11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

231. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Kosningar hafa verið boðaðar 23. apríl n.k. Í kosningalögum segir að framboðum skuli skilað eigi síðar en fjórum vikum og þremur dögum áður en kosningar fara fram. Sem sagt, framboðsfrestur fyrir þær kosningar sem fram undan eru rennur út eftir aðeins 11 daga. (Gripið fram í: Það er búið að stytta frestinn.) Til þess að stytta þessa fresti þarf löggjöf og engar tillögur hafa verið lagðar fram um slíka löggjöf hér í þinginu. Ljóst er að til þess að unnt sé að láta kosningar fara fram 23. apríl, eins og boðað hefur verið og flokkarnir eru sammála um að verði, verður að rjúfa þing nú um þessa helgi, ef eiga að vera tæknilegir möguleikar á því að koma fram kosningum um þá helgi, 23. apríl með skaplegum hætti og án þess að Alþingi samþykki sérstaklega undanþágu frá kosningalögum um lengd framboðsfrests og lengd kosningabaráttu, sem engar tillögur hafa verið gerðar um.

Ljóst er að þing hlýtur að verða rofið innan mjög skamms tíma, sennilega er einn þingdagur eftir. Á dagskrá Ed. Alþingis í dag voru 14 mál, á dagskrá Nd. Alþingis voru 14 mál og á dagskrá Sþ. voru 27 mál.

Mjög fá þessara mála voru til umr. hér í dag og enn færri hlutu afgreiðslu. Mörg helstu stórmál þingsins bíða þess að verða afgreidd á þessum örstutta tíma sem til ráðstöfunar er. En tími gefst ekki til slíkra verka. Tími gefst ekki til þess að ræða hér um vegalög og afgreiða þau ellegar ræða hér um vegáætlun. Tími gefst ekki til þess að taka fyrir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í Ed. vegna þess að hér eru ákveðin mál látin hafa algeran forgang.

Það mál sem allra mestan forgang hefur er það mál sem nú er til umr. og flutt er af talsmönnum þriggja flokka sem slegið hafa sér saman í eina sæng og ætla sér að móta nýja stefnu á einu mikilvægasta sviði íslenskra stjórnmála. Hvert er þá þetta þingmál, sem er svona gífurlega mikilvægt að öll önnur mál verða að víkja fyrir því? Jú, það er till. á þskj. 467, till. til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse. Þessi till. hefur vakið mikla furðu allt frá því að hún kom fyrst fram og það sannarlega af mörgum ástæðum.

Eitt það fyrsta sem menn ráku augun í var það, að þessi þáltill. var flutt af meiri hl. atvmn., eins og hann var nefndur, en hvergi í till. var þess getið hverjir skipuðu þennan meiri hl. Þegar fluttar eru tillögur annaðhvort af meiri hl. eða minni hl. n., þá fylgir þeim ævinlega grg. ellegar sérstakt nál. undirritað af ákveðnum nm. En svo hroðvirknislega var að þessum tillöguflutningi staðið, að það kom hvergi fram í till. hverjir skipuðu þennan meiri hl., hvort það væru 4, 5 eða 6 menn í n. og hverjir þeir væru. (Gripið fram í: Ráðh. hefur ekki lesið tillöguna.) Ég hef lesið till., en það er bara allt önnur till. Það er greinilegt af öllu að það hefur orðið að endurprenta þskj. og setja í sviga nöfn þeirra sem flytja till. Þetta er svo sem ekki stórmál, en hins vegar kannske dæmigert um þau hroðvirknislegu vinnubrögð, sem einkenndu þennan tillöguflutning alveg frá öndverðu, og það óðagot, sem lýsir sér í samstöðu þessara þriggja flokka, sem telja það nú þýðingarmest allra mála að koma þessu þingmáli fram.

Þetta er till. um að skipa skuli sex manna viðræðunefnd og þessi viðræðunefnd á að hefja tafarlausar viðræður við Alusuisse um endurskoðun á samningi íslenska ríkisins við fyrirtækið um rekstur Íslenska álfélagsins, eins og segir í till. Hver þingflokkur á að tilnefna einn fulltrúa, forsrh. einn og Landsvirkjun einn fulltrúa. Nefndin kýs sér formann. Menn reka auðvitað strax augun í það, að hér á iðnrn. hvergi að koma nærri, það rn. sem hefur með iðnaðarmál að gera, þ. á m. öll viðskipti við þetta fyrirtæki. Hér er sem sagt verið að gera tilraun til þess að taka stóran málaflokk úr höndum iðnrh. Hann á ekki einu sinni að fá að skipa mann í nefndina. Það er verið að taka þennan málaflokk úr höndum ríkisstj. og fela hann ákveðinni viðræðunefnd. Nú er spurningin hvað gerist, ef viðræðunefndin kemst að ákveðinni niðurstöðu og gerir samning við Alusuisse, en iðnrn. og ríkisstj. vill ekki samþykkja viðkomandi samning. Ekki er þess getið í till. hvað gera skal, ef slík staða kemur upp. En auðvitað er ljóst að ef þetta gerðist, þá stæði viðræðunefndin uppi eins og þvara og gæti engan löglegan samning gert, svo einfalt mál er það. Staðreyndin er auðvitað sú, að það er lögleysa, fáheyrð lögleysa, sem hér er gerð till. um, að Alþingi geri tilraun til þess að taka heilan málaflokk úr höndum ákveðins ráðh. og fela sérstakri nefnd. Það er margsannað í íslenskum stjórnskipunarrétti að slík vinnubrögð standast ekki. (FrS: Þetta er rangt.)

Hv. þm. Friðrík Sophusson segir að þetta sé rangt. Ég vil minna hv. þm. á það, að í 14. gr. stjórnarskrárinnar segir að ráðh. beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Í lögum nr. 73/1969 um stjórnarráðið eru ákvæði um skiptingu starfa milli rn. og greiningu stjórnarráðsins í rn. og í auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, hún mun vera nr. 96 frá 1969, er stjórnarmálefnum skipt milli rn. og þar segir að mál er varða iðju og iðnað heyri undir iðnrn. Málefni álversins eiga samkv. þessu að heyra undir iðnrh. og meðan lögum hefur ekki verið breytt, það dugar ekki þáltill. ber iðnrh. stjórnskipulega ábyrgð á meðferð þessa máls. Forræði málsins verður einfaldlega ekki tekið úr hans höndum með þáltill. af þessu tagi.

Á það hefur verið bent hér í þessum umr. að Alþingi hefur a.m.k. einu sinni áður reynt að skipa málefni, sem ákveðið var í lögum, með þál. Sú ráðstöfun leiddi til dómsmáls sem kom til kasta Hæstaréttar. Ég hygg að iðnrh. hafi fyrr í þessum umr. rakið þau málaferli og ætla ég ekki að endurtaka þau hér, en mergurinn málsins var sá, að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þar sem fjmrh. hefði verið fengin yfirstjórn bifreiðasölu gæti Alþingi ekki með samþykkt þáltill. kosið nefnd til að gegna þessu hlutverki, að annast úthlutun bifreiða. Þá ríktu að vísu aðrir tímar í landinu en nú. Þá þurftu menn að sækja um til ríkisins að mega kaupa bifreið. Einhverjum kom til hugar að þáv. fjmrh. væri ekki treystandi til að úthluta bifreiðum og réttast væri að sérstök nefnd, væntanlega með kommissörum frá öllum flokkum, fengi þetta hlutverk. En Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að slík afskipti Alþingis væru með öllu ólögleg.

Í þessu sambandi er líka rétt að benda á að í riti sínu Stjórnskipun Íslands segir Ólafur Jóhannesson: „Þingsályktanir eru samþykktir Alþingis. Til þeirra þarf ekki atbeina forseta. Þær fela fyrst og fremst í sér yfirlýsingar Alþingis, en geta þó skipt máli sem réttarheimild. Lagagildi hafa þær auðvitað ekki, og geta ekki komið í stað laga, þar sem þau eru nauðsynleg. Þær geta eigi heldur breytt lögum og verða að þoka að því leyti sem þær verða ekki samþýddar settum lögum, sbr. Hrd. XIV bls. 92“ en það er einmitt dómurinn sem ég vitnaði í nú rétt áðan.

Sem sagt, aðalatriðið er að málefni af því tagi sem hér um ræðir verður ekki skipað svo löglegt sé með þál., aðeins með lögum. Að því leyti er þetta mál ranglega flutt hér inn á Alþingi. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þennan þátt málsins.

Í till. til þál. er þess sérstaklega getið, að við endurskoðun á samningnum verði lögð rík áhersla á verulega hækkun raforkuverðs. Jafnframt verði leitað eftir hækkun á raforkuverði sem gildi aftur í tímann. Ég hefði nú talið æskilegt að ekki væri notað svo innilega loðið orðalag sem hér um ræðir, að leitað verði eftir verulegri hækkun raforkuverðs, vegna þess að auðvitað er það jafn teygjanlegt hugtak eins og teygjanlegur rabarbaragrautur. Það er hægt að teygja á þessu í allar áttir.

Hvað þýðir þetta hugtak, veruleg hækkun á raforkuverði? Ég vek á því athygli að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson taldi að veruleg hækkun á raforkuverði, sem hann teldi að gæti komið til greina nú sem næsta skref, væri hækkun um 20–25% og ég hef heyrt menn nefna hliðstæða prósentutölu. Ég vil spyrja hv. þm. Friðrik Sophusson, sem gerir okkur þann heiður að vera þó hér til andsvara, og vil ég þakka honum fyrir það, en það er meiri og betri framkoma en aðrir hv. flm. þessa frv. sýna, að undanteknum ágætum þm. Alþfl. Jóni Baldvin Hannibalssyni, ég vil spyrja Friðrik Sophusson: Hvaða rammi er hugsanlega utan um þetta hugtak, veruleg hækkun raforkuverðs? Er þar átt við hækkun af stærðargráðunni 10–30%, svo að ég auðveldi honum svarið, ellegar getur veruleg hækkun þýtt talsvert miklu meiri hækkun verðsins?

Ég vil vekja á því athygli og kem nú raunar að því hér síðar á eftir, að raforkuverðið til ÍSALs í dag er ekki nema um það bil 1/3 af því sem getur talist hæfilegt verð, miðað við þá samninga sem viða hafa verið gerðir erlendis og miðað við framleiðslukostnaðarverð raforku frá innlendum orkuverum. Því má segja að hæfileg hækkun orkuverðs væri hækkun upp á 200%. Kannske verðum við að sætta okkur við eitthvað minni áfanga fyrst í stað. T.d. hefur hæstv. iðnrh. nefnt það sem hugsanlegan fyrsta áfanga, að raforkuverðið sé hækkað um 100%, þ.e. um sé að ræða tvöföldun á raforkuverði. Það teldi ég að gæti hugsanlega talist veruleg hækkun. En ég tel að 24-25% hækkun geti ekki talist nein teljandi hækkun sem vit væri í að fallast á. Alþingi verður að fá að vita hvað flm. hafa í huga þegar þeir nefna hugtak af þessu tagi. Þarna eru því auðvitað ein skringilegheitin, einn veikleikinn við þennan tillöguflutning, að hann er harla loðinn hvað þetta atriði snertir.

Síðan komum við að því furðulega ákvæði, sem finna má í 3. mgr. tillgr., þar sem tillögumenn ætlast til þess að Alþingi lýsi því yfir áður en samningar hefjast og gefi álverinu það í forgjöf, að Alþingi sé reiðubúið að fallast á stækkun álversins í tengslum við viðunandi hækkun á raforkuverði.

Ég ætla nú að víkja hér á eftir að forsögu þessa máls, að reynslu Íslendinga af viðskiptum sínum við álverið í Straumsvík. En getur það virkilega verið ætlun tillögumanna að þessi auðhringur, sem hér hefur fengið að reisa mikið iðjuver, fái forgang umfram alla aðra framkvæmdaaðila að byggja stóriðju á Íslandi í náinni framtíð? Er það virkilega ætlunin að þeim sé afhent þetta loforð svona nánast í morgungjöf á fyrsta degi samningaviðræðna þegar menn setjast að samningaborðinu? Það væri fáheyrt slys ef Íslendingar slysuðust til þess að stíga slíkt ógæfuspor. Og raunar má segja að það að leggja fram till. um slíkt hér á Alþingi, till. sem fyrir löngu er orðin opinbert gagn og hefur vafalaust þegar verið hengd upp á vegg í aðalstöðvum svissneska álhringsins í Zürich, að hún skuli koma fram er sannarlega mikið hneyksli.

Loks segir í þessari till.: „Til að stuðla að því, að viðræður geti hafist án tafar, verði fallist á að setja deilumál um verð á súráli, rafskautum og skatta í gerðardóm sem aðilar koma sér saman um.“

Það liggur fyrir, að nýlega hefur verið gengið frá nær öllum óútkljáðum skattamálum þessa fyrirtækis á undanförnum árum og fjmrn. hefur nýlega lokið við skuldfærslu Íslenska álfélagsins, sem samtals nemur 6 660 030 Bandaríkjadölum eða hvorki meira né minna en samtals 127 millj. ísl. kr. vegna endurákvörðunar á framleiðslugjaldi sem félagið greiddi á árunum 1976–1980. Nefndin gerir sem sagt að till. sinni að þessi ákvörðun fjmrn. sé rifin upp, sé ómerk gerð og Íslendingar leggi nú mál þetta í gerðardóm og uni því, að sú skuldfærsla sem gerð hefur verið sé hugsanlega endurskoðuð og henni breytt, ef í þessum gerðardómi sitja menn sem ekki líta þær ákvarðanir réttu auga sem teknar hafa verið. Ég vil benda á í þessu sambandi að ÍSAL átti verulega skattinneign hjá ríkissjóði. En að þessari skuldfærslu lokinni er hún ekki lengur til staðar. Þess í stað á ríkissjóður nú inneign hjá ÍSAL sem nemur hvorki meira né minna en rúmlega 1.8 millj. Bandaríkjadala miðað við árslok 1980. Inneignin jafngildir 35 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Er það virkilega ætlun nefndarinnar að þessi ákvörðun verði rifin upp? Hvað er það í þessari ákvörðun fjrmn. sem nefndin getur ekki sætt sig við?

Ég vil vekja á því athygli í þessu sambandi, að fjmrn. hafði tvívegis áður endurákvarðað skatt Íslenska álfélagsins. Við vorum búnir að ákveða skattinn fyrir árin 1976 og 1980. Og það hafði hvorki heyrst hósti eða stuna frá neinum innlendum aðila, hvorki frá stjórnarandstöðunni eða frá samstarfsaðilum okkar í ríkisstj. Þó er meira en ár liðið síðan fyrsta ákvörðunin af þessu tagi var tekin. Það hefur enginn gert tilraun til að gagnrýna þessa ákvörðun. Meira að segja hafði svissneska álfélagið alls ekki kært þessa ákvörðun til gerðardóms, hafði að vísu mótmælt henni en í hvorugt skiptið kært hana til gerðardóms. Seinasta ákvörðunin er svo tekin núna fyrir skemmstu eða 10. febr. s.l. Þá rýkur stjórnarandstaðan upp til banda og fóta og mótmælir. Það skyldi ekki vera að við ættum eftir að sjá Alusuisse skjóta þessu máli til gerðardóms? Það kynni kannske að vera að þessi viðbrögð stjórnarandstöðunnar í málinu, þessar ábendingar stjórnarandstöðunnar í málinu yrðu til þess að þeir hefðu einhverja meiri von um að vinna sitt mál, úr því að íslenskir aðilar taka svo óvenjulega og óþjóðholla afstöðu í deilumáli íslenska ríkisins við erlenda aðila. Staðreyndin er auðvitað sú, að ef stjórnarandstaðan hefði hegðað sér með svipuðum hætti í þessu máli eins og hún gerði áður þegar skatturinn var ákveðinn, þá eru allar líkur á því að ÍSAL hefði látið kyrrt liggja. A.m.k. skilur maður ekki, úr því að þeir kærðu ekki tvö fyrstu skiptin, af hverju þeir hefðu þá átt að fara að kæra í þriðja sinnið. En þegar stjórnarandstaðan kemur þeim alveg sérstaklega til hjálpar í þessu máli, þá er auðvitað ekki á góðu von.

Ég vil vekja á því athygli, að með skipun þessarar nefndar væri ekki aðeins verið að setja á fót einhverja litla nefnd sem ætti að standa fyrir viðræðum. Í tillgr. segir: „Viðræðunefndin skal hafa fullan aðgang að öllum þeim gögnum sem þegar liggja fyrir um mál þetta. Ennfremur er nefndinni heimilt að leita samstarts við hvern þann aðila sem hefur sérþekkingu á málum er varða störf hennar. Opinberum aðilum er skylt að veita nefndinni hverjar þær upplýsingar sem hún óskar. Kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Það er greinilegt að þarna er engin smástofnun á ferðinni. Það er verið að setja hér upp alveg sjálfstæða stofnun, þó að það verði að sjálfsögðu ekki gert nema með lögum, ef rétt er á haldið. Það er greinilegt að tillögumenn, flm. þessarar till. gera ráð fyrir því að kostnaður af störfum nefndarinnar geti orðið töluvert mikill. Þegar þannig er háttað ber lögum samkvæmt að gera áætlanir um hversu mikill þessi kostnaður verður. Ég vil vekja athygli forseta á því, að enn hefur ekki verið gerð till. um að sú þáltill. sem hér er til umr. fari til nefndar. Flm. hafa ekki gert till. um það. Ég vil því leyfa mér að gera þá till. og vil biðja forseta að punkta það hjá sér, svo að aðalforseti Sþ. viti það, að gerð hefur verið till. um að mál þetta fari til nefndar. Og þar sem málið er flutt af meiri hl. atvmn. hygg ég að ekki sé viðeigandi að till. sé send til sömu nefndar. Ég geri því till. um að málið sé sent til hv. fjvn. og geri það með þeim ótvíræðu rökum, að í 15. gr. þingskapalaga segir með leyfi forseta:

Fjvn. fjallar um frumvörp til fjárlaga og fjáraukalaga og þáltill. sem til hennar kann að verða vísað og fara fram á útgjöld úr ríkissjóði.“

Í þessari till. er alveg sérstaklega tekið fram að kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Það er því alveg ótvírætt að till. ber að vísa til fjvn. Það er ekki hægt að skorast undan því. Það er ljóst af þingskapalögum að ætlast er til þess að tillögur, sem hafa kostnað í för með sér, fari til fjvn. Því ber að samþykkja það hér að lokinni þessari umr. að svo verði gert. Ég efast ekki um að það verði gert. En ég vil þá sérstaklega benda hv. fjvn. á að þegar till. verður komin til nefndarinnar beri henni að snúa sér til fjárlaga- og hagsýslustofnunar og fjárlaga- og hagsýslustofnun á þá í samráði við tillögumenn að gera áætlun um hvaða kostnaður verður af störfum nefndarinnar. Vænti ég þess að hv. þm. (FrS: Eins og venja er.) Friðrik Sophusson, sem hlær nú svo dátt og er ánægjulegt að heyra í honum stöku sinnum, verði hjálplegur við að gera slíka áætlun svo að hún geti fylgt nál. fjvn. þegar því verður skilað hingað aftur til þingsins. (FrS: Ég skal minnast þessara orða.) Um þessa till. er að öðru leyti ekki ástæða til að fjölyrða. Hér er tilraun gerð til þess að svipta ríkisstj. umráðum yfir einu mikilvægasta málefni sem er á dagskrá íslenskra stjórnmála í dag. Þessi tilraun er lögleysa í sjálfu sér og því að engu hafandi.

Áreiðanlega hafa menn tekið eftir því, að orka hefur hækkað mjög í verði á undanförnum mánuðum, misserum og árum. Það er talið að heildsöluverð á raforku til almenningsveitna í landinu hafi hækkað um hvorki meira né minna en 1440% á undanförum fjórum árum. En hvað skyldi byggingarvísitala hafa hækkað um mörg prósentustig á sama tíma? Ég hygg að það sé um 440%. Sem sagt, á sama tíma og heildsöluverð frá Landsvirkjun hefur hækkað um 1440%, þá hefur byggingarvísitala hækkað um 440%. Þetta er skuggaleg hækkun sem kemur niður á öllum íslenskum heimilum. Sérstaklega veldur þetta drápsklyfjum á herðar þeirra fjölmörgu landsmanna sem verða að kynda hús sín með olíu.

Hvað veldur nú þvílíkum ósköpum? Hver er ástæðan fyrir því að svo illa hefur til tekist, að raforka hefur hækkað svo gífurlega? Ýmsar geta ástæðurnar verið. Ég hygg að ein helsta ástæðan verði að teljast sú, að á seinustu tveimur árum hefur dollar hækkað mjög verulega í verði. Hann hefur hækkað umfram allar aðrar myntir, en verulegur hluti af skuldum Landsvirkjunar er einmitt í dollurum. Og það eru engar smáskuldir sem hvíla á Landsvirkjun. Ég hygg að meiri hluti allra skulda landsmanna séu skuldir Landsvirkjunar, og mikill meiri hluti þeirra er í dollurum, þannig að þegar hann hefur hækkað svo gífurlega sem raun ber vitni hefur fyrirtækið auðvitað lent í miklum vanda.

En það ber fleira til. Fyrirtækið hefur á seinasta áratug reist orkumannvirki sem hafa verið misjafnlega hagkvæm. Eitt þessara orkumannvirkja er Sigölduvirkjun, sem hefur reynst að ýmsu leyti verkfræðileg mistök. Sigölduvirkjun hefur alls ekki skilað þeirri orku sem gert var ráð fyrir að hún skilaði. Lónið hefur reynst mjög lekt. Ég hygg að ef reiknað væri út hvað orkan frá þeirri virkjun hafi reynst kosta í raun og veru, þá muni þessi virkjun reynast með þeim óhagkvæmari sem hér hafa verið reistar. Ég segi kannske ekki að hún sé eins óhagkvæm og allra minnstu virkjanir, en hún er áreiðanlega óhagkvæmust allra stærri virkjana sem hér hafa verið reistar.

Það er mikið talað um að Kröfluvirkjun sé óhagkvæm virkjun og hafi reynst dýr. Ég þekki það mál nokkuð vel, enda átti ég sæti í Kröflunefnd og tel mig þekkja allvel sögu þess máls og hversu dýr orkan er frá þeirri virkjun. Þar hefur vandinn að sjálfsögðu verið sá, að gos kom til skjalanna sem olli því að verulega var hægt á orkuöflun til virkjunarinnar. Einnig komu fram miklir erfiðleikar í orkuöflun sem enginn sá fyrir. Bortækni reyndist mönnum erfiðari en nokkur reiknaði með og því hefur tekið miklu lengri tíma að afla orku fyrir þá virkjun en menn áttu von á í upphafi. Þó hygg ég nú að Kröfluvirkjun muni eftir nokkur ár skila fullum afköstum. Henni hefur aukist afl með hverju árinu sem hefur liðið og sérstaklega á seinasta ári varð veruleg aflaukning hjá þessu fyrirtæki. Ég er sannfærður um að þegar öll kurl verða komin til grafar, þegar Kröfluvirkjun hefur náð fullum afköstum, jafnvel þótt þessi langi biðtími sé meðtalinn og það óhagræði sem í því felst að virkjunin hefur ekki getað skilað afköstum á þessum tíma, muni sú virkjun jafnvel reynast hagkvæmari en Sigölduvirkjun, sem Landsvirkjun reisti hér sunnanlands. Ég hygg sem sagt að ef nánar er farið í saumana á málum Landsvirkjunar og skoðað hvaða verkfræðileg mistök voru gerð við Sigöldu kunni að koma í ljós að mistökin, sem voru gerð í sambandi við Sigölduvirkjun, hafi verið talsvert alvarlegri en svonefnd mistök, sem sagt er að hafi verið gerð við Kröflu og ég skal ekki draga úr að voru til staðar, menn voru ekki eins framsýnir og þeir héldu. Menn héldu að þeir réðu yfir tækni, sem reyndist þeim miklu örðugri en ætlað var og hið sama á greinilega við um Sigölduvirkjun. Þetta hygg ég að sé önnur aðalástæðan fyrir því hversu mjög orkan frá Landsvirkjun hefur hækkað í verði.

En þetta er ekki aðalástæðan. Aðalástæðan fyrir hækkuninni á orkunni frá Landsvirkjun, sem m.a. lýsir sér í því að það varð að hækka orkuna frá Landsvirkjun um 25% í haust, þegar vísitala framfærslukostnaðar og verðbótavísitala hækkaði nálægt 12–13%. Og svo aftur núna nýlega, þegar verðbótavísitala hækkaði um 18%, þegar framfærsluvísitala hækkaði um 17–18% og launafólk fékk ekki í sinn hlut nema 7.70%, þá fær Landsvirkjun 29% hækkun. Þessir atburðir, endalaus röð af hækkunum í þágu Landsvirkjunar langt umfram almennar verðbreytingar í landinu, stafar auðvitað fyrst og fremst af því, að þeir erfiðleikar sem Landsvirkjun hefur lent í, þær hækkanir á dollar og þau vandamál sem hafa komið fram í Sigöldu, þær kostnaðarhækkanir sem hafa orðið hjá Landsvirkjun eru allar uppi bornar af aðeins helmingnum af þeim orkuneytendum sem fá orkuna frá Landsvirkjun, því að Alusuisse kaupir um það bil helminginn af orkunni frá Landsvirkjun. Alusuisse tekur engan þátt í erfiðleikum Landsvirkjunar vegna þeirra vandræða sem ég hef nú lýst. Því verður að velta allri kostnaðarbyrðinni yfir á íslenska neytendur.

Það er rétt hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni að við höfum getað hlíft áburðarverksmiðjunni við þessum miklu hækkunum. Við höfum ekki hækkað verðið til áburðarverksmiðjunnar með sama hætti og hækkað hefur verið til innlendra neytenda. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú, að áburðarverksmiðjan er ekki með forgangsorku af sama tagi og Swiss Aluminium nýtur. Áburðarverksmiðjan verður að sætta sig við það að lokað sé hjá þeim þegar þess gerist þörf í íslenska orkukerfinu, en Swiss Aluminium tekur forgangsorku. Því er ekki um sambærilega hluti að ræða, þannig að þessi athugasemd átti ekki að öllu leyti rétt á sér. Nei, það sem gerist er það, að hækkuninni, sem verður á kostnaði hjá Landsvirkjun, er allri velt yfir á neytendur og þess vegna hækkar verðið til almenningsrafveitna um 1440% þegar verðlag í landinu hækkar aðeins um 400%.

Nú er staðan sú, að ÍSAL fær orkuna frá Landsvirkjun á 12 aura kwst meðan almenningsrafveitur verða að borga 65 aura fyrir kwst. Ég er ekki hér að nefna verðið í smásölu, sem er á þriðju krónu. Auðvitað er það ekki sanngjarnt að bera saman verð annars vegar til ÍSALs, sem kaupir svo verulega mikið magn af orku á einu bretti, og svo aftur verðið til neytanda sem kaupir kannske orku í nokkrar ljósaperur og e.t.v. rafhitun í húsum sínum. Það er ekki sambærilegt. En það ætti að vera eðlilegt að bera saman annars vegar orkusöluna til ÍSALs og svo hins vegar orkusöluna til t.d. Rafmagnsveitna ríkisins eða almenningsrafveitna, sem kaupa orku í heildsölu, og þar er munurinn sem sagt meiri en fimmfaldur, þegar verðið er 12 aurar til ÍSALs, þá er það 65 aurar til atmenningsrafveitnanna. Ég vil benda á að hugsanlegt væri að þrefalda orkuverðið til ÍSALs. Hver væri hækkunin þá? Úr 12 aurum í 36 aura. Eftir sem áður væri orkuverðið meira en helmingi lægra til ÍSALs en það er til almenningsrafveitna í landinu. Nei, staðreyndin er sú, að ef við næðum þessu markmiði, að þrefalda orkuverðið til svissneska álfélagsins eða leppfyrirtækis þess, Íslenska álfélagsins, þá mætti lækka verð á raforku til innlendra aðila um 50–60% og þá eru áburðarverksmiðjan og sementsverksmiðjan meðtaldar. Ef við aftur á móti undanskiljum og áburðarverksmiðjuna mætti lækka orkuverðið um 80%. Það eru engir smáhagsmunir, sem hér eru í húfi, eins og menn sjá af þessum tölum.

Till. sem hér liggur fyrir verður að sjálfsögðu að skoða í því ljósi sem ég hef hér gert að umtalsefni. Aðili, sem þannig hefur farið með okkur Íslendinga, hefur verið ófáanlegur í langan tíma til að hækka þetta smánarlega raforkuverð, á að njóta sérstakra forréttinda ef byggð verður ný álverksmiðja í landinu. Hann á að njóta algers forgangs.

Mér er kunnugt um það að hv. þm. sem nú er að koma hér inn í salinn, Ólafur Þórðarson, hefur löngum lítið á það sem eitt af verkefnum síns flokks að verja íslensk landsréttindi. Og ég hygg að þegar álverksmiðjan í Straumsvík var byggð hafi hann verið andstæðingur þess, að hún fengi þá forréttindaaðstöðu í íslensku atvinnulífi sem hún fékk þá, eins og ég mun víkja að hér á eftir. Ég vil því sérstaklega beina þeirri spurningu til hans hvort hann sé samþykkur því eða hvort það séu mistök að hann sé aðili að till. af þessu tagi, hvort hann sé virkilega sammála því, að ef áliðnaður verður aukinn á Íslandi í náinni framtíð skuli þetta fyrirtæki, sem svo illa hefur með oss Íslendinga farið, hafa algeran forgang þegar það verður næst á döfinni að auka við álvinnslu hér á Íslandi. Eða kann að vera að (ÓÞÞ: Það voru fyrst og fremst Íslendingar sjálfir sem fóru illa með landsréttindin með því að gera samning upphaflega.) Hárrétt hjá hv. þm. Batnandi manni er best að lifa, segir orðtakið. Þetta voru orð að sönnu. Ég veit að hann er því reiðubúinn að svara spurningum mínum á jákvæðan hátt, en þær eru einmitt um það, hvort honum finnist rétt að Íslendingar geri önnur slík mistök. Er eitthvert vit í því að láta þennan auðhring hafa forgang umfram öll önnur fyrirtæki, sem hugsanlega yrðu fyrir valinu, þegar á dagskrá væri að auka við álvinnslu hér á landi? Eða er kannske þm. sama sinnis og ég, að við Íslendingar eigum að hugsa okkur tvisvar um áður en við hleypum öðrum auðhring inn í landið með starfrækslu af því tagi sem hér um ræðir? Hvernig í ósköpunum stendur á því, að þessi ágæti þm. er meðflm. að till. sem þessari, sem beinlínis gerir ráð fyrir því að þessi auðhringur hafi forgangs- og forréttindaaðstöðu til stækkunar á álveri hér á Íslandi? Ég hefði trúað því á flesta þm. Sjálfstfl. að þeir stæðu að slíkri till., kannske ekki alla. Og sumir þm. Framsfl. hefðu hugsanlega getað staðið að þessari till. En ekki hv. þm. Ólafur Þórðarson. Það kom mér sannarlega á óvart. Það er hins vegar sagt að hv. þm. Friðrik Sophusson sé góður vinur álversins og það var enginn hissa á því þó að hann flytti þessa till. En það er önnur saga.

Það hefur verið minnst á það í þessum umr. að mál þetta á sér langa forsögu. Ég hef hér í upphafsorðum mínum vikið að þeirri þáltill. sem hér er til umr. og hvernig hún birtist í ljósi þróunar orkuverðs. Nú er ég kominn að því atriði sem ég vil gera að aðalumræðuefni hér að loknum þessum upphafsorðum. Það er samningurinn sem gerður var árið 1966 við svissneska álhringinn. Það er saga sem sannarlega er tímabært að rifja upp.

Ég minnist þess nefnilega alveg sérstaklega og það mun seint hverfa mér úr minni, að miðvikudaginn 30. mars 1960 var boðað til blaðamannafundar af forustumönnum Swiss Aluminium sem hér voru staddir. Á fund þennan kom aðalforstjóri Swiss Aluminium, að nafni Emanuel R. Meyer. Hann var afskaplega glaður í bragði, þessi aðalforstjóri sem mætti á þessum blaðamannafundi, og hafði mikil tíðindi fram að færa, enda stóð ekki á fyrirsögnum í blöðunum daginn eftir. Hann var ófeiminn að segja frá því hversu geysilega góða samninga fyrirtæki hans hefði nú gert við íslensk stjórnvöld. Nú þegar allt var klappað og klárt, búið að undirrita samningana, búið að staðfesta þá á Alþingi og ekkert gat lengur komið í veg fyrir að þeir gengju í gildi, gekk hann fram á sjónarsviðið á blaðamannafundi hér í Reykjavík og lýsti því yfir, að fyrirtæki hans ætti verksmiðjur um víða veröld, fjöldamargar verksmiðjur, en það hefði aldrei gerst á 80 ára ferli fyrirtækisins að nokkur þjóð hefði gert samning um svo lágt raforkuverð sem nú hefði verið gert. Og hann bætti því við að það hefði heldur aldrei gerst í allri sögu fyrirtækisins að nokkurt ríki hefði afsalað sér dómsvaldi gagnvart dótturfyrirtæki á vegum hins stóra móðurfyrirtækis sem hann stýrði. Fréttamaður Ríkisútvarpsins hafði eftir þessum fræga manni, aðalforstjóra Swiss Aluminium, Emanuel Meyer, daginn eftir: Að þessu leyti er samningurinn einstæður í sögu fyrirtækisins. Ef menn trúa ekki því sem ég segi nú vil ég benda mönnum á fyrirsögn í Tímanum fimmtudaginn 31. mars 1966, en þar var fyrirsögnin: „Tvö einsdæmi. Alþjóðlegur gerðardómur. Hvergi lægra rafmagnsverð.“ Og það vantaði ekki að önnur blöð greindu einnig frá þessum tíðindum.

Í Alþýðublaðinu, en Alþfl.-menn stóðu mjög ákveðið að þessari samningsgerð eins og menn þekkja og áttu sæti í þáv. ríkisstj., var skýrt frá fundinum með þessum orðum með leyfi forseta. Fyrst kemur inngangur blaðamanns, en síðan segir blaðamaður:

„Emanuel Meyer, aðalforstjóri Swiss Aluminium Ltd., rakti stuttlega sögu fyrirtækisins á fundi með blaðamönnum í gær. Swiss Aluminium var stofnað árið 1889 og var fyrsta fyrirtækið í Evrópu sem fékkst við álframleiðslu með elektróanalýsu. Sama ár var annað stórt álfyrirtæki stofnað í Bandaríkjunum, Alcoa, og eru þessi tvö því elstu álfyrirtæki heims. Frá stofnun hefur Swiss Aluminium síðan vaxið og eflst og á nú hagsmuna að gæta í öllum álfum. Félagið er opið, sem kallað er, þ.e. hlutabréf í því eru til sölu í kauphöllum í Sviss. Hlutaféð er 140 millj. svissneskra franka, hlutabréf eru 140. þús. og eigendur þeirra um 12 þús. Enginn einn aðili eða hagsmunahópur á meiri hluta eða stóran hluta bréfa, heldur skiptast þau í margar hendur.“

Allt er þetta mjög fróðlegt að rifja upp. Og áfram segir blaðamaðurinn: „Meyer sagði að fyrirtækið hefði engin tengsl við erlend fyrirtæki að því er snertir stjórn eða eignaraðild, en það er eitt af 10 stærstu álfyrirtækjum í heimi, sem samanlagt framleiða 90% af öllu áli sem framleitt er í heiminum. Æðsta vald í málum fyrirtækisins er hjá 10 manna stjórn, en enginn þeirra á stóran hlut í fyrirtækinu. Með daglega stjórn fer framkvæmdastjórn skipuð fjórum mönnum. Framkvæmdastjórarnir eiga ekki fleiri hlutabréf í fyrirtækinu en nauðsynlegt er svissneskum lögum samkv.

Þá sagði Mayer að því færi fjarri að auðmannastétt eða efnaðar fjölskyldur í Sviss stjórnuðu þessu fyrirtæki. Eru t.d. bæði hann og aðalframkvæmdastjórinn, Müller“ — en hann er nokkuð þekktur af sögu málsins nú á seinustu árum, svo að ég skjóti nú inn í þessa frásögn blaðsins — „af almúgafólki komnir, en hefðu unnið sig upp. Meyer er kennarasonur frá Sviss, en Müller sonur bæjarstarfsmanns í smábæ í Sviss.

Forstjórinn skýrði blaðamönnum frá því, að Swiss Aluminium ætti námur og verksmiðjur á öllum stigum framleiðslunnar. Auk álframleiðslunnar fæst fyrirtækið einnig við plastiðnað, en ál og plast eru víða í harðri samkeppni og sums staðar hefur plastið orðið álinu sigursælla.

Aðeins 10% af verksmiðjum fyrirtækisins eru í Sviss, segir Meyer. Félagið á bauxítnámur í Suður-Frakklandi, Ítalíu, Grikklandi og Sierra Leone og í norðurhluta Ástralíu. Úr bauxíti er síðan framleitt áloxíð eða álduft, sem er hvítt á lit, og á félagið þrjár verksmiðjur á því framleiðslustigi. Þá á félagið 9 álbræðslur eins og þá sem á að reisa hér, en Straumsvíkurverksmiðjan verður sú tíunda. Þar er álduftinu breytt í ál, sem enn aðrar verksmiðjur taka svo við og fullmóta í markaðsvörur.

Síðan árið 1958 hafa umsvif fyrirtækisins þrefaldast, sagði Meyer, og álframleiðslan á þessu ári muni verða 300 þús. tonn. Til að framleiða eitt tonn af áli þarf tvö tonn af áldufti, en hráefnið til verksmiðjunnar hér mun að líkindum koma frá Guienu- lýðveldinu í Afríku eða frá Ástralíu. Óhugsandi hefði verið fyrir 10 árum, sagði Meyer, að flutningar svo langa vegalengd gætu borgað sig, en þeir gera það hins vegar í dag og væri fyrir að þakka tilkomu stórra flutningaskipa.

Verksmiðjan, sem fyrirhugað er að reisa í Straumsvík, verður eins fullkomin og frekast er unnt, sagði Meyer.“ Það er gott að hafa þessi orð í huga þegar við komum að mengunarmálunum hér á eftir. Ég endurtek: „Verksmiðjan, sem fyrirhugað er að reisa í Straumsvik, verður eins fullkomin og frekast er unnt, sagði Meyer, og hvað hann fyrirtækið mundu stefna að því, að íslenskt starfslið sjái að öllu leyti um starfrækslu hennar, en nauðsynlegt væri þó að fyrstu árin mundu útlendingar hafa þar yfirumsjón með höndum.

Alþýðublaðið beindi spurningum til Meyers um hvort fyrirtæki hans hygðist gerast aðili að íslenskum atvinnurekendasamtökum, en Alþfl. hefði gert það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við málið að svo yrði ekki. Meyer svaraði á þá lund, að engin ákvörðun hefði verið tekin í þessum efnum og mundi aðeins tekin að vandlega athuguðu máli og þá í samráði við íslensk stjórnvöld. Hann gat þess í þessu sambandi, að í ÍSAL, Íslenska álfélaginu muni Íslendingar eiga fimm fulltrúa af sjö í stjórninni og ættu þeir því að eiga auðvelt með að koma sínum sjónarmiðum þar á framfæri.“ Síðan er rætt um rafmagnsverðið og takið þið nú eftir hvað segir í Alþýðublaðinu á sínum tíma:

„Um rafmagnsverðið sagði hann að þetta væri lægsta verð sem fyrirtæki hans greiddi fyrir rafmagn eða 2.5 mill á kwst. Hann sagði að hægt væri að fá rafmagn t.d. á vesturströnd Bandaríkjanna, í Oregon og Washington, fyrir talsvert lægra verð en þetta eða 2 til 2.2 mill, en hér er verðið 2.5 mill, en fyrirtækið hefði ekki hug á starfrækslu á álbræðslu þar um slóðir.

Þá var Meyer að því spurður hvort fyrirtæki hans mundi hafa á móti því að á Íslandi yrði viðhöfð þjóðaratkvgr. um þetta mál. Hann kvaðst að sjálfsögðu ekkert hafa um það að segja, það væri mál sem Íslendingum einum kæmi við og hans fyrirtæki léti sig engu skipta.

Alþýðublaðið beindi þeirri spurningu til Meyers, hve marga útlenda sérfræðinga mundi þurfa við byggingu og rekstur álbræðslunnar. Hann kvaðst ekki geta sagt nákvæmlega um það, það færi eftir því hve mikið af fólki þeir fengju hér. Við sjálfan rekstur bræðslunnar mundi til að byrja með þurfa 12–24 erlenda sérfræðinga, sagði hann, en síðar mundi sú tala lækka. Hann lét svo ummælt, að ef farið yrði fram á það að fyrirtækið flytti inn verkamenn til að byggja verksmiðjuna vegna þenslu á vinnumarkaðinum hér mundi að sjálfsögðu orðið við þeim tilmælum, og yrðu það þá væntanlega norskir verkamenn sem kæmu hingað, en í Noregi væri einmitt nýbúið að byggja sams konar bræðslu á vegum fyrirtækisins.“

Og hér nefnir forstjórinn sannarlega snöru í hengds manns húsi, þar sem er samningurinn við norsku stjórnvöldin um byggingu álbræðslu þar, eins og ég mun víkja að hér á eftir.

„Um skattamálin sagði Meyer að í samanburði við Noreg þá væri samkomulagið við Ísland óhagstæðara fyrirtæki hans a.m.k. fyrstu 7–8 árin, en síðar mundi það að verulegu leyti fara eftir því hvert heimsmarkaðsverð yrði á áli, hvort samkomutagið mundi hagstæðara.“ Það er fróðlegt að heyra þessi ummæli forstjórans í ljósi þess sem síðar reyndist sannleikurinn.

„Um framleiðslu úr áli sagði forstjórinn að fyrirtæki hans mundi ekki hafa frumkvæði um slíkt hér á landi, en mundi hins vegar reiðubúið að veita margvíslega tæknilega aðstoð í því sambandi. Hann taldi að íslenski markaðurinn leyfði það fullkomlega að hér væri komið á slíkum iðnaði og nefndi hann þar dæmi, að framleiða mætti hér álbáruplötur á húsþök, fiskkassa og pönnur í frystihúsum og fleira.“

Hér er enn eitt dæmi um það hvernig Íslendingar voru blekktir á sínum tíma. Því var haldið blákalt fram bæði af erindrekum álhringsins, sem ég var að vitna í hér áðan, og af talsmönnum íslenskra stjórnvalda, að með tilkomu álversins mundi blómstra hér á landi einhvers konar áliðnaður, úrvinnsluiðnaður úr áli. Það yrði farið að framleiða fiskkassa, plötur í frystihús, álbáruplötur. Mundum við fá fyrirtæki af þessu tagi bæði sunnanlands og notaðan og við mundum gerast iðnaðarþjóð á þessu sviði.

Við sem vorum andvígir þessum samningi á sínum tíma andmæltum öllum skýjaborgum af þessu tagi. Við töldum engar líkur vera á því að slíkur iðnaður mundi rísa hér á landi. Og hvað hefur reynst rétt í þeim efnum? Ekki eitt einasta fyrirtæki hefur verið byggt hér á landi sem byggir framleiðslu sína á áli. Þó eru liðin 15 ár frá því að þetta fyrirtæki hóf starfsemi sína hér á landi. Það hefur aldrei bólað á því að þetta ljúfa fyrirheit, sem gekk svo greiðlega ofan í marga á sínum tíma, væri nokkurs staðar nærri því að vera uppfyllt.

„Í samningunum við Ísland,“ segir blaðamaður Alþýðublaðsins, „er fram tekið að deilumálum megi vísa í alþjóðlegan gerðardóm, þar sem aðilar tilnefna hvor sinn mann, og ef þeir ekki koma sér saman um oddamann, þá tilnefni forseti Alþjóðadómstólsins í Haag hann.“ Þetta segir blaðamaður Alþýðublaðsins og hefur eftir forstjóranum á fundinum — og takið þið nú eftir — með leyfi forseta:

„Meyer sagði að ákvæði um þetta væru ekki í hliðstæðum samningum fyrirtækisins við önnur lönd, en rétt hefði þótt að hafa þetta ákvæði vegna þess að hér væri því ekki fyrir að fara eins og víða erlendis, að dómstólar hefðu fjallað um mörg deilumál af þessu tagi, og hér væru engir dómar í þessum efnum til að styðjast við. Hann sagði jafnframt að það væri mjög dýrt og umfangsmikið í framkvæmd að setja mál í alþjóðlega gerð og væri þetta eins konar neyðarúrræði, sem aðeins mundi beitt ef í nauðir ræki.“

Sem sagt, hann gaf fyllilega í skyn að íslenska réttarríkið væri svo ófullkomið, dómstólar á Íslandi væru svo ómerkilegir, að þeim væri ekki treystandi með hliðstæðum hætti eins og dómstólum í öðrum löndum. Ég hygg að sjaldan hafi íslensku réttarfari verið veittur þvílíkur löðrungur eins og forstjóri Swiss Aluminium veitti íslenskum dómstólum á sínum tíma með yfirlýsingunni um það, að þeim væri ekki treystandi eins og dómstólum í öðrum löndum til að fara með slík mál. Enda sagði þáverandi prófessor í stjórnlagarétti við Háskóla Íslands, maður að nafni Ólafur Jóhannesson, að ákvæði þetta væri sannarlega ósæmilegt gagnvart sjálfstæðri þjóð. Hann mætti sannarlega sem fyrrv. prófessor í stjórnlagarétti og sem fyrrv. formaður Framsfl. og einn af núv. leiðtogum þess flokks vera minnugur afstöðu sinnar til þessara samninga á sínum tíma og ágætra ræðna, sem hann flutti á sínum tíma gegn samningum við svissneska álfélagið, maður sem nú virðist styðja það að Íslendingar geri nýjan samning um stækkun álversins í Straumsvík.

Í frásögn Alþýðublaðsins segir auk þessa: „Meyer var spurður hvort hætta gæti stafað frá gastegundum frá verksmiðjunni.“ Og nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir frásögn Alþýðublaðsins af blaðamannafundinum við Emanuel Meyer, því að aðalforstjórinn komst svo að orði þegar hann var spurður um hættu af gastegundum frá verksmiðjunni: „Hann kvað svo alls ekki vera, en gastegundir gætu skapað vissa hættu, t.d. þar sem verksmiðjur væru staðsettar í þröngum dölum, þar sem lítil hreyfing væri á loftinu, en hér þyrfti engar áhyggjur að hafa af slíku.“

Þetta var nú viðhorf svissneska álhringsins til mengunarmálanna á sínum tíma, þrátt fyrir vísindalegar aðvaranir, eins og hæstv. félmrh. rakti hér rétt áðan. Blekkingar hafðar uppi um hættuna sem af álverinu stafaði. Þetta skýrir það, eins og ég mun víkja að hér á eftir, hvers vegna það dróst síðan í 9 ár frá því að verksmiðjan hóf starfsemi sína að sett væru upp reykhreinsunartæki við fyrirtækið. Í frásögn Alþýðublaðsins af þessari hlið málsins segir:

„Ritstjóri Þjóðviljans spurði hvort það væri ekki rétt, að Íslendingar yrðu sjálfir að setja upp lofthreinsunartæki ef ástæða væri talin til. Meyer og Müller, tæknilegur framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sögðu slíkt aldrei hafa komið til mála. Auðvitað mundi fyrirtækið borga slík tæki og uppsetningu þeirra, ef með þyrfti, en þeir ítrekuðu að alls engin þörf væri á slíkum tækjum í Straumsvík og þar mundi ekki stafa minnsta hætta af starfrækslu verksmiðjunnar, hvorki nálægt henni né lengra í burtu frá henni.“

Það er sannarlega athyglisvert að hlusta á þessar yfirlýsingar forstjóranna frægu, Müllers og Meyers, í ljósi þess sem síðar kom í ljós.

Auðvitað var ætlast til þess að Íslendingar settu upp essi tæki sjálfir, ef þeir vildu fá þau, og það tók Íslendinga 9 ára baráttu að koma fram vilja sínum í þessum efnum.

Í frásögn Alþýðublaðsins segir að lokum:

„Að lokum sagðist Meyer vera þeirrar skoðunar, að eftir svo sem 10–15 ár yrði kjarnorka orðin betri og hagkvæmari orkugjafi til álframleiðslu en vatnsorkan og þá mundi hægt að staðsetja álbræðslur á sjálfum mörkuðunum en ekki elta uppi orkuna eins og nú er gert. Ef Íslendingar vildu láta byggja álbræðslu hjá sér, sagði hann, væri annaðhvort að gera það nú eða alls ekki. Því skammt getur orðið þar til vatnsorkan er ekki lengur samkeppnisfær.“

Það er fróðlegt að rifja upp þessi ummæli aðalforstjórans í ljósi þess sem síðar hefur komið fram og í ljósi þeirra umr. sem fram fóru á sínum tíma. Þetta var einmitt aðaldeilumálið, þegar ákvarðanir voru teknar um byggingu álbræðslunnar í Straumsvík, hvort það væri virkilega rétt að Íslendingar væru að missa af strætisvagninum vegna þess að kjarnorka væri að taka við af vatnsorkunni. Ég minnist frægra funda hér á Hótel Borg, þar sem annars vegar rökræddu málið Magnús heitinn Kjartansson og núverandi orkumálastjóri, Jakob Björnsson, sem færði rök fyrir því að röksemdafærsla af þessu tagi væri algerlega út í bláinn og Íslendingar væru hreint ekkert að missa af neinum strætisvagni, meðan aftur á móti Jóhannes Nordal þáverandi seðlabankastjóri taldi fólki trú um að svo væri, rétt eins og álforstjórinn gerir í þessari klausu, að ef Íslendingar ætluðu að nýta auðlindir sínar yrðu þeir að flýta sér að gera samning, jafnvel þótt um væri að ræða svo fáránlega lágt orkuverð, að slíks væru nánast engin dæmi í víðri veröld.

Ég vek athygli á því, að aðalforstjórinn tók svo til orða að eftir svo sem 10–15 ár, sem sagt á árunum 1976–1981, það voru orð hans, á árunum 1976–1981 yrði kjarnorkan orðin betri og hagkvæmari orkugjafi til átframleiðslu. Og hann sagði: Því skammt getur orðið þar til vatnsorkan er ekki lengur samkeppnisfær. Hverjir höfðu rétt fyrir sér á þessum tíma, hv. þm. Friðrik Sophusson? Það má vel vera að hv. þm. hafi á þeim tíma ekki tekið mikinn þátt í íslenskum stjórnmálum. Það má vel vera að buxur hans hafi ekki verið mjög síðar í félagsskap þeim, sem hann hefur sjálfsagt verið þá þegar verið orðinn meðlimur í, Heimdalli. En hann ætti að minnast þess, að þetta var ein aðaldeilan í sambandi við þetta mál, hvort okkur lægi á því að fórna hagkvæmasta virkjunarvalkosti, sem þá var völ á og hét Búrfellsvirkjun, í þágu svissnesks áthrings og selja orkuna á fáránlega lágu raforkuverði eða hvort við ættum að nýta hana í þágu þjóðarinnar allrar. Ég minni á það í þessu sambandi, að við Alþb.-menn bentum á það að Búrfellsvirkjun gætum við byggt fyrir Íslendinga sjálfa. Það var rangt, sem þá var sagt, og það er rangt, sem síðar hefur verið sagt, að Íslendingar hafi ekki getað ráðist í Búrfellsvirkjun nema álverið kæmi til og keypti verulegan hluta af orkunni. Það var rangt á sínum tíma og er að sjálfsögðu enn fáránlegra í ljósi þess sem síðar kom í ljós. Ef svissneska álverið hefði ekki fengið svona veigamikinn hluta af orkunni, sem Búrfellsvirkjun framleiddi, heldur hefði sú orka verið notuð til að byggja upp önnur fyrirtæki, sem greitt hefðu hærra orkuverð og hefðu að sjálfsögðu komið að miklu meiri notum í íslensku atvinnulífi, þá værum við betur á vegi staddir með orkuverðið frá Landsvirkjun heldur en nú er. Þá væri staðan sannarlega talsvert ólík því sem hún er nú.

Þessa sömu daga sem samningurinn við svissneska álhringinn var gerður var á það bent í blöðum um hvaða verð væri verið að semja í öðrum löndum. Það gæti verið fróðlegt fyrir menn að vita hvað þar var talað um. Ég vil t.d. leyfa mér að vitna í hið ágæta blað Tímann, blað forseta vors, Jóns Helgasonar, sem segir á þessum tíma, í marsmánuði 1966 með leyfi forseta:

„Upplýsingar þær sem fram komu á blaðamannafundi með forustumönnum Swiss Aluminium Ltd. í fyrradag sýna í skörpu ljósi hve álsamningarnir eru Íslendingum óhagstæðir og óviðunandi. Þessir forustumenn stóriðjuhringsins skýrðu hiklaust frá því, að rafmagnsverð það sem álhringurinn á að greiða íslenska orkuverinu er það langsamlega lægsta sem hann greiðir nokkurs staðar í samtals tíu álbræðslum sínum í átta löndum, Sviss, Ítalíu, Vestur-Þýskalandi, Austurríki, Bandaríkjunum og Noregi. Í Noregi er verðið t.d. 12.7 aurar kwst., en hér á það að vera 10.7 aurar.

Þetta verða meira að segja stjórnarblöðin að játa í gær og hafa það eftir nauðug viljug. Morgunblaðið orðar þetta svo: „Hann kvað hagstætt raforkuverð hafa fengist hér og kvað það hafa ráðið úrslitum í málinu, er ákvörðun var tekin um byggingu bræðslunnar.““

Menn taka nú eftir því hversu Morgunblaðið fer pent með staðreyndir málsins. Það er ekki að orða þetta á svipaðan hátt og Þjóðviljinn og Tíminn og jafnvel Alþýðublaðið hafði gert. Það þorir ekki að segja meira en það, að fengist hafi hagstætt raforkuverð hér. En að þetta sé langlægsta raforkuverð sem þekkist í hliðstæðum samningum í veröldinni á þessum tíma telur blaðið að sjálfsögðu ekki ástæðu til að greina lesendum sínum frá.

Í Tímanum segir til viðbótar: „Við eigum m.ö.o. að kaupa okkur bræðsluna hingað með því að láta rafmagn við svo lágu verði, að ekki er einu sinni nein trygging fyrir því að það verði kostnaðarverð, og þar að auki taka á okkur stórfellda áhættu af að verða e.t.v. að framleiða handa útlendingum þessa orku dögum og vikum saman með fimmföldu verði með olíu. „Þá er verið að ræða um forgangsorkuna. Síðan víkur blaðið að gerðardómnum og bendir á að ekki sé um að ræða slíkt ákvæði í hliðstæðum samningum. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þann þátt málsins, enda hef ég þegar gert grein fyrir honum.

Sjálfsagt þekkja það flestir að frændur okkar Norðmenn eru rómaðir fyrir gestrisni og hlýjar móttökur, þegar útlendinga ber að garði, og þangað þykir flestum gott að koma. Skömmu áður en svissnesku álforstjórarnir voru á ferðinni á Íslandi árið 1966 höfðu þeir barið að dyrum hjá norskum ráðamönnum. Þeir vildu nefnilega fá að reisa álverksmiðju í Noregi, eða alúmínverksmiðju eins og það hét þá, og væntu sér mikilla fríðinda. Norðmenn svöruðu hins vegar á þeim tíma og sögðust engin fríðindi veita umfram þau sem norskir atvinnuvegir búa við, hvorki fríðindi í tollum eða sköttum. Þar að auki kröfðust Norðmennirnir að verksmiðjan yrði staðsett í útkjálkabyggð, þar sem atvinnuástand væri lélegt, en ekki í blómstrandi byggðum þar sem vinnuafl skorti. Staðreyndin varð sú, að samninganefndarmennirnir frá Swiss Aluminium beygðu sig fyrir þessum kröfum Norðmanna, létu kröfu sína niður falla og gengu að skilyrðum Norðmanna. En þegar þessir sömu álforstjórar bönkuðu upp á hjá Íslendingum og settu fram sömu kröfurnar og þeir höfðu sett fram við Norðmenn þá var annað uppi á teningnum. Vissulega eru Íslendingar líka rómaðir fyrir gestrisni og góðar móttökur þegar útlendinga ber að garði. Ekki eru þeir minni vinir gesta sinna en Norðmenn, enda fór það svo að ríkisstjórn Íslendinga setti engin skilyrði sambærileg þeim sem norska ríkisstjórnin hafði sett. Hún beygði sig fyrir þeim kröfum sem settar voru fram og samþykkti sömu fríðindi og Norðmenn höfðu neitað. Það var á þessum grundvelli sem við Alþb.-menn vöruðum við þeim samningum sem til stóð að gera á sínum tíma, bentum á að þetta væru einhverjir mestu smánarsamningar sem nokkru sinni hefðu verið gerðir í sögu Íslendinga, og væri þá langt til jafnað ef leitað væri aftur í sögu Íslendinga.

Gagnrýni okkar Alþb.-manna beindist að átta atriðum. Við bentum í fyrsta lagi á það, sem ég hef hér gert verulega að umtalsefni, að orkuverðið væri allt of lágt. Það væri svo fáránlega lágt að það næði ekki einu sinni væntanlegu framleiðslukostnaðarverði frá Búrfellsvirkjun. Í öðru lagi var á það bent, að samkv. samningnum höfðu íslenskir dómstólar ekki úrskurðarvald í ágreiningsmálum, sem upp risu vegna þessarar verksmiðju, og með því væri sá einstæði atburður að gerast, að verið væri að flytja dómsvaldið úr landinu. Þetta ákvæði var raunar ekki aðeins gagnrýnt af okkur Alþb.-mönnum, heldur einnig mjög sterklega af þáv. prófessor í lögum við Háskólann hv. núv. þm. og hæstv. ráðh. Ólafi Jóhannessyni. Og það er einmitt þetta ákvæði sem kann að reynast okkur dýrkeyptast, ef svo fer að mál fara til alþjóðlegs gerðardóms, sem reynist okkur óhagstæður, að við reynumst bundnari í báða skó en við gjarnan vildum á þeirri stundu sem nú er upp risin.

Hér var um einstætt ákvæði að ræða og það verður sennilega að fara margar aldir aftur í tímann til þess að finna jafnhrikalegt afsal landsréttinda eins og þarna var um að ræða, kannske að undanskildum samningunum sem gerðir voru 1946 í Keflavík eða 1949 við Atlantshafsbandalagið eða 1951 við Bandaríkjastjórn um Keflavíkurflugvöll. Það er kannske rétt að undanskilja þá samninga, enda gerðir af nokkuð sömu aðilum.

Þriðja atriðið sem við gagnrýndum mjög sterklega var það, að fyrirtækið átti ekki að heyra undir íslensk lög. Það var líka mjög óvenjulegt, ég vil ekki segja einsdæmi, en mjög óvenjulegt miðað við samninga sem gerðir voru í öðrum löndum. Í Noregi varð fyrirtækið að sætta sig við að það félli undir norska tollalöggjöf. En hér var fyrirtækinu veitt sú einstæða forréttindaaðstaða að þurfa ekki að greiða nokkurn toll af einu eða neinu sem flutt var hingað til landsins á vegum þessa fyrirtækis. Því má segja að með uppbyggingu þessa fyrirtækis í Straumsvík hafi verið byggt sjálfstætt borgríki innan íslenska ríkisins, borgríki nr. 2, sem kemur næst á eftir borgríkinu í Miðnesheiði, en þar gilda, eins og menn þekkja, sérstök lög. Þar gilda ekki almenn íslensk lög og þar gildir ekki venjulegt íslenskt réttarfar, heldur er þar um hluta af landinu að ræða sem segja má að sé undir bandarískri lögsögu. Þarna var annar partur af landinu tekinn og settur undir sérstaka lögsögu, ekki undir íslensk stjórnvöld nema að hálfu leyti, að hinu leytinu undir erlend stjórnvöld.

En það sem verst var hvað þetta atriði snertir, að fyrirtækið skyldi ekki heyra undir íslensk lög, var að það skyldi ekki heyra undir íslensk skattalög. Við höfum svo sannarlega brennt okkur alvarlega á því að svo fór. Nægir að minna á það sem ég rakti hér áðan um skattaumfjöllun fyrirtækisins, en nærri lætur að sú upphæð sem aðföng til fyrirtækisins á tímabilinu 1975–1981 reyndust ranglega verðlögð hafi numið um 600 millj. ísl. kr., hvorki meira né minna. Sú skatttaleiðrétting, sem þörf reyndist á, nam hvorki meira né minna en 127 millj. kr.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem sagt hefur verið um skattahlið þessa máls, enda höfum við rætt það áður hér í þinginu og ég vil reyna að hafa þessi orð eins fá og ég get og er ekki ástæða til að orðlengja neitt. Hins vegar er þörf á því að rekja margar þær hliðar þessa máls sem lítt hefur verið á minnst. Ég vil þá minnast á eitt, sem við gagnrýndum mjög sterklega á sínum tíma, en það er sú staðreynd að ágóðinn af þessu fyrirtæki verður ekki eftir í íslensku atvinnulífi, íslensku efnahagslífi, heldur flytja eigendur fyrirtækisins arðinn af rekstrinum jafnóðum út úr landinu. Þetta er auðvitað eitt hið alvarlegasta við uppbyggingu fyrirtækja af þessu tagi, sem eru alfarið í eign erlendra manna, að hér á Íslandi verða einungis eftir verklaun þeirra manna sem vinna hjá fyrirtækinu og síðan hugsanlega hagnaður af einhverri þjónustu sem fyrirtækinu er seld. Kannske skattar, ef um skatta er að ræða, en eins og menn þekkja eru þeir harla litlir hjá þessu fyrirtæki. Tollar engir, aðflutningsgjöld engin og allt sem heitir hugsanlegur arður eða hagnaður af fyrirtækinu rennur jafnóðum út úr landinu aftur. Hann er ekki notaður til uppbyggingar í landinu sjálfu. Hann rennur til annarra landa. Þetta er einmitt alvarlegasta hliðin á þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið af Alþfl. og Sjálfstfl. hér á landi, að vilja leyfa erlenda stóriðju í landinu, stefnu sem Framsfl. virðist nú ætla að sameinast þessum tveimur flokkum um, að þessi fyrirtæki nýtast ekki Íslendingum og hagkerfi okkar með sama hætti og þau fyrirtæki gera sem eru í eigu okkar Íslendinga sjálfra.

Ég hef getið hér um að þegar fyrirtæki eru reist hér og þau framleiða ákveðna vörutegund, þá er afskaplega mikilvægt að um sé að ræða þess háttar framleiðslu sem getur af sér aðra framleiðslu, t.d. úrvinnslu af ýmsu tagi, ellegar að aðföngin tengist íslensku atvinnulífi með einum eða öðrum hætti. En engu slíku er til að dreifa í þessu tilviki. Hér er um að ræða sölu á raforku á allra lægsta verði sem þekkist og svo sölu á vinnuafli. Annað hafa Íslendingar ekki upp úr þessu fyrirtæki nema hvað það þarf kannske að veita því allra nauðsynlegustu þjónustu, eins og að selja landbúnaðarafurðir til fyrirtækisins ellegar að veita því einhverja einföldustu þjónustu iðnaðarmanna. Íslendingar eiga einmitt ekki að halda uppi orkustefnu eða iðnaðarstefnu af þessu tagi. Þeir eiga að kappkosta að öll fyrirtæki á Íslandi séu í eigu Íslendinga sjálfra og að arðurinn af rekstrinum renni inn í íslenskt efnahagslíf.

Fimmta atriðið sem við Alþb.-menn gagnrýndum mjög sterklega á sínum tíma var það, að engar mengunarvarnir voru ákveðnar þegar fyrirtækið var sett á fót. Það er rétt, sem nefnt hefur verið hér, að einmitt þetta atriði var mjög harðlega gagnrýnt af talsmönnum Alþb. hér á Alþingi á sínum tíma. Forustumaður í þeirri gagnrýni var Alfreð Gíslason læknir. Ég minnist þess hversu hastarlega var tekið á gagnrýni Alfreðs Gíslasonar læknis af talsmönnum Sjálfstfl. og Alþfl. í umr. hér á Alþingi um þetta mál. Það var reynt að láta líta út eins og hinn ágæti þm. og læknir Alfreð Gíslason hefði fengið einhvers konar móðursýkiskast og væri að fara með eintómt fleipur þegar hann talaði um að hætta væri af þessu fyrirtæki. Og það var reynt að láta líta út eins og alls engin hætta stafaði af þessu fyrirtæki.

Staðreyndin var sú, að í arðsemisútreikningum Alusuisse viðvíkjandi álbræðslunni í Straumsvík var alls ekki gert ráð fyrir hreinsitækjum vegna loftmengunar. Í aðalsamningnum voru almenn ákvæði um ábyrgð ÍSALs á allri mengun, en ekkert skyldaði fyrirtækið til að koma upp sérstökum mengunarvörnum. Það liðu síðan mörg ár þar til þetta mál komst aftur á dagskrá, hvað þá meir. Samstarfsnefnd iðnrn. og Alusuisse, sem átti að kanna mengunarhættu af álverinu, var þó stofnsett 1969 vegna þeirra aðvarana sem læknirinn Alfreð Gíslason kom fram með á sínum tíma. Þessi nefnd, sem nefnd var flúornefnd, hefur síðan starfað. En það tók æðilangan tíma að nokkur árangur yrði af störfum hennar. Frá og með 1971, eftir að Magnús heitinn Kjartansson tók við iðnrn., var þó loksins farið að ganga harðar eftir því en áður að ÍSAL kæmi upp mengunarvörnum. Til þess að undirbyggja sóknina á hendur ÍSAL var þá fyrst, á árinu 1971 sett reglugerð um mengunarvarnir. Þá vildi nefnilega svo vel til að sami ráðh., ráðh. Alþb., gegndi bæði störfum heilbrmrh. og iðnrh. Það er ekki víst að tekist hefði að skipuleggja sóknina gegn álverinu, ef svo hefði ekki staðið á, að Magnús heitinn Kjartansson gegndi báðum þessum embættum á sama tíma. Hann var heilbrmrh., eins og menn þekkja, og heilbrmrn. setti 1972, á grundvelli laga um eiturefni frá 1968, reglugerð um mengunarvarnir.

Á grundvelli þessarar reglugerðar var svo ÍSAL í janúar 1973 gefinn sex mánaða frestur til að setja upp hreinsitæki. Var því hótað að álbræðslunni yrði lokað að öðrum kosti. Takið eftir þessu, að í jan. 1973 er ÍSAL gefinn sex mánaða frestur og því hótað að álbræðslunni skuli lokað að öðrum kosti. Hafið í huga hver endirinn varð á, að mengunarvarnatækin voru sett upp átta árum síðar en þessi hótun var framsett.

Það fór nefnilega svo, að svissneski álhringurinn hafði alveg sérstakt lag á því að draga Íslendinga á asnaeyrunum. Fyrst í stað var kannske eðlilegt að menn tryðu loforðunum. Og vegna þess að vitað var að þáv. iðnrh. var mjög andvígur því að svissneski álhringurinn fengi að byggja iðjuverið í Straumsvík þótti ekki við hæfi að framfylgja þessari hótun eftir að ÍSAL hafði, innan þess tíma sem því hafði verið gefinn frestur, lofað með bréfi að upp yrðu sett hreinsitæki. Hótunin hreif strax. Tveimur mánuðum eftir að bréfið er sent lofar ÍSAL að setja upp hreinsitæki í marsmánuði 1973. En það tók líklega níu ár, ekki átta ár eins og ég sagði hér áðan, það tók líklega níu ár að fyrirtækið efndi þetta loforð að fullu. ÍSAL byrjaði nefnilega á því að láta menn finna upp hreinsitæki sem væru nógu ódýr fyrir fyrirtækið. Það vildi ekki una því að upp væru sett hliðstæð hreinsitæki og annars staðar höfðu verið sett upp. Það vildi reyna að spara sér þennan kostnað í tengstu lög. Því voru fengnir uppfinningamenn til að hugleiða málið í nokkur ár áður en hægt væri að gera nokkuð, þó að fyrirtækið hefði lofað því, vegna hótunar um lokun, árið 1973 að setja strax upp hreinsitæki.

Auk umr. um loftmengun voru auðvitað á dagskrá ýmiss konar önnur mál, sem snerta þetta fyrirtæki, t.d. svonefnt kerbrotamál, þ.e. hvað gera ætti við ákveðin föst úrgangsefni úr álbræðslunni. Það væri saga út af fyrir sig sem vissulega væri ástæða til að rekja fyrir hv. alþm. Ég veit ekki hvort hún hefur verið rakin svo nákvæmlega, að hún hafi enn verið skráð í þingtíðindi, en það skal ekki gert hér. Formlega leystist málið með gerð gryfju á sjávarströnd í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar. Það var lausnin, sem þá var gripið til, að gera gryfju á sjávarströnd til að pota þessum eiturefnum niður í. Sannarlega verður það að segjast eins og er, að sú lausn var ekki óumdeild.

Ég vil vekja á því athygli að hv. þm. Matthías Bjarnason, sem gegndi störfum heilbr.- og trmrh. árið 1977, var spurður spurninga sem sneru að mengunarhlið þessa máls. Fsp. var svohljóðandi: „1. Hefur farið fram rannsókn á mengun innan veggja álversins í Straumsvík eða öðrum atriðum, sem kunna að vera hættuleg heilsu starfsmanna? 2. Hefur Heilbrigðiseftirlit ríkisins látið í ljós álit sitt á starfsumhverfi innan veggja átversins og heilsugæslu þar?“

Þetta er sannarlega mál sem ástæða er til að hyggja nánar að. Hver voru svör hæstv. ráðh. við þessari spurningu? Við þurfum sannarlega að átta okkur á því hver hefur verið reynslan af þessu fyrirtæki. Hvernig hefur það brugðist við óskum Íslendinga um óhjákvæmilegar umbætur á starfseminni, þegar þess hefur verið krafist? Við skulum aðeins líta hér nánar í svör hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, sem þá gegndi störfum heilbrmrh. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Leitað var til Heilbrigðiseftirlits ríkisins eftir svörum við þessum spurningum og eru svör þess svohljóðandi: Veruleg bein afskipti af hálfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins af starfsemi álversins í Straumsvík hófust ekki fyrr en 1972 þegar út komu eftirfarandi reglugerðir: 1. Heilbrigðisreglugerðir fyrir Ísland frá 8. febr. 1972, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. 2. Reglugerð frá 15. júní 1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna.“

Þarna viðurkennir Matthías Bjarnason m.ö.o. að það er ekkert gert í mengunarmálum fyrirtækisins fyrr en Magnús heitinn Kjartansson verður iðnrh. og heilbrmrh. Og áfram segir í svari þáv. heilbrmrh.:

„Í síðarnefndu reglugerðinni er Heilbrigðiseftirliti ríkisins falið að fjalla um umsóknir um starfsleyfi þeirra, er reisa vilja verksmiðjur eða iðjuver, og gera rökstuddar tillögur um skilyrði slíks rekstrar ásamt með mengunarmörkum til heilbrrh. sem endanlega úrskurðar málið.

Í samræmi við reglugerðina sendi Heilbrigðiseftirlit ríkisins þáv. heilbr. og iðnrh. umsögn sína um mengunarhættu við álverið í Straumsvík með bréfi dags. 22. jan. 1973 og taldi óhjákvæmilegt að setja upp hreinsunartæki við álverið, er taka ættu megnið af flúorsamböndum úr ræstilofti verksmiðjunnar, þannig að komið verði í veg fyrir frekari flúormengun umhverfisins og þar með skemmdir á gróðri og hugsanlegt heilsutjón á mönnum og dýrum. Var ályktun þessi í fullu samræmi við samþykkt Heilbrigðisráðs Hafnarfjarðar og álit borgarlæknisins í Reykjavík og ráðstafanir sem sjálfsagðar eru annars staðar í heiminum þar sem álframleiðsla fer fram. Staðfesti rn. þessa skoðun Heilbrigðiseftirlits ríkisins með bréfi, dags. 31. jan. 1973, til Íslenska álfélagsins.

Ástæðan fyrir því, að hér er bent á kröfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins um hreinsibúnað í álverinu, er sú staðreynd að í umr. um þau mál hefur nær eingöngu verið einblínt á nauðsyn slíks varnarbúnaðar til verndar gróðri og heilsufari manna og dýra í næsta nágrenni verksmiðjunnar með tilliti til flúormengunar, en minna eða lítið sem ekkert verið rætt um þá staðreynd, að með uppsetningu slíkra tækja „batnar andrúmsloft á vinnustað mjög verulega,“ svo að vitnað sé í orðalag og skoðun forráðamanna Íslenska álfélagsins í bréfi til Heilbrigðiseftirlits ríkisins 23. des. 1975.“

Ég vek athygli á því, að hér eru þó forráðamenn Íslenska álfélagsins loksins farnir að viðurkenna það, að andrúmsloft á vinnustað sé ekki það allra besta sem hugsast getur. En þeir fara varlega í ummælum sínum og segja að það kunni að batna verulega við breytingar sem kynnu að vera gerðar. Og áfram segir í svari ráðh.:

„Það er skoðun Heilbrigðiseftirlitsins, að viðunandi andrúmsloft á vinnustað við álverið í Straumsvík verði ekki til staðar fyrr en uppsetningu og starfrækslu fullkomins hreinsibúnaðar til hreinsunar á ræstilofti verksmiðjunnar er komið í gang.“

Síðan segir: „Hér fer á eftir skýrsla um heilbrigðis- og öryggiseftirlit ásamt rannsóknum þeirra aðila er um þessi mál fjalla, sem líta má á sem svar við spurningum þessum um rannsóknir á mengun innan veggja álversins í Straumsvík eða öðrum atriðum sem kunna að vera hættuleg heilsu starfsmanna þar.

Héraðslæknirinn í Hafnarfirði og Öryggiseftirlit ríkisins sáu um heilbrigðis- og öryggiseftirlitið í álverinu frá upphafi byggingarframkvæmda í mars 1967 fram til 1969 og 1970, en þá bættust við í eftirlitið heilbrigðisfulltrúinn í Hafnarfirði og Heilbrigðiseftirlit ríkisins.

Einnig hefur um alllangt skeið verið starfandi trúnaðarlæknir við álverið og síðan 1. mars 1976 hefur svo „hollustunefnd“ verið starfandi þar, en í þeirri nefnd á aðaltrúnaðarmaður verkalýðsfélagsins sæti.

Frá upphafi byggingarframkvæmda í mars 1967 hefur héraðslæknirinn í Hafnarfirði haft meira eða minna regluleg bein eða óbein afskipti af heilbrigðis- og hollustumálum starfsmanna við álverið í Straumsvík, þar með talið starfsumhverfi og ytri mengunarmál. Frá 1969 hefur heilbrigðisfulltrúinn í Hafnarfirði undir umsjón héraðslæknis séð um hið reglulega eftirlit fyrir hönd heilbrigðisnefndar Hafnfirðinga.

Of langt mál yrði að telja upp alla þá mörgu og margvíslegu þætti, sem þeir hafa haft afskipti af og beitt sér fyrir úrbótum á og miklu máli skipta fyrir heilbrigði og heilsufar starfsmanna álversins, aðeins stiklað á stóru. Þeir hafa beitt sér fyrir endurbótum á mötuneyti og eldhúsi þess og fengið framgengt að nýtt eldhús var byggt, en eitthvað hafði borið á því, að starfsmenn fengju iðrakvef vegna lélegrar aðstöðu í eldhúsi.“ Starfsmennirnir fengu sem sagt iðrakvef vegna lélegrar aðstöðu í álbræðslunni. — „Í því sambandi héldu þeir fræðslufundi um hollustumál fyrir starfsfólk mötuneytisins í hollustuháttum og fengu til þess sérfróðan aðila. Sýni af matvælum og áhöldum eru tekin reglulega til gerlarannsókna og hafa niðurstöður verið góðar. Þrátt fyrir langa baráttu fyrir nýju og stærra mötuneyti og loforð forráðamanna álversins hefur ekki enn verið hafin bygging þess.

Neysluvatnssýni eru rannsökuð reglulega og hefur vatnið uppfyllt lágmarksskilyrði um hollustu með tilliti til efnasamsetningar og gerlagróðurs. Sérstaklega hafa sýnin verið rannsökuð með tilliti til flúorinnihalds, sem hefur verið á bilinu 0.05–0.06 mg í lítra, sem er eðlilegt magn, og aldrei hefur fundist cýaníð í vatninu vegna hugsanlegrar mengunar á grunnvatni frá fyrrverandi öskuhaugum Hafnarfjarðar, þar sem kerbrotum var komið fyrir í upphafi. Í þessu sambandi beittu þeir sér fyrir rannsóknum á grunnvatnsrennsli á Straumsvíkursvæðinu, sem framkvæmd var að ósk heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar af Orkustofnun í mars 1966, og kostaði álverið þá athugun.

Þeir hafa og beitt sér fyrir endurbótum á starfsumhverfinu í verksmiðjunni með ráðleggingum og leiðbeiningum með forsvarsmönnum álversins og verkamönnum, þó einkum trúnaðarmönnum. Í því sambandi hafa þeir lagt áherslu á að menn noti rykgrímur reglulega, þar sem rykmengun er mikil, og lagt áherslu á að rykbinda og hreinsa reglulega vinnusvæðin. Sérstaka áherslu hafa þeir lagt á betri aðbúnað í skautasmiðju og kerskáta með tilliti til minni rykmyndunar með betri loftræstingu.“

Menn athugi nú þessi ummæli vísindamannanna og beri þau saman við loforðin, sem forstjórar álhringsins gáfu á sínum tíma, þegar þeir héldu blaðamannafundinn fræga og verksmiðjan var sett á fót.

Enn segir hér í skýrslunni: „Krafist hefur verið, en án árangurs, betri úrlausnar á uppskipun og meðferð súráls, sem er mjög rykugt starf, og að fylgst sé með loftræstingu í vélaviðgerðarverkstæði.

Sérstaklega skal bent á árvekni og framtakssemi héraðslæknisins og heilbrigðisfulltrúans um heilbrigðishættu sem stafað getur af asbestryki á vinnustað. En niðurstöður erlendra rannsókna fóru að birtast í erlendum tímaritum á árinu 1975, þar sem bent var á að asbestryk gæti valdið krabbameini í brjóst- og lífhimnu ásamt lungum, en áður hefur lengi verið þekkt til óeðlilegrar bandvefsmyndunar í lungum vegna þessa ryks, en þessi sjúkdómur er fyllilega jafn alvarlegur og svonefnd kísillungu eða kísilveiki, sem stafar af innöndun kísilryks. Var fyrirtækinu gert að gera grein fyrir asbestnotkun sinni og gefin fyrirmæli um að draga úr þeirri notkun ásamt því að viðhafa sérstaka gát og varnir við sögun og aðra meðferð á efninu. Skilaði Íslenska álfélagið ítarlegri skýrslu um asbestnotkun sína, og drógu þeir tafarlaust úr notkun þess eins og þeir gátu, ásamt loforði um að ekki yrði sagað asbest eða mulið lengur og að tilraunir til að draga úr notkun þess héldu áfram.“

Þetta er hér dregið fram vegna þess að þetta er þó álverinu til hróss, að það gat þó aðeins tekið við sér þótt seint væri.

„Í skýrslu félagsins kom fram að alls nam notkunin 62 500 kg á ári miðað við framleiðslu á 70 þús. tonnum áls og fóðruð 100 ker.

Auk þess sem hér hefur verið upp talið um almennar ráðleggingar og endurbætur á starfsumhverfi og almennum hollustu- og heilbrigðismálum var fylgst með heilsufari starfsmanna bæði af héraðslækni, trúnaðarlækni félagsins og heimilislæknum starfsmanna, sem sendu þá til rannsóknar hjá sérfræðingum í ríkisspítölunum eftir því sem við átti. En strax á fyrstu árum álbræðslunnar fór að bera á ýmsum óþægindum, einkum frá slímhúðum nefs og öndunarfæra, hjá nokkrum starfsmönnum í kerskálunum, eins og dæmi eru til um frá öðrum álverum. Ekki voru þessir starfsmenn þó tilkynntir til héraðslæknis sem hafandi atvinnusjúkdóma.

Þegar haldið var áfram stækkun álversins á árunum 1970–1971 og menn héldu að hreinsitæki fyrir útblástur væru á næstu grösum óttuðust starfsmenn í kerskálunum að skaðleg efni og mengun mundi aukast í andrúmslofti þeirra. Urðu þessar umræður til þess, að héraðslæknir og heilbrigðisfulltrúi gátu fyrr en ella hafið mælingar á loft- og ryksýnum í andrúmslofti á vinnustað til efnagreiningar ásamt mælingu á flúormagni í sólarhringsþvagi frá starfsmönnum álversins, en það er talinn allgóður mælikvarði á flúorupptöku og mengun starfsmanna. Hófust þessar rannsóknir 1971, en verkið sóttist seint vegna ófullkomins tækjabúnaðar og ófullnægjandi rannsóknaraðstöðu.

Að ósk verkalýðsforustunnar fól þá ráðh. Heilbrigðiseftirliti ríkisins að taka þessa rannsókn að sér og hraða henni.“ Ég vek sérstaka athygli hv. þm. Friðriks Sophussonar, sem gerir mér þann heiður að reka nefið hér inn í þingsalinn, á því að það var ekki fyrr en (FrS: Ég hlustaði allan tímann.) iðnrh. og heilbrmrh. þess tíma, Magnús Kjartansson, tók við störfum í þeim rn. að þessi mál voru tekin föstum tökum, eins og hér hefur greinilega komið fram. (FrS: Var það þegar hann skrifaði forstjóra Union Carbide?) Nei, það var nú ekki þá. Hann átti viss bréfaskipti við Union Carbide og (Gripið fram í.) hann gerði tilraun til þess að gera skynsamlega samninga við erlenda aðila um uppbyggingu stóriðju hér á landi. En því miður báru þessir erlendu aðilar ekki gæfu til þess að ganga að þeim úrslitaskilyrðum sem Magnús Kjartansson setti á sínum tíma fyrir því að unnt væri að gera samninga við erlendan aðila um mál af þessu tagi. Þess vegna varð ekki af neinum slíkum samningi í tíð Magnúsar Kjartanssonar. Þetta veit hv. þm. vel og hv. þm. veit líka að Magnús Kjartansson greiddi því atkv. á móti samningum við Union Carbide um byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Það þarf ekki að rifja það upp, svo að þessi aths. hin ágæta flm. till., Friðrik Sophussonar, er gersamlega út í hött.

Ég var að vekja athygli hv. þm. á því, að meðan ráðherrar Sjálfstfl. fóru með málefni iðnrn. og meðan ráðherrar Alþfl. fóru með málefni heilbrmrn. í gömlu viðreisnarstjórninni á árunum 1968–1971 var nákvæmlega ekkert gert í þessum málum og mengunarmálin látin sitja gersamlega á hakanum. Ég veit að hv. þm. Friðrik Sophusson getur ekki andmælt þessu. En ef hann hefur aths. að gera þá skora ég á hann að koma hér næstan í ræðustól á eftir mér. Ég veit að hann hefur ýmislegt til málanna að leggja í þessum efnum og vill gjarnan gera þessa umr. sem fróðlegasta fyrir þá sem á hana hlýða.

Ég var þar kominn að að ósk verkalýðsforustunnar á þeim tíma fól Magnús Kjartansson, þáv. heilbrmrh. Heilbrigðiseftirliti ríkisins að taka þessa rannsókn að sér og hraða henni. Framkvæmd og niðurstöðum þeirrar rannsóknar, sem hófst í nóv. 1971, hefur fyrrv. forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins lýst í greinargerð til heilbr.- og trmrh. dags. 11. ágúst 1972, og verða hér í stuttu máli raktar helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar.

Rannsókninni var hagað þannig: 1. Vinnustaðir verksmiðjunnar skoðaðir, og var niðurstaða skoðunarinnar sú, að allmikið ryk væri í þessum vinnustöðum og fann skoðunarmaðurinn til óþæginda í öndunarfærum vegna hins mengaða lofts.

2. Rannsakað var loftkennt flúormagn í kerskála (þ.e. flúorvetni), en niðurstöðu þeirra rannsókna er ekki getið í skýrslunni. Aftur á móti eru til rannsóknir á flúorvetni frá nóv. 1971, en þar er sagt að niðurstöður séu lægri en búast mátti við, sennilega vegna vandkvæða við sýnishornatökuna að einhverju leyti.

3. Brennisteinssýrlingur var rannsakaður í andrúmslofti í kerskála og skautasmiðju og reyndist vera að meðaltali 0.14 mg á rúmmetra, en hæstu tölur einstakra mælinga fóru upp í 0.475 mg á rúmmetra, og var talið að þessar tölur væru innan uppgefinna hættumarka.

4. Ryksýni voru tekin í kerskála og skautasmiðju, en ekki rannsökuð með tilliti til magns eða efnasamsetningar.

5. Teknar voru stikkprufur af innihaldi andrúmslofts af kolsýringi og súrefni og reyndust þessar lofttegundir innan eðlilegra marka.

7. Flúor í sólarhringsþvagi var rannsakað frá 10 starfsmönnum fyrirtækisins, þar af þremur skrifstofumönnum. Reyndist það vera frá 0.6 mg í lítra til 3.2 mg í lítra, en miðað er við 4.8–5 mg í lítra sem hættumörk eftir 48 tíma.

8. 7 menn af 8, sem veikst höfðu í álverinu, voru kallaðir til viðtals og tekin af þeim nákvæm sjúkrasaga og aflað upplýsinga um rannsóknir á þeim frá öðrum læknum eða stofnunum. Allir höfðu reynst einkennalausir við læknisskoðun þegar þeir hófu störf hjá álverinu. Niðurstöður þessara rannsókna leiddu í ljós að þessir menn þjáðust af einkennum frá öndunarfærum, sem í sumum tilvikum voru mjög slæm. Einnig kom fram ofnæmi hjá sumum þessara manna, en auk þess bar mikið á sleni og þreytu að vinnu lokinni. Flestir höfðu unnið í kerskála, en margir við súrálsuppskipun og haft mikla yfirvinnu.“

Svona var nú heilsufarið hjá þessum mönnum sem unnið höfðu hjá álverinu. En forstjórar þessa fyrirtækis höfðu fullyrt og svarið og sárt við lagt á opinberum blaðamannafundum að vinna af þessu tagi væri algerlega hættulaus og engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að eiturefni gætu borist frá þeirri framleiðslu sem þarna var á ferðinni. Er ekki ástæða til að hafa þessar staðreyndir í huga, þegar hér kemur fram á Alþingi till. um það, að þeir sem standa að þessu álveri hafi sérstakan forgang umfram alla aðra, að þeir eigi að njóta þess að hafa forgang þegar næst verður byggð álframleiðsla hér á landi? Ég held að það sé sannarlega ástæða til að hafa allar þessar staðreyndir í huga þegar menn skoða þá till. sem hér er til umr.

Í skýrslunni segir ennfremur: „Talið var að mengun andrúmslofts á vinnustöðum þessara manna svo og visst næmi fjögurra af sjö mönnum væru samverkandi orsök sjúkdómseinkenna þeirra og öll veikindatilfelli ættu að flokkast undir atvinnusjúkdóma. Þannig er talið af Heilbrigðiseftirliti ríkisins að aðstæður í Straumsvík séu þannig, að hætta sé á atvinnusjúkdómum hjá starfsmönnum.“

Takið eftir því, að þetta er 10 árum áður en krafa íslenskra stjórnvalda um uppsetningu hreinsitækja í Straumsvík nær fram að ganga. Þá þegar er sannað af Heilbrigðiseftirliti ríkisins að menn veikjast við störf sín hjá álbræðslunni í Straumsvík og það líða 10 ár áður en tekst að knýja þennan svissneska auðhring til þess að setja upp hreinsitæki.

Í skýrslunni segir ennfremur: „Bent er á varnaðarráðstafanir, sem beita verði við álverið gegn atvinnusjúkdómum, t.d. hreinlætis-, öryggis- og loftræstiráðstafanir. Bent er á að auk athugunar á almennu heilsufari beri sérstaklega að athuga ástand öndunarfæra og ofnæmistilhneigingar hjá starfsmönnum, og í þriðja lagi verði að stilla vinnutíma í hóf.

Þótt ljóst sé að fyrrnefndar mengunarrannsóknir séu meira eða minna ófullnægjandi hefur niðurstaða rannsóknarinnar í heild verið í fullu samræmi við reynslu og þekkingu frá niðurstöðum rannsókna frá öðrum löndum við svipaðan atvinnurekstur og aðstæður.“

Þetta var mönnum sem sagt þegar ljóst árið 1972 og það líða 10 ár þar til tækin hafa verið sett upp. Ennfremur segir hér í skýrslunni: „Þá er þáttur Öryggiseftirlits ríkisins ótalinn, en starfsmenn þess fara vikulega í eftirlitsferð í verksmiðjuna og skoða þungavinnuvélar, verkstæði og aðbúnað starfsfólks, auk þess sem gasmælingar eru framkvæmdar til að finna leka í leiðslum (bútan- og própangas.)“

Það var búið að fullyrða að eiturgas gæti ekki borist frá þessari verksmiðju. Fullyrðingin kom frá engum öðrum en álforstjóranum sem hélt blaðamannafundinn fræga. Hér segir ennfremur:

„Samkvæmt skrá Öryggiseftirlitsins frá 9. nóv. 1976 voru skráð 16 atriði, sem lagfæra þurfti, og er þar um að ræða atriði vegna lélegrar loftræstingar, vöntunar á neyðarútgangi, hávaða, hitastigs og almennrar hreinlætisaðstöðu ásamt fatageymslum. Sumt hefur verið lagfært, annað er í athugun. Einnig fór fram hávaðamæting 1972 í nokkrum vinnusölum álversins og var hávaði við mælingartilfelli undir hættumörkum á vinnustöðum. Þó skal þess getið, að þessar mælingar segja ekkert um hávaða við einstök störf starfsmanna.

10.–15. febr. 1974 framkvæmdi heyrnardeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur heyrnarmælingar á 117 starfsmönnum álversins, þar með talið fólk úr eldhúsi og fleiri stöðum, og reyndust 97 starfsmenn hafa skerta heyin, þar af 30 með verulegt heyrnartap. Þótt samanburði sé ekki lokið á tíðni heyrnartaps við önnur hávaðasöm störf, t.d. vinnu í blikksmiðjum o.s.frv., virðast þessar tölur — þ.e. 83% með skerta heyrn og 25.6% af öllum með verulegt heyrnartap eða 31% af þeim sem hafa skerta heyrn — benda til þess að um óeðlilega háa tíðni heyrnartaps sé að ræða hjá starfsmönnum álversins og full ástæða til að endurtaka rannsóknina hið fyrsta.“

Svona var nú ástandið í álverinu í Straumsvík eftir að það hafði verið starfrækt í 8 ár. Svona var mikið að marka loforðin sem Müller og Meyer gáfu. Annar þessara manna er enn í forustu svissneska álhringsins, og meira að segja væntanlegur hingað til lands eftir fáeina daga til þess að setjast hugsanlega að samningaborði við viðræðunefndina, sem þríflokkarnir hér á Alþingi, álflokkarnir hér á Alþingi leggja nú alla áherslu á að fá samþykkta, svo að hún geti sest að samningaborði með þessum sama Meyer, sem blekkti oss svo herfilega fyrir 17 árum síðan, eins og ég hef verið að rekja hér. Og þetta mál, að álflokkarnir þrír fái að taka forustuna í þessu máli, er svo mikið áhugamál hæstv. forseta vors og hv. samstarfsmanna okkar í Framsfl., að þeir vinna það til að sitja hér heila nótt til að freista þess að koma þessu máli fram áður en þingi er lokið, enda stutt þar til Meyer kemur. Nefndin þarf að vera viðbúin að taka til starfa, svo að hægt sé að makka við hana um nýtt álver. Það gera sömu mennirnir sem sviku okkur, gáfu okkur fölsk loforð og gerðu við okkur þessa einstæðu samninga sem ég hef nú gert að umtalsefni. Nei, svo sannarlega hef ég ætlað hinum ágæta forseta okkar, hv. þm. Jóni Helgasyni, annað hlutverk en það að leggja slíkt ofurkapp á þetta mál, því að ég hef ekki reynt hann að því að vera sérstakan áhugamann í þessum efnum og hef verið sannfærður um að hann fylgdi hinni gömlu stefnu síns flokks, sem byggðist á því að vera á móti svikasamningum af þessu tagi, samningum við menn, sem aldrei standa við sín orð, samningum við menn, sem lofa því árið 1973 að setja upp hreinsitæki við álverið í Straumsvík og efna það níu árum seinna.

Í skýrslunni um mengunarvarnir (Forseti: Ég hafði nú vænst þess að hæstv. ráðh. mundi takast að ljúka ræðu sinni. Ég ætlaði ekki að trufla hana.) Ég á mikið eftir, því miður. (Forseti: En mér sýnist að ekki muni vinnast tími til þess, þar sem þessi fundur hefur staðið lengur en ég ætlaði. Mætti ég þá biðja þig að gera hlé á þinni ræðu?) Ég skal að sjálfsögðu verða við tilmælum forseta. Ég tek það fram að ég á töluvert eftir.