11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér hafa fallið nokkuð þung orð um fundarstjórn á Alþingi. Ég ætla ekki að blanda mér beint inn í þær umr. og bið hv. alþm. að láta þau orðaskipti, sem hér hafa fallið um fundarstjórnina sérstaklega, ekki villa sér sýn í atkvgr. um efnisatriði málsins, því hvað sem líður dómum manna um fundarstjórnina sjálfa er það ekki aðalatriði málsins og getur í þeirri atkvgr. sem hér fer á eftir ekki verið aðalatriði málsins. Bið ég menn þess vegna að taka ekki afstöðu á þeim grundvelli hvað mönnum finnst um virðulegan forseta þessarar stofnunar eða þau orðaskipti sem hér hafa átt sér stað um fundarstjórn, heldur eingöngu á grundvelli þess efnisatriðis hvort víðtæk athugun á fjölda fyrirtækja, sem hafa víðtæk umsvif úti um allt þjóðfélagið, heyri undir utanrmn. eða heyri undir þá nefnd sem fjallar um málefni landsins alls.

Það má vel vera, herra forseti, að ég hafi farið rangt með áðan þegar ég nefndi frystihúsið á Patreksfirði. Ég skal ekki fullyrða meira um það að óathuguðu máli, en það er kannske von að maður ruglist í öllum þessum frystihúsum sem fyrirtækið Reginn hf. hefur ýmist lánað eða á eignarhlutdeild í. Út frá þeim sjónarmiðum mætti rökstyðja að vísa þessu máli til sjútvn., því að þau eru fjölmörg fyrirtækin hér á landinu sem ýmist hafa þegið lánafyrirgreiðslu eða hafa lotið eignaraðild þessa fyrirtækis.

Eins og kom fram, hæstv. utanrrh., í umr. um þetta mál hér fyrir tveimur dögum er misbrestur á till. hvað það snertir að í henni stendur dótturfyrirtæki, en á að standa móðurfyrirtæki. (Forseti: Þetta á að vera um þingsköp.) Já, það er um þingsköp. Þess vegna, herra forseti, er ljóst að hér er verið að taka til meðferðar till. sem á að fjalla um könnun á fjölmörgum fyrirtækjum, ekki bara Íslenskum aðalverktökum, heldur fjölmörgum öðrum fyrirtækjum sem hafa stundað víðtæka fjárfestingarstarfsemi í nær öllum kjördæmum landsins, og slíkt getur ekki heyrt undir utanrmn.

Þar að auki vil ég benda á að utanrmn. er eina nefnd þingsins þar sem sérstök þagnarkvöð hvílir á nm. Þau ákvæði gilda um utanrmn., að enginn getur skýrt frá því sem þar fer fram nema því einu sem hann segir sjálfur. Þetta er gert til að tryggja örugga umfjöllun um utanríkismálefni þjóðarinnar í þessari nefnd, en getur hins vegar algerlega hindrað að umr. um till. af þessu tagi geti átt sér stað. Við vitum það allir þm. hér inni, að þegar skýrt er frá störfum allra annarra nefnda þingsins er það regla að frsm. nál., hvort sem það er meiri hl. eða minni hl., skýra iðulega frá upplýsingum, gögnum og athugunum sem komið hafa fram á fundum nefndanna. Það er nánast ógerningur að fjalla um till. af þessu tagi nema hægt sé að beita þar nákvæmlega sömu reglu og beitt er um öll önnur mál hér á þinginu, sem fara til slíkra nefnda, að hægt sé að skýra frá þeim álitsgerðum, umsögnum og öðru sem til nefndarinnar kemur. Þetta er ekki hægt hvað utanrmn. snertir. Þó það væri ekki nema út af þessu einu, til viðbótar við allt annað sem hér hefur verið nefnt, er útilokað að þingið geti fjallað á raunhæfan hátt um þessa till. nema henni sé vísað til allshn.

Ég vek athygli á þessu fordæmi, hv. alþm. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að stytta mál sitt.) Ég er að ljúka, herra forseti. Segjum sem svo, að hópur alþm. vildi láta kanna umsvif fyrirtækisins Regins hf. — og ég nefni það vegna þess að ég hef fjallað um það fyrirtæki á aðalfundi Sambandsins og hér og á ýmsum öðrum vettvangi — afskipti þess af flugfélögum í landinu og kaup á hlutabréfum þar, í frystihúsum, útgerð og ýmsum öðrum fyrirtækjum. Það er fyllilega eins mögulegt og hvað annað. Þá væri með því að greiða atkv. með því að þessi till. færi í utanrmn. verið að skapa fordæmi fyrir því að slík athugun og umfjöllun um þetta fyrirtæki ætti eingöngu að heyra undir utanrmn. Ég spyr hv. þm.: Eru þeir reiðubúnir að skapa slíki fordæmi hér í dag?