23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ósýnileg hönd hefur hrifsað tíundu hverja krónu úr þjóðarbúinu, sagði félmrh. í sjónvarpi og lætur sem hann viti ekki að á þrem bestu aflaárum í sögu þjóðarinnar hafa skuldir vaxið meira en nokkru sinni, þannig að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar stafar ógnun af. Veit ráðh. ekki að þessi ósýnilega hönd er stefna ríkisstj.? Það er ekki ósýnileg hönd sem safnað hefur skuldum í stað þess að safna sjóði á góðæristímum eða haldið ríkissjóði á floti með erlendum lántökum og með gengisstefnu sem leitt hefur til hömlulauss innflutnings. Þetta er ekki ósýnileg hönd, hæstv. félmrh. Þetta er að mestu heimatilbúinn vandi sem þessi ríkisstj. hefur leitt yfir atvinnuvegina og heimilin í landinu. Nei það er engin furða þó flokkur þinn, hæstv. félmrh., boði nú neyðaráætlun í efnahagsmálum eftir fjögurra ára valdasetu.

Í stjórnarsáttmálanum lofaði ríkisstj. að verðbólgan skyldi verða á þessu ári undir 10%. Hún er a.m.k. sex sinnum meiri og það eftir þrjú bestu aflaár í sögu þjóðarinnar. Greiðslubyrði af erlendum lánum er tíu þús. kr. meiri á þessu ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu en stjórnarsáttmáli ríkisstj. lofaði.

Í stað þess að afnema útflutningsuppbætur í áföngum og hætta að greiða með kjöti ofan í útlendinga, eins og Alþfl. hefur marglagt til, eru framlög til þess aukin verulega umfram verðbólguspá á næsta ári og verða 263 millj. fyrir utan lántökukostnað vegna útflutningsuppbóta frá fyrra ári um 60 millj. kr. Þarna á að spara í ríkisútgjöldunum. Hver fjögurra manna fjölskylda greiðir vegna þessa 5 400 kr. í skatt á næsta ári. Það sem við greiðum með kjötinu á borð útlendinga til viðbótar verðbólguspá fjárlaga eru 35 millj. kr. eða svipuð upphæð og ætluð er í Framkvæmdasjóð öryrkja til byggingarframkvæmda í þágu fatlaðra og þroskaheftra. 35 millj. greiðum við aukalega með útflutningsuppbótum meðan Námsgagnastofnun fær 15 millj. kr. á næsta ári og getur ekki skilað nauðsynlegum námsgögnum til kennslu í skólum landsins. Í stað þess að draga úr niðurgreiðslum landbúnaðarafurða, eins og Alþfl. hefur lagt til, eru þær stórauknar, eða um 80% milli ára, og verða á næsta ári 806 millj. kr. Þarna á að spara í ríkisútgjöldunum. Þetta er helmingi hærri upphæð en rennur til allra félagsmála og húsnæðismála á næsta ári. Þetta er helmingi hærri upphæð en fer til greiðslu elli- og örorkulífeyris á þessu ári. Og síðan eru þessar niðurgreiðslur notaðar til að halda niðri kaupgjaldi. Það lætur nærri að í þeim vísitöluleik sé skilað aftur einni krónu af hverjum tveim sem verðbætur til launþega lækka um.

Árangurinn af niðurtalningu Framsóknar er að verðbólguhraðinn mælist nú 100% 1. des. Við þær aðstæður eru launin ein talin niður og verðbætur verða rúm 7 %. Á sama tíma eykst greiðslubyrði lána um 17% og verðlag í landinu rýkur upp um 20%. Ríkisstj. sem þannig leikur heimilin í landinu bjargar sjálfri sér á erlendum lántökum á kostnað framtíðarinnar, framleiðslufyrirtækin bjargast á niðurgreiddum lánum á kostnað sparifjáreigenda, en hvað bjargar heimilum sem lifa þurfa á 8 til 10 þús. kr. hungurtöxtum eða 5 þús. kr. elli- og örorkulífeyri? Hver bjargar heimilum þegar endar ná ekki saman viku eftir viku fyrir brýnustu nauðsynjum vegna öngþveitis í verðlagsmálum, þegar greiðslubyrði lána er að sliga heimilin og eykst stöðugt vegna versnandi lífskjara og rangrar húsnæðisstefnu, þegar launþegar fórna umsömdum verðbótum hvað eftir annað, en sjá samt engan árangur fórna sinna, þegar fjárhagserfiðleikar heimilanna leiða til félagslegra vandamála af margvíslegum toga? Nei, þessi ríkisstj. er ekki bjargvættur heimilanna í landinu, því hennar úrræði leysa vandamálin á kostnað heimilanna, en ekki fyrir þau.

Þó efnahagsvandinn sé nú mikill þarf ekki að vera tómt svartnætti fram undan því við getum sigrast á erfiðleikunum og skapað atvinnuöryggi og betri lífskjör í þessu landi. Við verðum að hefja nýja framfarasókn í efnahags- og atvinnumálum. Nokkur atriði úr tillögum Alþfl. skulu hér nefnd.

Við viljum að tekin verði upp raunhæf afkomutrygging til þess að verja kjör hinna lakast settu. Við viljum að atvinnurekstrinum verði gert að axla fulla ábyrgð á eigin gerðum, en hann geti ekki treyst á að bakreikningur verði greiddur af ríkissjóði og skattgreiðendum. Með sama hætti viljum við endurskoða verðmyndunarkerfið í landbúnaði, iðnaði og sjávarútvegi. Við viljum að fjárfestingarstefnunni verði gerbreytt og leggjum áherslu á að fjárfesta í tækninýjungum í útflutningsiðnaði og orkuframkvæmdum. Við viljum ennfremur efla almennan iðnað og nýjar búgreinar um land allt til að koma í veg fyrir byggðaröskun. Við viljum að greiðslubyrði lána sé ekki meiri en nemur hækkun launa, eins og fram kemur í frv. okkar Alþfl.-manna sem nú liggur fyrir Alþingi. Við viljum að Framkvæmdastofnunin verði lögð niður í núverandi mynd. Við viljum samræmd lánakjör allra atvinnuveganna. Við viljum takmarka umsvif ríkisins. Og við viljum að tekjur fjárlaga verði ákveðnar fyrst, svo útgjöldin þannig að ekki sé eytt meira en aflað er. Við viljum að tekjuskattur verði afnuminn af almennum launatekjum. Við viljum að þegar verði komið á samræmdu lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn. Við viljum að strangt eftirlit verði haft með innkaupsverði erlendis frá og stóraukið verði aðhald með allri verðlagsþróun.

Efnahagsúrræði núverandi stjórnarflokka felast í bráðabirgðalögunum. Þessum íhaldsúrræðum hafnaði Alþfl. 1979 og gerir áfram. Engar efnahagstillögur hefur Sjálfstfl. látið fara frá sér síðan leiftursókninni var veifað 1979.

Það er alvarlegt að við þær aðstæður sem nú eru í íslensku efnahagslífi, sem sjaldan hefur eins ógnað atvinnuöryggi og lífskjörum í landinu, skuli sitja að völdum ríkisstj. sem ekki hefur starfhæfan meiri hluta á Alþingi — ríkisstj. sem engin úrræði hefur við vandanum, en tregðast samt við að rísa úr sessi. Það er furðuleg óskammfeilni hæstv. ríkisstj. að réttlæta setu sína með atvinnuleysisdraugnum og þakka sér að ekki skuli skollið á bullandi atvinnuleysi eins og í nágrannalöndunum. Atvinnulíf okkar er ekki sambærilegt við háþróuð iðnaðarríki milljónaþjóða sem búa við þrönga landkosti.

Hér á landi eru óþrjótandi verkefni fyrir þessa þjóð. Hún þarf ekki að óttast atvinnuleysi, ef skynsemi ræður ferðinni í atvinnuuppbyggingu í framtíðinni, þó stefna

ríkisstj. sé að leiða yfir okkur tímabundið atvinnuleysi nú, sem falið er í erlendum lántökum.

Ragnar Arnalds fjmrh. sagði í umr. um vantraust árið 1975: „Ekki þarf að efast um að hvaða ný stjórn sem tæki að sér að stjórna landinu til bráðabirgða, hvort sem það yrði embættismannastjórn eða einhver önnur bráðabirgðastjórn, þá yrði hún a.m.k. skömminni til skárri en núv. stjórn.“ Þessi orð eiga vel við núna, þegar við ræðum vantraust á þessa ríkisstj., sem er að þrotum komin. Ég vil að lokum gera þessi orð fjmrh. að mínum.