11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2959)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr. og síst af öllu að draga hana, en þar sem hæstv. utanrrh. hefur á mig skorað að skýra hvað ég átti við þegar ég greip fram í fyrir honum og sagði að mér fyndist lögskýring hans einkennileg verð ég sjálfsagt að greina frá því í hverju það var fólgið.

Hæstv. ráðh. sagði í þessum stól að báðar till. yrðu að ganga á milli beggja deilda og verða samþykktar í þeim báðum, en bætti að vísu inn í í síðari ræðu sinni: það verður kannske að gera það. Það er auðvitað alveg ljóst að ef þessi till. verður samþykkt hér gengur hún til Nd. og þar verður hún væntanlega samþykkt, en ekki hin. Þetta veit hæstv. ráðh. Þessi lögskýring hans er fáránleg,. algerlega út í bláinn.

Það vakti dálitla athygli áðan að hæstv. ráðh. rann í skap og það allillilega. Hann leyfði sér að kalla einn ákveðinn hv. þm. vindbelg. Ég held að það orð sé ekki þinglegt. Það hefði átt að víta ráðh. fyrir það orðbragð, svo mikið er honum sýnilega niðri fyrir. Og það kom í enda ræðunnar það sem undir bjó. Ég veit ekki hvers vegna hæstv. ráðh., sem er búinn með sínum flokki að hindra í allan dag að hér fengist málið sem nú er til umræðu tekið á dagskrá, vill fara að taka til við 3. umr. um stjórnarskrárbreytinguna. Kynni að vera að sú skuld sem hann á að gjalda hæstv. forsrh. væri enn í einhverju ógoldin, en hann skýrði frá í viðtali nýlega að hann hefði átt skuld að gjalda hæstv. forsrh.? Er kannske hugmyndin að nota það sem átyllu, ef stjórnarskrárfrv. verður afgreitt og samþykkt núna á þessum fundi, til að rjúfa þing hér í kvöld? Kynni það að vera skýringin? Spyr sá sem ekki veit. En allavega er einkennilegt hvað ráðh. er mikið niðri fyrir og minnir óneitanlega á árið 1974.

En að því er varðar málflutning framsóknarmanna í þessu máli, sem hér er til umr., hef ég verið að velta því fyrir mér hver ósköpin hafi yfir þennan flokk komið og hans leiðtoga. Ég hélt að það væri kannske helst það að formaður flokksins hefði rétt einu sinni talað af sér í þessu máli. Það hefur ekkert komið fram sem réttlætir einhverjar ágiskanir um að það sé búið að ákveða að mynda stjórn þeirra þriggja flokka sem að þessu standa o.s.frv. Þvert á móti hefur því verið neitað af öllum aðilum. Það trúir ekki einn einasti maður því á landinu að það sé búið að mynda einhverja slíka stjórn, enda var hæstv. viðskrh. að segja áðan að það tæki a.m.k. tvo til þrjá mánuði o.s.frv. Hver getur skýringin á þessum ósköpum verið? Varla það að Framsóknarflokkurinn sé alveg ákveðinn í því að verða utan stjórnar hvað sem tautar og raular. Ég held ekki. Ég held að Framsóknarflokkurinn vilji vera í stjórn. En skyldi það nú vera að skýringin væri ofureinföld? Það eru kosningar fram undan og Framsfl. vill auðvitað fá eins mikið fylgi og unnt er. Er skýringin sú, að frambjóðendur flokksins hafi gert sér grein fyrir að helsta vonin til að framsóknarhjörðinni verði haldið saman sé sú, að menn þurfi ekki að óttast að framsókn verði áfram í stjórn. kannske svipaðri stjórn og nú hefur verið? Ég finn enga aðra skýringu á þessu. Þeir eru að reyna að lemja það inn í fólk að þeir verði ekkert í stjórn. þess vegna sé óhætt að kjósa þá, að flokksmenn Framsfl. geti kosið sinn gamla flokk að því að þeir séu öruggir um að hann verði ekki í stjórn og hann verði áhrifalaus. Ég finn enga aðra skýringu. Hún hlýtur að vera þessi. Og þetta hlýtur fólk að sjá alveg á næstu dögum.