Það er auðvitað augljóst mál að það þarf ákveðinn kjarna, ákveðinn stóran hóp til þess að hægt sé að reka fyrirtæki, ef menn vilja orða það svo. Verkalýðsrekendur er mikið talað um í þessu sambandi. En það þarf líka ákveðinn kjarna til þess að hægt sé að reka stéttarfélag svo að vel sé þannig að það sjái a.m.k. fyrir þeirri lágmarksþjónustu við sitt fólk sem er nauðsyn ef félagið á annað borð á að rísa undir nafni. Og ég sé ekki að 25 manna verkalýðsfélag, vinnustaðafélag eða hvað sem menn kalla það hafi neitt bolmagn til að sinna þeirri frumskyldu sem félagsmenn hljóta að gera kröfur um til félags með ekki stærri félagsmannahóp en hér um ræðir.

Hv. 1. flm. segir: Það notar enginn þessa heimild nema því aðeins að menn séu sammála um að fara inn á þessa braut. — Út af fyrir sig er það rétt. Hann segir jafnframt, að það leiki sér enginn að því að breyta í þessa átt, það leiki sér enginn t.d. með verkfallsréttinn. Við höfum því miður nokkur dæmi þess úr reynslunni að ágreiningur er æðimikill um hvort menn eru að leika sér með verkfallsréttinn í pólitískum tilgangi eða ekki. Ég er ekki í neinum vafa um að það eru til í dag eins og alltaf hafa verið til einstaklingar sem eru þess reiðubúnir að vekja upp óánægju og ágreining til þess t.d. að koma af stað svona vinnustaðafélagi gegn verkalýðsfélaginu sem þeim líkar ekki við á hverjum tíma. Þetta er alltaf fyrir hendi og alls staðar. Ég held því að það sé afskaplega hæpið a.m.k., þó að ekki sé sterkar til orða tekið, að þessi leið, sem hér er lagt til að farin verði, verði til þess að styrkja hreyfinguna. Að mínu viti verður hún miklu frekar til þess að veikja hana. — Ég tala nú ekki um ef það verður reynslan að ákveðin sterk öfl í þessu þjóðfélagi, peningaöfl, ætla sér að fara að blanda sér í samningamálin á hinum almenna vinnumarkaði líka og stjórna þeim að eigin geðþótta. Þá er enn frekar ástæða til að gjalda varhug við þeirri leið sem hér er lagt til að farin verði.

Hitt er svo annað mál, og það er ég flm. frv. sammála um, sem komið hefur fram í umr. um málið, að það þarf að minnka miðstýringuna í verkalýðshreyfingunni. Það þarf að hætta því, a.m.k. við þær kringumstæður sem verið hafa og eru enn þann dag í dag, að 50–70 einstaklingar semji fyrir 50 þús. manns eða meira. Ég held að sú þróun sem átt hefur sér stað í samningamálunum hafi orðið til þess kannske meira en flest annað að minnka þar:n félagslega áhuga og þroska sem fólk nær með því að vera í hvað nánustum tengslum við það sem er að gerast hverju sinni. Menn hafa orðað það svo, að nauðsynlegt væri að færa vettvanginn nær fólkinu, skilgreint það á þann hátt, að t.d. samningamálin beri að færa nær fólkinu sem á að njóta þess sem út úr samningum kemur. Ég hef verið talsmaður þess að það ætti að gera.

Sú var tíðin í árdaga hjá verkalýðshreyfingunni, að þessi mál, t.d. samningamálin, öll réttindabarátta, fóru fram á heimavígstöðvum með þeim hætti, að fólkið á hverjum stað var í nánum tengslum við það sem var að gerast hverju sinni og hafði bein áhrif á það á hverjum tíma hvernig með mál var farið. Það gefur auga leið, a.m.k. ætti það að vera hjá einstaklingum sem eitthvað hafa kynnst félagsmálastarfi, að það er miklu auðveldari leið til þess að fá einstaklingana til að taka þátt í störfum, í þessu tilfelli verkalýðsfélaganna, ef fólkið finnur að það getur haft áhrif á það frá degi til dags með hvaða hætti að málum er unnið og hvaða niðurstaða hugsanlega fæst. Það hefur verið svo, því miður, í mörgum undangengnum samningum, að út eru látin ganga boð frá höfuðstöðvunum um að þetta eða hitt sé nú nauðsynlegt að gera. Það er bara mannlegt að ótrúlega stór hópur er farinn að vera þenkjandi um hvort þessi vinnubrögð eru ekki í raun og veru af hinu verra. Ég hef verið talsmaður þess, að t.d. sú breyting væri gerð á starfsháttum verkalýðshreyfingarinnar að því er varðar samninga að færa þá á hendur fleiri einstaklinga, heim til fólksins á stöðunum. Mér er það ljóst, að það geta verið tiltekin sameiginleg mál sem heildarsamtökin kunna að þurfa að fara með. Má þar nefna kannske vísitölumál, svo að eitthvað sé nefnt. En bein kjaraákvæði og ýmis önnur staðbundin ákvæði ætti að fara með heim í héruð og semja um mál þar.

Við skulum gera okkur það ljóst, að þó að menn tali um að kaup og kjör eigi að vera hin sömu hvar sem er á landinu, þá er víðs fjarri að það eigi yfirleitt rétt á sér að halda slíku fram. Ef við tölum um kjaramál, eru það nokkuð sambærileg kjör sem verkamaður vestur á fjörðum hefur samanborið við verkamann hér í Reykjavík, ef tekinn er inn í það dæmi orkukostnaður og símkostnaður, svo að eitthvað sé nefnt? Í þessum samanburði stendur verkamaðurinn vestur á fjörðum miklu verr að vígi, hefur miklu lakari kjör en hinn sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Það eru þessir þættir sem a.m.k. launafólkinu á landsbyggðinni hefur þótt vera farið með af afskaplega lítilli alvöru hjá heildarsamtökunum. Oftast hefur þessu og, sbr. síðustu samninga heildarsamtakanna, Verkamannasambandsins líka, verið ýtt út af borðinu, þó að í byrjun hafi verið talað um að slík karfa ætti að njóta forgangs að jafna kjörin með þessum hætti.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta mál. Ég tel og vil ítreka það, að sú umræða sem hefur orðið í þjóðfélaginu um málið og innan verkalýðshreyfingarinnar hljóti að hafs orðið til góðs, en ég geld varhug við því að farið sé inn á þær brautir sem hér er lagt til í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af hinum smáu einingum innan verkalýðshreyfingarinnar. Ef menn vilja knýja á hreyfinguna með því að fá lausn á málinu og að hún sjálf standi fyrst og fremst að slíkri lausn, þá ættu menn að hugleiða þann möguleika að gefa henni aðlögunartíma þannig að hún viti að fari hún ekki að rumska af svefni þeim sem hún hefur sofið í þessum málum, þá komi að því áður en langt um líður að löggjafinn kunni að grípa inn í þessi mál, sem er þó miður æskilegt að mínu viti fyrir hreyfinguna.