11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

218. mál, vegalög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. Það fjallar aðeins um tvö efnisatriði, þ.e. að við skilgreiningu í 12. gr. bætist: Við það stofnbrautakerfi, sem þannig fæst, skal tengja með stofnbraut öll þéttbýli, sem hafa 400 íbúa eða fleiri, enda sé tengingin ekki lengri en 20 km, svo og þéttbýli með 200–400 íbúa, ef tenging þeirra er ekki lengri en sem svarar 1 km fyrir hverja 100 íbúa í þéttbýlinu. Og að síðari málsl. 1. mgr. 32. gr. falli niður, en það er um 12.5% gjaldið vegna þéttbýlis, sem á að standa undir að gera götur í þéttbýli. Þetta þýðir það að 10 þéttbýlisstaðir mundu tengjast stofnbrautakerfinu. Þetta er samkomulagsatriði eða samkomulagsmál sem var gert í sambandi við langtímaáætlun í vegagerð.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og er sammála um að leggja til að það verði samþ. óbreytt.