16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. síðasta ræðumanns á því að orðalagið á því skjali sem hann skrifaði undir með bankastjóranum var það, að „miðað við núverandi kerfi“ 1979, miðað við að breyta engu, gera ekkert til þess að greiða fyrir úrlausn mála, þá hefði þetta verið svona. Þess vegna er þessi gamla ályktun einskis virði. Útvegsmenn og sjómenn knúðu það fram að bankakerfið léti afurðalánin ekki af hendi til fiskvinnslustöðva nema þeir fengju sínar launagreiðslur. Matthías Bjarnason gekk í það þegar hann var ráðh. og knúði það fram á einum degi. Það er auðvitað bara að fyrirskipa bönkunum að gera þetta, þá geta þeir það. Það er líka gert hjá ýmsum félögum. Það vita allir menn.

En ég sakna þess, að viðskrh. skyldi ekki gera grein fyrir bréfi því sem hann hefur sent Seðlabankanum, eins og ég óskaði eftir. Ég vona að ég fái þó að sjá það og vil aðeins geta þess, að þau sláturhús sem hér um ræðir, litlu hús, bæði í Skagafirði og Arnarfirði, eru tiltölulega ný hús. Ég held að það hafi verið byggt í Arnarfirðinum 1976 og endurbyggt í Skagafirði. — (Gripið fram í: Hvaða hús var byggt í Arnarfirði 1976, Eyjólfur Konráð?) Ég hygg að það hafi verið það. Ég þykist hafa lesið það og hafi þær upplýsingar frá Birni Emilssyni, að það hafi verið byggt þá. Ef það er rangt, þá mun það verða leiðrétt. Og í Skagafirði var hús endurbyggt fyrir mikla peninga. Það er búið a3 borga þessi hús upp. Bændurnir eiga þessi hús og þeir geta borgað grundvallarverðið strax að hausti og viðbót að vori.