10.11.1982
Efri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

74. mál, loftferðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Segja má að frv. þetta sé fylgifrv. með því sem við ræddum hér áðan, um stjórn flugmála. Nefnd sú sem ég skipaði og greindi frágerði tillögurum breytingu á lögum um loftferðir frá 1964.

Í 3. mgr. 141. gr. gildandi laga segir svo, með leyfi forseta: „Skylt er flugmálaráðh. að skipa nefnd kunnáttumanna til að kanna orsakir flugslysa, ef manntjón hefur orðið“. Lagt er til að í stað þessarar setningar komi það sem ég les nú, með leyfi forseta:

„Flugmálaráðh. skal skipa 5 kunnáttumenn til fjögurra ára í senn í rannsóknarnefnd flugslysa. Nefndin skal kanna orsakir flugslysa, ef manntjón hefur orðið eða legið hefur við slysi á mönnum eða miklu tjóni á munum. Nefndin skal einnig gera tillögur til úrbóta í öryggismálum flugsins.

Rannsóknarnefndin skal starfa sjálfstætt og óháð. Henni er heimilt að leita til flugmálastjórnar og lögreglu um aðstoð og upplýsingar eftir því sem tilefni gefst til“.

Ég sé ekki ástæðu til að lesa meira, en ég vildi lesa þessar tvær málsgr. Þar kemur fram, að með þessu frv. er ætlunin að gera ákvæði um nefnd sem kanni orsakir flugslysa miklu fyllri en nú eru. Einnig er tilgangurinn með þessu frv. að kveða á um að rannsóknarnefndin starfi sjálfstætt og óháð. Þar með er verið að vissu leyti að kveða á um að rannsóknarnefndin starfi óháð loftferðaeftirliti sem slíku. Að því hefur oft verið fundið, að loftferðaeftirlit og rannsókn flugslysa séu meira og minna undir einum og sama hatti þ.e. flugmálastjórn og því kunni í einstökum tilfellum að skapast viss hagsmunaárekstur, ef ég má orða það svo. Hér er leitast við að draga úr þeim möguleika.

Ég sé, út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv , en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.