11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2936 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

230. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í umr. í gær ítrekaði heilbrmrh. þá afstöðu sína að hann teldi sig hafa heimild til þess að fella tannlækningar fyrir alla landsmenn undir almannatryggingakerfið án afskipta löggjafans. Að sjálfsögðu fagna ég þeirri ákvörðun ríkisstj. að fella tannlækningar fyrir landsmenn undir almannatryggingar, enda sömu hugmyndir og ég hafði á síðasta Alþingi, sem þá var ekki vilji fyrir að afgreiða. Engu að síður hef ég í umr. um þetta mál dregið í efa þá ákvörðun ríkisstj. að ráðh. geti með einfaldri reglugerðarbreytingu ákveðið að fella tannlækningar undir almannatryggingakerfið fyrir alla landsmenn án þess að lögunum sé breytt og þessi ákvörðun hljóti staðfestingu löggjafans.

Undir þessar efasemdir mínar hefur tekið Gunnar Möller hrl., sem átt hefur sæti í tryggingaráði um langan tíma og manna best þekkir tryggingalöggjöfina. Auk þess átti Gunnar þátt í undirbúningi þeirra breytinga sem gerðar voru á almannatryggingalögunum 1977, þegar þetta ákvæði kom inn í almannatryggingalögin, sem ráðh. byggir heimild sína á. Hann þekkir því vel forsögu þessa máls. Þegar ég leitaði eftir áliti Gunnars Möllers á þessu máli tjáði hann mér að hann teldi þetta mjög hæpna lagatúlkun og frjálslega með þessa reglugerðarheimild farið.

Ráðh. upplýsir að hans ráðgjafar í heilbrmrn. telji reglugerðarákvæði gefa honum svigrúm, þannig að þarna stangast á lögfræðilegt mat á túlkun reglugerðarákvæða. Hvað sem því líður, hvor hafi rétt fyrir sér í því máli, þá stendur þó alla vega eftir að eðlilegt hefði verið að ríkisstj. hefði leitað eftir staðfestingu Alþingis, sem fer með fjárveitingavaldið, á svo veigamikilli breytingu almannatryggingalaganna sem hefði verulegan kostnað í för með sér. Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé að líta á þann bakgrunn, sem þetta reglugerðarákvæði byggir á, þegar það er metið hvort ríkisstj. hafi þessa heimild eða ekki, og skoða hvernig þetta reglugerðarákvæði er tilkomið. Er þá fyrst til þess að líta, að þegar 1974–75 er sett inn í almannatryggingalögin ákvæði um greiðslu kostnaðar fyrir ákveðna hópa í þjóðfélaginu. En í þeim lögum segir með leyfi forseta:

„Sjúkrasamlög greiða að hálfu þá tannlæknaþjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum, hjá skólatannlæknum eða stofnunum tannlækna sem Tryggingastofnun ríkisins semur við um þjónustu í þágu sjúkratrygginga. Meðan uppbygging tannlæknaþjónustu á heilsugæslustöðvum samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu stendur yfir skulu ákvæði 1. mgr. aðeins gilda fyrir tiltekna þjónustu og tiltekna hópa fólks,“ segir í þeim lögum.

Hér er greinilega talað um tiltekna hópa. en í þeim lögum segir að frá 1. sept. 1974 átti ákvæðið að ná til barna og unglinga 6–15 ára, og frá 1. jan. 1975 átti ákvæðið að taka til barna 3–5 ára og 16 ára unglinga, ellilífeyrisþega, öryrkja og vanfærra kvenna. Síðan segir að ráðh. sé heimilt að auka með reglugerð þá þjónustu, sem greiðslur samkv. 1. mgr. taki til, eftir því sem uppbyggingu heilsugæslustöðva miðar og fé er veitt til á fjárlögum. Síðan er gerð breyting á þessum lögum 1977 í þá veru, að bætt er inn í þjónustu fyrir þessa hópa og dregið úr henni fyrir aðra hópa. T.d. er þá hætt að greiða fyrir hópa eins og vanfærar konur. Í stað þess ákvæðis sem fyrir var, um að ráðh. væri heimilt að auka við og bæta þjónustu fyrir ákveðna hópa, sem lögin frá 1975 tóku til, kemur ákvæði sem ráðh. byggir nú heimild sína á. En þar segir með leyfi forseta:

„Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða víðtækari hjálp vegna veikinda en ákveðin er í þessari grein, þ. á m. að láta réttindi til greiðslu kostnaðar við tannlækningar ná til fleiri hópa en segir í 44. gr., svo og ákveða með hliðsjón af ákvæðum þeirrar greinar hvernig þátttöku skuli haga í tannlæknakostnaði viðbótarhópa.“

Hér er áfram talað um hópa eins og í fyrri lögunum, og í stað þess að talað er um tiltekna hópa, eins og var í fyrri lögunum, er í núgildandi lögum notað orðið viðbótarhópar, sem ég fæ ekki séð annað en kveði á um það sama og í fyrri lögunum, þ.e. að ráðh. geti bætt inn viðbótarhópum við þá sem fyrir eru, t.d. að hækka aldurinn sem greiðslan nær til í 20 ár, svo að dæmi sé tekið, en ekki að hægt sé að túlka ákvæðið svo rúmt og svo frjálslega, að framkvæmdavaldið geti með stoð í þessu ákvæði án afskipta löggjafans ákveðið að fella greiðslu fyrir tannlækningar fyrir alla landsmenn undir almannatryggingar, jafnvel þó greiðslan nái aðeins til hluta kostnaðarins. Sú túlkun á ákvæðinu í fyrri lögunum um tiltekna hópa og í núgildandi lögum um viðbótarhópa tel ég að ekki fái staðist og hugsunin á bak við þetta sé að ráðh. hafi svigrúm til að bæta við ákveðnum hópum, eins og gert var með lagabreytingu 1977, en ekki sé heimilt að greiða fyrir alla landsmenn tannlækningar án afskipta löggjafans.

Herra forseti. Þar sem það frv. sem nú er til umfjöllunar hafði engan hljómgrunn á síðasta þingi kaus ég á þessu þingi að fara aðra leið til að létta af byrðum vegna útgjalda við tannviðgerðir, ef um verulegan kostnað væri að ræða, þ.e. að veittur væri skattafsláttur vegna verulegra útgjalda, enda taldi heilbrmrh. á síðasta þingi að skoða bæri þá leið sérstaklega. Auk þess er um verulega minni útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð vegna þessa frv., sem fellt hefur verið, þar sem hvert einstakt tilvik er metið. Taldi ég því rétt að fara þá leið, ekki síst þar sem svigrúm er lítið nú til útgjaldaaukningar og nýrrar kostnaðarþátttöku fyrir þjóðfélagið. Alþingi felldi þá tillögu og upplýst var að ríkisstj. hefði ákveðið, með stoð í þessari umdeildu reglugerðarheimild, að greiða 20% af tannlækningum fyrir alla landsmenn. Ég taldi því rétt að fara þá leið sem ég lagði til á síðasta þingi, þar sem bæði var vilji fyrir því í ríkisstj. og fjmrh. taldi auk þess að til væri fjármagn til þess að Alþingi staðfesti þessa ákvörðun, ekki síst með tilliti til verulegra fjárútláta svo og hæpinna lagaheimilda framkvæmdavaldsins í þessu efni.

Atkvgr. í fyrradag við 2. umr. um þessa tillögu, sem reyndar var staðfesting á tillögu sem samþykkt var í ríkisstj., var nokkuð einkennileg. Þeir ráðherrar sem að henni stóðu — sumir hverjir a.m.k. — í ríkisstj. greiddu atkv. gegn henni eða vildu ekki taka afstöðu til sömu tillögu og þeir höfðu fyrir nokkrum dögum fallist á og samþykkt í ríkisstj. Afstaða sumra ráðh. er því öll hin einkennilegasta, í ljósi þess að þeir leggja hana til í ríkisstj. og greiða atkv. með henni þar, en á Alþingi, þar sem rétti vettvangurinn er til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess, segja þeir nei eða treysta sér ekki til að styðja eigin ákvörðun og staðfesta þá tillögu sem þeir sjálfir hafa átt frumkvæði að í ríkisstj.

Eðlilegt er, eins og ég hef áður sagt, að vilji löggjafans komi hér fram í atkvgr. á Alþingi, svo að enginn sé að velkjast í vafa um það hvað við er átt og fyrir því sé örugg stoð í lögum að framkvæmdavaldið hafi þessa heimild. Í því sambandi vil ég í lokin benda á að hæstv. heilbrmrh. upplýsir í Dagblaðinu í fyrradag að ekki sé fullfrágengið hvort greiða eigi fyrir allar tannviðgerðir, þar með taldar gullfyllingar, krónur og brýr. Rétt er að fá það upplýst hvort einnig eigi að greiða fyrir þá þjónustu, þannig að löggjafinn viti um það og taki þá afstöðu til þess hluta einnig. Ráð hafði verið fyrir því gert í því frv. sem flutt var í fyrra og því sem ég endurflyt nú og er hér til umfjöllunar, en heilbr.- og trn. felldi það út við meðferð málsins í nefnd.