11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Till. sú til þál. sem hér er til umr. er, eins og raunar hefur komið fram hér í umr. áður, ákaflega óvenjuleg till. Það er ekki nóg með að efni till. sé óvenjulegt, það er ekki nóg með að till. stríði nánast gegn beinum fyrirmælum stjórnarskrárinnar, í öllu falli anda stjórnarskrárinnar, það er ekki nóg með að hún sé gerð af Alþingi sem er að ljúka kjörtímabili innan kannske einnar til tveggja vikna, svo maður nefni einhver mörk í þessu efni. Nýtt Alþingi kemur að loknum kosningum og till. á að tala fyrir munn þess Alþingis, sem verður allt öðruvísi skipað en þetta þing, sem enginn veit raunar hvernig verður skipað fyrr en kosningaúrslit liggja fyrir. Till. er ekki aðeins óvenjuleg að efni og formi að þessu leyti til, heldur er hún næsta einkennilega fram borin á þingi. Það mun vera mjög fátítt, ef það er ekki einsdæmi, að bornar séu fram í báðum deildum nákvæmlega eins till. Þegar afgreiðslu þeirra er lokið í deildum er hrókerað og till. sem er í Nd. og er nákvæmlega samhljóða gengur til Ed. til afgreiðslu þar. Þetta nálgast að vera skrípaleikur. Auðvitað á svona till. heima í Sþ. Ég hefði áhuga á því að flutningsmenn till. gerðu grein fyrir því hvers vegna þeir haga tillöguflutningi á þessa leið, hvers vegna till. er ekki flutt í Sþ, eins og sjálfsagt er að gera um slíka till. sem þessa. g er ekki að segja að hér séu brotin þingsköp og þingskapalög, en örugglega þingvenja. Ég álít að þetta sé óþingleg meðferð máls af þessu tagi. Þess vegna mundi ég vilja óska eftir því að flm. till., hver sem er; gerðu grein fyrir því hvers vegna þeir hafa talið nauðsynlegt að hafa þennan hátt á um meðferð málsins hér á hv. Alþingi.

Það hefur áður verið rakið hversu fráleit þessi till.- gerð er. Ég hef heyrt lítinn málflutning fyrir till. Vitanlega er rétta málsmeðferðin og aðferðin sú, að þeir sem vilja halda á málum eins og hér er gert ráð fyrir myndi ríkisstjórn í landinu. Það er auðvitað það eina rétta. Forsrh. þeirra geri síðan tillögu til forseta á sínum tíma um að þing verði kallað saman o.s.frv. Það er auðvitað hin rétta leið í þessum efnum. Það er sú leið sem farin hefur verið þegar svona mál fara í gegnum Alþingi, kosningar og síðan Alþingi aftur. Þetta er auðvitað það sem býr að baki till. sem hér er til meðferðar. Þessir flokkar þrír hafa í raun og veru gert með sér leynisamkomulag um myndun ríkisstjórnar eftir kosningar. (Gripið fram í: Bara eftir kosningar?) Ja, það mundi fara að sjá í klaufirnar á henni ef hún ætti að koma fyrir kosningar, sem væri náttúrlega það eðlilega.

Það er svo með búskap í stjórnmálum eins og í lífinu sjálfu, að hann á sér sinn aðdraganda. Menn hafa séð samdrátt til að byrja með. Stundum er það svo að menn taka eftir samdrætti t.d. á dansleikjum. Það hefur ekkert farið fram hjá mönnum að þeir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Ólafur Einarsson hafa dansað pólitískan vangadans um alllangan tíma. Menn fer nú að renna grun í það sem á eftir hlýtur að koma. (ÓRG: Vilt þú kannske rekja næturheimsóknir ráðh. til stjórnarandstöðunnar á undanförnum árum?) Ég veit ekki hvar þessi vangadans hefur verið stiginn. Þessi pólitíski vangadans hefur verið í skúmaskotum á Alþingi um langa hríð og menn verða varir við að atlotin verða innilegri eftir því sem að tíminn líður. Þannig má segja að þessir tveir hv. þm. stígi nú villtan pólitískan vangadans.

En það er nokkur feimni í kringum þetta allt saman. Þó álít ég að trúlofunin hafi í raun og veru verið auglýst þó þeir séu ekki búnir að setja upp hringa beint. En hún hafi verið auglýst með þeirri till. sem hér er til meðferðar. Það verður líklega að telja þá trúlofaða. (Gripið fram í: Jarðarförin auglýst?) Það verður nú síðar. (SalÞ: Er ráðh. að mynda væntanlega ríkisstj.?) Nei, ég er að gera grein fyrir því, ef hv. þm. hefur ekki fylgt þræðinum í þessu, að undir þessari till.-gerð býr auðvitað samkomulag flokkanna um tvennar kosningar á þessu sumri. Ég ætla ekki hv. alþm. þessara flokka það að ætla að notast við núv. hæstv. ríkisstj. til þess arna. Ég ætlast til þess að þeir sjái sóma sinn í því að gera þetta sjálfir í stað þess að ætla að nota núv. hv. ríkisstj. til þess að sjá um framkvæmdina fyrir sig. (Gripið fram í: Eiga ekki allir að vera farnir úr henni?) (Forseti: Þögn í salnum, viðskrh. hefur orðið.) Mér heyrðist nú ekki betur á atkvgr. hér í Sþ., sem fór fram fyrir nokkrum mínútum, að á þeim sem í ríkisstj. eru væri ekkert fararsnið. Hins vegar var kominn nokkur brestur í þetta þar sem var afstaða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, en það sannar bara þá pólitísku trúlofun sem ég hef verið að gera grein fyrir hér, hvað sem að undir býr að öðru leyti. (Gripið fram í: Ert þú trúlofaður?) Ég hef orðið, hv. þm., og vonast til að geta talað án þess að verða truflaður. (Forseti: Ég óska eftir því að menn hafi hljóð hér í salnum og hæstv. viðskrh. fái að halda fram máli sínu.)

En það liggur í hlutarins eðli, þegar um svo stóralvarlegt mál er að ræða eins og þetta, sem er raunar stærsta mál þjóðarinnar, breytingar á stjórnarskránni, að auðvitað er eðlilegt að menn taki það alvarlega þegar menn bindast samtökum um hvernig á að halda á málinu. Ég er sannfærður um að það býr miklu meira undir en menn vilja vera láta. Nú eru ýmsir fleiri fletir á þessu máli öllu og það er erfitt að ræða þetta mál án þess að gera grein fyrir því við hvaða aðstæður þetta mál er flutt og hvernig með það er farið. Ég held að það fari ekki á milli mála að ástand í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, eftir þá atburði sem gerst hafa nýlega, er með þeim hætti að öllum ábyrgum mönnum er ljóst að það verður að stinga við fótum og það verður að tryggja að sérstaklega undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar verði reknir með eðlilegum hætti. Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar, að eins og nú er orðið sé veruleg hætta á því að verulegar truflanir komi til í rekstri undirstöðuatvinnuveganna, nema gerðar verði ráðstafanir til að koma í veg fyrir það.

Það er ástæða til að rekja í nokkrum orðum, það væri hægt að gera það í löngu máli, en ég skal ekki gera það við þetta tækifæri, hvað hefur verið að ske í þessum málum. Það sem hefur skeð er raunar einfaldlega það innan ríkisstj., að ekki hefur náðst samkomulag um aðgerðir gegn vaxandi verðbólgu í landinu. Og ástæðan fyrir því að samkomutag hefur ekki náðst er einfaldlega að Alþb., einn af stjórnaraðilunum, hefur ekki fengist til að taka þátt í ráðstöfunum til viðnáms og lækkunar verðbólgu. Þetta hefur varað um alllangan tíma.

Það var auðvitað ljóst, eftir að sótt var með miklu kappi á breytingar á stjórnarskránni, svo miklu kappi að það vannst ekki mikill tími til þess að sinna öðrum málum, eins og t.d. efnahags- og atvinnumálum, að aðgerðaleysi mundi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Við í Framsóknarflokknum töldum og teljum enn að það hafi komist á samkomulag stjórnaraðila í ágústmánuði í sumar um að gera viðnámsráðstafanir gegn verðbólgu. Þessar ráðstafanir voru aðallega þær, að gengið var lækkað seinni partinn í ágúst. Það voru sett brbl. um viðnám gegn verðbólgu, sem allir þekkja og ég þarf ekki að rekja efni þeirra hér, það voru ákveðnar láglaunabætur til að reyna að viðhalda kaupmætti lægri launa miðað við önnur laun, það var lengt orlof í landinu og það átti að gera breytingar á viðmiðunarkerfi launa, vísitölukerfinu, og það var samið um að það yrði gert. Við í Framsóknarflokknum studdum að sjálfsögðu þessar ráðstafanir, eins og t.d. láglaunabætur, og lengingu orlofs, í þeirri trú að vísitölumálið gengi fram eins og um hafði verið samið og auglýst hafði verið. Þess vegna stóðum við að því að afgreiða þau mál hér í þinginu, þegar þau höfðu verið afgreidd, bæði láglaunabæturnar og lengingu orlofs. Þá átti eftir að afgreiða vísitölumálið, en þá heyktist Alþb. á gerðum samningum og hljóp frá málinu. Stjórnarandstaðan hljóp undir árar með Alþb. í raun og veru í þessu máli og gerði því leikinn tiltölulega auðveldan að hindra framgang þess. Þetta hafði þau áhrif að 1. mars s.l. skall yfir verðbólgualda sem áreiðanlega mun stofna rekstrargrundvelli atvinnuveganna í landinu í stórkostlega hættu.

Ég dreg í efa að það líði langur tími án aðgerða svo að ekki komi til stórkostlegra truflana í rekstri ýmissa undirstöðugreina. Við í Framsfl. gerðum tilraun til þess á seinustu stundu að í bili yrði beitt niðurgreiðslum fram yfir kosningar til þess að veita viðnám svipað eins og gert var með brbl. 1974 fyrir kosningar þá. Okkar ætlun var auðvitað sú, að viðmiðunarfrv. gengi fram og viðbótarhækkanirnar kæmu ekki til 1. mars og síðan væri hægt að beita niðurgreiðslum 1. apríl fram yfir kosningar, þannig að leikur nýrrar ríkisstjórnar, sem tæki við eftir kosningar, væri léttari eins og nú er komið.

Þegar þetta allt er haft í huga er alveg ljóst, þegar mistekist hefur að fá samkomulag um viðnámsaðgerðir gegn verðbólgu, að ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar verður með þeim hætti næstu mánuði að hreinn háski er á ferðum. Þess vegna teljum við í Framsfl. að það eigi að leggja áherslu á það fyrst og seinast að takast á við efnahagsmálin, gera ráðstafanir til viðnáms og lækkunar verðbólgu og að það sé nauðsynlegt þegar að loknum kosningum að það verði mynduð sterk ríkisstjórn í landinu sem geti tekist á við þessi bráðnauðsynlegu verkefni. En í staðinn fyrir þetta, á meðan átökin fóru fram um hvort unnt væri að ná samkomulagi um viðnámsaðgerðir, — og þó er auðvitað vísitölufrv. meira en viðnámsaðgerðir nú. Það er aðgerð sem hefur varanleg áhrif áfram, þó að okkur sé það ljóst að það sé áfangi sem sé allt of skammur í þessum málum. Það þarf róttækar breytingar á þessu kerfi öllu saman til þess að unnt sé að ná valdi og stjórn á efnahagsmálunum og atvinnumálunum — voru menn í óða önn að fást við að breyta stjórnarskránni, fjölga þm. um þrjá, í stað þess að snúa sér að þeim bráðnauðsynlegu verkefnum, sem við blasa á sviði efnahags- og atvinnumála. Nú er ljóst að það sem vakir fyrir flm. þessarar till. er fyrst og seinast að drífa á tvennar kosningar í sumar án þess að þeir sjálfir geri ráðstafanir til þess að tekið sé á efnahags- og atvinnumálunum.

Það er engu tíkara en flm. hugsi sér að nú sé ríkisstj. góð, nú eigi hún að sitja og standa fyrir málum. Þessu var allt öðruvísi farið t.d. 1959. Þá gerðu tveir flokkar með sér samkomulag, Sjálfstfl. og Alþfl., um viðnámsaðgerðir fyrst, fyrst og fremst viðnámsaðgerðir í eitt ár í efnahags- og atvinnumálum, á meðan verið var að gera breytingar á stjórnarskránni. Það voru allt öðruvísi vinnubrögð. Það voru ábyrg vinnubrögð. Að vísu höfðu þessir flokkar þá ekki meiri hluta til þess að koma þessum viðnámsaðgerðum fram árið 1959. Og efnahagsráðstafanirnar, sem þeir beittu, höfðu ekki meiri hluta þessara tveggja flokka hér í þessari hv. þd., þannig að Framsfl. þurfti þá að taka afstöðu til þess hvort hann hleypti þeim ráðstöfunum í gegn, og það gerði hann. (Gripið fram í: Þær voru líka góðar.) Þær voru að mörgu leyti góðar. Þess vegna var þeim hleypt í gegn. Menn sýndu fulla ábyrgð í þeim efnum. Þó að Framsfl. væri andvígur þá kjördæmabreytingunni og berðist gegn henni þótti honum sjálfsagt að hleypa þessum aðgerðum í gegnum þingið vegna þess að það var nauðsynlegt. (Gripið fram í.) Nei, nei, ég er ekki kominn að stjórnarsáttmálanum ennþá. Ég er á árinu 1959.

Það voru dálítið öðruvísi móttökur sem brbl. ríkisstjórnarinnar frá því í sumar fengu hjá stjórnarandstöðunni hér í haust, þegar hún lýsti því yfir í blöðum, á Alþingi, eftir að það kom saman, og við öll möguleg tækifæri að hún mundi fella brbl. og heimtaði að brbl. yrðu lögð fyrir Alþingi sem fyrst, svo að færi gæfist á að fella þau. Það var mikið hark út af þessu, eins og menn muna, og Sjálfstfl. lagði ofurkapp á það. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, að fella lögin. Síðan breyttist staðan og sjálfstfl. sneri af einhverjum ástæðum við blaðinu og barðist nú hatrammri baráttu gegn því að lögin gengju fram þvert ofan í það sem sagt var og lýst yfir á haustdögum. Það er nú svo, að lægðirnar í pólitíkinni alveg eins og í veðrinu breytast því það kom enn ein lægð. Það hefur kannske verið hæð því að það var þó afstöðubreyting til bóta þegar Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu sat að lokum hjá við brbl., en það tók þá sex mánuði að átta sig á þessu. (EgJ: Menn skipta nú um skoðun á skemmri tíma en sex mánuðum.)

Þegar vísitölufrv. var lagt fram hefði maður haldið að Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu tæki slíku máli fegins hendi og styddi það. Þetta er skynsamleg ráðstöfun. Þetta er ráðstöfun sem er nákvæmlega í þeim anda sem Sjálfstfl. hefur fylgt í þessum málum. (ÓRG: Var það þess vegna sem Framsfl. flutti þetta?) Ja, það voru allir stjórnaraðilar sammála um það, hv. þm., og menn gerðu samninga um það á s.l. sumri og fengu menn til að samþykkja ýmsar hliðarráðstafanir. eins og láglaunabætur og lengingu á orlofi, en svo þegar kom að því að efna samkomulagið um vísitölumálið, sem var nú fyrsti punkturinn í þessu samkomulagi frá því í ágústmánuði. heyktist Alþb. heldur betur í hnjáliðunum. Niðurstaðan varð sú, að þeir gengu frá málinu. En Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, maður skyldi ætla að hann hefði haft áhuga á að taka þarna í til þess að styrkja rekstrarstöðu atvinnuveganna í landinu (Gripið fram í: Átti það að vera nýi meiri hlutinn?) Nei, þvert á móti sýndu sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu hið mesta tómlæti í þessu máli og létu sér vel líka að málið fékk ekki framgang. Þeir snerust svo einnig af hinu mesta offorsi gegn hugmyndum um niðurgreiðslur um sinn, svipað því sem beitt var 1974. Ég get vel samþykkt að niðurgreiðslur eru ekki ... (Gripið fram í: Niðurtalning?) Niðurgreiðslur. Við vorum að tala um niðurgreiðslur, hv. þm. Ég kann eiginlega hálf illa við að sjá hv. þm. Egil Jónsson þarna. Ég hef alltaf heyrt í honum hérna aftan við mig. (Forseti: Ég vil biðja menn að hafa hljóð í salnum á meðan þessar umr. fara fram.) Ég kann nú betur við að sjá hv. þm. í sínu sæti í salnum. (Forseti: Ja, það er svo sér á parti.) Það er sér á parti. En ekki hefur hv. þm. dregið þetta sæti. Honum hefur verið ætlað sæti annars staðar og veglegra sæti kannske, uppi við háborðið. (Gripið fram í: Hann villist eins og aðrir.) Já, já. — En þegar svo var komið að menn vildu ekki taka þátt í viðnámsaðgerðum gegn verðbólgu var auðvitað ljóst að hér yrði mikill háski á ferðum og það verðbólguflóð sem nú fossar yfir þjóðina er með þeim hætti að mönnum stendur ógn af.

Þessi 15% verðbótahækkun, sem varð núna 1. mars, vigtar manninum, sem hefur 10 000 kr. mánaðarlaun, 1500 kr., manninum sem hefur 50 000 kr. vigtar hún hins vegar 7500 kr., þannig að hálaunamaðurinn fær 7500 kr. til að mæta þessum verðbólgustraum, en sá sem hefur 10 000 kr. fær í sinn hlut 1500 kr. Þetta er réttlæti vísitölunnar.

Það er nokkurn veginn ljóst að ekki er samstaða í núverandi hæstv. ríkisstjórn til þess að taka á í efnahagsmálunum. Það er nokkurn veginn ljóst að Alþb. ætlar sér ekkert að taka þátt í neinum aðgerðum, af því Alþb.-menn þora það ekki fyrir kosningar. Þeir halda að þeir fái atkvæði í kosningunum með því að gera ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut, þó þeir sitji í stjórn landsins, þó að ástand atvinnumála sé með þeim hætti að það er líklegt að það verði vaxandi atvinnuleysi í landinu ef ekki verður gripið í taumana. Þeir ætla sér ekkert að gera, það er augljóst, en þeir sitja samt sem fastast. (ÓRG: Hefur ráðh. orðið fyrir vonbrigðum með það?) Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að Alþb. skyldi ekki standa við samninga, sem voru gerðir á s.l. sumri, og ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að Alþb. hefur ekki verið til viðtals um ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum nema sjaldan. Hæstv. utanrrh. hefur lýst því réttilega og sagt að þær hafi komið of seint og sjaldan. Þetta er alveg rétt, en hvers vegna komu þær seint og hvers vegna komu þær sjaldan? Það var vegna þess að menn voru að glíma við Alþb. daginn út og daginn inn, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, að fá það til þess að taka þátt í nauðsynlegum efnahagsaðgerðum. Það er heldur ömurlegt hlutskipti þeirra Alþb.-manna í sambandi við efnahagsmálin og tregðu þeirra á að taka þátt í nauðsynlegum aðgerðum. (Gripið fram í: Samt vill ráðh. endilega vera með okkur í ríkisstj.).

Ég hafði trú á að það væri kannske hugsanlegt að fá Alþb. til þess að taka þátt í raunhæfum ráðstöfunum í efnahags- og atvinnumálum. Og svo ég komi nú að stjórnarsamningnum. Það vantaði svo sannarlega ekki yfirlýsingarnar í stjórnarsamninginn. En hvar eru aðgerðirnar? Hvar eru raunhæfar aðgerðir, sem þurftu að koma til til þess að sá árangur næðist sem þar er gert ráð fyrir? Að sjálfsögðu er skylt að taka það fram að á síðasta ári urðu mjög skjót umskipti í efnahagsmálum í umheiminum, meðal þeirra þjóða, sem við skiptum fyrst og fremst við. Þjóðarframleiðsla Íslendinga minnkaði verulega eða að því er talið er og áætlað 9–10% á tveimur árum. Þá voru einnig gerðir nýir kjarasamningar á s.l. ári, eins og kunnugt er. Það er talið að þeir kjarasamningar, þegar talað er um heildina, hafi falið í sér raunveruleg útgjöld fyrir atvinnulífið í landinu og það opinbera sem nema um 12% þegar orlofið er tekið með, kannske 12–14, segja sumir. Á sama tíma sem þessi viðbótargjöld verða lækka þjóðartekjur um milti 5–10%. Það vantar þarna á allt að 20% til að brúa þetta bil. Auðvitað er augljóst hvernig bilið er brúað. Það er brúað með stóraukinni verðbólgu. Ég er ekki að segja að það sé hægt að kenna ríkisstjórninni um þetta þrennt, alþjóðlega kreppu í efnahagsmálum, verðlækkanir á sumum okkar útflutningsafurðum, sölutregðu, stórkostlega aflarýrnun og samdrátt þjóðartekna og síðan óraunhæfa kjarasamninga. Það er ekki hægt að kenna ríkisstj. um þetta að mínum dómi. Það kemur til viðbótar við tregðu Alþb. til þess að taka þátt í virkum ráðstöfunum í efnahagsmálum og gegn verðbólgu og upplausn. Það er auðvitað ljóst að það sem býr að baki þessari till., sem hér er til meðferðar, er sá vilji flokkanna, sem standa að till., að halda tvennar kosningar í sumar. Það er jafnljóst að ef tvennar kosningar verða haldnar í sumar verða seinni kosningarnar sjálfsagt ekki fyrr en einhvern tíma í júlímánuði, þykir mér líklegt, — í fyrsta falli snemma í júlímánuði.

Það hefur verið svo eftir alþingiskosningar undanfarin ár, margar alþingiskosningar, að það hefur tekið æðilangan tíma að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningar. Það hefur yfirleitt tekið um tvo mánuði. Það tók um tvo mánuði 1974, það tók um tvo mánuði 1978, það tók um tvo mánuði og rúmlega það 1979–80. Það má því eins ætla að ekki verði búið að mynda nýja ríkisstjórn í landinu, ef tvennar kosningar verða haldnar, fyrr en seinnipart ágústmánaðar. (Gripið fram í: Það verður enga stund gert.) Það verður enga stund gert, segir hv. þm. Þetta hefur nú staðið í mönnum, eins og ég hef verið að rekja. Kannske stendur það til bóta. Ef til vill er þegar búið að mynda ríkisstjórn og þá er þetta enga stund gert. En ef við rekjum þetta svona er eins líklegt að ný ríkisstjórn komist ekki til valda fyrr en í ágústmánuði í sumar.

Ef flokkarnir, sem standa fyrir tvennum kosningum, mynda ekki ríkisstjórn og taka ábyrgð á ástandi efnahags- og atvinnumála á meðan bera þeir auðvitað ábyrgð á því sem skeður á þessum tíma. Þeir hljóta að gera sér það ljóst. En það hefur ekki bryddað á því að þeir vildu ljá máls á þátttöku í aðgerðum sem eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir alvarlegar truflanir í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Nú er það sjálfsagt mál, sem komið hefur fram hér í þessum umr., að þing verði kallað saman. Það gefur auga leið, en að ákveða það nú með þessum hætti, sem er náttúrlega engin ákvörðun, þetta er auðvitað hrein markleysa í sjálfu sér, er hið fyllsta ábyrgðarleysi, að mínu mati, vegna þess að það gerir enginn sér grein fyrir því hvernig ástatt verður í þessum málum seinni hluta aprílmánaðar. Það gerir enginn sér grein fyrir því nú.

Hér er auðvitað um að ræða áhuga á allt öðru en því að takast á við efnahags- og atvinnumál. Flokkarnir hafa fyrst og seinast áhuga á að drífa kjördæmamálið í gegn og kjósa án þess að hafa þrek í sér til að taka nú þegar ábyrgð á málefnum landsins og mynda ríkisstjórn. Það væri ábyrg afstaða, eins og Alþfl.-menn gerðu 1959. (Gripið fram í: Nú eru þeir búnir að hafa tíma til þess.) Þetta er því hinn mesti skrípaleikur, en það er nauðsynlegt að þjóðin gefi því gaum hvað er að gerast í þessum málum og nauðsynlegt að þeir sem stofna til slíkrar málsmeðferðar, eins og hér er lagt til, beri ábyrgð á því sem gerist í þessum málum, t.d. í atvinnumálum á næstu mánuðum, vegna þess að þeir skorast undan því meðan verið er að afgreiða önnur mál að taka að sér stjórn á málefnum landsins.

Það er þetta sem við höfum gagnrýnt í Framsfl. Við höfum gagnrýnt það og höfum lagt áherslu á að þegar búið er að kjósa verði teknar ákvarðanir, væntanlega af nýrri ríkisstjórn, um hvenær þing verði kallað saman og kosningar haldnar á nýjan leik. Það er auðvitað alveg ljóst að þessi nýi þingmeirihluti, sem hér er á ferðinni, er að réttu lagi skyldugur til að undirbúa mál fyrir nýtt Alþingi, sem hann leggur áherslu á að kallað verði saman stuttu eftir kosningar. Þetta er þá kannske þannig að í þessum tillöguflutningi felist ákvörðun um stjórnarmyndun eftir kosningar sem standa fyrir því að undirbúa tillögugerð m.a. í efnahags- og atvinnumálum fyrir nýtt þing. Ég geri ráð fyrir að sá undirbúningur mála sé þegar hafinn, vegna þess að það er ólíklegt að menn geti unnið það verk á 18 dögum. Og það eru talsverð tíðindi fyrir þjóðina að heyra þessar trúlofunarfréttir flokkanna, sem eru áreiðanlega undanfari myndunar ríkisstjórnar sem mundi standa fyrir málum, kalla saman þing og halda nýjar kosningar þegar þeirri ríkisstjórn finnst það tímabært.