16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er auðvitað ánægjulegt fyrir mig að hv. síðasti ræðumaður, æskulýðsfulltrúinn sjálfur, skuli vilja upplýsa bæði mig og aðra hér á Alþingi um kaupfélögin eins og þau blasa við frá honum séð. Hann sagði hér áðan að það væri enginn skyldugur að vera í kaupfélögunum. Það er út af fyrir sig rétt. Það var heldur enginn skyldugur strangt tekið á sínum tíma að versla við einokunarverslunina. En því var bara hagað þannig að það gerðist með þeim hætti. Og það sem hefur haft áhrif, að því er varðar samvinnustefnuna og kaupfélögin, er flokkurinn sem hv. síðasti ræðumaður er í Það er hann sem leikur stærsta hlutverkið í því að hafa þau áhrif á stefnu kaupfélaganna og samvinnuhreyfingarinnar sem hafa sýnt sig í gegnum árin. Aðalmeinið að því er varðar þessa þætti í þjóðfélaginu er kannske sá einokunarhringur sem Sambandið, fyrst og fremst fyrir tilstilli Framsfl., hefur komið upp hér á landi í gegnum þessa aðila.