09.03.1983
Neðri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég er ósammála hæstv. fjmrh. um að ekki sé ástæða til að fjölyrða um þetta frv., en mér er alveg ljóst að til þess er enginn tími. Það er verið að þrýsta þessu hér í gegn á allra síðustu dögum, og óljóst er hvers vegna var ekki hægt að vinna í þessu máli, en nokkur tími er liðinn síðan það var lagt fram þar sem þetta er 198. mál þingsins.

Ég vakti á því athygli í mínum þingflokki að það væri hálfhráslagalegt að það fólk sem vegna heilsubilunar verður að hafa bifreið og fær til þess nokkurn styrk, ýmist frá Tryggingastofnun eða í formi niðurfellingar á aðflutningsgjöldum. skuli nú þurfa að fara að taka þátt í að fjármagna vegi landsins.

Í nál. segir hér, með leyfi forseta:

„Samkv. upplýsingum frá fjmrn. og tollstjóraembættinu er talið að flókið yrði að framkvæma slíka eftirgjöf.“

Þetta er hreinasta bull, einfaldlega vegna þess að hvorki fjmrn. né tollstjóraembættið eru í nokkru standi til að gefa upplýsingar um þetta. Það er ein stofnun sem getur gert þetta og á áreiðanlega listann tilbúinn og það er Öryrkjabandalag Íslands, þar sem fólk sækir um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum á bifreiðum.

Þetta er einn leiður kvilli við afgreiðstu mála hér, að til eru kallaðir á nefndarfundi misjafnlega áhugasamir embættismenn og fylla þm. af því að þetta sé svo óskaplega erfitt í framkvæmd svo að þm. gefast bara upp að láta þessa menn vinna. Þeir hafa hins vegar ekkert annað að gera. Í þessu tilfelli vita fulltrúar fjmrn. og tollstjóraembættis ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað þeir eru að tala. T.d. getur Tryggingastofnun ríkisins auðveldlega gefið upplýsingar um hverjir njóta örorkustyrks vegna rekstrar bifreiða og Öryrkjabandalag Íslands veit upp á hár hverjir hafa fengið niðurfellingu. Ég vil þess vegna skora á hv. fjh.og viðskn. Nd. að huga ofurlítið betur að þessu máli og vita hvort þetta er svo óleysanlegt vandamál að ekki megi hlífa þessu fólki við að borga þennan toll, sem mér sýnist geta orðið 1000 kr. á meðalbifreið. Einmitt þetta fólk á gjarnan nokkuð góðar bifreiðar af augljósum ástæðum.

Ég sætti mig ekki við að þessu sé sleppt héðan vegna upplýsinga frá embættum sem kemur þetta mál ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég vil beina því til hv. formanns fjh.- og viðskn. að spyrja nú rétta aðila um þetta mál og kanna hvort þetta er eins óleysanlegt og þeir herrar hjá tollstjóra og fjmrn. hafa haldið fram.