11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

163. mál, verðlag

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram mjög glöggt í þessu máli og hefur komið mjög skilmerkilega fram í fjölmiðlum að borgarstjórn Reykjavíkur — borgarstjóri Reykjavíkur fyrir hönd meiri hl. borgarstjórnar — hefur ekki talið Reykjavíkurborg skylduga til að fara eftir þeim lögum sem um þetta gilda og dregið þau í efa. Hann hefur látið í veðri vaka að Reykjavíkurborg hafi valdið í þessu sambandi og þurfi ekki að virða verðlagsyfirvöld.

Það kom skýrt fram í nefndinni að ekki hefur verið sótt um neina hækkun á þessu ári, eins og kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni. Það var gert í nóv. s.l. Það lá alveg fyrir að Strætisvagnar Reykjavíkur mundu geta fengið hækkun. Ég held að það hafi verið í febr. sem þeir fengu hana svo. Þeir töldu ekki ástæðu til að sækja um hana og vildu með því sýna það, að það væri þeirra að ákveða þessi mál, en ekki verðlagsyfirvalda í samræmi við lög. Reykjavíkurborg hefur því í reynd tekið þá ákvörðun að veitast að verðlagsyfirvöldum, sem hafa verið að reyna að gegna skyldum sínum, varðandi afsláttarkortin, sem hv. þm. Albert Guðmundsson gerði hér að umræðuefni. Kom það fram hjá verðlagsstjóra á fundi nefndarinnar að alltaf hafði verið venja að gefa út úrskurði varðandi hvern tíð fyrir sig. Þannig hefði það verið gegnum tíðina. Hins vegar hafði hann ekki séð neina ástæðu til aðgerða varðandi það mál.

Þetta mál er fyrir dómstólum. Ég held að það sé rétt að gefa dómstólum tækifæri til að fjalla um það og að ekki sé við hæfi að breyta lögum í málum á meðan dómstólar fjalla um þau. Eftir að úrskurður er kominn í þessu máli frá dómstólum er sjálfsagt að mínu mati að taka þessar reglur og þessi lög til endurskoðunar. En mér finnst ekki við hæfi að Alþingi sé að breyta þessum lögum á meðan að mínu mati prinsipmál sem þetta er í deiglunni, því að það verður að vera ljóst, meðan við höfum verðlagseftirlit í landinu, að verðlagsyfirvöld séu virt, hvort sem í hlut á Reykjavíkurborg eða fyrirtæki eða aðrir aðilar í landinu. Ef það á að líðast að þessi lög eru ekki virt, þá er til lítils að vera að setja þau. Þá má einnig segja að það sé til lítils að setja ýmis önnur lög í landinu.