14.03.1983
Sameinað þing: 65. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

34. mál, hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur fjallað um þáltill. Péturs Sigurðssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar um hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg á mörgum fundum og m.a. hefur Hans G. Andersen sendiherra komið hingað til lands til fundar með nefndinni í sambandi við meðferð þessa máls.

Eins og kunnugt er hefur verið svo ákveðið í hafréttarsáttmálanum að strandríki hafi fullveldisrétt yfir landgrunninu innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar og einnig utan þeirra marka allt að útjaðri landgrunnsbrekkunnar, svo sem nánar er skýrgreint í ákvæðum hafréttarsáttmálans. Gert er ráð fyrir því sem meginreglu að strandríkið sjálft ákveði mörk landgrunnsins, einnig utan 200 sjómílna, í samráði við sérstaka landamæranefnd, sem stofnsett verður samkvæmt 76. gr. hafréttarsáttmálans og fskj. 2 við hann. Hér er um það að ræða að draga mörk milli landgrunns strandríkis og alþjóðahafsbotnssvæðisins, eins og reglur mæla fyrir um í hafréttarsáttmála. Með tilvísun til þessa gerir nefndin það að tillögu sinni að till. þeirra Péturs Sigurðssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar verði samþ. með þeirri breytingu sem um er getið á þskj. 322.

Það sem nú liggur fyrir er það, að stjórnvöld sjái um að nauðsynlegar mælingar fari fram, þannig að við séum tilbúnir, Íslendingar, að tilkynna hvaða svæði það er sem við helgum okkur á grundvelli hafréttarsáttmálans. Ég vænti þess að till. n. nái fram að ganga.

Herra forseti. Ég vil aðeins minnast á að á dagskrá er ekki þriðja þáltill. um hafréttarmálefni, þ.e. till. til þál. um laxveiðar Færeyinga í sjó, en fyrir liggur nál. utanrmn. um þá þáltill. og vænti ég að unnt verði að taka hana á dagskrá hér á eftir.