19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og þm. er væntanlega kunnugt eftir að hafa lesið þingplögg, þá er sú þáltill., sem hæstv. forseti er í þann mund að leggja til hvernig rædd skuli, fram sett af tæknilegum ástæðum, þeim tæknilegu ástæðum að meiri hl. Alþingis synjaði mér s.l. miðvikudag um fsp. sama eðlis. Það er auðvitað öllum ljóst, að þetta er einasta tæknileg till. til að koma máli hér til umr.

Mér er hins vegar ekki alveg ljóst, hvort meiri hl. hv. alþm. hafi gert sér ljósa grein fyrir hversu alvarleg athöfn það er í þingræðislegum skilningi að meina fsp. til ráðh. Skrifstofa Alþingis hefur tjáð mér, að á lýðveldistímanum séu aðeins tvö fordæmi fyrir því að þetta hafi gerst. Í báðum tilfellum átti í hlut þáv. hv. þm. Magnús heitinn Kjartansson — þetta var að haustlagi 1977 — og í báðum tilfellum var um að ræða spurningar þar sem ráðh., í því tilfelli þáv. hæstv. viðskrh. og dómsmrh., Ólafur Jóhannesson, var spurður um persónulegar skoðanir; annars vegar á stefnu Framsfl. í tilteknu máli og hins vegar á tilteknu fyrirtæki hér suður með sjó. Þessu var hafnað af meiri hl. Alþingis á þeirri forsendu að hér væri ekki þinglega að staðið, sbr. 32. gr. þingskapalaga. Í ákvörðuninni sem meiri hl. Alþingis tók hér s.l. miðvikudag var engu slíku að heilsa. Það var verið að spyrja hæstv. dómsmrh. um atburðarás, sem sett var í gang af undirmönnum hans, um fullkomlega embættisleg störf undirmanna hans.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því út á hvaða brautir Alþingi er komið ef svo færi að það væri þingræðislegur máti að meiri hl., sem væntanlega stendur að ríkisstj., rétti upp hendurnar og bannaði fsp. frá minni hl., sem þá fræðilega væntanlega myndaði stjórnarandstöðu, og ég held að meiri hl. Alþingis, sem í flumbruskap tók þessa ákvörðun s.l. miðvikudag, hafi ekki haft hugmynd um hvað hann var að gera þinginu og hugmyndunum sem bak við það búa.

En því kveð ég mér hljóðs nú, að forseti er í þann mund að afgreiða þessa till. Hann hefur sagt mér það, að hann muni gera það með þinglegum hætti athugasemdalaust. Ég treysti því og mun því ekki setja fram ósk um að hann víki úr sæti, sem ég hefði gert að öðrum kosti, því að ég hef ástæðu til að treysta forseta ekki í þessum efnum eftir það sem gerðist hér s.l. miðvikudag. En ég skal brjóta odd af oflæti mínu og særðu þinglegu stolti og treysti honum í þessum efnum. En í grg. segi ég frá því, að forseti hafi gefið þinginu rangar upplýsingar hér s.l. miðvikudag og það eru býsna stór orð að segja. Ég tel mér skylt að greina frá aðeins einu atriði.

Forseti lýsti því yfir á þingi s.l.— (Forseti: Það er umr. um þingsköp.) Já, þetta er um þingsköp, herra forseti. (Forseti: Þetta er ekki efnisleg umr.) Þetta er ekki efnisleg umr., þetta er um þingskóp. Það er þingskapalegt atriði, að forseti lýsti því yfir að það væri að kröfu flm. sem málið gekk til atkv. s.l. miðvikudag. Þetta er rangt. Samkv. 32. gr. þingskapalaga, og þau fjalla væntanlega um þingsköp, herra forseti, skal atkvgr. fara fram á næsta fundi Sþ. Ef þessi neitun fer fram, sem forseti er í sínum fulla rétti að gera, þá getur þm. krafist þess að þingið taki afstöðu samdægurs. Það stendur þar svo skýrum stöfum sem verða má.

Forseti gaf þinginu og þjóðinni hér mynd af upphlaupi. Friðarspillirinn var á ferðinni eina ferðina enn. Það varð upphlaup í þingsölum og þeir sem eiga að segja þjóðinni satt og m.a. þiggja fyrir það laun frá skattgreiðendum drógu upp mynd af upphlaupi. Auðvitað tek ég þessu ekki sem þm. Ég hef flutt hér fram þáltill., sem er samin að ráðgjöf fróðustu lögfræðinga. Auðvitað er ég að fara í kringum þingskapalögin og ég dreg enga dul á það. Ég er að fá með tæknilegum hætti mál hér til umr. Ég fylli það út með skýrslu frá Rannsóknarlögreglu ríkisins sem ástæðu, og lesi menn 3. gr. þeirrar skýrslu og spyrji svo: Af hverju er þessi fsp. sett fram? — En þetta er efnislegt og ég er aðeins að gera aths. við þingsköp.

Forseti hefur tjáð mér, að hann láti undan og muni ekki gera frekari aths. við með hverjum hætti þessu máli reiðir af hér á þinginu og ég treysti því að það verði. Ég mun því ekki setja fram ósk um að forseti víki úr forsetastóli. En forseti greindi hv. Alþingi rangt frá s.l. miðvikudag, og ekki aðeins það, heldur einnig formönnum þingflokkanna. Frá þessu er skýrt í grg. Ég bið þm. að hugleiða það í mikilli alvöru hvað hér gerðist alvarlegur atburður, því að hugleiði menn: Ef stjórnarfarið yrði svona almennt, hvað gerðist? Hugleiði forsetarnir það, tveir þm. að austan og einn úr Skaftafellssýslu. Sá fjórði er á móti. Hugleiði menn með hverjum hætti málum mundi fram vinda. Ég sé að menn eru niðurlútir og menn eiga að vera það þegar svona lagað hefur gerst.

Sem sagt, herra forseti: Ég tek orð þín góð og gild um það að þetta mál verði heiðarlega afgreitt. Ég nota þau orð í grg., að ég treysti því að fleiri bolabrögðum verði ekki beitt. Það eru stór orð líka, en fram sett af fullri ástæðu. Ég tel mig vera að reyna að halda á loft sóma þessarar stofnunar með því að ég er rétt kjörinn þm., þó að einhverjum hér mislíki það, og er í fullum rétti sem slíkur. Það sem gerðist hér s.l. miðvikudag má aldrei aftur henda, því að þingræðið og réttur þm., allt þetta, skiptir máli.

Og herra forseti: Umfram allt að greina Alþingi rétt frá þegar svo ber undir.