08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég tel það eðlileg viðbrögð hjá hæstv. forseta að hann vísi því til deildarinnar hvort þetta mál verði tekið á dagskrá með afbrigðum. Ég vil láta þess getið, sem er mín skoðun, að það séu hin eðlilegu viðbrögð forsetans. Ef það skiptir hv. þm. Vilmund Gylfason einhverju máli hver er mín persónuleg skoðun á þessu get ég sagt hana. Ég sé enga ástæðu til þess að bíða til morguns með 3. umr. Við 2. umr. var aðeins ein brtt. samþykkt, tvær voru felldar. Hv. þm. Vilmundur Gylfason dró allar sínar tillögur til baka til 3. umr., þannig að ég get ekki séð að hann þurfi mikinn tíma til að endursemja sínar. (VG: Ég boðaði nýjar í gærkvöld.) Já, boðaðir nýjar. Jú, ég vissi af því að þm. boðaði nýjar. Ég sé ekki hverju hafa breytt hjá honum úrslit þessa máls við 2. umr. En hann getur sjálfsagt skýrt það betur. En ætli hann geri það þá ekki við 3. umr. málsins. Þetta er sem sagt mín skoðun, ef hún skiptir hv. þm. einhverju máli. En mér sýnist að hæstv. forseti hafi brugðist eðlilega við og leitað til þd. um afgreiðslu málsins.