11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2994 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

231. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson) (frh.):

Herra forseti. Ég var þar kominn máli mínu í sambandi við kröfur um hækkun á raforkuverði til álversins í Straumsvík að geta um hlut Framsfl. í sambandi við þau efni, en hann hefur ekki gengið síður hart fram undanfarnar vikur alveg sérstaklega í að gagnrýna mig fyrir það og bera sakir á hendur mér fyrir það að hafa ekki sótt nógu fast eftir leiðréttingu á raforkuverði til álversins í Straumsvík. Ég var búinn að fara yfir í nokkrum orðum hlut sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu og Alþfl. með því m.a. að vitna til þess leiðarljóss sem Alþfl. sá skærasta birtu bera á jólaföstu 1980 í þessum efnum almennt varðandi stefnu í orkumálum, þar sem var álverið í Straumsvík. En ég tel rétt í sambandi við málflutning framsóknarmanna að leiða hér til vitnis aðalritstjóra dagblaðsins Tímans í þessum efnum nú fyrir skömmu, þar sem hann ritar sunnudagshugvekju í málgagn sitt þann 27. febr, s.l. undir fyrirsögninni „Sök Hjörleifs“. Þar segir sá mæti maður, Þórarinn Þórarinsson, sem ég hefði viljað sjá í öðru hlutverki í málflutningi um þetta mál, því að hann hefur kunnað á stundum að taka sér penna í hönd og taka undir málstað með öðrum hætti þegar íslenskir hagsmunir eiga í hlut en í þessari tilvitnun, sem ég vil leyfa mér að koma með, hæstv. forseti:

„Æsiskrif Þjóðviljans um álmálið að undanförnu eru 100% viðurkenning á því, að Hjörleifur Guttormsson hefur haldið óhyggilega á málinu og stefnt því í fyllsta óefni. Í þau fjögur ár, sem hann hefur haft forustu í málinu, hefur ekkert áunnist til hækkunar á orkuverðinu, sem álhringurinn greiðir.

Vitanlega á það sinn þátt í þessu, að álhringurinn er ekkert lamb að leika við og hann hefur góðan stuðning í hinum misheppnaða samningi, sem viðreisnarstjórnin gerði við hann á sínum tíma. Til viðbótar hafa álhringnum svo borist upp í hendurnar hin klaufalegu vinnubrögð Hjörleifs Guttormssonar.

Klaufaskapur og óhyggindi Hjörleifs Guttormssonar hafa verið fólgin í því, að hann hefur fest sig eins og kræklingur við stein við deiluna um reikninga og skattamál fyrirtækisins. Hann hefur ekki séð neitt annað.

Að sjálfsögðu bar að kanna það mál og afla um það sem gleggstra upplýsinga. Það ber vissulega að virða.

Þetta mátti hins vegar ekki verða til þess, að sjálft aðalatriðið sama og gleymdist í meðferðinni hjá Hjörleifi, en það var að knýja á um hækkun raforkuverðsins. Það var kjarni málsins.

Deilan um reikningana og skattamálin átti fyrir löngu að vera gengin til dómstólanna, en viðræðurnar við álhringinn að snúast einkum um orkuverðið. Það er hin stóra sök Hjörleifs að hafa komið í veg fyrir slík vinnubrögð.

Þess vegna hefur orkuverðið haldist óbreytt og málið komist í sjálfheldu“. — Hv. alþm., takið eftir orðalagi aðalritstjóra Tímans: „Þess vegna hefur orkuverðið haldist óbreytt og málið komist í sjálfheldu, sem vel getur leitt til þess að grípa verður til einhliða aðgerða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Áður en til slíks kemur verður að reyna samningaleiðina til þrautar. Guðmundur G. Þórarinsson stefndi að því með till. sinni í álnefndinni, en Hjörleifur hafnaði henni. Steingrímur Hermannsson stefnir að hinu sama með till. þeirri, sem hann hefur flutt í ríkisstj. Það mundi draga úr sök Hjörleifs, ef hann hugsaði sig betur um og féllist á till. Steingríms Hermannssonar.“

Þetta segir hv. aðalritstjóri Tímans, Þórarinn Þórarinsson, í málgagni sínu þann 27. febr. s.l.

Þau eru einkar fróðleg þessi ummæli. Það er ekki auðhringurinn sem er sökudólgur í þessu máli. Það er ekki þangað sem á að beina geiri sínum, heldur að því stjórnvaldi sem leitast hefur við að bera fram kröfur íslenskra stjórnvalda, sem Framsfl. tók undir í ríkisstj. og átti þátt í að móta. Það er það stjórnvald sem er sökudólgurinn og tæpast sagt orð til að styggja ekki hinn æruprýdda auðhring, sem er þó sá aðili sem við þurfum að ná kröfum okkar fram gagnvart ef raforkuverð og önnur atriði í hinum fráleita samningi eiga að hreyfast. Ritstjórinn segir í lokin:

„Það mundi draga úr sök Hjörleifs ef hann hugsaði sig betur um og féllist á tillögu Steingríms Hermannssonar í ríkisstj.

Ég held að það sé nú ástæða til þess vegna þess að það er skorað á mig að fylgja þeirri till., að hún liggi fyrir í þinggögnum eins og hún var flutt á sínum tíma í ríkisstj. þann 3. febr. s.l. dags. 1. febr. 1983 — þessi tillaga sem svo var talað um í Tímanum þann 4. febr. að Steingrímur Hermannsson stefndi henni sérstaklega fram sem mótleik við tillögum Alþb. um einhliða aðgerðir, og Tíminn spurði: „Er ekki að sverfa til stáls í ríkisstj.?“ Það taldi hann vettvanginn til að láta sverfa til stáls.

Till. Steingríms Hermannssonar er svohljóðandi í þessu máli, ber yfirskriftina: „Tillaga um meðferð samninga við Alusuisse.“:

„1. Skipuð verði ráðherranefnd sem komi sér saman um meðferð málsins.

2. Skipuð verði álviðræðunefnd með einum fulltrúa frá hverjum flokki (fjórum), einum frá forsrh. og einum frá Landsvirkjun.

3. Deilumál um verð á súráli og rafskautum og skatta verði með samkomulagi sett í gerðardóm.

4. Lögð verði áhersla á hækkun á raforku nú þegar.“ Tíminn talar að vísu 4. febr. um þessa kröfu með því orðalagi: „Alusuisse hækki orkuverð eitthvað áður en samningaviðræður hefjast“, og mun hafa haft textann eins og hann lá fyrir 1. febr., en þar var fellt niður orðið „eitthvað“. En það er ekki skilyrði. Ég vek athygli á því hér, það er ekki skilyrði að náð verði fram hækkun raforkuverðs fyrir því að gengið verði til samninga og inn á önnur atriði sem þarna er að vikið, heldur aðeins lögð áhersla á hækkun raforkuverðs nú þegar.

„5. Viðræður hefjist án tafar.

6. Samþykkt verði stækkun álversins í tengslum við samkomulag um viðunandi hækkun á raforkuverði.

7. Fallist verði á að nýr hluthafi, sem við samþykkjum, komi inn í ÍSAL með 50% hlut.“

Þetta er sú tillaga sem „mundi draga úr sök Hjörleifs,“ ef ég hefði á hana fallist.

Ég þykist vita að menn kannist við þessa till. að verulegu leyti í þeirri þáltill. Eggerts Haukdals og fleiri úr atvmn. sem hér liggur fyrir til umr.

Ég hef þegar komið að vissum efnisþáttum þessa máls og mun þó víkja að þeim betur og skýra hvers vegna ég tel þessa till. Steingríms Hermannssonar, sem hann lagði fram í ríkisstj. á sínum tíma, jafnfráleita til að fallast á hana og þá till. Eggerts Haukdals, Halldórs Ásgrímssonar o.fl. úr atvmn. sem hér er til umr.

En ég er ekki aðeins borinn ásökunum af ritstjóra Tímans fyrir að hafa ekki tryggt hækkað orkuverð til álversins í Straumsvík, því að það á víst að vera í mínu valdi, eftir því sem Þórarinn Þórarinsson hagar orðum sínum, heldur kemur þetta fram víða í málgögnum Framsfl. T.d. ritar núverandi varaformaður flokksins, hv. 3. þm. Austurl. Halldór Ásgrímsson, í kjördæmismálgagn framsóknarmanna á Austurlandi 11. febr. s.l. leiðara undir yfirskriftinni „Rafmagnsverð“. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hjörleifur Guttormsson hlaut sérstakt traust Austfirðinga í kosningum 1978 og meiri stuðning en menn höfðu vanist um langt skeið. Hann hefur síðan þá verið iðnrh. í ríkisstjórnum sem Framsfl. hefur átt aðild að. Hann hefur unnið óhindrað að framgangi mála eftir því sem hann hefur talið heppilegast á hverjum tíma.“ — Takið eftir: „Hann hefur unnið óhindrað að framgangi mála eftir því sem hann hefur talið heppilegast á „hverjum tíma,“ sem sagt verið einfaldur og einráður. „Það eru því mikil vonbrigði að iðnrh. skuli ekki hafa tekist að hækka raforkuverð til álversins í Straumsvík verulega. Það leikur enginn vafi á því, að möguleikar til slíkra samninga voru miklir á árunum 1979–1980, þegar verð á áli var hagstætt í heiminum, en ráðh. virðist hafa haft einstakt lag á að klúðra þeim möguleikum.“

Tilvitnun lýkur, þótt gjarnan mætti lesa meira úr þessum leiðara rituðum af varaformanni Framsfl. þar sem álíka er haldið á máli og hér hefur komið fram.

Hér er verið að koma því inn hjá almenningi í fyrsta lagi, að ég hafi verið nánast einráður um meðferð iðnaðar- og orkumála á þessu tímabili. Það má auðvitað reyna að koma því inn hjá lesendum, sem ekki þekkja til starfa innan ríkisstj. og á hv. Alþingi, en mér finnst þetta heldur ómerkilegur málflutningur.

Því er jafnframt haldið fram og það á að vera mín sök, að ekki hafi verið knúið á um hækkun raforkuverðs 1979–1980. Ég spyr Halldór Ásgrímsson, hv. 3. þm. Austurl. að því: Hvar voru tillögur og ábendingar Framsfl. í þá átt á þeim árum? Hann er hér að taka upp sömu lummurnar og lesa má í þáltill. sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu á s.l. hausti einmitt um sama efni, þar sem hv. 6. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson ritar í grg. með þeirri þáltill. efnislega á þá leið að auðvitað hefði átt að sækja hækkað raforkuverð til álversins í Straumsvík og Alusuisse á árinu 1980, á þeim tíma sem sjálfstæðismenn ekki orðuðu að það þyrfti að ná fram leiðréttingu á orkuverði. En á þeim tíma hafði undirbúningur að því máli verið hafinn á vegum iðnrn. hins vegar. Það var ekki meiri áhersla lögð á þetta atriði hjá hv. sjálfstæðismönnum á þeim tíma og á árinu 1981, eins og lesa má í grg. með þáltill. þeirra, en að þeir töldu að leiða bæri skattamálin og deiluna þar að lútandi fyrst til lykta og síðan væri ástæða til að taka upp raforkuverð og annað fleira af því tagi. Það er í þennan kór sem hv. 3. þm. Austurl. er að slást og verða meðsöngvari í, að hlaupa aftur til ársins 1979 og 1980. Mér þætti ósköp gott ef hann benti á kröfur framsóknarmanna sem fram hafi verið bornar um þetta efni innan ríkisstj. eða hér á Alþingi. Ég kannast ekki við þær og minnist þeirra ekki. Ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að Framsfl. hafi ekki tekið undir kröfur um leiðréttingu á raforkuverði innan ríkisstj. eftir að ég bar fram tillögur þar að lútandi, og það ber að þakka svo langt sem það náði.

En aðalritstjóri Tímans vitnar sérstaklega í till. Guðmundar G. Þórarinssonar í álviðræðunefnd, sem ég hafði hafnað, og það er brot af þeirri „sök“ sem hann ber mér á brýn. Út á hvað gekk þessi till. Guðmundar G. Þórarinssonar, sem varð honum tilefni til þess að endasendast út úr álviðræðunefnd með mjög áhrifamiklum hætti? Jú, hún var um að það yrði reynt að fá fram 20% leiðréttingu á raforkuverðinu og fallast í leiðinni á gagnkröfur Alusuisse, ekki bara um stækkun álversins, ekki bara um nýja 50% hluthafa, heldur bar hann fram þessa kröfu sem úrslitaatriði þó að honum væri kunnugt um að aðaltalsmaður Alusuisse, dr. Müller, hafi borið fram kröfu um að lækkuð yrði kaupskylda álversins í Straumsvík úr 85%, eins og það nú er, niður í 50%, þ.e. að auðhringurinn gæti þegar honum þóknaðist dregið úr framleiðslu sinni um helming af framleiðslugetu, án þess að þurfa að borga nokkuð fyrir raforkuna. Samt sem áður skyldi ég fallast á þá till. sem Guðmundur G. Þórarinsson hafði verið að reyna að knýja fram þann 5. des. innan álviðræðunefndar.

Þetta er málflutningur í lagi. Fyrir þessum málflutningi stendur Framsfl. Honum er velkomið að bera mig sökum í þessu efni með þeim hætti sem fram kemur í málgögnum flokksins, en hann ætti að gæta sín á þeim málflutningi. Mér þykir satt að segja hörmulegt að sá aðili sem við höfum átt samstarf við í ríkisstj., Alþb.menn, og reynt að vera samstíga í þessu máli skuli bregðast þannig á úrslitastundu.

En það er ekki aðeins þessi söngur sem uppi er hafður í þessu máli. Þegar það liggur fyrir að raforkuverð til almenningsveitna í landinu hefur hækkað eins og raun ber vitni á undanförnum árum, um 800% undanfarin þrjú ár og stefnir í stórfellda hækkun á þessu ári til viðbótar hjá almenningsveitum, er verið að reyna að koma því inn hjá almenningi að þessar hækkanir, sem stjórn Landsvirkjunar telur nauðsynlegt að knýja fram og gerir samþykktir um eins og hún hefur heimildir til samkv. gildandi lögum, skrifi ég upp á, að ég standi fyrir þessum hækkunum á almenning. Ég vitna til leynipenna í Tímanum þann 5. mars s.l., það þarf ekki lengra að leita, leynipenna sem kallar sig Starkað, — hann er kannske hér einhvers staðar nærri, ég veit það ekki, — þar sem hann skrifar m.a. undir fyrirsögninni „Jöfnun raforkukostnaðar jafnréttis- og byggðamál.“ Það hefst þannig, herra forseti, með leyfi:

„Gífurlegar hækkanir á raforkuverði hafa komið mjög illa við marga landsmenn og þá sérstaklega þá, sem þurfa að hita upp hús sín með rafmagni. Hækkanir á raforkuverði þurfa ávallt að hljóta staðfestingu iðnrh. og hafa landsmenn ekki orðið varir við mikla fyrirstöðu þar, enda meira hugsað um skýrslugerð og pappírsflóð í rn. hans en skjótar og raunhæfar aðgerðir.“

Lengra þarf ekki að lesa í þennan texta. Það eru nú bærileg træði sem þarna eru fram borin. Og það er rétt að minna á að á sama tíma er reynt að staðhæfa að stjórn Landsvirkjunar þurfi að fá heimild frá iðnrn. og iðnrh. fyrir sinni gjaldskrá sem ekki hefur verið frá því um áramótin 1981–1982, þegar lagaheimildirnar féllu úr gildi sem gáfu iðnrn. færi á og kváðu á um að það skyldi um gjaldskrármál Landsvirkjunar fjalla, og þetta liggur fyrir, en á sama tíma er þessi söngur viðhafður í málgögnum Framsfl. út um allt land.

Hvernig haldið þið, hv. alþm., að Framsfl. hagi svo málum sínum á hv. Alþingi þegar ég með samþykki ríkisstj. leita eftir heimild til þess að málefni Landsvirkjunar og verðlagning á raforku hjá Landsvirkjun þurfi að hljóta staðfestingu iðnrn. og ríkisstj. fellst á tillögur um frv. þar að lútandi, sem ég lagði fram í Ed. fyrir nokkrum vikum og mælti þar fyrir? Þetta frv. fór til hv. iðnn. Ed. Alþingis og þar situr þetta frv. óafgreitt. Í umr. um málið gerðu hv. stjórnarandstæðingar, sjálfstæðismenn, nokkrar aths. við þetta frv., en það komu ekki efnislegar aths. frá stjórnarliðum. En síðan hefur það gerst að samkv. áskorunum og ég býst við flokkssamþykktum innan Framsfl. hefur formaður iðnn. Ed., hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, hv. 3. þm. Vesturl., ekki treyst sér til að afgreiða þetta frv. út úr nefnd, þrátt fyrir að ég hef margoft gengið á hans fund og óskað eftir að þetta mál fái þinglega meðferð og það verði afgreitt úr nefndinni. Nei, það hentaði ekki Framsfl. að lögfest verði slík atriði hér, sem geri iðnrh. kleift að taka á gjaldskrármálum Landsvirkjunar á svipaðan hátt og annarra orkuveitna í landinu, til þess að þeir geti haft uppi þennan söng, sem ég vitnaði til áðan, þ.e. að það væri sérstakt áhugamál mitt að láta hækkanir Landsvirkjunar dynja á almenningi í landinu. Þarna er svo ómerkilega að verki verið að með fádæmum verður að teljast. Það er þessi málstaður sem talsmenn Framsfl. virðast vera að verja, — málstaður af því tagi að geta haldið uppi ásökunum í Tímanum og landsmálgögnum Framsfl. um að ég skrifi upp á allar hækkanir stjórnar Landsvirkjunar. Á sama tíma sitja framsóknarmenn á stjfrv. um að gjaldskrármál Landsvirkjunar heyri undir iðnrn. eins og gjaldskrármál annarra orkufyrirtækja og neita um afgreiðslu á því þingmáli út úr nefnd. Ég held að það væri full ástæða til þess að menn átti sig á vinnubrögðum af þessu tagi.

Þetta var svolítið um þátt Framsfl. í sambandi við raforkuverðsmálin og mætti þar þó mjög mörgu við bæta. En það sem ég hef rakið hér, herra forseti, varðandi þann áróður og sakir, sem á mig eru bornar, að hafa legið á liði mínu við að leita eftir hækkun raforkuverðs og leiðréttingu á raforkuverði til álversins í Straumsvík og þess í stað fengist fyrst og fremst við að rannsaka skattamál fyrirtækisins og þann dulda hagnað, sem nú hefur verið leiddur fram og öllum er ljós, er mjög lýsandi fyrir málstað þeirra manna sem nú hafa sameinast undir forustu Eggerts Haukdals í atvmn. Sþ. og gera það að till. sinni og höfuðkappsmáli að málefni álversins í Straumsvík, samskiptin við Alusuisse, verði tekin úr mínum höndum, eins og er vinnuheitið á þeirri atlögu sem hér er staðið fyrir. Það er full ástæða til að líta aðeins nánar á bakgrunn þessa stóra máls, sem hér er um að ræða; vegna þess að nauðsynlegt er að menn átti sig á samhenginu, samhengi þess sem nú er að gerast og þess sem gerst hefur í fortíðinni. Menn þurfa að átta sig á hver hefur verið gangur þessara mála í samskiptum Íslendinga við Alusuisse á liðinni tíð og skyldleikanum með ýmsu því sem nú er fram borið og því sem gerst hefur í fortíðinni. Við þurfum að læra á þeirri sögu og þess vegna vil ég leyfa mér, herra forseti, að rifja hér upp nokkra þætti þar að lútandi vegna þess að þeir varða kjarna þessa máls.

Fyrstu athuganir í sambandi við álframleiðslu hér á landi voru gerðar á áratugnum milli 1950 og 1960. Athuganir viðvíkjandi byggingu álverksmiðju hérlendis í tengslum við ný orkuver voru gerðar 1950–1953, en þá komu hingað til lands breskir aðilar, Kanadamenn og Svisslendingar til að kynna sér aðstæður varðandi raforkuframleiðslu og hafnarmöguleika hérlendis með tilliti til hugsanlegra framkvæmda í áliðnaði. Á árunum 1956–1958 áttu sér stað viðræður við bandarísk álfyrirtæki um slíka byggingu, en það er fyrst eftir 1959 sem skriður kemst á það mál.

Á samnorrænni ráðstefnu iðnrekenda á Íslandi sumarið 1960 var mikið rætt um stóriðjumöguleika landsins. Haustið 1960 hafði svissneska fyrirtækið Alusuisse leitað eftir möguleikum um álvinnslu á Íslandi. Þann 5. maí 1961 skipaði þáv. iðnrh. Bjarni Benediktsson stóriðjunefnd, sem svo var kölluð, undir formennsku Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra. Verkefni nefndarinnar var skýrt afmarkað að kanna möguleika á álvinnslu á Íslandi. Þegar þá um sumarið hóf nefnd þessi viðræður við Alusuisse. Frá upphafi voru sérfræðingar frá norskum fyrirtækjum þessari stóriðjunefnd til ráðgjafar og Alþjóðabankinn var látinn fylgjast með áætlunum í virkjunarmálum allt frá árinu 1961 að telja.

Herra forseti. Ég vek athygli á að hv. formaður atvmn. Sþ., hv. 6. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, er ekki nærstaddur í salnum og ég sé ekki heldur hilla undir hv. frummælanda þessa máls, hv. 10. þm. Reykv., né heldur hv. 3. þm. Austurl. Halldór Ásgrímsson, sem er einn af meðreiðarsveinum Eggerts Haukdals á þeirri þáltill. sem hér er til umr. Hv. 9. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson er ekki heldur sjáanlegur í þingsal, leiðarstjarna Alþfl. í komandi alþingiskosningum, og aðrir flm. sjást hér ekki heldur, þar á meðal hv. 5. þm. Vestf. Ég tel lágmark, herra forseti, að þessir menn séu viðstaddir þessa umr. og óska eindregið eftir því að þeir verði tilkvaddir. Mér finnst ekki forsvaranlegt að halda þessari umr. áfram að þeim fjarstöddum, óska eftir að þeir verði sóttir eða ráðstafanir gerðar til þess að þeir komi hingað. (Forseti: Ég skal láta kanna það.) Ég geri hlé á máli mínu, herra forseti, á meðan.

Herra forseti. Aðeins hefur úr ræst þar sem hv. 10. þm. Reykv., varaformaður Sjálfstfl., er genginn í salinn, en ekki hillir undir hv. formann atvmn. Sþ., hv. þm. Eggert Haukdal. Ég teldi vel við hæfi að hann sem formaður þess meiri hl. atvmn. sem um er að ræða sé viðstaddur umr. og óska eftir því að reynt verði að fá hann hingað. Ég tel það nánast lágmark, fyrst verið er að halda þessari umr. áfram á kvöldmatartíma, að þeir sjái sér kleift að vera viðstaddir. En ég held nú áfram máli mínu í von um að úr rætist með þessa aðila. — Og ekki sakaði nú þótt leiðarljós Alþfl. í orkumálum, hv. 9. þm. Reykv., bættist við í hópinn, þannig að þarna væri forustan í þessu liði, svo og varaformaður Framsfl., hv. 3. þm. Austurl., sem var hér fyrir skemmstu, þannig að það væri þó einn fulltrúi frá hverjum flokki, sem á sæti í atvmn., fyrir utan sjálfan formann n. og aðalmann fyrir þessu liði, sjálfan hv. 6. þm. Suðurl. Eggert Haukdal.

Auk Alusuisse átti stóriðjunefnd viðræður við ýmis fleiri fjölþjóðafyrirtæki í áliðnaði, einkum við franska fyrirtækið Pechiney. Veturinn 1961–1962 áttu sér stað viðræður bæði við Alusuisse og Pechiney, því fyrrnefnda til lítillar ánægju, en það vildi sitja eitt að samningaviðræðum við Íslendinga, þ.e. Alusuisse. Alusuisse bauð í upphafi lágt rafmagnsverð eða 2 mill á kwst. og vildi reisa hér litla álverksmiðju með samningi til fremur skamms tíma. Pechiney bauð hærra orkuverð og vildi reisa stærri álbræðslu en Alusuisse, en Pechiney vildi samning til mjög langs tíma og gerði kröfu um eignaraðild íslenska ríkisins í fyrirtækinu. Eftir tiltölulega skamman tíma slitnuðu viðræður við Pechiney. Eftir það gerði Alusuisse svipaðar kröfur um tímalengd samninga og Pechiney hafði gert.

Á seinni stigum viðræðna við Alusuisse kom fyrirtækið með nýjar kröfur. Það er reyndar ein höfuðsamningatækni Alusuisse að bæta við í sína kröfugerð þegar á líður samningaviðræður. Þeir gerðu þarna nýjar kröfur, einkum viðvíkjandi sérstöðu hins fyrirhugaða dótturfyrirtækis á Íslandi í skatta- og lögsögumálum. Það er athyglisvert að í fyrstu drögum frá Alusuisse að rafmagnssamningi, sem sett voru fram árið 1961 við íslenska ríkið, var að finna ákvæði um gagnkvæman rétt til að krefjast endurskoðunar á samningum ef aðstæður gerbreyttust. Eftir skýrslum stóriðjunefndar að dæma virðist nefndin litla áherslu hafa lagt á að hafa þetta ákvæði með í endanlegri samningagerð, þar sem hvergi var í skýrslum hennar vikið að réttindum til endurskoðunar samninga og þau réttindi fengust ekki heldur inn þegar samningurinn var endurskoðaður 1975, því miður, og er því ekki slík ákvæði að finna í gildandi samningum við Alusuisse.

Sú forsenda kom greinilega fram í starfi stóriðjunefndar, að ef Íslendingar virkjuðu ekki vatnsorku sína sem skjótast og kæmu sér sem fyrst upp álbræðslu misstu þeir af bátnum vegna tilkomu nýrra ódýrra orkugjafa. Einnig virðist hafa verið ríkjandi sú skoðun að hörð samkeppni ríkti meðal þjóða heims um að fá alþjóðafyrirtæki í áliðnaði til að fjárfesta í löndum sínum. Fyrirtæki gætu hér augsýnilega valið og hafnað eftir vild sinni. Þessi sjónarmið komu greinilega fram í „Skýrslu stóriðjunefndar til ríkisstj. um aluminiumverksmiðju og stórvirkjun,“ eins og fyrirsögn skýrslunnar var, en hún er dags. 14. nóv. 1964. Viðsemjandi Íslands var augsýnilega sammála þessari skilgreiningu. En samkv. áðurgreindri skýrslu lagði Alusuisse frá upphafi á það áherslu, að eina ástæðan fyrir áhuga fyrirtækisins á að byggja álverksmiðju á Íslandi væri lágt raforkuverð. Eitt af því sem gerði stöðu Ístands sem stóriðjulands nokkuð erfiða var sú staðreynd, að það stóð utan við EFTA og Efnahagsbandalagið og því þyrfti að greiða háa tolla af áli sem framleitt væri á Íslandi. Lýstu forráðamenn Alusuisse sig fúsa á árinu 1964 til þess að ákvæði yrðu í samningum sem gerðu ráð fyrir hækkun raforkuverðs ef Íslendingar fengju tollfrjálsan aðgang að þessum mörkuðum. Ég bið ykkur, hv. alþm., að taka eftir þessu, að talsmenn Alusuisse lýsa sig á árinu 1964 fúsa til að hafa inni í samningum ákvæði þess efnis, að ef Íslendingar fengju tollfrjálsan aðgang að mörkuðum innan Efnahagsbandalagsins og Fríverslunarsamtakanna EFTA yrði ráð fyrir því gert í sambandi við raforkuverð. Þegar samningarnir voru hins vegar undirritaðir vorið 1966 voru engin slík ákvæði í þeim samningum.

Í samningaviðræðunum neitaði Alusuisse lengi að hvika frá upphaflegu rafmagnsverðstilboði sínu um 2 mill á kwst. Samtímis taldi Alþjóðabankinn, sem var fyrirhugaður lánardrottinn Íslendinga vegna Búrfellsvirkjunar, að lágmarkstekjur vegna virkjunarinnar frá fyrirhugaðri álbræðslu ættu að vera 3.7 mill á kwst. Í árslok 1964 samþykkti Alusuisse hækkun í 2.5 mill á kwst. gegn því skilyrði að framleiðsla bræðslunnar yrði 60 þús. tonn árlega í stað 30 þús. tonna, eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Fulltrúar Alþjóðabankans töldu þetta samt vera of lágt verð. Því varð útkoman sú, að verðið var ákveðið 3 mill á kwst. fram til 1. okt. 1975, en þá skyldi það lækka í 2.5 mill á kwst. Í staðinn var framleiðslugjald það sem upphaflega var ákveðið 20 dollarar á hvert tonn lækkað fram til 1. okt. 1975 í 12.5 dollara á hvert tonn. Hækkun rafmagnsverðsins og lækkun skattsins voru taldar vega hvor aðra upp þannig að arðsemisútreikningar virkjunarinnar miðuðust áfram við 2.5 mill á kwst. Þetta var því miður ekki í síðasta sinn sem skipt var með þeim hætti á tekjum til íslenska ríkisins, til ríkissjóðs, og tekjum af raforkuverði til Landsvirkjunar og fært þannig á milli vasa hjá íslenskum aðilum.

Samhliða undirbúningi að byggingu Búrfellsvirkjunar og álbræðslunnar í Straumsvík voru orkumál hérlendis endurskipulögð með stofnun Landsvirkjunar árið 1965. Aðalástæðan fyrir þessari endurskipulagningu orkumála var vilji til að auka hagkvæmni væntanlegra nýrra virkjana á Þjórsársvæðinu með því að láta Landsvirkjun í upphafi fá í hendur rafmagnsstöðvar sem þegar voru að mjög miklu leyti afskrifaðar. Þessi endurskipulagning var skilyrði af hálfu Alþjóðabankans fyrir lánveitingum vegna Þjórsárvirkjana, sem svo voru kallaðar. Jafnframt var bankanum lofað að rafmagnsverð til almennra neytenda yrði hækkað þegar á árunum 1964–1967 til að auka arðsemi Landsvirkjunar í framtíðinni. Á árinu 1964 var gert ráð fyrir 10% hærra raforkuverði í heildsölu fram til ársins 1968 en ráð var fyrir gert áður og nýrri hækkun var lofað árið 1966 frá og með 1. jan. 1967.

Í lögum um Landsvirkjun nr. 59 þann 29. maí 1965 eru ákvæði um verðlagningu orku, sem voru nýmæli á þeim tíma er frv. til landsvirkjunarlaga var lagt fram á Alþingi 1965. Í frv. til l. um Landsvirkjun var að finna sérákvæði í 2. mgr. 11. gr. um sölu á raforku til orkufreks iðnaðar samkv. sérstökum orkusölusamningum til langs tíma, sem ekki falla undir gjaldskrá Landsvirkjunar, og er ákvæðið svohljóðandi: „Landsvirkjun gerir orkusölusamninga við rafmagnsveitur ríkisins, héraðsrafmagnsveitur og iðjuver, innan þeirra marka sem segir í 2. gr. Til orkusölusamninga til langs tíma við iðjufyrirtæki, sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess, er fer með raforkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðh. valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið.“

Vegna þeirra nýmæla, sem fram komu í ákvæði þessu, urðu allmiklar umr. hér á hv. Alþingi á þeim tíma, vegna þess að sumir alþm. þóttust sjá að almenna ákvæðið mundi verða til þess að raforkuverð til almennings hækkaði verulega ef leggja ætti til hliðar verulegt fjármagn til að fjármagna næstu stórvirkjun að verulegum hluta. Þá vildu einnig sumir alþm. á þeim tíma að Alþingi eitt samþykkti samninga þá, sem um var fjallað í sérákvæðinu, um sölu á raforku til orkufreks iðnaðar.

Þegar frv. var til meðferðar á Alþingi í maí 1965 hafði ríkisstj. þá þegar lagt fram skýrslu um viðræður við Swiss Aluminium Ltd., þ.e. Alusuisse, um fyrirhugaða álbræðslu og kom fram að stefnt mundi að samningi um 60–65 þús. tonna álbræðslu, sem mundi greiða 2.5 mill á kwst. fyrir raforkuna í 25 ár með þeim frávikum að verðið yrði 3 mill á kwst. fyrstu árin og yrðu skattar til ríkissjóðs lægri sem því næmi á sama tímabili. Þá var og vitað að gert væri ráð fyrir mjög takmarkaðri endurskoðun raforkuverðsins til álbræðslunnar að loknum fyrstu 15 árum samningstímans. Þótti augljóst að sérákvæðinu í 11. gr. væri ætlað að ná til fyrirhugaðs samnings við Alusuisse um orkusölu og vildu sumir þm. tryggja að slíkir samningar yrðu lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar. Ráðherra raforkumála lýsti því yfir í umr. um frv. að samningur um orkusölu til svissneska félagsins yrði lagður fyrir Alþingi til staðfestingar, til afgreiðslu þar.

Það mun einkum hafa verið tilefni óska um þá breytingu á 2. mgr. 11. gr. að Alþingi staðfesti orkusölusamninga við orkufrek iðnfyrirtæki að þegar höfðu heyrst þær gagnrýnisraddir að fyrirhugað rafmagnsverð til bræðslunnar, 3 mill á kwst. og síðar 2.5, væri of lágt og jafnvel lægra en kostnaðarverð framleiðslu orkunnar. Væri því ekkert til að mæta breyttum forsendum svo sem því, að fjárfestingarkostnaður Búrfellsvirkjunar yrði hærri en áætlað var eða framleiðslukostnaður framtíðarinnar. Þá var og á það bent að í heimildarákvæðinu um virkjun við Búrfell í frv. til landsvirkjunarlaga var lagt til að felld yrðu niður öll aðflutningsgjöld á fjárfestingarvörum til virkjunarinnar, en það var nýmæli og var ætlað að gera það kleift að halda verði til álbræðslunnar í lágmarki. Þessi niðurfelling leiddi að sjálfsögðu til samsvarandi tekjutaps ríkissjóðs. Framangreind ákvæði voru hins vegar samþykkt óbreytt á Alþingi og eru óbreytt enn.

Áður en til þeirrar samþykktar kom var fjallað um þessi mál í stjórn Landsvirkjunar og ég tel, herra forseti, rétt að minna á það hér að í þáverandi stjórn Landsvirkjunar voru ekki allir á einu máli um þessi efni. Hinn virti verkfræðingur, Sigurður Thoroddsen, sem þá var fulltrúi Alþb. í stjórn Landsvirkjunar skilaði sérstakri greinargerð með atkv. sínu í stjórn Landsvirkjunar á þeim tíma, greinargerð með atkv. í atkvgr. á fundi stjórnar Landsvirkjunar, sem fram fór þann 24. mars 1966. Það er sannarlega fróðlegt að kynna sér þessa greinargerð Sigurðar Thoroddsens frá þessum tíma og væri ástæða til að festa hana alla í þingtíðindum. En ég ætla ekki tímans vegna að fara að lesa hana í heild sinni, heldur aðeins, herra forseti, vitna til þess sem segir um rafmagnsverðið sérstaklega. (Forseti: Það hefur verið mælst til að hafa matarhlé nú í hálftíma. Er hæstv. ráðh. langt kominn með ræðu sína?) Herra forseti. Það er ekki mjög langt síðan ég byrjaði að gera grein fyrir málum sem sneru að viðhorfi Framsfl. til þessara mála og ég er nýbyrjaður að gera grein fyrir þróun þess sem er undirstaðan í því máli sem hér er verið að flytja varðandi raforkuverð, þannig að ég á þó nokkuð eftir af máli mínu. (Forseti: Mundi þá hæstv. ráðh. ekki vilja fresta máli sínu í hálftíma?) Það er velkomið og þó að lengur væri, því að ég er vel undir vökuna búinn. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var staddur þar í ræðu minni, þegar hlé var gert til kvöldverðar, að vitna til grg. sem Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, stjórnarmaður í Landsvirkjun um skeið fyrir Alþb., gerði með atkv. sínu þann 24. mars 1966 í stjórn Landsvirkjunar. Ég tel mikilsvert að hér liggi fyrir hvað hann hafði að segja um rafmagnsverðið sérstaklega, þó að öll sé grg. hin fróðlegasta. Þar segir um 13., 14. og 15. gr. undir fyrirsögninni rafmagnsverð:

„Áður var á það minnst að ég taldi rafmagnsverðið 10.75 aura ekki hagkvæmt, hvorki borið saman við það verð sem Alusuisse greiðir í Noregi né fyrir virkjunina sjálfa. Eins og þar var gefið í skyn má búast við að verðið verði undir vinnslukostnaði, og hafa það aldrei þótt hagkvæm viðskipti að selja vöru undir kostnaðarverði. Að selja á föstu verði byggðu á áætlunum, sem e.t.v. standast ekki fyllilega, er áhætta, sem ég mundi ekki taka á mig fyrir mína parta, og get því ekki samþykkt að landsvirkjunarstjórn geri það. Að binda sig við þetta fasta verð næstu 15 árin eru því hörmuleg mistök að mínu viti. Ekkert tillit er tekið til verðsveiflna á þessu tímabili. Ekki er tekið tillit til þess að kaupgjald og kostnaður hækka. Trúað er á hinn ameríska dollar, en þó er vitað að verðgildi hans rýrnar ár frá ári. En ekkert tillit er til þess tekið. (Grípið fram í: Hver er hann á s.l. ári?) Eftir 15 ár má endurskoða verðið og síðan á 5 ára fresti. Síðan 1957 — [Þetta var nú óveruleg endurskoðunarheimild sem þarna var og betur hefði verið að hefði verið í reynd.] Síðan 1957 hefur verð á Sogsrafmagni verið hækkað fimm sinnum og talað er um hækkun síðar á þessu ári. Það hefur þó þótt henta að hækka það á tæplega tveggja ára fresti en hér skal beðið í 15 ár fyrst og síðan í 5 ár í hvert skipti.

Hækkunin sem fæst miðar við breytilegan kostnað, sem tekur til raunverulegra vinnulauna og viðhaldskostnaðar Búrfellsvirkjunar reiknað sem hlutfall milli þessa kostnaðar þrjú fyrstu rekstursár verksmiðjunnar, þegar reksturskostnaður verður mikill vegna þeirra vandamála sem við verður að etja, t.d. vegna ísvandans, og sama kostnaðar á 12.–14. ári Straumsverksmiðjunnar, en þau árin verður kostnaðurinn væntanlega hlutfallslega minni, því að þá verða óhjákvæmilega tilkomnar aðgerðir, sem a.m.k. draga úr ísvandanum. Það verð sem þá fæst skal síðan greiðast fyrir orkuna næstu 5 árin á hverju sem veltur, en þá má endurskoða að nýju eftir sömu reglu og svo koll af kolli út samningstímabilið 45 ár. Auk þess er viðmiðun við hækkun á raforkuverði við systurbræðslu í Noregi og heimsmarkaðsverð á alumin. Að því er tekur til hækkunar raforkuverðsins verður því ekki annað sagt en að útreikningar á hækkuninni eru allir „Íslenska álfélaginu“ í vil og óaðgengilegir fyrir Landsvirkjunarstjórn.

Eitt atriði er vert að minna á í þessu sambandi. Með samningunum er „Álfélaginu“ afhent mikið af ódýrri orku um langan tíma, sem íslenskur almenningur gæti annars orðið aðnjótandi, svo flýta verður virkjunum fyrir bragðið. Fróðlegt er að bera saman verð Landsvirkjunar til hins almenna íslenska notanda, sem verður 30 aurar á einni kwst. samkv. áætlun 6. febr. 1966, afgangsorku sleppt. 25. gr. Lög þau sem farið skal eftir. Hér kemur fram vantraust á íslenskum dómstólum, sem sýnd er óviðeigandi óvirðing, og get ég ekki fellt mig við niðurlag greinarinnar, þar sem segir: „sem við kunna að eiga, þar á meðal grundvallarreglum laga, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum“. Hér ætti t.d. að segja: “Sem við kunna að eiga samkv. íslenskum réttarvenjum.“

Um 26. gr., deilur og gerð, segir Sigurður Thoroddsen að lokum: „Ekki verður óvirðingin fyrir íslenskum dómstólum minni með þessari grein. Hér skal skjóta deilu milli tveggja íslenskra aðila til útlends dómstóls. „Hið íslenska álfélag“ nýtur allra réttinda íslenskra aðila og langt fram yfir það. Meðan allt fellur í lyndi er það ,.íslenskt“, en ef upp rís deila, þá er „Hið íslenska álfélag“ allt í einu orðinn útlendur aðili og þarf ekki að hlíta íslenskri lögsögu. Slík firra og lítilsvirðing er ekki sæmandi.

Með tilvísun til framanskráðs greiði ég atkv. gegn tillögunni.

Reykjavík, 24. mars 1966.

Sigurður Thoroddsen.“

Þessi orð Sigurðar Thoroddsens má gjarnan rifja upp við þessa umr. Það hefði farið betur að fleiri aðilar í stjórn Landsvirkjunar, svo að ekki sé talað um hér á hv. Alþingi, hefðu gert hans sjónarmið að sínum á þessum tíma. Voru þá þessir samningar, þegar þeir voru gerðir á þessu ári, 1966, ekki jafnhörmulegir fyrir hag okkar þjóðar og þeir eru orðnir á þeim tíma sem síðan er liðinn.

En áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp nokkur atriði í umr. hér á hv. Alþingi um álbræðslusamningana 1966. Um það mál urðu miklar umr. hér á þinginu og tók prentun þeirra ræðna, sem haldnar voru, um 600 dálka í ræðuparti Alþingistíðinda. Mörg þau rök, bæði með og móti samningum, hafa oft komið fram síðar, en önnur ekki. Sérstök ástæða er til að nefna eftirfarandi:

1. Bæði stuðningsmenn og andstæðingar samningsins óttuðust hugsanleg áhrif Alusuisse á Ísland, t.d. í sambandi við stjórnmál, fjölmiðla og vinnudeilur. Vegna síðastnefnda atriðisins kom Alþfl. því til leiðar — hann var þá aðili að ríkisstjórn — að ÍSAL var bannað að ganga í samtök íslenskra atvinnurekenda.

2. Forsrh. þáv., Bjarni Benediktsson, og dómsmrh. og iðnrh., Jóhann Hafstein, lögðu báðir á það áherslu í alþingisumræðunum að réttur Íslendinga til eignarnáms ÍSALs væri ótvíræður ef þjóðarhagur krefðist þess. Ekkert atriði aðalsamningsins gæti hindrað slíkt.

Ég vona að hv. 10. þm. Reykv. varaformaður Sjálfstfl., hafi tekið eftir þessu atriði sem til var vitnað. Þáv. forsrh. Bjarni Benediktsson og þáv. dóms- og iðnrh. Jóhann Hafstein lögðu báðir á það áherslu í alþingisumræðunum að réttur Íslendinga til eignarnáms ÍSALs væri ótvíræður ef þjóðarhagur krefðist þess. (Gripið fram í.)

3. Mikil bjartsýni ríkti meðal stuðningsmanna álsamningsins svokallaða um að nýiðnaður risi í skjóli álbræðslunnar. Við erum nú reynslunni ríkari um það efni. Andstæðum sjónarmiðum um álsamninginn 1966 er vel lýst með eftirfarandi tveimur tilvitnunum. Í áliti meiri hl. álbræðslunefndar, sem dags. var 28. apríl 1966, sagði m.a.:

„Hinar frjálsu þjóðir heims gera sér ljóst, hver þörf er á alþjóðlegri samvinnu um efnahagslegar framfarir og hvern þátt alþjóðleg einkafjárfesting getur átt í bættum lífskjörum þjóða. Alþjóðleg samvinna, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst fólgin í því, að lönd, sem hafa fjármagn aflögu, láta það öðrum löndum í té til uppbyggingar á arðvænlegum atvinnuvegum viðkomandi lands, m.a. í formi fjárfestingar í viðkomandi landi.“

Tilvitnun lýkur í þetta álit meiri hl. þáv. svokallaðrar álbræðslunefndar.

Nú er lakara að hv. varaformaður Framsfl. er ekki hér nærri í þingsat til þess að hlýða á. (Gripið fram í.) Nú, hann er þarna. Þáv. formaður Framsfl. Eysteinn Jónsson var meðal ákveðnustu andstæðinga samningsins og sagði eftirfarandi í þingræðu um tvö mikilvæg atriði viðvíkjandi erlendri fjárfestingu, um útflutning, gróða og afskriftir:

„Þetta jafngildir því, að verksmiðjan flyst út úr landinu aftur jafnóðum og hún slitnar, en einmitt gróðinn og afskriftaféð í íslenskum fyrirtækjum er aðalgrundvöllur að uppbyggingu atvinnulífs í landinu sjálfu. Hvernig færi í þjóðarbúskapnum, ef þessir liðir féllu niður og mikill hluti af atvinnurekstrinum væri þannig að hann borgaði bara laun og þjónustu og ekkert annað?“

Þessi orð mættu ýmsir hv. framsóknarþm. hér á Alþingi rifja upp. Þau eru í góðu gildi. Og fleiri eru þeir sem þyrftu að taka þau til sín. Ég minni hér á orð hv. 4. þm. Austurl., sem féllu við upphaf umr. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, þar sem hann hvatti til þess að veðja á erlenda hesta í sambandi við fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.

Í nánu samhengi við réttlætingu þess að flytja inn erlent fjármagn voru röksemdirnar fyrir innflutningi tæknilegrar þekkingar. Það var einnig forsrh., Bjarni Benediktsson, sem sérstaklega lagði áherslu á þetta atriði. Hann nefndi Noreg í þessu sambandi, þar sem álitið væri að innflutningur tæknilegrar þekkingar hefði verið jákvæðasti þátturinn við erlenda fjárfestingu þar í landi. Þekkingin var að dómi hans mikilvægasta forsenda efnahagslegra framfara. Röksemdum Bjarna Benediktssonar forsrh. um innflutning tæknilegrar þekkingar var lítið svarað af andstæðingum álfrv. annað en þeir töldu að slíkt gæti gerst án erlendrar fjárfestingar.

Bæði stigsmunur og blæbrigðamunur var á afstöðu andstæðinga álfrv. vorið 1966. Þeim tókst ekki að sameinast um eitt álit gegn frv., en andstöðuflokkunum tveimur, Alþb. og Framsfl., tókst þó hvorum um sig að sameinast um álit. Munurinn á heildarafstöðu þessara tveggja flokka til erlendrar stóriðju kemur skýrt fram í eftirfarandi atriðum úr nál. flokkanna:

„Framsfl. er ekki endilega á móti beinni þátttöku erlends fjármagns í íslensku atvinnulífi, en slík fyrirtæki yrðu að öllu leyti að lúta íslenskum lögum.“

Þetta var tilvitnun í nál. þeirra framsóknarmanna. Alþb.-menn sögðu í nál.:

„Við Alþb.-menn erum ekki andvígir stóriðju, en við viljum að stóriðja á Íslandi verði íslensk stóriðja, eign landsmanna sjálfra.“

Innan Alþb. var ríkjandi andstaða gegn allri erlendri fjárfestingu á Íslandi. Þetta kom skýrt fram í afstöðu þáv. 3. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, í alþingisumr. um álfrv. vorið 1966. Hann ræddi um nýlendustefnu í þessu sambandi og taldi að álsamningurinn væri eitt skrefið í þá átt að gera Ísland að efnahagslegri nýlendu, alþjóðlegir auðhringir reyndu að ná sem sterkastri stöðu í efnahagslífi þjóða og leituðust við að etja einu landi á móti öðru. Orðrétt sagði Einar Olgeirsson í einni af sínum ræðum:

„Þessum svissneska hring hefur tekist með aðstoð þessara sérfræðinga [þ.e. í stóriðjunefnd] að etja íslenskum stjórnarvöldum út í það að bjóða rafmagn niður fyrir alla aðra.“

Þm. taldi einnig að Alusuisse fengi mjög sterk ítök í íslensku þjóðlífi, ekki aðeins efnahagslega heldur líka félagslega og stjórnmálalega. Það er vert að minnast þess í ljósi reynslu nýliðinna ára. Í skjóli fjölþjóðafyrirtækisins fengju Íslendingar, að mati Einar Olgeirssonar, fámenna útsenda sérréttindastétt, eins konar aluminiumbaróna eins og hann orðaði það. Skyldu menn minnast einhverra slíkra í dag? Og hann sagði að þar sem forsrh. hefði nefnt eignarnám ÍSALs sem fræðilegan möguleika væri gefið „að svona stórt fyrirtæki byrjar að setja sig í varnarstellingar í upphafi vega og byrjar að skapa sér einn varnarvegg í íslenskum stjórnmálum, í íslenskum blöðum og í íslenskum flokkum.“

Þm. setti fram kröfu um að sett yrðu ákvæði í samninginn við Alusuisse sem bönnuðu fyrirtækjum öll afskipti af íslenskum stjórnmálum.

5. þm. Vesturl. Benedikt Gröndal sagði að hv. þm. Einar Olgeirsson hefði flutt hér það sem hann kallaði gamlar pólitískar kenningar, sem séu úreltar, og hann sagði:

„Jafnvel ríki með frumstæðum menningarþjóðum hafa það vald yfir landi sínu og því sem þar gerist að þau hafi í fullu tré við erlend félög.“

Alusuisse gerði í upphafi kröfu um að hugsanleg deilumál fyrirtækisins og íslenska ríkisins yrðu leyst fyrir alþjóðlegum gerðardómi, eins og það var orðað, eftir grundvallarreglum íslenskra og svissneskra laga að svo miklu leyti sem þau væru sameiginleg, en ef þau væru það ekki, þá eftir alþjóðalögum, eins og það var orðað. Fram kom í alþingisumr. í apríl 1966 að Íslendingarnir sem stóðu í samningunum við Alusuisse voru í upphafi almennt á móti alþjóðlegum gerðardómi og einkum og sér í lagi að þar ættu svissnesk lög að vera jafngild þeim íslensku. Að mati íslensku samningamannanna var eðlilegast að aðeins íslensk lög og íslenskir dómstólar færu með alla lögsögn í málum Alusuisse hér á landi. Íslensku samningamennirnir urðu samt að lúta vilja Alusuisse í þessum efnum eða gerðu það í reynd.

Ágreiningsmál ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse skyldu sett í alþjóðlegan gerðardóm, ef annar aðili óskar þess, samkv. 47. gr. aðalsamningsins frá 1966, en á móti sleppti Alusuisse kröfunni um að svissnesk lög ættu að gilda í deilum fyrirtækisins við íslensk stjórnvöld og var ákveðið að fylgt skyldi íslenskum lögum og þeim reglum þjóðaréttar, sem við kunna að eiga, þ. á m. þeim grundvallarreglum laga sem almennt eru viðurkenndar með siðmenntuðum þjóðum, eins og það er orðað í 45. gr. aðalsamningsins frá 1966.

Í alþingisumr. um álbræðsluna í apríl 1966 var það gerðardómsákvæðið, sem mest fór fyrir brjóstið á andstæðingum samningsins. Raunar var einnig ljóst að fylgismenn samningsins voru síður en svo hrifnir af þessu atriði, en samþykktu það hins vegar og þá sem nokkurs konar illa nauðsyn til þess að ná samningum við Alusuisse. Ástæðulaust er að vera að rekja þær umr. frekar hér, þótt lærdómsríkar geti talist.

Í álsamningunum 1966 var gert ráð fyrir álbræðslu með 60 þús. tonna árlegri framleiðslu. ÍSAL átti rétt á 10% frávikum frá þessari framleiðslu, þannig að framleiðslugetan var skilgreind sem 66 þús. tonn árlega. Í fyrsta viðauka við álsamninginn, sem gerður var 1969, var bræðslan stækkuð um 1/6 Heildarframleiðslugetan var 77 þús. tonn. Í öðrum viðauka 1975 var bræðslan svo stækkuð um 1/7 í viðbót eða í 88 þús. tonna framleiðslugetu. Eðlileg ársframleiðsla er eigi að síður skilgreind sem 80 þús. tonn. Þessi stækkun kom til framkvæmda í ársbyrjun 1980 og verður að því vikið nokkru síðar.

Álverið í Straumsvík samanstendur nú af tveimur 40 þús. tonna kerskálum. Alusuisse hefur öðru hvoru á þeim tíma sem liðinn er frá upphaflegum samningum haft á því talsverðan áhuga að bæta þriðja kerskálanum við og hefur sá áhugi greinilega komið í ljós á undanförnum árum. Hafa ber í huga að nýr kerskáli af sömu stærð og núverandi kerskálar hefur með nýrri tækni framleiðslugetu allt upp í 80 þús. tonn, þannig að viðbót um einn kerskála mundi þýða allt að 100% stækkun álversins í Straumsvík.

Eins og skýrt hefur verið frá hér að framan í máli mínu voru í álsamningnum 1966 engin endurskoðunarákvæði ef aðstæður breyttust. Þess vegna lögðu íslensku samningsaðilarnir á það þunga áherslu við endurskoðun samninganna 1975 að í nýju samningsgerðinni yrðu sérstök ákvæði um reglubundna endurskoðun rafmagnsverðs og skatta og var á það lögð áhersla af íslensku ríkisstjórninni á þeim tíma svo sem eðlilegt var. Í álitsgerð viðræðunefndarinnar, sem hafði forustu um endurskoðun samninga við Alusuisse 1975, í álitsgerð hennar frá 8. okt. 1975, var þannig komist að orði að til greina kæmi „einhver stiglækkandi hækkun á rafmagnsverði með fyrirvara um endurskoðun að tilteknum tíma liðnum.“

Þegar viðræðunefndin lagði svo fram till. sína um slíka stiglækkandi hækkun, eins og það var orðað þann 20. okt. 1975, var í sömu till. krafan um endurskoðun á verði þannig að ef skráð heimsmarkaðsverð á áli yrði hærra en 70 cent pundið eftir ár, þ.e. frá 1. okt. 1983, gæti annaðhvort íslenska ríkisstjórnin eða Alusuisse gert kröfu um endurskoðun á rafmagnsverði og skatti. Í till. Alusuisse hins vegar um nýja gerð samninga, sem fram kom í okt. 1975, var sérstaklega tekið fram að fyrirtækið væri á móti ákvæði um endurskoðun verðlags og á fundinum 20.–21. okt. 1975 ítrekuðu fulltrúar Alusuisse þá afstöðu og það sama kom fram á fundi þann 4. nóv. 1975 eða eins og segir í fundargerð frá þeim tíma: „Dr. Müller taldi að endurskoðunarákvæði væru ekki æskileg“. Svo var það orðað og þannig varð það í reynd. Í till. Alusuisse um nýja gerð samninga, sem fram kom í okt. 1975, var sérstaklega tekið fram að fyrirtækið væri á móti ákvæðum um endurskoðun verðlags og í þessum samningi voru engin endurskoðunarákvæði þrátt fyrir þá staðreynd að tilvist þeirra var upphafleg forsenda þess að íslensku fulltrúarnir léðu máls á stiglækkandi rafmagnsverði.

Þann 10. des. 1975 var annar viðaukasamningurinn formlega undirritaður af iðnrh. og fulltrúum Alusuisse. Þegar daginn eftir þann 11. des., var lagafrv. borið fram á Alþingi samningnum til staðfestingar. Afstaða stjórnmálaflokka og einstakra þm. til þessa annars viðauka samningsins var talsvert ólík því sem verið hafði við samþykkt álsamningsins 1966.

Framsfl., sem nú var í ríkisstjórn með Sjálfstfl., studdi þennan viðaukasamning þótt einstaka þm. flokksins tækju þar aðra afstöðu. Almenn afstaða Framsfl. í málinu kom m.a. skýrt fram í málflutningi 1. þm. Norðurl. e., Ingvars Gíslasonar, núv. hæstv. menntmrh., sem sagði m.a.:

„Ég tel að þessar breytingar, sem hér er rætt um, feli í sér vissar endurbætur á álsamningnum 1966. Mín skoðun er alveg óbreytt um það, að álsamningarnir hafi verið stórgallaðir þegar þeir voru gerðir.“

Alþfl.-þm. tóku þátt í meirihlutaáliti iðnn. beggja deilda Alþingis, þar sem mælt var með samþykki annars viðaukasamningsins, en við yfirlestur á umr. fékk ég ekki séð að þm. Alþfl. hefðu tekið þátt í umr. um samninginn.

Sjálfstfl. studdi óskiptur þá samþykkt annars viðaukasamningsins.

Alþb. var andsnúið þessum samningi eins og hann lá fyrir endurskoðaður hér á Alþingi 1975. Það var einkum hið lága umsamda orkuverð sem olli andstöðu þm. Alþb. Þáv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, taldi að frv. fæli í raun og veru ekki í sér neina hækkun orkuverðs eða eins og hann orðaði það:

„Þegar betur er að gáð er hér ekki um neina hækkun að ræða, heldur er það raunverulega gamla verðið fyrir orku frá Búrfellsvirkjun að viðbættu því verði sem samið er um fyrir viðbótarorkuna frá Sigölduvirkjun, öllu slengt saman, og þannig er fengið út eitt nýtt meðaltalsverð.“

Hjá öðrum þm. Alþb., 3. þm. Reykv., Vilborgu Harðardóttur, sem sat þá sem varamaður Magnúsar Kjartanssonar, kom mjög fram það sjónarmið að orkuverð í þessum öðrum viðauka samningsins væri langt undir heimsmarkaðsverði, eins og hún orðaði það.

Þótt talsmenn Alþb. þá hafi talið skattgjaldsbreytingu annars viðauka samningsins skýrari en skattaákvæði aðalsamningsins 1966 gagnrýndu þeir tvennt í nýju framleiðslugjaldsákvæðunum: stiglækkandi hlutfall framleiðslugjalds miðað við álverð og viðurkenningu af Íslands hálfu á skattinneigninni, eins og til umræðu hefur verið nú nýverið.

Ýmsir þm. Sjálfstfl. tóku til máls í alþingisumr. 1975–1976 til stuðnings öðrum viðauka samningsins 1975. Tveir þm. flokksins, 1. þm: Reykv., Jóhann Hafstein, og 1. þm., Suðurl., Ingólfur Jónsson, leituðust einkum við að verja álsamninginn frá 1966. Einn þm. Sjálfstfl., Jón G. Sótnes, 2. þm. Norðurl. e., gagnrýndi hins vegar álsamninginn frá 1966 vegna þess hve orkusöluákvæðin giltu til langs tíma án endurskoðunarréttar af hálfu Íslendinga, eins og hann orðaði það: „En það kemur eiginlega ekki þessu máli við [þ.e. öðrum viðaukasamningnum]. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er þessi samningur (þ.e. álsamningurinn 1966) í gildi“. Þannig orðaði Jón G. Sólnes alþm. það við umr. hér í þinginu.

Að þessum tíma liðnum frá endurskoðun samninganna við Alusuisse 1975 erum við reynslunni ríkari. Það er mjög athyglisvert, þegar farið er yfir umr. hér á hv. Afþingi og þau gögn sem fram voru lögð af þeim aðilum, sem báru ábyrgð á viðræðunum við Alusuisse á þessum tíma, þ. ám. núv. formaður Framsfl., Jóhannes Nordal einnig og Ingólfur Jónsson, sem voru aðalsamningamenn af Íslands hálfu, að í greinargerðum frá þeim var alls ekki dregin fram sú mikla áhætta sem þarna var tekin varðandi eðli þeirra breytinga sem voru gerðar, sérstaklega að því er varðaði skattgjaldsákvæðin.

Nú liggur það fyrir óyggjandi samkv. mati ríkisendurskoðunar að tap í skattgreiðslum vegna samninganna 1975 nemur alls 26.7 millj. dollara á tímabilinu frá 1. okt. 1975 til ársloka 1982 eða 512 millj. kr., en hagnaður vegna hækkunar á raforkuverði á þessum sama tíma nemur hins vegar 26.2 millj. dollara eða 503 millj. kr. Af því er ljóst að töluleg niðurstaða á þessari endurskoðun álsamninganna frá 1975, sem fram fór á því ári, er sú, að ríkissjóður hefur tapað að heita má nákvæmlega sömu upphæð í lækkuðum skattgreiðslum og Landsvirkjun hefur fengið greitt með hærra raforkuverði og er þá dæmið reiknað til ársloka þessa árs. Því skal svo við bætt, sem ekki hefur verið tekið inn í þetta mál og þessa útreikninga, að endurskoðunin á raforkuverðinu, sem um var samið 1975, gildir aðeins til ársins 1994, sú hækkun sem um var samið á raforkuverðinu á þeim tíma, en breytingin á skattgreiðslufyrirkomulaginu gildir ekki bara til 1994, heldur var gerð út allan samningstímann. Það væri fróðlegt, og verður sjálfsagt gert, að reikna út það stórfellda tap sem í því felst, miðað við allar líkur, á tímabilinu 1994 til ársins 2014. Ég fullyrði að það nemi tugum millj. Bandaríkjadala, ef ekki ennþá hærri upphæðum, miðað við þær forsendur sem líklegar geta talist. En ég hef ekki séð ástæðu til að vera að taka þetta sérstaklega inn í þetta mál.

Ég hef látið reynsluna fram til síðustu áramóta tala sínu máli og þar eru það tölur ríkisendurskoðunar og Landsvirkjunar sem lagðar eru til grundvallar. Þessar niðurstöður ríkisendurskoðunar varðandi skattgreiðslur ÍSALs eru miðaðar við endurskoðun Coopers & Lybrand hvað varðar afkomu ÍSALs á þessu tímabili, þó að frátöldu árinu 1982, en varðandi það ár er byggt á upplýsingum ÍSALs því reikningar þess árs hafa enn ekki verið endurskoðaðir.

Hvað varðar skattinnstæðuna má af sumum skilja að þessi skattgreiðsla upp á 500 millj., sem upphaflegu samningarnir hefðu óbreyttir gefið ríkissjóði umfram samningana 1975, hefði í raun verið einskis virði vegna þess að samkv. gömlu samningunum frá 7. áratugnum hefði Alusuisse bara eignast skattinnstæðu hjá ríkissjóði. Skattinnstæða samkv. upphaflegum samningi var hins vegar engan veginn okkur Íslendingum í óhag, en hins vegar mjög íþyngjandi fyrir Alusuisse og það í vaxandi mæli. Þessi innstæða var í fyrsta lagi ekki eign Alusuisse, heldur safnaðist fyrir í ríkissjóði sem brúttógreiðsla á framleiðslugjaldi, sem greitt var jafnóðum, en síðan gert upp við hver áramót í ljósi skerðingarákvæða sem kveða á um að árleg skattgreiðsla skuli aldrei fara fram úr 50% af hagnaði. Þessa innstæðu gat ríkissjóður fyrir samningana 1975 notað í sína þágu hverju sinni gegn aðeins 5% vöxtum, en með samningunum 1975 urðu mikil og slæm umskipti í þessum efnum. Þá féllst íslenska samninganefndin ekki aðeins á þá kröfu Alusuisse að lækka stórlega skattstiga ÍSALs, heldur var einnig látið undan kröfu fyrirtækisins um að afnema þetta greiðsluform og afhenda Alusuisse til eignar skattinnstæðuna eins og hún stóð þann 1. okt. 1975, upp á 4.4 millj. dollara eða um 85 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Þetta var gert þrátt fyrir að íslenska samninganefndin hafði undir höndum álitsgerðir innlendra og erlendra lögfræðiráðunauta, þeirra Hjartar Torfasonar hrl. og Bandaríkjamannsins Charles D. Kyle, þar sem tekin eru af öll tvímæli um að réttur Íslendinga til þessarar skattinnstæðu væri ótvíræður, t.d. ef hún yrði einhver við samningslok. ÍSAL hafði hins vegar rétt til að nota innstæðuna til greiðslu framleiðslugjalds næsta árs á hverjum tíma.

Sem dæmi um hvernig þessi skattinnstæða hefði þróast samkv. upphaflegum samningi má nefna að við árslok 1980 hefði hún numið um 360 millj. ísl. kr. á núverandi gengi, þ.e. 18.6 millj. dollara, og í árslok 1982 hefði hún numið 526 millj. kr. eða 27.4 millj. dollara og mest af þessu fé hefði ríkissjóður getað haft til ráðstöfunar gegn aðeins 5% vöxtum. Það hefðu þótt bærileg kjör í dag. En það var ekki aðeins að skattinnstæðan væri í samningunum 1975 afhent Alusuisse til eignar, heldur var ríkissjóði gert að greiða af henni breytilega dollaravexti, sem numið hafa þessari innstæðu, 4.4 millj. dollarar, sem var fest frá 1. okt. 1975, og síðan skyldi ríkissjóður greiða af henni breytilega dollaravexti, sem numið hafa 10–13% hin síðustu ár, í stað eldri samningaákvæða um 5% vexti. Á árinu 1980 mun sú breyting ein hafa kostað íslenska ríkið nær 400 þús. dollara eða vel yfir fjórðung af allri skattgreiðslu ÍSALs það ár samkv. upphaflegum ársreikningum fyrirtækisins.

Það þarf auðvitað ekki að taka fram hvaða áhrif þessi breyting á skattgreiðslum hefur haft á tekjur þeirra aðila sem fá hluta af framleiðslugjaldi samkv. samningi, svo sem Hafnarfjarðarbær.

Ofangreindar staðreyndir eru þó ekki nema hluti af þeirri neikvæðu niðurstöðu sem endurskoðun samninganna 1975 leiddi til. Þar mætti m.a. nefna eftirfarandi atriði:

Fyrst er að nefna stækkun álversins, sem þá var heimiluð, en Alusuisse var heimilað að stækka álverið í Straumsvík sem nam 20 megawöttum í afli og greiða fyrir þá stækkun hið lága verð sem um var samið. Stækkunin kom í gagnið á árinu 1980. Jafnhliða þessu hækkaði meðaltalsframleiðslukostnaður Landsvirkjunar af raforku jafnt og þétt, svo að það mark færðist æ fjær að álverið í Straumsvík greiddi framleiðslukostnaðarverð fyrir raforkuna. Þetta ber sannarlega að hafa í huga þegar litið er á kröfur Alusuisse nú um stækkun álversins og þær undirtektir hér innanlands og hér á hv. Alþingi sem þær kröfur fá og birtast okkur svart á hvítu í þeirri þáltill. sem hér er til umr.

Þá er vert að minna á að í samningunum 1975 var Alusuisse heimilað að mynda varasjóð sem dótturfyrirtæki ÍSALs getur hagnýtt sér hér til að leggja í skattfrjálsan hagnað. Og vert er að ítreka að íslenska samninganefndin 1975 féll frá einni meginkröfunni, sem uppi var af Íslands hálfu á þessum tíma, um að fá inn í samningana endurskoðunarákvæði varðandi raforkuverðið á samningstímanum og það þrátt fyrir að nýlega væri þá fram komin verðsprenging á olíu. Frá þessari íslensku kröfu var fallið á sama tíma og margvíslegar kröfur Alusuisse náðu fram að ganga, svo sem hér hefur verið rakið að nokkru.

Íslenska samninganefndin árið 1975 hafði líka undir höndum endurskoðun fyrirtækisins Coopers & Lybrand á ársreikningum ÍSALs frá árinu 1974, sem sýndi verulegt yfirverð á súráli og vantalinn eða dulinn hagnað fyrir árið 1974, sem nam um 60 milljónum kr. á núverandi gengi eða 3.1 millj. Bandaríkjadala. Réttur til skattakröfu á grundvelli þessara upplýsinga var ótvíræður, en sú krafa var aldrei borin fram og mál þetta tá í rauninni í þagnargildi þar til ég gat um það og upplýsti um það í umr. utan dagskrár í Ed. þann 17. des. 1980. Þetta allt saman er vert að hafa í huga þegar litið er á þá till. sem hér er til umr. og vert er að nefna hér að þessi upprifjun á endurskoðun samninganna frá 1975 hefur verið tekin nokkuð óstinnt upp af þeim sem stóðu í þessum samningum, þó að hér sé ekki verið að gera annað af íslensku stjórnvaldi en leiða í ljós blákaldar staðreyndir til að forða mönnum frá því að lenda ofan í sömu vilpuna á ný. Það var reynt. Ég álasa ekkert þeim ágætu mönnum sem voru aðalsamningamenn íslenska ríkisins á þeim tíma, þeim Steingrími Hermannssyni, Jóhannesi Nordal og Ingólfi Jónssyni, fyrir að reikna einhverja vörn inn í þetta mál. Það er svipað og maður hefur heyrt hér á Alþingi á undanförnum árum, þegar þessi mál hafa verið til umr. og menn eru að streitast við það að verja samningana frá 1966 og gera það að aðalatriði að safna rökum gegn okkar eigin málstað.

Ég ætla ekki að fara að rifja upp þá rýru uppskeru sem fram kom í grg. þeirra þremenninga frá 2. mars 1983 til fjölmiðla varðandi endurskoðun samninga við Alusuisse, enda var þar ekki hrakið eitt einasta atriði af því sem fram hefur verið dregið í þessu máli og ég hef gert hér að umtalsefni og greint frá. Það liggur allt saman skýlaust og óhrakið fyrir. En það er fróðlegt að sjá það í grg. frá þeim og í því samhengi hljótum við að sjálfsögðu að hafa í huga þá till. Steingríms Hermannssonar, formanns Framsfl., sem ég rifjaði upp áðan og hann lagði fram í ríkisstj. 3. febr. s.l. En þar segir, með ekki mikilli fyrirferð kannske, í þessari grg. til fjölmiðla svohljóðandi:

„Það var alltaf ljóst við samningagerðina 1975 að á móti hækkun orkuverðs mundi koma lækkun á skatttekjum mismunandi eftir árferði.“

Sú hefur einnig orðið raunin á. Ég vil spyrja hér á hv. Alþingi, og það eru hér nokkrir alþm. sem sátu þing 1975–1976, hvort þeim hafi öllum verið það morgunljóst hvað verið var að bera fram sem samningsgrundvöll, sem endurskoðaðan samning við Alusuisse 1975. Ég teldi það fróðlegt fyrir þá hv. alþm. að fara yfir málið eins og það var lagt hér fyrir á þeim tíma og vita hvort þeir geti tekið undir orð í grg. þeirra Steingríms Hermannssonar, Jóhannesar Nordals og Ingólfs Jónssonar um að það hafi alltaf verið ljóst að á móti hækkun orkuverðs mundi koma lækkun á skatttekjum, sem reynst hefur jafna reikningana þannig að Alusuisse hefur frekar hagnast á ákvæðum fram til þessa dags ef nokkuð er.

Iðnrn. hefur svarað þeim aths., sem fram komu í grg. þessara hv. þremenninga sem hér var vitnað til, í fréttatilkynningu til fjölmiðla frá 4. mars 1983 og ég tel ekki þörf á því að vera að lesa þá fréttatilkynningu hér upp, því að efnislega hef ég komið þar að öllum meginatriðum málsins nema kannske atriði um stækkun átversins og raforkuverðið, þar sem segir í fréttatilkynningu rn. svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérstaka athygli vekur umfjöllun samningamannanna þriggja varðandi verðlagningu á raforku til þeirrar 20 megawatta stækkunar á ISAL, sem samið var um 1975 og komst í gagnið 1980.“

Í grg. er sagt að samið hafi verið um sérstakt forgangsorkuverð upp á 12 mill. Þessa niðurstöðu fá samningamennirnir með því að telja 60% af umsaminni orku sem afgangsorku og verðleggja þann hluta á 3 mill á kwst. Staðreyndin er hins vegar sú, að hér var ekki um að ræða raunverulega afgangsorku og hefur raunar Landsvirkjun sjálf staðfest það í skýrslu um framkvæmdaþörf frá apríl 1982, þar sem sagt er að litið verði á, orðrétt í þeirri grg. Landsvirkjunar, „60% af þegar umsaminni afgangsorku sem forgangsorkusölu í áætlunum um framkvæmdaþörf á næstu árum.“

„Aðalatriði þessa máls“, segir í fréttatilkynningu rn., „er að það meðalorkuverð sem samið var um vegna stækkunarinnar er nú 6.5 mill á kwst., en kostnaður fyrir Landsvirkjun að afhenda þessa orku nemur allt að þrisvar sinnum hærri upphæð.“

Það er nauðsynlegt, hv. alþm. að líta á þessar niðurstöður nú þegar það er verið að knýja á um það í sérstakri þáltill. hér á hv. Alþingi að taka undir kröfur Alusuisse um stækkun átversins í Straumsvík. Við hljótum að gera kröfur til þess hver til annars hér á hv. Alþingi að menn gangi sjáandi til leiks og til þess eru vítin að varast og eingöngu í þeim tilgangi hef ég talið sjálfsagt að upplýsa þær niðurstöður sem fyrir liggja af endurskoðun samninganna við Alusuisse 1975. Sú endurskoðun var uppskera af viðleitni af Íslands hálfu, sem stóð í nærfellt 2.5 ár á heildina lítið.

Við höfum verið að glíma við Alusuisse um leiðréttingu samninga frá því í des. 1980 og mér er legið sérstaklega á hálsi fyrir að það skuli ekki hafa gefið meiri árangur en raun ber vitni og hefur þó margt áunnist á þeirri ferð. Ég minni á það sem fram hefur komið varðandi skattamálin og þá geysilegu vitneskju sem safnað hefur verið til stuðnings okkar málstað í þessu efni og nýtast mun nú og framvegis. Það er nauðsynlegt að horfa til þessara mála með jákvæðu hugarfari.

En það eru fleiri sem hafa haft áhuga á og raunar rifjað upp niðurstöðu af endurskoðuninni 1975. Þ. á m. er Alusuisse, sem hefur vitnað um það og talsmenn þess hérlendis að þessi endurskoðun hafi verið býsna hagstæð fyrir fyrirtækið og raunar túlka þeir þessa uppskeru sem kaup kaups. Ragnar Halldórsson, forstjóri ÍSALs, segir um þessa endurskoðun — þannig skilgreindi hann megininntak endurskoðunar álsamningsins 1975 í viðtali við dagblaðið Vísi þann 18. júlí 1981:

„Það var samið um breytingar á skattakerfinu, sem var óframkvæmanlegt eins og það var áður, gegn greiðslu hærra rafmagns. Þetta voru bara kaup kaups“, segir framkvæmdastjóri íslenska álversins, álbræðslunnar í Straumsvík.

Í ÍSAL-tíðindum, heimilismálgagni Ragnars Halldórssonar, 1. tbl. 11. árgangs frá júlí 1981, segir um þetta:

„Árið 1975 voru aðstæður þannig, að báðir aðilar þurftu að semja um breytingar á aðalsamningi, ríkisstjórnin og Landsvirkjun, vegna þess að orkuverðið átti að lækka 1. okt. 1975 og verða síðan óbreytt eða því sem næst í nær 20 ár, og Alusuisse vegna þess að þær reglur sem giltu um framleiðslugjaldið höfðu reynst nánast óframkvæmanlegar. Gengið var til samninga og var samið um hækkun á raforkuverði og breytingar á reglum um framleiðslugjöld. Það var sem sagt um að ræða samninga um ákveðnar breytingar sem báðir aðilar töldu sér í hag.“ Skyldi nokkurn undra, þegar litið er yfir uppskeruna, þó svo sé tekið til orða í ÍSAL-tíðindum á árinu 1981? En þegar talað er um óhjákvæmilegar breytingar skulum við hafa í huga, hv. alþm., að þessi ákvæði, sem endurskoðuð voru 1975, voru samningsbundin og það er á þessa samninga sem dr. Müller og forsvarsmenn Alusuisse nú vísa þegar við Íslendingar berum fram okkar kröfur um lágmarksleiðréttingar á þessum samningum og samkv. þeirri hegðan bar okkur að sjálfsögðu hvorki skylda né nauður til að breyta þessum ákvæðum á árinu 1975.

Á árunum 1971–1977 komu fram ýmsar hugmyndir um breytingar á ÍSAL, bæði varðandi áliðnað og þátttöku í öðrum iðnaði á Íslandi, og voru á dagskrá á þessu tímabili. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda í þessum athugunum var svonefnd viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, sem starfaði 1971–1978, og formaður hennar var Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar. Þá var m.a. rætt um álbræðslu á Norðurlandi á vegum Alusuisse, en það mál var ekki til lykta leitt sem kunnugt er. Rannsókn var gerð á hugsanlegri súrálsverksmiðju á Reykjanesi, nánar tiltekið í nágrenni Trölladyngju, og átti hún að starfa í tengslum við álbræðsluna í Straumsvík. Var hugmyndin að nota jarðhita sem orkugjafa, en venjulega er notuð olía til framleiðslu á súráli úr bauxít. Þrátt fyrir þá kosti sem jarðhitinn gat haft voru þessar áætlanir lagðar á hilluna alveg sérstaklega vegna mengunarvandamála og ákveðinnar andstöðu Náttúruverndarráðs við þessi áform á þessum tíma. Mest var þó rætt um og knúið á um stækkun álbræðslunnar, en bæði þessi stækkun og hugmyndir um súrálsverksmiðjuna urðu hlutar af mikilli áætlun, svonefndri integral-áætlun, sem Alusuisse hafði lagt fyrir íslensk stjórnvöld upphaflega á árinu 1973, en í endurskoðuðu formi 1974 um haustið, eftir að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hafði verið mynduð. Ég held að það sé gagnlegt fyrir hv. alþm. og aðra að hafa í huga nú, þegar knúið er á um hagsbætur af hálfu Alusuisse, hvert var efni áætlunar integral, þess trúnaðarmáls sem sent var íslenskum stjórnvöldum 1973 og aftur 1974.

Yfirskrift þeirrar áætlunar var: „Nýting íslenskrar raforku innan vébanda alþjóðasamsteypu álframleiðenda. Heiti INTEGRAL. Tillaga Alusuisse til ríkisstjórnar Íslands, okt. 1974, breytt útgáfa. Inngangur.“

Ég leyfi mér hér að vitna til þessarar áætlunar, herra forseti:

„Í marsmánuði 1973 lagði Alusuisse till. með heitinu INTEGRAL fyrir ríkisstjórn Íslands. Skýrsla þessi var rædd í Reykjavík hinn 29. mars 1973 við fyrrv. iðnrh., hr. Magnús Kjartansson, og viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Einnig lagði Alusuisse til að mynduð yrði nefnd til að athuga hina ýmsu þætti málsins. Allt fram til þessa [þ.e. í okt. 1974] hefur ríkisstjórn Íslands ekki fylgt eftir tillögum Alusuisse frá því í marsmánuði 1973 og síðari ítrekunum. Sér í lagi hefur aldrei verið svarað tillögum okkar um að fella súrálsverksmiðju, sem rekin yrði með jarðhita, inn í áætlunina, en fyrst var rætt um hana við Kjartansson ráðh. hinn 8. maí 1973.

Alusuisse er enn sannfært um að grundvallarhugmynd áætlunarinnar er rétt. Einnig eru komin til ný sjónarmið, sem vert er að athuga. Alusuisse hefur athugað á ný fyrri tillögur sínar frá í mars 1973 og er ánægjuefni að leggja fyrir ríkisstjórnina endurskoðaða tillögu dags. í okt. 1974.“

Svo kemur kaflafyrirsögn:

„Nýting íslenskrar raforku innan vébanda alþjóðasamsteypu álframleiðenda. Heiti: INTEGRAL. Tillaga Alusuisse til ríkisstjórnar Íslands.

A. Grundvallarstaða og skilgreining vandamáls.

1. I. áfangi. Núverandi ástand.

Talsverðir virkjunarmöguleikar raforku eru fyrir hendi á Íslandi. Ætlað er að hægt sé að framleiða raforku á hagkvæman hátt árið um kring. Virkjanleg orka fer langt fram úr innanlandsþörfum. Álframleiðsla er mjög æskileg til að nýta orku á Íslandi fyrir stóriðnað. Fyrsta skrefið í þá átt hefur þegar verið stigið. ÍSAL nýtir 140 megawött og notar um 1000 gígawattstundir. Stækkun Straumsvíkurálbræðslunnar í 160 megawött er í athugun.

2. II. áfangi.

Annar áfangi er á næsta leiti. Álbræðslan í Straumsvík var hönnuð á þann hátt að aukning afkastagetu hennar er framkvæmanleg án vandkvæða. Ef við er bætt þriðja 80 megawatta kerskálanum er hægt að framleiða 40 þús. tonn af áli í viðbót og bygging fjórða kerskála mundi enn auka framleiðsluna um 40 þús. tonn.

3. III. áfangi.

Þegar virkja á nýjar orkulindir vegna áliðnaðar blasir við það vandamál, að vegna kostnaðarhlutfalla verður að byggja vatnsvirkjanir á Austfjörðum og Norðausturlandi í stórum áföngum. Á þetta sérstaklega við um 1. áfanga byggingar. Hins vegar ætti að koma afköstum nýrra álbræðslna upp með tiltölulega smávægilegum aukningum vegna markaðsástæðna. Við sams konar vandamál er að glíma varðandi fjárhagshliðina. Byggingaráfangar raforkustöðva og álvera ættu að vera viðamiklir til að draga úr einingaverði framleiðslunnar. Hins vegar eru minni áfangar æskilegir til að halda megi fjármögnun við þá stærðargráðu að við hana verði ráðið. Tillögur Alusuisse sýna hvernig hægt er að leysa þetta tvöfalda vandamál.

4. IV. áfangi.

Jarðhiti er að verða mikilvægari vegna olíukreppunnar. Er það sérstaklega staðreyndin ef hægt er að nota jarðgufu beint sem hitagjafa. Með því að talsvert gufumagn er nauðsynlegt til að framleiða súrál úr bauxít virðist æskilegt að athuga möguleika á súrálsverksmiðju á Íslandi. Framkvæmdin verður talsvert ábatavænlegri þar sem hægt er að meðhöndla súrát á staðnum.

5. Stjórnmálasjónarmið.

Áætlað er að ríkisstjórn Íslands óski eftir að orkulindir, sem fyrir hendi eru, verði nýttar á sem besta mögulegan hátt og mundi stjórnin í því skyni stofna til samlagsfélaga við erlenda aðila ef nauðsyn bæri til. Að því er ál varðar er málið flókið. Ísland hefur hvorki hráefni né markað og fjármagnsþörf stórvirkjana og framkvæmda við bræðslu mundi vera þungur baggi fyrir fjárhirslu landsins. Tillaga Alusuisse virðist einnig gefa kost á lausn vandamála stjórnmálasjónarmiðanna.

B. Nánari athuganir.

1. Aukin álnotkun.

Ýmislegt bendir til þess að notkun áls haldi áfram að aukast í framtíðinni. Of mikil afköst á árunum 1972–1973 hafa nær verið étin upp í vaxandi markaði. Í framtíðinni er raforkuskortur í mörgum heimshlutum líklegur til að draga úr aukningu iðnaðarins. Á því sviði gefst tækifæri fyrir Ísland.

2. Lykill að lausninni.

Afgerandi skilyrði fyrir álframleiðslu auk tækniþekkingar er ódýrt bauxít og ódýr raforka. Fyrirtækjasamsteypa sem hefur yfir að ráða bæði bauxít og raforku við lágu verði, hlýtur að vera í sterkri aðstöðu í áliðnaðinum. Vænta má skjóts vaxtar ef markaðurinn er einnig tryggður. Ísland hefur miklar orkulindir. Alusuisse á mikinn bauxítforða í Ástralíu og Afríku og athugar jarðlög í öðrum löndum. Einnig er fétagið að athuga ýmsar áætlanir varðandi súrálsframleiðslu úr bauxít.

3. Íslensk álsamsteypa, Alconis.

Vegna hinnar miklu fjármagnsþarfar og markaðsvandamálsins er ekki hægt að anna stórvirkjunum á Íslandi og byggingu álvers með miklum afköstum þegar í byrjun svo og e.t.v. einnig stórrar súrálsverksmiðju nema með alþjóðtegri félagasamsteypu. Alusuisse hefur á prjónunum að skipuleggja slíka samsteypu, en raforka ein nægir ekki til að fá væntanlega aðila til þátttöku. Það sem á þarf að halda er sameiginleg áætlun um framleiðslustig allt frá bauxít til málms þannig að aðilar samsteypunnar hafi bauxítforða, álver, raforkuver og verksmiðju. Ódýra raforku er einnig hægt að fá á Nýja-Sjálandi, í Kanada, Zaire og öðrum löndum. Saman geta Ísland og Alusuisse gert sameiginlega áætlun um álframleiðslu frá málmgrýti til málms, sem ætti að reynast aðlaðandi fyrir fjölda stórra álfélaga um allan heim.“

(Forseti: Ég verð því miður að biðja hæstv. iðnrh. að gera örstutt hlé á ræðu sinni.) Velkomið herra forseti. (Gripið fram í: Upp úr hverju var þessi lestur?) Þessi lestur er upp úr tillögu, sem lögð var fyrir ríkisstjórn Íslands í okt. 1975, frá Alusuisse. [Frh.]