09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

17. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég fagna því að þessu máli er hér hreyft með flutningi þessarar till. Ég er sammála því að úttekt á verktakastarfsemi á Keflavíkurvelli fari fram, og þó fyrr hefði verið. Hins vegar hef ég nokkuð við orðalag till. að athuga. Sumt af því hefur síðasti ræðumaður gert athugasemd við. Ég þarf því ekki að endurtaka það hér. Ég tel að það sé óljóst að tala um dótturfyrirtæki í þessu sambandi því að Aðalverktakar eru afkvæmi tveggja annarra fyrirtækja, Sameinaðra verktaka og Regins hf., og ríkisins. Þetta getur því verið villandi á margan hátt. Sömuleiðis ætti till. samkv. heiti sínu að ná til úttektar á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll. Hins vegar er ýmislegt annað í þessu máli og í máli síðasta ræðumanns sem ég er ekki sammála.

Ég tel að verktakastarfsemi eigi að vera frjáls, en ekki bundin við einhverja ákveðna verktaka, sem voru góðir verktakar fyrir mörgum áratugum, og þess vegna eigi að meina öllum öðrum að komast að. Ég er ekki heldur á því að arður af slíkri verktakastarfsemi sé bundinn við annaðhvort einhverjar ákveðnar framkvæmdir hér uppi á Ártúnshöfðanum eða að hann sé notaður til þess að gleypa einkaframtakið viða úti um land eins og annar máttarstólpi Aðalverktaka er víða sakaður um.

Það er full ástæða til að þessi úttekt fari fram og því er ég í meginatriðum fylgjandi þessu máli. Hitt er svo annað mál að orðalagi till. má breyta í þeirri nefnd sem fær hana til athugunar og atkvgr. Ég sé enga ástæðu til þess að þetta sé lokað með þessum hætti, sem og önnur viðskipti á Keflavíkurvelli, þetta má gjarnan koma í Ijós. Við lifum í þjóðfélagi sem er opið þjóðfélag, þar sem upplýsingar eiga að liggja fyrir. Við búum í þingræðislandi, þar sem þingmönnum er leyft að spyrjast fyrir um hin ólíklegustu mál, sum æði viðkvæm. Maður rekur sig oft á mikla viðkvæmni manna þegar spurt er um hluti, ef þeir tel ja að þeir verði þá eitthvað í sviðsljósinu á eftir, jafnvel með þeim hætti sem þeir telja sér ekki til framdráttar. En því má ekki spyrja um þessa hluti alla? Því eiga ekki að birtast svör við því? Ég ætla ekki að vera lokaður inni í því að aldrei megi hreyfa neinu sem snertir Keflavíkurvöll eða starfsemina þar. Ég tel því fyllilega ástæðu til að fylgja þessu máli skörulega eftir.

Ég er ekkert að segja að það sé endilega sú eina rétta leið að skipa einhverja rannsóknarnefnd af hálfu Alþingis. Það getur verið með öðrum hætti. Aðalatriði málsins er það að fram fari hlutlaus og réttlát athugun á því sem þarna hefur verið gert á undanförnum árum, og er verið að gera. Það sem þeir aðilar hafa verið að gera sem þarna hafa verið með starfrækslu, hvort sem það hefur verið verktakastarfsemi eða önnur viðskipti, á að koma í ljós.

Ég segi fyrir mitt leyti, þó að ég sé ekki sósíalisti heldur einstaklingshyggjumaður, að ég vil miklu heldur að samfélagið sjálft hafi þann hagnað, þar sem um hagnað er að ræða, en að einhverjir fáir útvaldir eigi að hafa þetta áratugum saman. Og þá er ég ekki heldur að tala um hvaða flokki menn tilheyra. Það verður að ná til allra. Jafnvel þó að finnist einhverjir kommar, sem hafa haft hagnað af starfseminni á Keflavíkurvelli, þá á heldur ekkert að liggja á því. Þá á það líka að koma í ljós. Nú skulum við ekkert fullyrða í þeim efnum fyrr en úttektin liggur fyrir.

Næsta skrefið er að athuga orðalag till. í þeirri nefnd sem fær hana til umræðu og afgreiðslu, og reyna að ná samkomulagi um það, því að ég vil umfram allt koma á samvinnu í þeim efnum; að opna þá starfsemi sem þarna hefur átt sér stað og vita í hvaða tilgangi menn hafa verið að þéna og hafa grætt, og hvert þeir peningar hafa runnið og með hvaða hætti, og hvað er á bak við það sem þar er að gerast. Það þarf að leiða í ljós hvort sögusagnir um þetta, sem maður hefur verið að heyra á undarförnum árum, eru réttar eða rangar. Umfram allt er það mikils virði að sannleikurinn komi í ljós.