08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Enn á ný hefur hv. þm. Vilmundur Gylfason flutt tillögur um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Á síðasta Alþingi flutti hann brtt. um að hverjum þeim er óskuðu að stofna vinnustaðafélög væri það heimilt og skyldu slík félög njóta sömu réttinda og verkalýðsfélög gera nú. Frv. frá síðasta þingi hlaut nær engar undurtektir. Nú fer hv. þm. aftur af stað, en þrengir nú þessi ákvæði nokkuð, þannig að ef 25 launþegar eða fleiri á sama vinnustað óska eftir að stofna vinnustaðafélag, þá skuli það félag njóta sömu réttinda og verkalýðsfélag, ef 2/3 hlutar starfsmanna samþykkja stofnun þess. Þessar breytingar frá frv. í fyrra túlkar flm. sem rýmkun á fyrri till. og í ákvörðun um stofnun vinnustaðafélaga skuli meirihlutalýðræðið vera í hávegum haft.

Lítum aðeins á hvaða áhrif þessar breytingar mundu hafa, ef samþykktar yrðu, og síðan mundi það ganga eftir, ef fjöldi vinnustaðafélaga yrði stofnaður. Þá er fyrst til að taka að upp kæmi á vinnumarkaðinum tvöfalt kerfi verkalýðsfélaga. Gerum ráð fyrir að stofnaður yrði álitlegur fjöldi vinnustaðafélaga með fullum samningsréttindum og einnig yrðu til staðar flest þau verkalýðsfélög sem nú eru starfandi. Ekki yrði það til að auðvelda samningagerð. Fyrst yrði að semja við ótrúlegan fjölda vinnustaðafélaga og einnig við hefðbundin verkalýðsfélög. Þetta tvöfalda kerfi yrði ærið flókið. Hvernig mundi vinnumarkaðurinn verða ef upp risu t.d. 200–300 verkalýðsfélög, vinnustaðaverkalýðsfélög í Reykjavik einni til viðbótar þeim verkalýðsfélögum sem þegar eru fyrir hendi? Mörgum landsmönnum þykja vinnudeilur fleiri á Íslandi en tíðkast víða annars staðar. Fyrirtækin í landinu eru hvert öðru háð. Verkfall hjá einu fyrirtæki getur lamað fjölda annarra fyrirtækja. Ef verkföll færu nú að verða vikuleg víðs vegar um borgina mundi koma upp þvílík ringulreið, að ég teldi ekki ótrúlegt að innan mjög skamms tíma kæmu hér fram á hv. Alþingi tillögur til laga um gerbreytta vinnulöggjöf, sem hefði það að markmiði að skerða verulega rétt verkalýðsfélaga, og það yrði rökstutt með því ófremdarástandi sem búið bæri að koma á á vinnumarkaðinum.

Hv. þm. sagði að eitt markmið þessa frv. væri að tryggja betur en nú rétt hinna lægst launuðu. Þetta er ekki illa sagt. En hvaða aðilar eru það sem helst mundu stofna slík vinnustaðafélög? Heldur hv. alþm. að það yrðu þvottakonur eða afgreiðslustúlkur í smærri verslunum eða verkamenn á almennum vinnustöðum? Nei. Þeir sem mundu stofna slík vinnustöðvafélög væru fyrst og fremst sérfræðingar með sterka verkfallsstöðu, einstakir hópar sem mundu kljúfa sig út úr hinum almennu félögum af því að þeir hefðu sterka verkfallsstöðu fyrir sig. Ég efast ekki um að sérstakir hópar sérfræðinga og aðrir með lykilstöðu í verkföllum gætu beitt þessum vopnum sér til framdráttar. En eftir sæti hinn almenni maður sem ekki hefur sterka verkfallsaðstöðu.

Hér á Alþingi Íslendinga flytur þm., sem kallar sig sósíaldemókrat, slíka tillögu. Slíkt gæti ekki skeð á þjóðþingum annarra Norðurlanda. Stefna sósíaldemókrata hefur verið að efla heildarsamtök verkafólks. Stefna þeirra hefur verið samhjálp og samvinna verkafólks. Það hefur verið öflugt starf á vinnustöðum, sterk verkalýðsfélög og sterk heildarsamtök sem stuðluðu að samhjálp og leituðust við að heyja sína baráttu með heildaryfirsýn yfir sviðið. Vitanlega er alltaf sú hætta fyrir hendi, að samtökin verði ekki baráttuafl vinnandi fólks, heldur í of miklum mæli stirðar stofnanir. Gegn þessari hættu þarf alltaf að vera á verði. En á Íslandi hafa heildarsamtökin mun minna vald en í flestum ef ekki öllum nágrannalöndum okkar. Ég endurtek: í verkalýðsmálum hafa sósíaldemókratar, samhliða baráttunni á vinnustaðnum og baráttu einstakra verkalýðsfélaga, lagt mjög ríka áherslu á að tryggja samstöðu og samhjálp og samræmingu baráttunnar með öflugum heildarsamtökum.

Það kveður nokkuð við annan tón hjá hv. 4. þm. Reykv. Verkalýðshreyfingunni skal beitt þannig að þeir sem hafa sterkasta verkfallsaðstöðu fyrir sig skulu vera í sérstökum verkalýðsfélögum og skara eld að sinni köku. Hinir skulu sitja eftir eftir því sem markaðurinn býður hverju sinni. Mér kæmi satt best að segja ekki á óvart þótt ýmsum gegnum og góðum sósíaldemókrötum þætti nægilega að gert þó að markaðslögmálið ætti ekki að ganga út yfir fyrirkomulag verkalýðsfélaga líka. (VG: Hvorir fá hærri laun í Dagsbrún, kranamenn eða ófaglærðir?) Það er sjálfsagt að upplýsa hv. þm. um laun í Dagsbrún og víða annars staðar. Ég skal segja honum t.d. að kranamenn og hafnarverkamenn, sem hafa töluvert hærri laun en ýmsir aðrir, hafa oft og tíðum ráðið úrslitum um það að þeir sem hafa veikari stöðu á vinnumarkaðinum fái ákveðin réttindi, leggja af mörkum sína sterku stöðu til þess að styrkja hinn almenna mann. Markaðslögmálið gildir ekki hjá þeim, heldur samhjálpin, sósíaldemókratísk samhyggja, sem þessi hv. þm. virðist aldrei hafa skilið.

Ég efast ekki um að einstök fyrirtæki mundu greiða hærri laun. En það yrðu ekki endilega þau fyrirtæki sem eru þjóðhagslega hagkvæmust, heldur þau fyrirtæki sem hefðu aðstöðu til að velta kostnaðinum yfir á aðra. Hv. þm. telur að þrátt fyrir vinnustaðafélögin geti hin almennu verkalýðsfélög starfað. Í orði kveðnu er þetta rétt. En mér er spurn: Hvert eiga þau að sækja styrk sinn til að vernda þá sem erfiðastan verkfallsaðstöðu hafa þegar burðarstoðirnar, þ.e. þau fyrirtæki og það starfsfólk sem hefur sterkasta verkfallsaðstöðu, eru komnar út úr félögunum?

Ummæli hv. þm. um að hallað hafi á almennt verkafólk eru rétt. En ég fullyrði að það muni halla miklu meira á þetta fólk ef þetta stjórnleysisfyrirkomulag hans yrði tekið upp. Verkalýðsfélögin hafa í gegnum tíðina tryggt — eins og hv. fyrri flm. viðurkennir og hefur reyndar fram tekið-ýmis helgustu mannréttindi í þessu þjóðfélagi. Þau hafa gert það með samstöðu og samhjálp. Ég skal hins vegar viðurkenna að því miður færist það æ meir í vöxt að þeir sérmenntuðu og einstakir hópar hugsi ekki um heildina heldur aðeins sig. Þessi áhrif ná til hv. þm.

Kjarabót eins og atvinnuleysistryggingar, sem komu fyrst í samninga 1955, var aðallausn á sex vikna verkfalli. Það voru heildarsamtök sem knúðu á um þessar aðgerðir eða samræmdu þessa lausn. Meira að segja var fyrrv. formaður Alþfl., Emil Jónsson, einn af helstu tillögumönnum á sínum tíma í sáttanefnd. Nú vildi enginn vera án þess öryggis sem þessar tryggingar veita. Ég er ákaflega hræddur um að einstök vinnustöðvafélög hefðu frekar viljað tryggja einhver sératriði fyrir sig í þessu verkfalli er, þessa samtryggingaraðgerð. Breytingar í almannatryggingalögunum, eins og t.d. fjölskyldubætur 1952, voru þáttur í lausn á verkfalli hjá heildarsamtökum. Þær voru á sínum tíma lausn eða hluti af lausn, sem hlaut ákaflega góðar undirtektir, að vísu í allt öðru þjóðfélagi og við allt aðrar aðstæður en við búum við í dag. Þetta gengur eins og rauður þráður í gegnum samhjálp, samtrygging. Árið 1964 verður gerbreyting á lánum til húsnæðisbygginga. Það er ákveðin lausn á vinnudeilu þá fyrir forgöngu heildarsamtaka, vitanlega eftir þrýsting og tillögur hinna einstöku félagsmanna í verkalýðshreyfingunni. Enn má nefna aðgerðir 1955 og 1964 þar sem launaskatti er komið á til húsnæðismálastjórnar. — Síðan hafa allar ríkisstjórnir misnotað þetta og lagt launaskatt á til allra hugsanlegra hluta. Það er hins vegar allt annað mál. — Það er samið um 1 250 íbúðir í Reykjavík 1965, sem er gerbreyting á aðstöðu, og jafnframt um endurskoðun laga um verkamannabústaði.

Þessi lög var byrjað að endurskoða og breytingar á þeim komu til framkvæmda að mig minnir 1970 eða 1971. Heildarsamtök enn. Þá koma samningarnir um lífeyrissjóðina 1969, sem tryggðu öllum verkalýðsfélögum innan Alþýðusambandsins lífeyrissjóðsréttindi sem einstakar forréttindastéttir höfðu notið áður.

Nú dettur mér ekki til hugar að halda að hv. flm. Vilmundur Gylfason sé á móti þessu. Hann getur tekið undir þetta allt saman. En einstök vinnustöðvafélög hefðu aldrei knúið þetta í gegn. Ef ekki hefði verið samstaða með hinum einstöku félögum, ef þau hefðu ekki snúið bökum saman í heildarsamtökum, þá hefði þessi merka löggjöf, þessar gagnmerku þjóðfélagslegu umbætur ekki náð fram að ganga. Slíkar bætur, slík réttindi, slíkur jöfnuður næst ekki fram í gegnum sérhópa, sem hafa sterka aðstöðu á vinnumarkaði, fjarri því.

Ég gæti talið slík dæmi upp utan endi, þar sem heildarsamtökunum er beitt til samhjálpar og aukinna samfélagslegra réttinda. Og ég ítreka að ég óttast mjög að einstök vinnustöðvafélög mundu ekki hafa jafnsterk tök á þessum samhjálparatriðum í þjóðfélaginu. Ég held að það mundi ekki styrkja verkalýðshreyfinguna á Ísafirði, Sauðárkróki eða Siglufirði ef farið væri að stofna þar mörg verkalýðsfélög, enda hagar víða svo til á Íslandi að um er að ræða kannske eitt stórt frystihús eða eitt stórt fyrirtæki sem 60–80% félagsmanna verkalýðsfélaganna á viðkomandi stöðum vinna hjá. Hvað yrði um hina smærri vinnustaði í slíkum kaupstöðum og þorpum? Ég er líka ákaflega hræddur um, ef upp kæmi minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli eða beinlínis atvinnuleysi, að atvinnurekendur gætu í slíku ástandi náð sterkum tökum á slíkum vinnustaðafélögum. Það er hætt við að slík vinnustaðafélög skorti hjálpina utan frá og atvinnurekandinn fengi þar af leiðandi sterkari stöðu.

Ég hef lagt hér nokkra áherslu á stefnu sósíaldemókrata. Ég hef líka bent á að hún samræmist ansi illa skoðunum hv. þm., þar sem hann telur að hinn kaldi markaður og þeir sem sterkustu aðstöðuna hafa muni ekki leysa þessi mál. Hv. þm. hefur verið að tönnlast í sífellu á að afnema ákvæði í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sem kveða á um að aðeins eitt félag skuli starfa í hverri starfsgrein í sama sveitarfélagi, og hneykslast mjög á að ég skuli styðja þessi lög krata frá 1938. Þau séu meira að segja svo slæm að Guðmundur Í. Guðmundsson hafi samið þau á sínum tíma. (VG: Það hef ég aldrei sagt.) Ef hv. þm. hefur ekki sagt það, þá skal ég taka það aftur. Ég hef það góðan málstað hér að ég þarf ekki að fara með neitt rangt. Ég bið þá hv. þm. afsökunar á því ef svo er. En 2. gr. vinnulöggjafarinnar hljóðar svo — og hv. þm. telur sig vera vel að sér í henni og brigslar hér öðrum þm. um að þeir hafi ekki lesið hana:

„Stéttarfélög skulu opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu,-eftir nánara ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Félagssvæði má aldrei vera minna en eitt sveitarfélag.“

Það er hvergi sagt í þessu að bannað sé að hafa nema eitt stéttarfélag í starfsgrein. Sannleikurinn er sá að dómar hafa um þetta fallið. Deila, sem fræg varð á sínum tíma, átti sér stað norður á Akureyri milli tveggja verkalýðsfélaga sem störfuðu þar. Þar átti hlut að máli ágætur maður, fyrrv. forseti Ed. Alþingis, Steingrímur Aðalsteinsson. Hann fékk sig dæmdan inn í annað verkalýðsfélagið, sem kratar stjórnuðu. Ætli hann hafi ekki verið yfirlýstur andstæðingur? Félagsdómur dæmdi hann inn. (VG: Það er Hlífardeilan.) Hlífardeilan, gott og vel. Hlífardeilan kom líka fyrir Félagsdóm. Þar var um að ræða Alþfl.-menn sem var á brott vísað á sínum tíma úr því félagi. Sá dómur féll alls ekki þannig að nýtt félag mætti ekki stofna. Hv. alþm. segir: Jú. — Vill hann lesa þennan dóm? (Gripið fram í.) Ég vil benda hv. þm. á að lesa þennan dóm og sjá um hvað hann fjallar. Hann fjallar um það að verkalýðsfélög skuli vera opin í viðkomandi sveitarfélagi og að óheimilt sé að neita þeim sem vinnur í starfsgreininni, sem stéttarfélagið fjallar um, um inngöngu í félagið. Það er hvergi ákvæði um hitt. En út af fyrir sig get ég fallist á það að líklegt sé að á sínum tíma hafi þetta vakað nokkuð fyrir löggjafanum. Alþlf. var, eins og hv. þm. talaði um, búinn að glata meirihluta trausti í Alþýðusambandinu. Það var skilyrði til að fá að gegna trúnaðarstörfum í Alþýðusambandinu að vera í Alþfl. — og neyðarvörn, eins og hv. þm. sagði.

Hins vegar er ég sammála því að það eigi að vera eitt verkalýðsfélag í hverri starfsgrein í hverju sveitarfélagi. Fyrir stríð og meira að segja eftir að vinnulöggjöfin komst á voru á fjölda staða vítt og breitt um landið tvö verkalýðsfélög, þar sem meginþrótturinn fór í að berjast hvort við annað. Það fór meiri kraftur og starf í baráttu þessara félaga innbyrðis en jafnvel í að berjast gegn atvinnuleysi, réttindaleysinu og allsleysinu á sinni tíð. (Forseti: Á hv. ræðumaður langt eftir af ræðu sinni?) Ég mundi eiga eftir meira en 4 mínútur. (Forseti: Þá bið ég hann svo vel að gera hlé á ræðu sinni, því að nú verður fundi frestað til kl. 6, en þá verður fram haldið umr.) — [Fundarhlé.)