17.11.1982
Neðri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

4. mál, lokunartími sölubúða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég undrast þau ummæli hv. 7. þm. Reykv., sem hér talaði fyrir stuttu, að hann vill ekki að Alþingi skipti sér af lokunartíma sölubúða. Það er einmitt það sem það gerir. Það gerir það með því að hafa í gildi lög um lokunartíma sölubúða. Og heimild sveitarfélaga er auðvitað meiri og minni pólitísk afskipti, hvernig sem við viljum á það líta.

Það hefur óneitanlega valdið okkur nokkurri undrun, flm. þessa frv., hve talsmenn hinnar frjálsu samkeppni í landinu hafa brugðist ókvæða við frv. til l. um að leggja í hendur kaupmanna sjálfra og samtaka þeirra hvernig lokunartíma sölubúða skuli háttað. Umsögn Kaupmannasamtaka Íslands, sem hér er birt á þskj. 4, er svo full af mótsögnum að undrum sætir. Þar segir t.d. með leyfi forseta: „Eins og aðrar starfsstéttir á það fólk sem vinnur verslunarstörf fullan rétt á að skynsamleg löggjöf sé í gildi um atvinnu þess.“ Mér er ekki kunnugt um að aðrar starfsstéttir hafi um atvinnu sína lög sem banna þeim fyrirtækjum sem þær vinna hjá að hafa opið á ákveðnum tíma. Hins vegar eru í gildi lög nr. 46 frá 1980 fyrir allar starfsstéttir sem heita „Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.“ Í IX. kafla þeirra laga, sem fjallar um hvíldartíma og frídaga, eru ákvæði um að launþegi skuli á hverjum sólarhring hafa 10 tíma samfelldan hvíldartíma með undantekningum sem þar er getið, svo sem við björgunarstörf o.fl. Það eru því í gildi lög í landinu sem vernda verslunarfólk sem aðra launþega gegn ósæmilegu vinnuálagi. En í umsögn Kaupmannasamtakanna segir með leyfi forseta: „Kaupmannasamtök Íslands beina því eindregið þeim tilmælum til hv. Alþingis að sett verði nú þegar lög um afgreiðslutíma verslana, þar sem verslunarfólk verði tryggt gegn óhóflegum vinnutíma“ o.s.frv. Þessi beiðni Kaupmannasamtakanna um vernd til handá verslunarfólki gegn samtökunum sjálfum eru að nokkru óþörf. Þessi lög voru sett á hinu háa Alþingi árið 1980 og þau takmarka vinnutíma nokkuð. Því miður aðeins nokkuð.

Hitt er svo allt annað mál, að vinnutími verslunarfólks er óhóflega langur. Það er óhóflega langur vinnutími að vera á vinnustað frá kl. 8–9 á morgnana til kl. 7 á kvöldin.

Og launin fyrir það eru ósæmilega lág og það veit líka hv. 7. þm. Reykv., félagi minn. En vilji Kaupmannasamtökin leiðrétta þetta eru kjarasamningar verslunarfólks vettvangurinn til þess. Landslög um lokunartíma sölubúða koma því ekkert við.

Ég hygg að verslunarfólk eigi við þann vanda að stríða eins og aðrir launþegar í þessu landi, sem vinna allt of langan vinnudag vegna lágra launa og mikillar dýrtíðar, að komast aldrei í verslanir. Þjóðfélagið er orðið þannig, að velflestir foreldrar vinna utan heimilis og því getur annað þeirra ekki annast innkaup til heimilisins eins og áður var. Það kynni að vera að makar hv. þm. annist innkaup til sinna heimila, en það er í fæstum tilvikum.

Og því skal ekki gleymt, að það er kostnaðarsamt að versla ævinlega þar sem hendi er næst. Allur samanburður er þar með útilokaður og verðskyn neytenda eftir því. Menn hafa einfaldlega engan tíma til að bera saman verð. Og ekki er annað að sjá en það sé einmitt það sem talsmenn frjálsrar samkeppni dreymir um, enda dafnar verslunin án þess að augljós vilji sé á að nota gróða hennar til þess að bæta kjör verslunarfólks, sem þeir eru svo áhugasamir um að lögvernda. En því aðeins er frjáls samkeppni í verslun möguleg, að neytendur hafi aðgang að verslunum í frítíma sínum og geti verslað þar sem verð er sanngjarnast og varan best. Það hlýtur að vera krafa neytenda að sú þjónusta sé veitt.

Gróða sinn af því að vanrækja þessa sjálfsögðu þjónustu hefur verslunin ekki notað til að bæta kjör verslunarfólks, heldur til að byggja skýjakljúf úr steinsteypu til að festa fé, festa gróðafé sitt. Lífeyrissjóður verslunarmanna er einn eigenda þessa skýjakljúfs ásamt Kaupmannasamtökunum. Nær hefði verið að fjölga lítið eitt orlofshúsum þessa fjölmenna starfshóps, en þau munu nú vera innan við 10 talsins. Þess vegna þurfum við á að halda plaggi eins og þessu hérna, „Verðkynning Verðlagsstofnunar, blað 1“, þar sem maður getur lesið að í einni búð kostar kg. af kjúklingi 89 kr., í annarri búð kostar það 127 kr. Ég skal játa það hér að ég hef ekki hugmynd um hvort ég kaupi mína kjúklinga á 127 kr. eða 89 kr. vegna þess að ég hef engan tíma til að fara í margar verslanir, vegna þess að ég er vinnandi í þjóðfélaginu og hef ekki tíma til að fara í verslanir. Þetta er bara eitt dæmi af þessu ágæta plaggi. Og mér þætti gaman að víta hve margar fjölskyldur verða að sætta sig við að kaupa vörur á verri kjörum þar sem verðmismunurinn er slíkur.

Þá segir í umsögn Kaupmannasamtakanna að í öllum nágrannalöndum okkar séu í gildi lög um lokunartíma verslana. Þessu vék reyndar 1. flm. að hér áðan. Þetta er ekki rétt, eins og hann sagði, fremur en svo margt annað í umsögn Kaupmannasamtakanna. Hvorki í Noregi, Svíþjóð eða Frakklandi eru nokkur lög í gildi um þetta og í Bandaríkjunum ekki heldur. Í þessum löndum hafa kaupmenn komið sér saman um verslunartíma eins og gerð er grein fyrir á þskj. 4. Meginatriðið í umsögn Kaupmannasamtakanna er þó líklegast það, að þeir vara við stórauknum kostnaði sem, eins og þeir segja, „kæmi fram í hærra vöruverði.“

Í landi þar sem verðlagseftirlit er lítið sem ekkert er harla léttvægt að bera fram þessi rök. Punkturinn hefði auðvitað átt að koma á eftir „stórauknum kostnaði“. Því að auðvitað yrði verslunin að greiða vaktavinnu, sem unnin væri eins og aðrir atvinnurekendur. Þeir sem ekki vildu veita þá þjónustu gætu náttúrlega lokað, því að hér er ekki verið að neyða neinn til að hafa verslanir sínar opnar. En þá kemur til skjalanna óttinn við samkeppni, sem alltaf skýtur upp kollinum. Óttinn við samkeppni er það sem Kaupmannasamtökunum er verst við af öllu, eins og sýndi sig þegar borgarstjórn Reykjavíkur leyfði þeim aðilum sem þess óskuðu að setja upp markað á Lækjartorgi. Það þurfti vinstri meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur til að leyfa það, eins og hv. 3. þm. Reykv. veit. Ekki hefur þó virst sem verslanirnar í nágrenninu hafi tapað á því nema síður sé.

Fjöldamargir, ekki síst þeir sem aðhyllast sósíalísk sjónarmið, eru fullir fordóma gagnvart hvers kyns viðskiptalífi. Þar er auðvitað á ferðinni slæmur misskilningur, sem viðskiptafólk á verulega sök á, vegna þess að í stað þess að leggja áherslu á tvo þætti viðskipta, þjónustu við samborgarana og auðvitað hagnað af henni, er einungis lögð áhersla á annan þáttinn, hagnaðinn. Það er heldur óskemmtileg atvinnugrein að reyna einungis að græða á náunganum. Auk þess er enginn vafi á að betri þjónusta hefði vitanlega í för með sér meiri hagnað og þegar á allt er litið skemmtilegri og vinsamlegri mannleg samskipti, sem geta haft góð áhrif á mannlífið í landinu, þar sem um væri að ræða gagnkvæmt traust. Á það vantar mikið og ekki að ástæðulausu.

Það er vissulega full ástæða til að virða einstaklinga sem reka fyrirtæki og taka þar með þá áhættu sem því fylgir. Er ekkert við því að segja að þeir beri eitthvað úr býtum fyrir það eins og aðra vinnu. En virðing manna fyrir athafnamönnum fer mjög dvínandi við sífellt rell þeirra í ríkisvaldinu, svo að áhættuþátturinn er orðinn harla léttvægur. Hversu aumt og illa rekið sem fyrirtæki er sýnist það vera yfirvöldum sáluhjálparatriði að halda í þeim tórunni. Sjóðir landsmanna eru tæmdir aftur og aftur til þess að hella peningum í vonlausan rekstur og kaupmannasamtök landsins eru ekki sjálfstæðari en svo, að þau verða að hafa landslög um hvenær kaupmenn megi hafa verslanir sínar opnar eða betla til sveitarfélaga og pólitískra stjórna þeirra um svo sjálfsögð atriði, með þeim afleiðingum að vinnandi fólk í landinu norpar við sjoppur bæjarins í biðröðum sem mest minna á frásagnir af verslunarháttum í Moskvu. Það er full ástæða til að undrast.

Ég vil líka minna hv. Alþingi á þær umsagnir sem hér er talað um. Það kom engin umsögn frá verslunarmönnum. Það kom umsögn frá stjórn Verslunarmannafélagsins. Og ég verð að segja eins og hv, þm Vilmundur Gylfason, að ég er ekki alveg viss um að allir verslunarmenn séu sammála þeirri umsögn.

Að lokum þetta, herra forseti. Hið háa Alþingi ætti að huga nokkuð að því hvort ekki eru fullmörg lög samþykkt hér í sölum. Löggjöf á að setja um mikilvæga þætti í þjóðfélaginu og hún á að vera vel grunduð og vönduð. Löggjöf um það hvenær fólki leyfist að versla til heimila sinna er nánast hlægileg. Slíkt er samkomulagsatriði þeirra sem þjónustu við neytendur annast og um það þarf engin lög. Og það eru fleiri lög sem fella mætti niður að skaðlausu. Gæti slíkt ekki gert annað en gera útgáfu lagasafns, sem lengi hefur verið beðið eftir, ofurlítið auðveldari.

Í tilefni 65 ára afmælis Verslunarráðs Íslands, sem kaupmenn eru aðilar að, sagði formaður þess, Ragnar Halldórsson, í eins konar leiðara fyrir þessu riti hér, sem heitir Verslunarráð Íslands 65 ára, orðrétt með leyfi forseta:

„Tilgangurinn með stofnun og starfsemi Verslunarráðsins var og er að gæta hagsmuna viðskiptalífsins gagnvart stjórnvöldum og efla skilning almennings á mikilvægi verslunar, viðskipta og annarrar atvinnustarfsemi. Í starfi sínu hefur Verslunarráðið haft það að leiðarljósi að viðskiptalífinu sé best borgið með frjálsri samkeppni, þannig að kostir einkarekstrar og einkaframtaks fái að njóta sín. Verslunarráðið berst ekki fyrir þröngum hagsmunum fáeinna fyrirtækja, heldur vill það koma á því fyrirkomulagi í efnahagslífinu sem gætir fyllstu hagkvæmni og jafnréttis og eykur þau efnahagslegu gæði sem koma til skipta í þjóðfélaginu, öllum landsmönnum til heilla. Í því er styrkur Verslunarráðs Íslands fólginn.“

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að skora á hið háa Alþingi að samþykkja það frv. sem hér er til umr. og treysta með því verslunarfólki og samtökum þess til að ráða vinnutíma sínum sjálft í samráði við neytendur. Kaupmannasamtökin eru fullfær um að axla þá ábyrgð sjálf og sinna þannig þeirri þjónustu, sem þeim hefur verið falin, í stað þess að hlaupa í skjól til ríkisvaldsins um hin smæstu atriði.