14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (3195)

Almennar stjórnmálaumræður

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Góðir til heyrendur. Þegar eldhúsdagsumr. fara nú fram hér á Alþingi blasa við í íslensku þjóðlífi meiri vandamál til úrlausnar en nokkru sinni fyrr. Gengið verður til væntanlegra kosninga við aðstæður, sem vart eiga sér hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu, hvort heldur er í efnahagslegu eða stjórnarfarslegu tilliti. Efnahagslegt öngþveiti blasir við og útlitið hjá atvinnufyrirtækjunum hefur sjaldan verið dekkra. Það er svo dökkt að Alþb.mennirnir tala um að gera þurfi fjögurra ára neyðaráætlun til þess að komast út úr ógöngunum.

Framsóknarmenn, sem eru hræddir við að kjósa eftir nýrri kosningaskipan, vilja alls ekki að Alþingi komi saman strax að loknum kosningum. Þeir segja að efnahagsvandinn sé svo hrikalegur að ekki megi tefja í tvo mánuði, gjaldþrot þjóðarbúsins og fjölda fyrirtækja blasi við. Þetta er ófögur lýsing, en henni eru flestir sammála. Skiptir þar engu hvort um andstöðu við ríkisstj. er að ræða eða stuðning. Þetta vekur hins vegar upp tvær spurningar, sem ég vil leitast við að svara. Sú fyrri er: Hvað hefur verið að gerast hin síðari ár, hvað getum við gert til bjargar?

Hverfum nú stutta stund til sept. 1978, er Ólafur Jóhannesson myndaði síðari vinstri stjórn sína. Niðurtalningarleið Framsóknar, sem þeir Steingrímur og Tómas hafa talað svo mikið um, skyldi nú leysa allan vanda. Alþb. boðaði markvissa framleiðslustefnu, íslenska atvinnustefnu, og þeir Svavar og Guðmundur J. ætluðu auðvitað að setja samningana í gildi, eins og þeir höfðu sagt og skrifað í Þjóðviljann. Nýi Alþfl. á gamla grunninum ætlaði heldur betur að sópa í burtu verðbólgunni, undirrót allrar spillingar. Fyrstu aðgerðir sáu dagsins ljós: brbl., nýir skattar, meira að segja afturvirkir. Slíkt var siðgæðið. Þrengt var að heimilunum og staða atvinnuveganna versnaði. Auknar voru erlendar lántökur til að mæta hallarekstri ríkisfyrirtækja, allt til að auka á ríkisumsvifin, hagræða vísitölunni, sem þó dugði ekki til. Verðbólgan fór vaxandi. Ríkisstj. hrökklaðist frá völdum. Alþfl. gafst upp við hreingerninguna. Niðurtalning Framsóknar varð að upptalningu. Hjá Alþb. varð íslensk atvinnustefna að atvinnuleysisstefnu. Og menn spyrja í dag: Er það ásetningur Hjörleifs að loka álverinu ef hann verður iðnrh. eftir kosningar?

Í febr. 1980 var svo núverandi ríkisstj. mynduð „til þess að bjarga heiðri Alþingis“. Með því að þrír þm. Sjálfstfl. urðu ráðherrar í ríkisstj. og hún varð undir forsæti þáv. varaformanns Sjálfstfl. létu fjölmargir sjálfstæðismenn sér til hugar koma að nú væri brotið í blað. Þeir sem gerst þekktu til gerðu sér grein fyrir öðru. Enn hefur komið í ljós að Alþb. og Framsókn hafa ráðið ferðinni: bráðabirgðaráðstafanir á þriggja mánaða fresti, sömu úrræðin, nýir skattar, auknar erlendar lántökur, vísitölufeluleikur og enn þrengt að atvinnuvegunum með óraunhæfum rekstrargrundvelli.

Síðan í sept. 1978 nema nýir skattar á hverja fimm manna fjölskyldu meira en 50 þús. kr. og enn í dag reynir ríkisstj. með aðstoð Alþfl.-manna að leggja á nýja skatta. Erlendar skuldir hafa meira en tvöfaldast síðan 1977 og eru nú um 450 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Ríkið er farið að taka til sín til eyðslu nær því þriðju hverja krónu af þjóðarframleiðslunni. Verðbólgan æðir áfram og nálgast nú 80% . Getur verið að ráðherrarnir og stuðningsmenn þeirra hafi gert sér grein fyrir því að störf þeirra og stefna leiddu til þess ástands í atvinnulífinu sem raun ber vitni og gleggst kemur fram í sjávarútveginum? Getur verið að ráðherrarnir og stuðningsmenn þeirra hafi gert sér grein fyrir því hversu þeir binda hendur ungs fólks í framtíðinni með þeirri miklu töku eyðslulána sem þeir hafa staðið fyrir? Ég vil ekki trúa því á nokkurn þessara manna að þeir hafi viljandi staðið að málum með þeim hætti sem raun ber vitni, heldur hitt: Störf þeirra og stefna, ef stefnu skyldi kalla, gátu ekki leitt til annars. Hvað er þá til bjargar? Hér er eins og annars staðar: Sagan endurtekur sig. Hversu oft höfum við ekki haft vinstri stjórnir og ævinlega hafa sjálfstæðismenn mátt rétta þjóðarskútuna af til endurreisnar í þjóðlífinu.

Við erum að sjálfsögðu reiðubúnir og hvetjum fólk til þess að veita okkur stuðning. Við munum leggja megináherslu á að skapa atvinnuvegunum rekstrargrundvöll. Við viljum að orkulindir landsins verði hagnýttar til þess að atvinna sé tryggð og lífskjör geti batnað. Þetta gerist ekki öðruvísi en að fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé tryggt á ný, efnahagslegu jafnvægi verði náð og hamlað verði gegn því upplausnarástandi sem ríkt hefur að undanförnu, ekki hvað síst á stjórnarheimilinu, og samhent ríkisstjórn taki forustu í þjóðmálunum. Sjálfstfl. einn höfðar til allra stétta þjóðfélagsins, þar sem kallað er á einstaklinginn til athafna og ábyrgðar og áhersla lögð á að þjóðfélagið er fyrir þegnana en ekki þegnarnir fyrir þjóðfélagið. Sjálfstfl. er því eina stjórnmálaaflið sem getur veitt ábyrga forustu á öllum sviðum þjóðlífsins.

Sjálfstæðisfólk bar gæfu til að standa saman í síðustu bæjar- og sveitarstjórnarkosningum. Árangurinn var líka eftir því. Sjálfstæðismenn unnu mikinn og góðan sigur víða um land. Þjóðinni er nauðsynlegt í dag að kjölfestan í íslenskum þjóðmálum verði á ný samhentur flokkur sjálfstæðismanna, flokkur frelsis og framfara. — Góða nótt.