11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

163. mál, verðlag

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, enda hef ég hag af því að þetta mál fái afgreiðslu þar sem ég er 1. flm. Ég tel þó nauðsynlegt að taka nokkur atriði fram.

Í fyrsta lagi hafa verið fluttar brtt. við verðlagslöggjöfina af hv. þm. sjálfstæðismanna í því skyni að færa þessi lög til upphaflegs horfs. Í öðru lagi hafa verið fluttar till. um það á fyrri þingum að öll þjónusta á vegum sveitarstjórna verði óháð ákvæðum verðlagsyfirvalda. Frá þessu hefur algerlega verið horfið. Hér er aðeins tekið eitt lítið mál út úr. Það er aðeins verið að tala um það sem snýr að niðurgreiðslu af þeirri þjónustu sem sannanlega er niðurgreidd. Og ég tek það fram að í lögunum stendur mjög skýrum stöfum að fara skuli eftir því við ákvörðun verðlags, að það sé miðað við að fyrirtæki séu vel rekin og hafi þó einhvern ágóða. Þetta hefur ekkert með hitaveitur eða rafmagnsveitur að gera, einfaldlega vegna þess að hitaveitur og rafveitur sveitarfélaga hafa tekið lán ef tekjur standa ekki undir gjöldum. Hér er eingöngu um það að ræða ef sannanlega er verið að greiða niður úr sveitarsjóði, enda teljum við að ríkið eða verðlagsyfirvöld eigi ekki að hafa ráðstöfunarrétt yfir sveitarsjóðunum, en það gerist þegar farið er að eins og hefur gerst í þessum málum.

Varðandi ágreining borgarinnar annars vegar og verðlagsyfirvalda hins vegar skal það tekið fram að sá ágreiningur varð til vegna breytinga sem hæstv. viðskrh. gerði á lögunum á síðasta þingi. Þá kom upp sú staða, að í vissum tilvikum er einungis ætlunin að tilkynning berist verðlagsyfirvöldum en ekki umsókn um hækkun. Af því stafa þessi málaferli á milli Reykjavíkurborgar og verðlagsyfirvalda. Hér er aðeins tekið af skarið um þetta varðandi 2. gr. frv. Þetta er skýrt og einfalt. Pólitísk ákvörðun á auðvitað að vera hjá sveitarstjórnunum sjálfum. Ég trúi því ekki, að þeir menn, sem vilja sjálfstæð sveitarfélög og vilja að tekjustofnar sveitarfélaga séu beinlínis á hendi þeirra pólitískt kjörnu fulltrúa þar, leggist gegn þessu vegna þess að það sé ágreiningur um lagatúlkun á öðrum atriðum og málið sé fyrir dómstólum. Ef við ætlum ekki að semja lög um þau mál eða þau atriði sem eru fyrir dómstólum, þá getum við hætt miklum hluta af okkar iðju hérna, því að það er sýknt og heilagt verið að dæma eftir lögum og reyna að fá túlkun dómstóla á lögum sem við höfum samið og samþykkt að undanförnu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess að hv. Alþingi skilji að hér er prinsipmál á ferðinni og hér er enginn stuðningur við einn eða neinn. Hér er verið að taka af skarið og það hefur komið fram að bæði verðlagsstjóri og borgarstjóri eru hlynntir því að Alþingi taki af skarið í þessu máli.