09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl., hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar, varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson skilum sérnefndaráliti og erum andvígir þessu máli, þar sem við teljum það óaðskiljanlegan hluta af skattastefnu núv. hæstv. ríkisstj.

Þó gert sé ráð fyrir að sá skattur á bifreiðaeigendur, sem frv. felur í sér, eigi að renna til vegamála er svo ekki í raun þar sem framlög ríkissjóðs til vegamála hafa verið skorin niður a.m.k. um svipaða fjárhæð frá yfirstandandi ári. Þetta sést einnig á því að samkv. vegáætlun er framlag ríkissjóðs í ár aðeins 20 millj. kr., en á næsta ári 140 millj: Það á því að sjöfalda framlag ríkissjóðs á næsta ári til vegamála. Sést á þessu hvað í raun er hér verið að gera.

Sá skattur, sem hér um ræðir, felur í sér 109 millj. kr. álögur og má því segja að hann komi í stað niðurskurðar á beinum framlögum ríkisins í ár.

Í grg. þessa frv. er látið í veðri vaka að þessi skattur eigi að koma í stað lækkunar á aðflutningsgjöldum undanfarið á bifreiðar. Aðflutningsgjöld hafa að vísu lækkað á hverja bifreið, en heildartekjur ríkissjóðs af þeim hafa lækkað mun minna vegna aukins innflutnings. Þessi skattheimta hefur verið sem ég skal nú greina síðan 1978, miðað við ríkisreikning og fjárlög:

Árið 1978 voru innflutningsgjöld 39.4 millj., 1979 49.2, þá voru fluttir inn 7500 bílar, 1980 71.2, þá voru fluttir inn 8900 bílar, 1981 var þessi skattheimta komin í 132,8 millj., þá voru fluttir inn 10400 bílar, og í fyrra nam skattheimtan 106 millj. kr., en þá voru fluttir inn 11 800 bílar. Í ár er gert ráð fyrir í fjárlögum að innflutningsgjöld af bifreiðum verði 110 millj. kr. og að 8000 bifreiðar verði fluttar inn.

Á hinn bóginn hafa skattar á bensín hækkað gífurlega á þessu tímabili. Þeir hafa hækkað milli ára 1978 og 1983, ársins í ár, um hvorki meira né minna en 438 millj. kr. á föstu verðlagi ársins í ár eða því verðlagi sem vegáætlun er miðuð við. Þessi skattahækkun hefur nánast einvörðungu farið í ríkissjóð og sáralítið í vegi.

Það má kannske geta þess, til að sýna hversu gífurleg hækkun hefur þarna orðið á sköttum á rekstur bifreiða, að ef við hefðum þetta fé til ráðstöfunar til vegagerðar í ár hefðum við tvöfalt hærri upphæð til að fjármagna nýframkvæmdir vega og brúa í landinu, miðað við það sem gert er ráð fyrir í vegáætlun sem nú liggur frammi eins og menn vita. Ef þessir fjármunir hefðu allir gengið til vegamála, raungildishækkun skatta á bensín, væri tvöföld upphæð til ráðstöfunar í nýja vegi og brýr á landinu, hvorki meira né minna.

Þungaskattur samkv. mæli hefur auk þessa hækkað svo mjög að hann er nú 2,97 kr. á km, en var í des. 1978 15,60 kr. gamlar. Hækkunin nemur því 1804%, ef hægt er að tala um það, en vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað á sama tíma um 518%. Þessi skattur hefur því þrefaldast að raungildi á þessum tíma. Það er því meira en lítil blekking þegar látið er í veðri vaka að þessi nýi skattur, sem miðast við þunga allra bifreiða í landinu, komi í stað einhverra skattalækkana á bifreiðaeigendur undanfarin ár.

Í fjh.- og viðskn. komu fram ýmsir agnúar á þessum skatti og mun bréf frá atvinnubílstjórum fylgja nál. minni hl., þegar það verður prentað. Sést þar hvaða sjónarmið þeir aðilar hafa.

Það var nokkuð rætt í n., hvort ekki væri ástæða til að undanþiggja öryrkjabifreiðir slíkri skattlagningu, en niðurstaðan varð sú, að ekki voru fluttar um það brtt.

Undanfarin ár hefur skattheimta í heild aukist mjög hröðum skrefum, eins og kunnugt er, ýmist vegna álagningar nýrra skatta, eins og þetta frv. hefur í för með sér, eða hækkunar á söluskatti, vörugjaldi, tekju- og eignarskatti o.s.frv. Alþb., Framsfl. og Alþfl. bera ábyrgð á þessari skattahækkunarstefnu, sem verið hefur síðan 1978. Vinstri stjórnin hóf feril sinn með því að leggja á afturvirka skatta og eignarskatta haustið 1978. Þessar hækkanir hafa haldist síðan og aukist. Vinstri stjórnin lagði á fjölda nýrra skatta: gjald á ferðalög til útlanda, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, aðlögunargjald, auk þess sem hún hækkaði söluskattinn um 2%, úr 20% í 22%, haustið 1979 og vörugjaldið um 6% á sama tíma. Þá hófst sú skattahækkun á bensín umfram verðlagshækkanir sem haldist hefur og aukist síðan, án þess að nokkuð sem nemi af þeirri skattahækkun hafi gengið til vegamála. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur viðhaldíð öllum vínsútistjórnarsköttunum nema nýbyggingagjaldi, sem var hverfandi lítið, auk þess sem aðlögunargjald er ekki innheimt lengur, en það var fyrst og fremst markaður tekjustofn til iðnþróunar. Hún lagði á orkujöfnunargjald, sem er í raun 1.5% söluskattur. Þá hefur hún lagt á tollafgreiðslugjald og skatt á innlánsstofnanir, svo að nokkuð sé nefnt.

Ef dreginn er saman skattahækkunarreikningur þessara tveggja hæstv. ríkisstjórna, sem er á ábyrgð flokkanna sem ég nefndi áðan, Alþb., Framsfl. og Alþfl. í vinstri stjórninni... (Gripið fram í.) Þeir hæstv. ráðh. sem sitja í núv. ríkisstj. eru ekki þar sem fulltrúar Sjálfstfl., hæstv. ráðh., eins og hæstv. ráðh. veit. Þessi skattreikningur er upp á 2 milljarða 245 millj. kr. á verðlagi f]árlaga í ár. Þessi reikningur er alveg réttur, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. (Gripið fram í.) Það er þegar innifalið í þessu. (Gripið fram í: Nei.) Jú, jú. Hv. þm. þarf að lesa þetta betur.

Ef athugað er hve þessar skattahækkanir eru miklar á hverja fimm manna fjölskyldu jafngilda þær því að hver fimm manna fjölskylda þurfi að greiða í ár rúmar 50 þús. kr. í skattahækkanir af þessum sökum. Um þetta eru birtir útreikningar í nál. okkar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar.

Það er athyglisvert, af því að við erum að tala hér um vegamál, að á þessum tíma hafa bein framlög úr ríkissjóði verið stórlega lækkuð til vegamála. Ef reiknað er með sama verðlagi og í ár voru framlög úr ríkissjóði 1978 118.5 millj. kr., en í ár eru þau aðeins 20 millj.

Ég held að það þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það er augljóst mál að þessi nýi skattur, sem hér er á lagður og sagður renna til vegamála, er fyrst og fremst lagður á til að brúa það bil sem er í vegáætlun vegna niðurskurðar á framlögum ríkisins. Þessi skattur er því aðeins einn hluti af þeim hækkuðu sköttum til eyðslu ríkissjóðs sem gengið hafa yfir að undanförnu. Við erum andvígir þessari stefnu og leggjum til að þetta frv. verði fellt.