10.03.1983
Neðri deild: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2888 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur haft þetta frv. til meðferðar og hafa nefndir beggja þd. starfað saman til þess að hægt væri að koma málinu fram fyrir þinglok. Það er nú svo með þetta mál, að það er nokkuð mörgum mánuðum of seint á ferðinni samkv. þeim lagafyrirmælum sem um það gilda auk þess sem þetta frv. á í raun og veru að leggja fram með fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, þar sem gerð er grein fyrir stefnu ríkisstj. í fjárfestingarmálum og í lánamálum. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir skal leggja fyrir Alþingi fyrir eitt ár í senn og skulu þær fylgja fjárlagafrv., eins og segir með leyfi forseta í 14. gr. laga nr. 13 10. apríl 1979. Það eru lög um efnahagsmál o.fl. sem hv. þm. kannast við. Í upphafi 16. gr. sömu laga segir, með leyfi forseta:

„Með skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir skal lagt fram frv. um heimildir til lántöku innanlands og utan, ábyrgðarheimildir og aðrar nauðsynlegar fjáröflunarráðstafanir vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða að því marki sem slík ákvæði eru ekki í frv. til fjárlaga. Lántökuheimildir eða ábyrgðarheimildir, sem veittar eru vegna opinberra framkvæmda eða fjárfestingarlánasjóða í lánsfjárlögum þessum, skulu skoðast sem hámarksákvæði á því fjárlagaári, sem þær eiga við.“

Frv. til lánsfjárlaga er því fylgifiskur fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar og ætlað að afla ríkisstj. heimildar til innlendrar lántöku, til erlendrar lántöku, afla ríkisstj. heimildar til þess að fjárfestingarlánasjóðir geti fengið fjármagn til þess að sinna starfsemi sinni og annað sambærilegt því. Þetta frv. er að sjálfsögðu ætlað sem fylgifiskur lánsfjáráætlunar og þá um leið að fyrir liggi hver sé stefna ríkisstj. í fjárfestingar- og lánamálum, en þegar komið er fram í marsmánuð á þessu ári fyrirfinnst ekki ennþá stefna ríkisstj. í fjárfestingarmálum, það fyrirfinnst ekki heldur ennþá stefna ríkisstj. í lánamálum og út af fyrir sig kemur þetta ekki okkur stjórnarandstæðingum á óvart.

Af því sem hér hefur verið bent á, þ.e. með því að vísa til laga um efnahagsmál frá því 1979, má glögglega sjá hvers konar vinnubrögð eru viðhöfð af núv. hæstv. ríkisstj. þegar enn hefur ekki verið lögð fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og við erum að ræða frv. til lánsfjárlaga. Hér er um algert einsdæmi að ræða. Að vísu voru þm. ýmsu vanir af hæstv. ríkisstj. í þessum efnum og þótti það sýnu merkilegra þegar ýmsir af ráðh. ríkisstj. og ýmsir úr stjórnarliðinu gagnrýndu það mjög á sínum tíma, þegar fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrst var lögð fram eins og lög gera nú ráð fyrir, að ekki tókst að leggja hana fram fyrr en við afgreiðslu fjárlaga, en það tókst þó að leggja fram lánsfjárlög og fá þau samþykkt áður en fjárlög voru samþykkt.

Ýmsar afsakanir hafa verið fram bornar af hæstv. ráðherrum og ríkisstj. í þessum efnum. Fyrst voru það stjórnarskipti seint á ári að sagt var. Síðan urðu aftur stjórnarskipti þannig að alltaf var einhver afsökun fyrir töfunum, en nú þegja menn þunnu hljóði einfaldlega vegna þess að þeir finna ekki stefnuna, þeir hafa ekki stefnuna og þar af leiðandi útilokað fyrir þá að kynna hana Alþingi og þjóðinni. Ég vék að þessu við 1. umr. og sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um það. En ég benti í þeirri umr. á nokkur atriði varðandi þetta frv. sem ég taldi ekki vera á rökum reist, illa unnin og beinlínis sett fram á fölskum forsendum.

Ég vakti annars vegar athygli þar á því, að það væri um að ræða ofmetna innlenda fjáröflun og þar væri um að ræða vanmat á þeim erlendu lántökum sem ákvarðanir ríkisstj. og heimildir gerðu kröfu til. Og ég vék að því þar, að það væri sennilega mismunur upp á 1 milljarð í sambandi við lánsfjárlögin annars vegar og áætlun á innlendu fjármagnsöfluninni og hins vegar vanáætlun á erlendri fjáröflun ef standa ætti við heimildir ríkisstj. og þeir sem þær höfðu fengið ættu að standa við þá samninga sem þeir höfðu gert.

Á fundi nefndarinnar komu fulltrúar þeirra stofnana annars vegar sem hafa fjallað um lánsfjáráætlanir svo og fulltrúar þeirra stofnana sem hagsmuna hafa að gæta, þ.e. eiga að fá fjármögnun samkv. lánsfjárlögum. Ég verð að segja það eins og er að það sem kom fram í minni ræðu var allt saman varlega áætlað, þegar þessir aðilar höfðu látið í ljós skoðanir sínar og lagt fram þau gögn sem þeir höfðu með höndum og veittu nm. upplýsingar annars vegar um áætlanir í sambandi við fjáröflun og hins vegar heimildir sem búið var að veita og samninga sem gerðir höfðu verið byggðir á heimildum ríkisstj.

Fulltrúar Seðlabankans, fulltrúar Þjóðhagsstofnunar, fulltrúar Byggingarsjóðs ríkisins og fulltrúar Fiskveiðasjóðs komu allir til funda og gerðu grein fyrir því sem þeir voru spurðir um og lögðu n. til ýmis gögn til úrvinnslu. Sumt af þessum gögnum, sumt af þessum greinargerðum hefur formaður n., hv. 3. þm. Austurl. birt í nál. minni hl., en þar sem meiri hl. skilar nú skriflegu nál. munu þær greinargerðir, þær áætlanir, birtast sem fskj. með nál. meiri hl. — allar þær sem komu til nefndarinnar.

Það þurfti ekki að taka af neinn vafa, því það var tekinn af allur vafi í þeim efnum þegar að greinargerðir voru lagðar fram af hálfu Seðlabankans, um að innlend fjáröflun samkv. frv. er ofáætluð og má þar vera um að ræða um 300–400 millj. kr. þetta var hvort tveggja byggt á reynslu ársins 1982, en það kemur fram í skýrslu fjmrh. hver staðan er í sambandi við sölu á spariskírteinum. Reynslan frá árinu 1982 varðandi verðbréfakaup af hálfu lífeyrissjóða sýnir líka að þessar tölur, sem hér eru, standast ekki. Það var rétt til getið í ræðu minni hér við 1. umr. að fjáröflun frá lífeyrissjóðunum er áætluð hærra hlutfall af ráðstöfunarfé þeirra í ár en í fyrra vitandi þó að það hefur ekki tekist að ná frá lífeyrissjóðunum því fjármagni sem lánsfjáráætlun ársins 1982 gerði ráð fyrir.

Það kom skýrt fram hjá fulltrúum Seðlabankans að áætlanir um erlendar lántökur vegna atvinnulífsins eru ekki of lágar um 100 millj. og ekki um 200, heldur eru þær of lágar sem nemur hvorki meira né minna en 600 millj. kr., eins og kemur fram í grg. Seðlabankans og birtist með nál. meiri hl. sem fskj. Hér er um að ræða skipakaup, hér er um að ræða innlenda skipasmíði og hér er um að ræða endurbætur hjá innlendum skipasmíðastöðvum. Mér er ekki ljóst hvaða tilgangi það þjónar að koma fram með frv. til l. um heimild á erlendum lántökum, þegar ríkisstj. er áður búin að gefa heimildir og/eða standa fyrir því að samningar hafa verið gerðir sem kalla á um 1200 millj. kr. í erlendum lántökum, og leggja til tæpar 600 millj. kr.

Hæstv. fjmrh. sagði að það þyrfti að skera niður og menn yrðu að gæta sín í erlendum lántökum. Hann virðist hafá uppgötvað þetta núna í ár. Það er búið að vera að benda honum á þetta undanfarin þrjú ár. Það er vissulega rétt að við erum komnir á mjög háskalegt stig þegar helmingur af þjóðarframleiðslunni er orðinn í erlendum lánum og þegar greiðslubyrði erlendra lána er orðin meiri en fjórðungur af þjóðartekjunum. Það verður að fara langt aftur til þess að finna samanburð. Þetta er með þeim hætti að það eru ekki nema eitt eða tvö ár sem hægt er að bera sig saman við, og eru þó hlutfallstölur á þeim tíma hagstæðari en ársins 1983. En að skera niður lántökur vegna heimilda sem búið er að veita — mér er ekki ljóst hvern árangur það ber í baráttunni við erlendar lántökur. Númer eitt verður að breyta ákvarðanatökunni. En það liggur ljóst fyrir að ríkisstj. verður að standa við það sem hún hefur þegar sagt og lántökur í þessum efnum verða því óumflýjanlegar hvort sem hæstv. fjmrh. líkar það betur eða verr.

Miðað við frv. kalla ákvarðanatökur ríkisstj. á 600 millj. kr. meiri lántökur vegna atvinnufyrirtækja en lánsfjárlögin gera ráð fyrir. Þetta kom skýrt fram í grg. Seðlabankans og birtist á því fskj. sem kemur með nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Erlendar lántökur eru áætlaðar 3 milljarðar 388 millj. kr. Sömu dagana er verið að upplýsa okkur þm. um að erlendar lántökur á s.l. ári voru 3500 millj. kr. og við erum upplýstir um að afborganir af lánum ársins 1983 verði 2300 millj. kr. Það má öllum vera ljóst að hér er um að ræða óraunhæfar tölur, óraunhæfar hugmyndir manna sem nú gera sér grein fyrir að þeir eru komnir á ystu nöf í sambandi við erlendar lántökur. Það liggur auðvitað ljóst fyrir hvers vegna hlutirnir eru settir svona fram. Það þarf enginn neitt að spá í það. Það eru hreinar línur. Það er verið að ganga til kosninga og menn hafa vissa tilhneigingu til að mála myndina örlítið ljósari en hún er í raun.

Þegar forsendur þessa frv. eru skoðaðar kemur í ljós að þær eru byggðar á sömu forsendum og fjárlögin.

Reiknitala fjárl., eins og hæstv. fjmrh. hefur orðað þetta, s.l. þrjú ár, eftir að þeir gáfust upp við að gera sér grein fyrir því hver yrði þróun verðlags og kaupgjalds í landinu, var áættuð 42% á milli áranna 1981 og 1982. Það þýðir hins vegar 30–32% verðbólgu frá upphafi árs til loka. Við erum nú komin aðeins fram á þriðja mánuð þessa árs og þá er staðreyndin sú, að verði ekkert að gert verður verðbólgan frá upphafi árs til loka ekki undir 70–80%. Ég ímynda mér að ég sé með varlegar áætlanir nú í þeim efnum eins og áður. Það er því ljóst mál að allar þessar tölur, sem hér er verið að setja fram, eru jafnóraunhæfar og tölurnar í fjárl. fyrir árið 1983. Þetta sýnir líka nákvæmlega hvernig er útkoma ársins 1982, þar sem reiknitalan var 30% á milli ára. Verðbólgan frá upphafi árs reyndist þó örlítið lægri en gert er ráð fyrir núna á þessu ári. En í staðinn fyrir að erlendar lántökur voru áætlaðar 2 milljarðar 255 millj. urðu þær 3500 millj. kr. og eru orðnar í lok ársins 1982 19 milljarðar og 600 millj. kr. Allt hjal hæstv. fjmrh. um niðurskurð á erlendum lántökum er því blekkingar og ekkert nema blekkingar einar til þess, eins og ég sagði áðan, að mála myndina örlítið ljósari.

Þess var óskað að Þjóðhagsstofnun gerði nefndunum grein fyrir breyttri þjóðhagsspá fyrir árið 1983, en forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar treysti sér ekki til þess að gera það, enda þótt tveir mánuðir væru liðnir af árinu og þó nokkuð miklar breytingar hefðu átt sér stað í þróun mála innanlands í sambandi við aflabrögð. Það hefði ekki verið úr vegi að Alþingi hefði fengið vitneskju um þessi mál, þær breytingar sem orðið hefðu frá því í lok s.l. árs, þegar Þjóðhagsstofnun gerði fjvn. grein fyrir sambærilegum málum við afgreiðslu fjárlaga. en þetta var ekki hægt að fá.

Hvernig er svo staðan hjá fjárfestingarlánasjóðunum? Hvaða skoðanir höfðu fulltrúar Fiskveiðasjóðs? Hvaða skoðanir höfðu fulltrúar Húsnæðisstofnunar ríkisins fyrir hönd Byggingarsjóðs? Skoðanir þessara manna voru mjög ljósar. Þeir töldu fjármögnun til þeirra framkvæmda, til þeirra lána sem Byggingarsjóður á að annast, til þeirra lána sem Fiskveiðasjóður á að annast, með öllu óraunhæfa og þörfina miklu meiri en hér er gert ráð fyrir. Fulltrúar Framkvæmdasjóðs gerðu grein fyrir sínum sjónarmiðum. Þeir gerðu grein fyrir því að fjármögnun eins og frv. gerir ráð fyrir vegna Framkvæmdasjóðs gæti ekki staðist.

Allt er þetta með þeim hætti að það stendur ekki steinn yfir steini af því sem skrifað hefur verið eða prentað á þskj. miðað við það sem þeir segja sem gerst þekkja og eiga að fara með þessi mál til afgreiðslu, til úrvinnslu á yfirstandandi ári. Það var þess vegna sem meiri hl. fjh.- og viðskn. féllst á till. formanns nefndarinnar, að litið væri á afgreiðslu þessa frv. sem bráðabirgðaafgreiðslu vegna þess sem áður hafði verið samþykkt í fjárl. Dæminu er gersamlega snúið við. Í staðinn fyrir að tekjuöflunarfrv. eru samþykkt áður en fjárlög eru samþykkt, í staðinn fyrir að lánsfjárlög eru samþykkt áður en fjárlög eru samþykkt er það ævinlega háttur vinstri stjórna að samþykkja óskalistann fyrst. þ.e. fjárlögin, samþykkja síðan tekjuöflunarfrv. og lántökufrv., og þá er dæmið ævinlega með þeim hætti að um er að ræða óraunhæfar tölur, aðeins til þess að fylla upp og út í þann ramma sem áður hafði verið samþykktur.

Út frá því sjónarmiði að fjárlög hafa verið samþykkt og þar gert ráð fyrir erlendum lántökum, út frá því sjónarmiði að búið er að samþykkja heimildir til framkvæmda töldu fulltrúar meiri hl., sjálfstæðismenn og Alþfl.-maðurinn í nefndinni, rétt að verða við tillögum formanns nefndarinnar og sjá svo um að lántökuheimildir þessa frv. yrðu ekki felldar, þær yrðu samþykktar þó að ríkisstj. hafi ekki meiri hl. í Nd., til þess að þeir sem hafa byggt á fjárl., hafa byggt á heimildum sem ríkisstj. hefur veitt, fái a.m.k. bráðabirgðalausn með þessu frv. Þess vegna ákváðu umræddir nm., eins og fram kemur í nál., að haga svo málum í hv. Nd. að 1. kafli og III. kafli þessa frv. yrðu ekki felldir. Hins vegar vildu þessir nm. vera með öllu óbundnir af II. kafla frv., eins og það er nú orðað þrátt fyrir ákvæðin um að ríkissjóði sé ekki skylt, þrátt fyrir ákvæði fjölmargra laga, að greiða nema ákveðnar upphæðir til þeirra sjóða sem þar er um að ræða eða stofnana. Þessi kafli á að vísu ekki heima í þessu frv. og hefur aldrei átt heima í þessu frv. Hann er settur hér inn vegna þess að frv. er nánast flutt eins og bandormur. Það hefði verið miklu eðlilegra að ríkisstj. eða fjmrh. hefði flutt frv. sérstaklega sem hefði innihaldið ákvæði II. kafla, því að lánsfjárlög og lánsfjárlagahluti þessa frv. eru 1. kaflinn og III. kaflinn.

Formaður n. flytur auk þess brtt. við frv., sem hann mun gera grein fyrir, en mismunandi margir nm. eru fylgjandi þeim brtt. eftir því hvað þau ákvæði hvert út af fyrir sig fjalla um.

Á þskj. 593 flytjum við fjórir þm. brtt. við þetta frv. þar sem gert er ráð fyrir að á eftir 27. gr. komi ný grein sem orðist svo:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast gegn þeim tryggingum, sem hann metur gildar, 15 millj. kr. lán, sem Verslunarskóli Íslands tekur til byggingar nýs skólahúss í Kringlumýri við Ofanleiti.“

Nefndinni barst erindi frá aðstandendum Verslunarskólans, þeim sem það hús eru að byggja sem Verslunarskólinn mun verða til húsa í í framtíðinni. Hér er um að ræða stofnun sem lítið hefur þurft að leita til hins opinbera. Ég tel að það sé það minnsta sem hægt sé að gera að verða við óskum þessara aðila um ríkisábyrgð fyrir lántöku, sem þeir koma sjálfir til með að standa straum af. Þessi till. er flutt af mér ásamt hv. 1. þm. Vestf. Matthíasi Bjarnasyni, hv. 3. þm. Reykv. Albert Guðmundssyni og hv. 5. þm. Suðurl. Magnúsi H. Magnússyni, sem um tíma tók þátt í störfum fjh.- og viðskn. vegna fjarveru fulltrúa Alþfl. í nefndinni.

Herra forseti. Ég hef hér rakið nokkuð hvernig að þessu frv. hefur verið staðið. Ég hef vikið að því að allt sem fram kom hjá mér við 1. umr. málsins var staðfest á nefndarfundum, þegar viðkomandi aðilar komu þar til fundar, og greinargerðir þeirra og skýrslur birtast með nál. sem fskj. til staðfestingar því sem áður var sagt. Af því sem hér hefur verið drepið á má sjá að lánsfjárlagafrv. það, sem ríkisstj. hefur loks lagt fram, er í senn slælega undirbúið, óraunhæft með öllu og er ekki með nokkrum hætti til þess bært að leysa þau fjölmörgu vandamál sem við er að glíma. Á meðan situr ríkisstj. í landinu stefnulaus og úrræðalaus og lætur þjóðarskútuna reka stjórnlaust fyrir sjó og vindi. Afleiðingar þess eru að eftir þriggja ára starf ríkisstj. er útlitið í þjóðmálunum dekkra en nokkru sinni fyrr.