22.11.1982
Efri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. beindi til mín nokkrum fsp. út af framkvæmd á yfirlýsingu ríkisstj. frá 21. ágúst í 21 lið, hvað þeim liði. Öll þau atriði sem þar greinir frá eru í vinnslu. Sumu er lokið eða langt komið, öðru skemmra á veg komið, en frá þessu verður væntanlega skýrt í heild áður en langt um líður. Varðandi fsp. hans um það hvort ætlunin sé að ljúka meðferð þessa frv. fyrir 1. des. í þinginu, þá geri ég ráð fyrir að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. Einn nm. lét í ljós hér áðan að það þyrfti að gaumgæfa vel málið og fá margvíslegar upplýsingar þar. Hversu langan tíma fjh.- og viðskn. telur sér nauðsynlegt að taka get ég ekkert um sagt.

Í þeim mörgu ræðum sem hér hafa verið fluttar er náttúrlega margt sem ástæða væri til að svara. En ég ætla að draga aðeins hér saman í örfáum orðum svör við nokkrum liðum, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. ræddi um, sem á nú sæti í fjh.- og viðskn. og er oft frsm. nefndarhluta þar. Hann setti fram nokkrar fullyrðingar í sinni ræðu til rökstuðnings því að efnahagsaðgerðirnar frá því í ágúst væru tilgangslausar og gagnslausar. Fyrsta fullyrðing hans var þessi: Þrátt fyrir efnahagsaðgerðir eru allir atvinnuvegir reknir með bullandi tapi og komnir á vonarvöl, svo að ég noti orðalag hv. þm. Hver er sannleikurinn í þessu? Hann er sá samkv. nýjustu skýrslu Þjóðhagsstofnunar frá því fyrir örfáum dögum, að fiskvinnslan og þar með frystingin sé nú rekin með nokkrum afgangi. En eftir 1. des., þegar komin er til framkvæmda sú verðbótahækkun sem þegar er ákveðin, þ.e. 7.7% hækkun og tilsvarandi hækkun fiskverðs, þá er það mat Þjóðhagsstofnunar að frystingin, sem er aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, beri sig eða sé rekin hallalaust, en vinnslan í heild með nokkrum afgangi. Fullyrðingin um að allir atvinnuvegir landsins séu þrátt fyrir efnahagsaðgerðir reknir með bullandi tapi og komnir á vonarvöl er því aðeins staðhæfing út í bláinn og hefur við ekkert að styðjast.

Önnur fullyrðing sama hv. þm. var sú, að samkv. spá í þjóðhagsáætlun mundi verðbólgan á næsta ári — hann talaði nú sérstaklega um fyrri hluta ársins að vísu-vera í sama fari og hún væri nú eða um 60%. Þessi frásögn er ekki rétt vegna þess að það kemur skýrt fram í þjóðhagsáætlun að spá Þjóðhagsstofnunar er sú, að verðbólgan frá upphafi til loka næsta árs verði um 50% ef ekki koma frekari aðgerðir til. Í annan stað stenst það ekki heldur að verðbólgan haldi áfram í sama fari, því að 1. nóv. hækkaði framfærsluvísitalan um 17.5%. En þegar hún verður næst mæld, þá eru allar horfur á að hún verði verulega lægri. Það held ég að enginn dragi í efa. Af þessum tveimur tölum má því ráða að fullyrðingar hv. þm. standast ekki.

Í þriðja lagi hélt hv. þm. því fram að lífskjörin hefðu farið versnandi síðan ríkisstj., sem nú situr, tók við. Það kom ekki glöggt fram hvort hann átti við árið 1980, 1981 eða hvað. En þegar litið er á síðasta ár, árið 1981, þá liggur það fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna óx á því ári um 4.3%. Ef hins vegar eru tekin bæði árin 1980 og 1981 saman, þá hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna yfir þetta tímabil vaxið um rúm 3%. Það er því röng staðhæfing að lífskjör hafi versnað á þessu tímabili.

Í fjórða lagi sagði hv. þm. að efnahagsaðgerðirnar virtust lítil sem engin áhrif hafa á viðskiptahallann, hann mundi halda áfram eða kannske lækka eitthvað smávægilega. Það liggur fyrir í spám Þjóðhagsstofnunar og raunar að ég ætla Seðlabanka líka að í stað þess að viðskiptahallinn verði um 10% á þessu ári, þá verði hann, ekki síst vegna efnahagsaðgerða ríkisstj., um 6% á næsta ári.

Í fimmta lagi hélt hv. þm. því fram að erlend skuldasöfnun yrði ekki minni á næsta ári en verið hefði. Efnahagsaðgerðir hefðu þar engin áhrif. Þetta er einnig rangt vegna þess að það er ljóst að efnahagsaðgerðirnar draga verulega úr þörf á erlendum lántökum með því að draga úr þjóðarútgjöldum í fyrsta lagi. Og í annan stað: með því að þær munu draga úr viðskiptahalla, þá er þar með um leið dregið úr þörf á erlendum lántökum.