08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér er ekki ljóst hvort hv. 1. þm. Vestf. hefur skriðið undir borðið. Hann sést ekki úr ræðustól forseta. Það er hugsanlegt að hann hafi e. t. v. gripið til þess ráðs, sem hann ráðlagði þm. ef þeir yrðu sér til skammar, að læðast burtu án þess að nokkur tæki eftir honum. E. t. v. gæti hæstv. forseti upplýst hvort 1. þm. Vestf. hefði vikið af vaktinni, hvort hann er væntanlegur eða hvort hann hefur fengið leyfi hjá hæstv. forseta til að víkja af fundi. Ég geri hlé á ræðu minni andartak til að fá svör við þessu, ef hæstv, forseti hefur þessar upplýsingar á hreinu. (Forseti: Forseti getur upplýst að hv. 1. þm. Vestf. bað um að fá að hverfa héðan af fundi rétt fyrir kl. 7 í kvöld, en hann hefur ekki komið hingað aftur.) (Gripið fram í: Það á að biðja um einhvern flm. frv.)

Herra forseti. Mér finnst ákaflega merkilegt ef bæði flm. frv. og jafnframt talsmaður n. hverfa af fundi. Ég minnist þess, að á fundi hér í dag, þegar rætt var um þingsköp, var ekki annað að heyra en það væri nægilegt starfsþrek hjá 1. þm. Vestf. til að vera hér fram eftir kvöldi. En þetta er dálítið undarlegt ástand, og vissulega stenst það sem hæstv. forseti sagði, að hans starfsþrek er algerlega óbugað.

Ég hygg að þrátt fyrir fjarveru 1. þm. Vestf. sé eðlilegt að ég gefi mér dálítinn tíma til að víkja að ræðu hans. Það vakti ekki undrun mína þó að honum væri mikið niðri fyrir. Það vakti ekki heldur undrun mína þó að hann væri nokkuð illorður á tímabili. Og það vakti ekki heldur undrun mína þó að hann teldi sig eiga vantalað við 5. þm. Vestf. Hitt vakti aftur á móti undrun mína, að í stað þess að ræða stjórnarskrármálið vék hann að öðrum málum hér í þinginu, öðrum afgreiðslum, og kvartaði undan því að þar hefði brostið dug, m. a. bar hann það á ræðumann.

Nú er það svo, að vissulega gerist það í samsteypustjórnum að menn samþykkja ýmislegt sem þeir gera til málamiðlunar, en mundu ekki samþykkja ef þeir mættu því einir ráða. — Ég vil vekja athygli forseta á því að það vantar flm. til að sitja hér undir umr. Má það undarlegt heita ef jafnmiklir áhugamenn um stjórnarskrárbreytingu og þar er að finna hafa horfið úr þingsölum.

Ég ætla að víkja að ræðu 1. þm. Vestf. Hann bar mig þeim sökum í fyrsta lagi að hafa notað of langan ræðutíma, í annan stað að hafa ráðist að formanni flokksins og taldi jafnvel furðulegt að við skyldum vera á sama lista til alþingiskosninga. Nú er það svo, að þó kosið verði um kjördæmabreytinguna í næstu alþingiskosningum er jafnframt kosið um önnur mál. Það liggur ljóst fyrir að formaður Framsfl. og ég erum ekki sammála varðandi kjördæmabreytinguna. Hins vegar er það staðreynd, að í þjóðmálum almennt er þar ekki um mikinn skoðanamun að ræða. Ég vil gagnspyrja hv. 1. þm. Vestf., hvað valdi því að hv. varaþm. hans, sem sat

hér inní um hríð og ég veit ekki betur en sé honum sammála í þjóðmálum, skipar ekki með honum sama lista á Vestfjörðum við næstu alþingiskosningar. Getur það verið að 20 ára starfsreynsla þm. ásamt tillitsseminni, sem hann lagði svo mikla áherslu á að sýna bæri, hafi ekki dugað til að ná því máli heilu í höfn? Hvers lags vandræðaástand er þetta?

Hitt var þó öllu alvarlegra, þegar hann sneri sér að því að gefa á því skýringar hvers vegna þyrfti að fjölga þm. í Reykjavík. Jú, orðrétt sagði hv. 1. þm. Vestf.: „Það er ekki þingmannafjöldinn sem gildir, heldur hæfileikarnir.“ 20 ára starfsreynsla og forusta hv. 1. þm. Vestf. eru það mikils virði í hópi Vestfirðinga að þeir þurfa ekki nema fimm. En Reykvíkingar, hvers lags voðalegt ástand! Þar virðist skorturinn á hæfileikunum vera yfirþyrmandi hjá því liði, sem kosið hefur verið á þing, samkv. dómi hv. l. þm. Vestf. Það er alvarlegt mál. Það verður að fjölga. Hæfileikaskorturinn er svo yfirþyrmandi að það dugar ekki það sem fyrir er. Ég veit nú ekki hvort hann hefur hugleitt í orrustugleðinni hér í ræðustólnum hverja hann var að hýða með þessum orðum sínum. Ég efa stórlega að hann hafi hugleitt að með þessu móti var hann að vega að sínum flokksformanni. Það skyldi þó ekki vera að hann hafi gleymt rökréttu samhengi í þessu sambandi.

Ég spurði hv. frsm. n. nokkurra spurninga. Það kom fram í máli hans að nefndin hefði engan mann kallað á sinn fund utan hagstofustjóra. Jafnframt var á honum að skilja að hagstofustjóri hefði nánast komið á fund n. að eigin ósk, það hefði ekki verið nefndin sem hefði kallað eða óskað eftir komu hans. Nefndin leitaði ekki eftir upplýsingum um hliðstæður í stjórnarskrá annarra ríkja. Nefndin kallaði enga félagsfræðinga, stjórnmálafræðinga eða herfræðinga á sinn fund. 20 ára þingreynsla hv. 1. þm. Vestf. var látin nægja sem upplýsingagjafi í þessu máli.

Hv. 1. þm. Vestf. vék að ræðumönnum og veitti þeim nafnbætur eins og honum þótti hæfa. Hann kallaði einn t. d. póstmeistara Alþingis. Það er dálítið undarlegt ef sú venja að uppnefna aðra menn flokkast undir sanngirni — eða er hugsanlegt að það sé eitthvað annað sem liggur þar á bak við? Er hugsanlegt að rökþrota ræðumennska grípi til þess númer eitt að uppnefna aðra menn? Það skyldi þó ekki vera að hv. 1. þm. hafi ekki þegar til kom, þrátt fyrir 20 ára þingreynslu, talið sig hafa betri vopn í hendi á pólitískan andstæðing en að uppnefna hann og kalla hann póstmeistara Alþingis.

Það kom fram í máli 1. þm. Vestf. nánast með undrun, e. t. v. örlitlum hroka, hverjum hefði átt að senda þetta frv. til umsagnar. Hverjum hefði átt að senda þetta frv. til umsagnar? Er ekki hugsanlegt að þjóðin hefði viljað kynna sér þetta frv.? Er ekki hugsanlegt að hin ýmsu fjöldasamtök þessa lands hefðu viljað lesa þetta yfir og kynna sér efni þess? Hver eru rökin fyrir því að jafnveigamikið mál og þetta er sett inn í þingið á elleftu stundu, reynt að hraða því í gegnum Alþingi án þess að fjölmiðlar fjalli um það svo að nokkru nemi og að þingnefndin, sem er sérkjörin til að afgreiða það, setjist niður, spjalli saman um málið og afgreiði það svo út úr nefndinni án þess að gera neitt af því sem venjulega er gert í þessu sambandi, hvorki að kalla menn fyrir sig, senda málið til umsagnar né kynna sér hliðstæður annars staðar? Það má segja sem svo, að raunverulega hafi verið staðið að þessu á þann veg að það hafi verið ákveðið að tryggja í upphafi að engin endurskoðun á þessu frv. ætti sér stað í nefnd.

Ég neita því ekki að ég hafði dálítið gaman af 1. þm. Vestf. þegar hann fór að ræða um þm. fyrir Hvannadalshnjúk. Það glittir nefnilega stundum á gamansemi í hans málflutningi. Jú, ég hafði látið dreifa hér á borð til þm. upplýsingum um hvernig þm.-fjölda á Íslandi, ef þeir væru 60, yrði skipt á kjördæmum með því að taka þau lög, sem gilda í Danmörku, og reikna út frá þeim. Vissulega er rétt að Danir gera ráð fyrir að hver ferkm lands í ákveðnu kjördæmi hafi 20 atkv., þ. e. íbúar viðkomandi svæðis fá hlutfallslega fleiri þm. en þeir ættu að fá vegna þess að landið er tekið inn í dæmið. Út á þetta komst hv. 1. þm. Vestf. að þeirri niðurstöðu að menn gætu orðið þm. út á Hvannadalshnjúk. Það þarf vissulega nokkurn húmor til þess. Og hann bætti því við hvort ekki væri rétt að miða við strandlengjuna eða miðin. Hitt datt hv. 1. þm. Vestf. ekki í hug, að fyrst Danir teldu að það ætti að taka tillit til landsins væri hugsanlegt að sama reglan ætti einhvern rétt á sér hér uppi á Íslandi, í miklu strjálbýlla landi með allt annarri skiptingu á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Það hefði verið fróðlegt að hafa hv. 1. þm. Vestf. hér í salnum og leita eftir því, ef jöklarnir yrðu nú dregnir frá með sitt flatarmál, hvort hann væri þá hugsanlega tilbúinn að taka þessa kenningu með. Fróðlegt hefði verið að vita hvaða tala hann hefði talið að ætti að koma sem margfeldi á hvern ferkm eða hvort hann hefði yfir höfuð ekki lagt til að það yrði margfaldað með nema einum, þ. e. hver ferkm fengi sem svaraði einu atkv.

Ég hygg að hv. 1. þm. Vestf., þrátt fyrir 20 ára þingreynslu, viti sáralítið um stjórnarskrár annarra ríkja. Ég hygg að í þeirri fallegu sögu, sem hann sagði af því að þegar hann á sínum starfsferil hefði verið að berjast fyrir réttindamálum dreifbýlisins hefðu það verið þéttbýlisþm. sem hefðu staðið með honum, en dreifbýlisþm. sem hefðu staðið gegn honum, hafi hann gleymt því að hann var búinn áður að leggja til gullna reglu: Það eina sem þarf að gera var að sýna öðrum sanngirni og þá sýna þeir sanngirni á móti. Er hugsanlegt að hann hafi gleymt, herra forseti, að sýna dreifbýlisþm. sanngirni og sýnt aðeins þéttbýlisþm. sanngirni eða getur það verið að eftir 20 ára þingreynslu sé um einhvern misskilning að ræða? Ég veit að hv. 1. þm. Vestf. gefur lítið fyrir Önundarfjarðarályktunina. Hann gefur lítið fyrir Hvammstangaályktunina. Hann gefur yfir höfuð lítið fyrir allt annað en eigið álit á þessu máli. Ég tel ekki rétt að eyða lengri tíma í umfjöllun um hans málflutning.

Hv. 9. þm. Reykv. flutti ræðu áðan og byrjaði á því að geta þess að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins væri til umr. Hann fór þó fljótlega út fyrir textann og ræddi fyrst og fremst um að félagsleg aðstaða fólks færi ekki aðeins eftir búsetu. Þetta veit hver einasti Íslendingur og engin þörf á því hjá hv. 9. þm. Reykv. að eyða löngu máli í þetta. Þetta mál er yfir höfuð ekki heldur á dagskrá. Hann forðaðist aftur á móti eins og heitan eldinn að svara þremur spurningum sem ég lagði fyrir hann. Hverjar voru þessar þrjár spurningar? Ég spurði: Hvað með lýðræðið hjá Dönum? Fær það staðist að Danir séu lýðræðisþjóð ef það má ekki taka neitt tillit til landsins? Ég spurði: Hvað með mannréttindi hjá Dönum? Ekkert svar frá 9. þm. Reykv. Ég spurði: Hvað með stefnu jafnaðarmanna, fyrst þeir hafa liðið þessa stjórnarskrá og starfað eftir henni? Ekkert svar frá 9. þm. Reykv. Niðurstaðan varð sú, að Alþfl. íslenski, sem hefur verið til háðungar meðal jafnaðarmannaflokka Norðurlanda, væri með stefnuskrá sem væri fullkomin í þessum efnum. Um hitt var þagað.

Það er hægt að flytja hér langar ræður fram og til baka ef menn koma ekki nálægt því efni sem er til umr., eins og hv. 9. þm. Reykv. gerði. Hann talaði rósamál. Það voru þrjú orð sem hann notaði um vef sem ég hefði verið að spinna hér í ræðustól. Hann sagði að uppistaðan í vefnum hefði verið fordómar, málflutningurinn hefði verið rökleysa og niðurstaðan fjarstæða. En hann kom með eina speki undir lokin: Að læknisráðið sem boðið væri upp á væri verra en sjúkdómurinn sem á að lækna. Ég held að þetta sé atriði sem vissulega megi nota um þetta frv. Læknisráðið sem boðið er upp á er verra en sjúkdómurinn sem ætlunin er að lækna.

Ég ætla að eyða hér örlitlum tíma í það að víkja að frændum okkar Dönum. Að vísu kom fram hjá 9. þm. Reykv. að hann teldi alveg fráleitt að fara að vitna í Dani í þessu sambandi. Þessi þjóð drottnaði nú ansi lengi yfir Íslendingum og vissulega verður það ekki af Dönum skafið að þeir eru dugleg þjóð.

Ég ætla að eyða örfáum orðum í að rifja upp hvers vegna þeir töldu rétt að taka tillit til fleiri atriða en kjósendafjöldans. Það hefur komið fram áður að þeir taka tillit til íbúafjöldans, þeir taka tillit til kjósenda fjöldans og þeir taka tillit til stærðar kjördæmanna. Ástæðan fyrir því að þeir ákveða að taka tillit til landsins er sú, að í byrjun þessarar aldar óttuðust þeir að um byggðaröskun yrði að ræða vegna samþjöppunar valds í Kaupmannahöfn. Og til að styrkja stöðu Jótlands og eyjanna ákváðu þeir að standa svona að þessu. Með þessari viðspyrnu hafa Danir varið sínar byggðir og byggt landið allt. Við höfum aftur á móti í þessu landi lagt í eyði heila hreppa á nokkrum stöðum. Sumir þessara hreppa voru einu sinni taldir með byggilegri svæðum viðkomandi sýslufélags. Ég hygg að þegar við hugleiðum það t. d. í því kjördæmi sem ég er þm. fyrir að eyðibyggðirnar sækja á og heilar sveitir hafa farið í eyði geti enginn maður með eðlilega sjálfsgagnrýni eftir langa þingsetu horft með ánægju á þá þróun sem þar hefur orðið. Og ég hygg að hver einasti maður hljóti að spyrja sig ýmissa spurninga, m. a. þeirrar: Hvað hafa önnur ríki gert til þess að skapa jafnvægi hjá sér?

Því miður hefur hér á landi gleymst að hugsa um þetta á þann veg að það nægði til framkvæmda og um raunhæfar aðgerðir yrði að ræða. Við virðumst vera búnir að gleyma því að við töpuðum einu sinni frelsinu vegna þess að við gættum ekki landsins. Í dag þykir það nánast háðung hér í sölum þingsins að menn skuli voga sér að halda því fram að danska stjórnarskráin, sem tekur tillit til landsins, sé betri en það plagg sem hér hefur verið lagt fram.

Það skal aftur á móti tekið skýrt fram, að ef ég hefði litið svo á að við ættum að taka þessi atriði dönsku stjórnarskrárinnar upp nákvæmlega eins og þau eru í Danmörku hefði ég flutt um þetta till. Það gerði ég ekki vegna þess að mér er ljóst að við getum aldrei fært lög á milli landa algerlega með því móti. Auðvitað hefði orðið að taka tillit til margs. Auðvitað hefði verið eðlilegt að jöklar yrðu ekki hafðir með. Það þarf ekki að ræða það. En ég flutti heldur enga till. um þetta. Ég lagði þetta aðeins fram til kynningar.

Ég vil aftur á móti taka það fram, að það líður varla sú vika að manni berist ekki í pósti ýmsar upplýsingar um það félagslega misrétti sem er í þessu landi. 7. mars 1983 er dagsett bréf frá Félagsstofnun stúdenta til alþm. Þar kemur í ljós að í Háskóla Íslands eru um 4 þús. stúdentar og í framhaldsskólunum í Reykjavík, þ. e. í Kennaraháskólanum, Tækniskólanum, Sjómannaskólanum og öðrum framhaldsskólum, eru um 3900 nemendur, samtals 7900. Hvað haldið þið að stór hluti af þessum nemendum sé utan af landi? Það eru ekki nema á milli 1200–1800 sem eru utan af landi. — Hv. 7. þm. Reykv. gengur nú vonandi ekki í svefni. En ég var að geta um bréf frá Félagsstofnun stúdenta og upplýsingarnar eru frá þeim um þetta mál. — Það liggur alveg ljóst fyrir hvað er að gerast í menntakerfinu. Fleiri og fleiri af þéttbýlissvæðinu fara í framhaldsskóla samanborið við dreifbýlið. (GJG: Það virðist vera stéttskipt, ekki landfræðilega.) Hv. 7. þm. Reykv. hefur á þessu skýringar á takteinum. Þetta er einfaldlega ekki rétt, því miður. Og ég vænti að það muni einhvern tíma gerast að félagsfræðingar og þjóðfélagsfræðingar fari yfir ræður manna hér á Alþingi, þær sem fluttar hafa verið um stjórnskipun Íslands, kynni sér eftir fræðilegum leiðum hvað það var sem tekist var á um og sagan muni dæma það rétt þó að fjölmiðlar á Íslandi telji það ekki þess virði í dag.