09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. sagði orðrétt áðan, að Alþingi setti ekki lög um það sem ætti að semja um, það sem væri samningur. (GHelg: Ég sagði það ekki, herra þm., ekki orðrétt.) Ég heyrði ekki betur en hv. 8. þm. Reykv. segði áðan að Alþingi setti ekki lög um það sem ætti að semja um og væri í samningum. Þess vegna finnst mér skrýtið ef það skal binda í lögum að læknar eigi að taka laun með tvennu móti. Af hverju er þetta ekki haft sem heimildarákvæði? Af hverju er ekki sett hér inn: Heimilt er að greiða læknum laun með tvennu móti? Er nokkuð sem mælir gegn því, þannig að hægt sé að taka málið upp í samningum? Hvers vegna er verið að loka fyrir að hægt sé að taka málið upp í samningum með því að standa svona að þessu?

Ég vildi gjarnan fá það upplýst hjá hæstv. heilbrrh., af því að það er og verður mjög vafasamt mál að þeir skuli taka laun með tvennu móti, hvaða hlutfall er í þessu sambandi. Eru föstu launin hærri en hinar launagreiðslurnar eða öfugt? Hvaða hlutföll er þarna um að ræða? Og þó að ég telji að undir mörgum kringumstæðum sé eðlilegt að viðhafa ákvæðisvinnu og bónus hlýtur það að vera spurning í hverju tilfelli, hvar þetta á við, hvar þetta er eðlilegt.

Í umr. um þessi lög hefur komið fram að formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur lagst gegn ákveðnum lið í 8. gr. Það hlýtur að vakna sú spurning, hvort ekki væri skynsamlegt að gefa sér ögn betri tíma til að skoða þessi lög þannig að menn væru ekki að eyða miklum tíma í deildinni til að deila um þetta. Ég óska eindregið eftir að heilbrrh. geri grein fyrir því, hvers vegna það er bundið á þann hátt í lögum að ekki er hægt að semja um þetta. Hvers vegna stendur hér: Þeir skulu taka laun með tvennu móti? Af hverju er þetta ekki haft sem heimildarákvæði? Og einnig: Hvert er hlutfallið á milli föstu launanna og þeirra launa sem þeir fá með reikningum til sjúkrasamlaganna?