20.10.1982
Efri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Meðfylgjandi frv., sem ég mæli hér fyrir, er unnið af hópi sem ég kvaddi til haustið 1981 til þess að lita yfir lög um heilbrigðisþjónustu frá 1978 með síðari breytingum. Í hópnum áttu sæti Ingimar Sigurðsson deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., sem jafnframt stýrði starfi hópsins, Ólafur Ólafsson landlæknir og alþm. Salome Þorkelsdóttir, Jóhann Einvarðsson, Magnús H. Magnússon og Helgi Seljan.

Ég mun nú, herra forseti, rekja helstu nýmæli frv. þessa, en það er allviðamikið. Það eru 26 greinar og flestar þeirra innihalda efnisatriði sem ástæða er til að geta sérstaklega um.

Í 1. gr. frv. er tekið inn það ákvæði að á heilsugæslustöðvum skuli ekki einasta vera endurhæfingarstarf heldur læknisfræðilegt endurhæfingarstarf og er einkunninni „læknisfræðilegur“ bætt inn í gr. miðað við núgildandi lög.

Í 2. gr. er veigameiri breyting. Þar er gert ráð fyrir því að stofnuð verði sérstök nefnd til þess að sinna kvörtunum og kærum sem varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Nú eru þessi mál í höndum landlæknis eins. Hér er sem sagt lagt til að til hliðar við landlæknisembættið verði ákveðin sérfræðinganefnd sem auk þess megi vísa málum beint til ef upp koma klögumál á heilbrigðisþjónustuna eða starfsemi hennar.

Ég tel að hér sé um að ræða mjög mikilsvert ákvæði, sem hefði iðulega getað afstýrt misskilningi, togstreitu og erfiðleikum, bæði fyrir viðskiptamenn heilbrigðisþjónustunnar og fyrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar.

3. gr. frv. gerir ráð fyrir því að eigi sjaldnar en fjórða hvert ár verði haldið heilbrigðisþing. Heilbrigðisþing var haldið haustið 1980 í fyrsta sinn og þótti gefast þá mjög vel. Hér er gert ráð fyrir því að þetta verði reglulegur viðburður. Ég vil geta þess að ég hef miðað við það að heilbrigðisþing fjalli um afmarkað málefni, sem verði forvarnarstarf eða fyrirbyggjandi starf í heilbrigðismálum, heilsuvernd hvers konar.

Í 3. gr. frv. er jafnframt gert ráð fyrir því að Heilbrigðisráð Íslands verði lagt niður. Það var stofnað með lögunum 1973 og 1978, en það hefur ekki starfað og þykir ástæðulaust að framlengja það hér í lagabókstaf.

4. gr. frv. gerir ráð fyrir því að heilbrigðismálaráð læknishéraðanna hafi ekki með að gera skipulagningu á starfi ríkisspítalanna, að ríkisspítalarnir verði með öðrum orðum teknir út úr því verkefnasviði sem ætlað er heilbrigðismálaráðunum. Snertir þetta að sjálfsögðu fyrst og fremst heilbrigðismálaráðið í Reykjavík, þar sem Landsspítalinn er, en einnig heilbrigðismálaráðið á Norðurlandi eystra Ég heilbrigðismálaráðið í Reykjanesumdæmi.

5. gr. kveður á um verkefni héraðslækna sem starfa samkv. lögunum frá 1978 og settir eru eða skipaðir til fjögurra ára í senn. Í gildandi lögum vantar ákvæði um störf þessara héraðslækna. Með 5. gr., eins og hún lítur út í frv., er reynt að bæta úr þeim ágalla.

Í 6. gr. er ákvæði um að launa- og ferðakostnaður vegna starfa manna í heilbrigðismálaráðum greiðist af viðkomandi sveitarfélögum eða heilbrigðisstofnunum. Ákvæði um þetta vantaði einnig í lögin frá 1978.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir því að nokkur breyting verði á starfsemi lækna við heilsugæslustöðvar hinar minni. Það má segja að þessi breyting í 7. gr. eigi uppruna sinn hér í hv. Ed. Í gr. er gert ráð fyrir því að ákvæðin um aðstoðarlækna, sem samþykkt voru hér á sínum tíma og urðu að lögum ég held vorið 1981, komi í rauninni hér inn og að við heilsugæslustöð H1 skuli starfa einn læknir hið minnsta í stað eins læknis. Hér eru því með orðalaginu opnaðir möguleikar á því að fjölga læknum við H 1 stöðvar sé slíkt talið brýnt. Enn fremur er lagt til að ráða megi lækna til starfa við H2 og H1 stöðvar hluta úr ári, þar sem sérstakar ástæður mæli með slíku, og að heimilt verði að ákveða að læknir hafi aðsetur á Hstöð varanlega eða um tiltekinn tíma mæli sérstakar ástæður með því.

8. gr. frv. felur í sér nokkrar breytingar á heilsugæsluumdæmunum í landinu. Þar kunna að vera þær breytingar sem þm. staldra kannske einna mest við. Ég legg þó á það mikla áherslu að reynt verði að halda þannig á þeim umr. og þeim málum að ekki þurfi að tefja framgang þessa máls í þinginu.

Fyrsta breytingin í 8. gr. er sú, að það er lagt til að á Grundarfirði verði starfrækt H1 stöð í stað Hstöðvar. Eins og kunnugt er þá er Hstöð núna í Grundarfirði sem þjónað er frá Stykkishólmi. Í fyrsta þættinum er einnig gert ráð fyrir því að Reykhólar verði færðir undir Stykkishólmsumdæmi í stað Hólmavíkurumdæmis, eins og nú er. og að Gufudalshreppur, Geiradalshreppur og Flateyjarhreppur verði færðir undir Stykkishólmsumdæmi, í stað Hólmavíkurumdæmis, eins og nú er í lögunum.

Í öðru lagi er gert hér ráð fyrir því að Múlahreppur verði færður undir Patreksfjörð í stað Hólmavíkurumdæmis, eins og nú er kveðið á um.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að Bæjarhreppur verði færður undir Hvammstangaumdæmi í stað Hólmavíkurumdæmis, en þannig er háttað þjónustu við Bæjarhrepp núna að honum er þjónað frá Hvammstanga.

Í fjórða lagi er Kópaskeri ákvarðað starfssvæði, en það var ekki gert við endurskoðun laganna 1978. Þar var aðeins kveðið á um að hafa H1 stóð á Kópaskeri, en stöðinni var ekki ákvarðað starfssvæði eins og vera ber og nauðsynlegt er.

Í fimmta lagi er sú breyting lögð til á 8. gr. að Skeggjastaðahreppur er færður undir Vopnafjörð í stað Bakkafjarðar, en Bakkafjörður getur sem slíkur ekki haft ákveðið starfssvæði þar sem þar er eingöngu reiknað með Hstöð.

Í sjötta lagi er hér sú breyting að gert er ráð fyrir H2 stöð á Eskifirði í stað H1 stöðvar. Fólksfjöldi á svæðinu er orðinn það mikill að það getur í rauninni ekki talist neitt álitamál.

Í sjöunda lagi er hér lagt til að sett verði upp Hstöð að Hofi í Öræfum.

Í áttunda lagi er gert ráð fyrir því að taka ákvörðun um að á Stokkseyri verði Hstöð og í Þorlákshöfn H1 stöð í stað Hstöðvar. Enn fremur er lagt til að Þingvallalhreppur falli undir Selfoss, þ.e. Árnesumdæmi í stað Reykjanesumdæmis.

Í níunda lagi er svo lagt til í 8. gr. að í Grindavík verði H 1 stöð í stað Hstöðvar og að í Vogum verði Hstöð. Enn fremur er lagt til að Vatnsleysuhreppur falli undir Keflavíkurumdæmi, enda í reynd þjónað frá Keflavík, í stað Hafnarfjarðarumdæmis, eins og stendur í núgildandi lögum.

Hér hef ég talið upp helstu breytingarnar á 8. gr. þessa frv. og vík þá að 9. gr., en hún felur í sér þá meginbreytingu að heimilt verði að ráða sjúkraþjálfara framvegis við heilsugæslustöðvar. Þessi breyting felur það ekki í sér að sjúkraþjálfarar verði skilyrðislaust ráðnir við allar heilsugæslustöðvar heldur eingöngu við þær stærstu og allt samkvæmt nánari ákvörðun heilbr.- og trmrn. og fjárveitingayfirvalda á hverjum tíma.

Í 9. gr. er sú brtt. gerð að ráðh. geti ákveðið að sjúkraliði gegni störfum á heilsugæslustöð og taki laun úr ríkissjóði þegar hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir fást ekki til starfa. Á slíkt hefur reynt bæði á Suðureyri og Ólafsfirði í minni ráðherratíð og hefur þá þurft að fara krókaleiðir með greiðslur, þ.e. viðkomandi sveitarfélag hefur greitt sjúkraliðalaunin, en síðan hefur rn. endurgreitt úr læknishéraðasjóði.

10. gr. frv. kveður á um framkvæmdir við byggingu og búnað heilsugæslustöðva og er efnislega eins og ákvæði laga um skólakostnað frá 1967, að nokkru leyti með ákveðnum breytingum sem gerðar voru af mér og rn., þar sem mér fannst að tillaga nefndarinnar gengi í rauninni fulllangt í þá veru að fastbinda framlög til heilsugæslustöðva og taka þannig ákvörðunarvald úr höndum Alþingis. Greinin hljóðar svo nú: „Eigi má hefja framkvæmdir fyrr en fyrir liggur skriflegt samþykki ráðuneytisins. Ef hafnar eru framkvæmdir án samþykkis þess verður stofnkostnaður ríkissjóði óviðkomandi. Kostnaðaráætlun skal miðast við þann tíma er hún er staðfest og taka þeim breytingum sem vísitala byggingarkostnaðar tekur frá staðfestingardegi til útborgunardags.“

Ég held að hér sé um ákaflega mikilvægt ákvæði að ræða, þó að nokkuð hafi verið linað á því frá því sem það var í upphaflegri tillögu þingmannanefndarinnar.

Í 11. gr. eru ákvæði um það hvaða starfsemi á að vera á heilsugæslustöðvum. Þar eru nokkur nýmæli. Í fyrsta lagi er lagt til að sjúkraflutningar verði teknir inn sem eitt af verkefnum heilsugæslustöðva. Í öðru lagi er lagt til að heilbrigðisfræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi verði eitt af verkefnum heilsugæslustöðvanna. Í þriðja lagi tóbaksvarnir og í fjórða lagi að í félagsráðgjöf skuli m.a. fólgin fjölskyldu- og foreldraráðgjöf. Síðan er sérstaklega vísað til laga nr. 46 frá 1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að því er snertir atvinnusjúkdóma og varnir gagnvart þeim.

Enn fremur segir hér í 11. gr. að aðsetur heilbrigðisfulltrúa skuli vera þar sem heilsugæslustöð er þar sem slíku verði við komið.

Í 12. gr. er kveðið á um það hvernig reksturskostnaður heilsugæslustöðva verði greiddur. Breytingin á greininni, sem lögð er til þarna, er í framhaldi af fyrri brtt. í frv. þessu.

Í 13. gr. er nýtt ákvæði sem er á þá leið að við 21. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: „Sveitarfélög innan sama heilsugæsluumdæmis geta samið um sameiginlega stjórn heilsugæslustöðva í umdæminu. Skal í slíkum tilvikum gera samning um eina stjórn, kosningu fulltrúa sveitarfélaga og kostnaðarskiptingu. Skal samningurinn staðfestur af ráðherra.“ Hér er m.a. átt við sveitarfélög eins og Reykjavík. Hér gæti hugsanlega komið inn sveitarfélag eins og Hafnarfjörður, ef þar yrði um að ræða fleiri en eina heilsugæslustöð, en hér gætu einnig komið inn fleiri sveitarfélög á stærra svæði sem tækju sig saman um yfirstjórn heilsugæslustöðva.

Í 14. gr. er gert ráð fyrir því að leita þurfi umsagnar stjórnar viðkomandi heilsugæslustöðvar um umsóknir lækna og tannlækna um störf á heilsugæslustöðvum. Það er nýmæli. Til þessa hefur málið yfirleitt farið venjulega leið, til stöðunefndar og síðan til ráðh., en hér er gert ráð fyrir umsögn frá stjórnum heilsugæslustöðva.

Í 15. gr. er talað um flokkun sjúkrahúsa, hver hún skuli vera, og þar eru nokkrar breytingar frá núgildandi lögum. Þar er t.d. lagt til að í stað orðsins sjúkraskýli, sem sums staðar eru starfrækt t.d. í Bolungarvík, komi heilsugæslusjúkrahús og í stað orðsins gistiheimili, sem hér er starfrækt t.d. í Reykjavík á vegum Rauða krossins, komi sjúkraheimili. Þessar brtt. gerði nefndin og ég féllst á að flytja frv. með þeim hætti. Ég verð þó að játa að ég er ekki allt of ánægður með orðið heilsugæslusjúkrahús og bið hv. þingnefnd að taka til athugunar hvort ekki mætti finna þar heppilegra orð, þó að orðið sjúkraskýli lýsi náttúrlega ekki á nokkurn hátt þeirri starfsemi sem fram fer t.d. í sjúkraskýlinu í Bolungarvík.

Hvað snertir vinnu- og dvalarheimili eru felld niður ákvæðin sem segja að á slíkum stofnunum skuli taka til vistunar líkamlega bæklaða eða fávita, eins og það er orðað í núgildandi lögum. Slík heimili, að því er snertir fatlaða, falla í dag undir lög nr. 47/1979 um aðstoð við þroskahefta.

Í 16. gr. er um að ræða mikilvægt ákvæði. Þar er gert ráð fyrir því að ráðh. skuli með reglugerð kveða á um samvinnu og samstjórn sjúkrahúsa í landinu. Það hefur skort mjög á samstarf sjúkrahúsa, ekki síst t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu, og það er gert ráð fyrir að ef Alþingi féllist á till. af þessu tagi yrði unnt að kveða á um faglega samstjórn sjúkrahúsa, t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu. Þessi till. er í samræmi við samþykktir heilbrigðisþings, sem gerðar voru árið 1980, og ég hygg að allir, sem þekkja til yfirstjórnar heilbrigðismála, sjái hversu nauðsynlegt er að svona samstjórn eða samvinna verði til.

Ég vil aðeins í tilefni af 15. og 16. gr. frv. raka það fram að nú er í undirbúningi útgáfa reglugerðar um flokkun sjúkrahúsa. Sú reglugerð hefur verið í undirbúningi um alllangt skeið og átti að verða til strax samkv. lögunum frá 1973. Heilbrmrn. hefur ekki komið þeirri reglugerð neitt áleiðis fyrr en núna, og það er ljóst að í þeim efnum rekumst við á mörg sker þannig að það verður erfitt að koma þeirri reglugerð út. Það vilja fáir breyta þeim húsum sem þeir hafa með að gera. Mjög margir vilja hins vegar auka stórlega við þá heilbrigðisþjónustu sem sjúkrahús þeirra þegar hafa. Og þegar kemur að Reykjavík þá vill auðvitað enginn missa spón úr sínum aski en allir fá viðbótarþjónustu. Þó um sé að ræða lengri framtíð þá vilja allir fá möguleika á að taka inn á sig sem allra flestar sérgreinar læknisfræðinnar. Hér er með öðrum orðum um að ræða mjög mikinn vanda. En þetta er mjög nauðsynlegt mál vegna þess að tvíverknaður í heilbrigðisþjónustunni er dýr, og þjóðin hefur ekki efni á slíku.

Í 17. og 18. gr. er eingöngu um orðalagsbreytingar að ræða.

19., 20. og 21. gr. fjalla um framkvæmdastjóra sjúkrahúsanna og forstjóra ríkisspítalanna og eru viðleitni í þá átt að festa stöðu þessara aðila. Við teljum mjög mikilvægt að rekstraraðilarnir, sem með fjármunina fara frá degi til dags, hafi meiri ábyrgð og áhrif á spítölunum en nú er. Samkv. núgildandi lögum er í rauninni mestöll ábyrgð í höndum fagstéttanna, hjúkrunarfræðinga og lækna, en hér gerum við ráð fyrir því að framkvæmdastjórar spítalanna fái meiri áhrifamöguleika en verið hefur.

Hér er um að ræða mjög þýðingarmikið nýmæli að mínu mati sem ég bið hv. Alþingi að líta á með velvild. Í 20. gr. eru nokkur ákvæði um breytingu á yfirstjórnum sjúkrahúsanna. Ég held að það sé ekki viðkunnanlegt annað en að lesa greinina í heild hér í framsöguræðu fyrir þessu frv., svo mikilvæg er hún. Í greininni segir: „Sjúkrahús þau, sem ríkið á eða starfrækir, skulu vera undir yfirstjórn heilbr.- og trmrn., en stjórn þeirra allra að öðru leyti falin 7 manna stjórnarnefnd. Nefndin skal skipuð þannig að starfsmannaráð ríkisspítala tilnefnir tvo menn, — þannig er það einnig núna — sameinað Alþingi fjóra — hér er um að ræða nýmæli, að kalla Alþingi inn í yfirstjórn ríkisspítalanna — og ráðh. skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. — Það er óbreytt frá því sem nú er. — Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn. Við ríkisspítalana skal starfa einn forstjóri skipaður af ráðh. að fengnum tillögum stjórnarnefndar. Forstjóri stjórnar fjármálum og daglegum rekstri ríkisspítalanna í umboði stjórnarnefndar og ráðuneytis.“

Síðan kemur 30. gr. 2. tl. og þar segir: „Sjúkrahúsum sveitarfélaga skal stjórnað af fimm manna stjórnum. Starfsmannaráð sjúkrahúsa kjósa einn mann, hlutaðeigandi sveitarstjórn eða stjórnir (í Reykjavík heilbrigðismálaráð) þrjá menn og ráðh. tilnefnir einn fulltrúa, og skal hann vera búsettur í sveitarfélagi sem aðild á að sjúkrahúsinu. Þegar um einkasjúkrahús er að ræða eða sjálfseignarstofnun kýs starfsmannaráð einn stjórnarmann, ráðh. tilnefnir einn, sem búsettur skal í viðkomandi sveitarfélagi, en eigendur kjósa þrjá menn.“

Eins og þessum málum er háttað núna greiðir ríkið milli 85 og 90% af þeim kostnaði, sem til fellur á einstökum sjúkrahúsum, en það hefur ekki möguleika til þess að hafa áhrif á daglega stjórnun stofnananna. Þetta tel ég óeðlilegt. Hér er um að ræða till. sem ég legg fyrir þingið og ber alla ábyrgð á.

Ég vil segja það að ég vona að hv. Alþingi taki á þessu með skilningi, og ég vona að við getum haldið umr. um þetta á málefnalegu plani, þannig að við þurfum ekki að lenda í pólitískri togstreitu um atriði af þessum toga. Hér er um að ræða fyrirkomulagsatriði, og ef þingið vill leggja til annað fyrirkomulag þá er ég opinn fyrir því. Aðalatriðið í mínum huga er það að um sé að ræða skilvirka og skýra stjórn á heilbrigðisþjónustunni.

Þetta taldi ég rétt, herra forseti, að taka fram varðandi yfirstjórn sjúkrastofnananna. Ég held að það séu engin ákvæði í 21. eða 22. gr. sem ástæða er til að fjalla hér frekar um.

Ég vil aðeins geta þess að í 23. gr. er lagt til að um framkvæmdir við sjúkrahúsabyggingar gildi sömu framkvæmdareglur og getið er um að framan varðandi byggingar heilsugæslustöðva, en hér segir um það efni í 22. gr.: „Ráðh. lætur gera áætlun um framkvæmdir við heilbrigðisstofnanir í samræmi við 14. og 24. gr. Áætlunin skal gerð í samvinnu við heilbrigðismálaráð héraðanna og landlækni og í samráði við fjárlaga- og hagsýslustofnun. Áætlunin skal gerð til fjögurra ára og endurskoðast annað hvert ár og staðfest af Alþing. Þau umdæmi eða svæði, sem verst eru sett að því er varðar heilsugæslu og læknisþjónustu, skulu hafa forgang um byggingu heilsugæslustöðva.

Ég vil láta þess getið að ég hef látið vinna í heilbr.- og trmrn. áætlun um framkvæmdir í heilbrigðismálum til 5 og til 10 ára. Ég hef ekki gert þá áætlunartillögu mína að opinberu plaggi. Ég er hins vegar fús til þess, ef heilbr.og trn. óskar eftir, að láta henni í té þessa áætlunartillögu. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að gerðar séu áætlanir um framkvæmdir í heilbrigðismálum á hinum einstöku svæðum, þannig að tilviljanir ráði því ekki eða pólitískur þrýstingur hvar stofnanir eru settar niður á hverjum tíma. Þar hefur okkur iðulega mistekist dálítið að mínu mati, og ég vona að áætlunargerð verði til þess að bæta þar nokkuð úr. Ég vona líka að áætlunartillaga heilbr.- og trmrn. verði heilbr.- og trn. þessarar deildar til glöggvunar. Ég vænti þess að menn líti á hana eins og hverja aðra till. en geri engar tilraunir til þess að gera hana að pólitísku bitbeini, vegna þess að í slíkri áætlunartillögu af okkar hálfir er að sjálfsögðu tekið á mörgum viðkvæmum pólitískum atriðum varðandi skiptingu framkvæmda niður á kjördæmin, sem menn gætu sjálfsagt gert sér mat úr, ef þeir væru í þannig skapi.

Að lokum, herra forseti, ætla ég svo að geta um ákvæði til bráðabirgða en það er mikilvægt. Þar segir orðrétt: „Heilsuverndarstarf samkv. lögum nr. 44/1955, sbr. lög nr. 28/1957, skal haldast óbreytt frá því sem er við gildistöku laganna, þar til heilsugæslustöðvar hafa verið skipulagðar til þess að annast það, en þó ekki lengur en til ársloka 1983.“ Mörgum kann að finnast þetta of knappur frestur úr því að við erum komin þetta langt fram á árið 1982. Nefndin þarf að taka afstöðu til þess og færa þá til tölu. Ég vil hins vegar geta þess að ég geri mér góðar vonir um að það sé ekki langt í að heilsugæslukerfi verði komið á víðast hvar ekki seinna en á árinu 1984, með þeim hraða sem nú er fyrirhugaður:

Á nokkrum stöðum gerast breytingar núna á næstu mánuðum. Í því efni vil ég nefna Ísafjörð. Þar hefur verið starfrækt heilbrigðisþjónusta samkv. heilsuverndarlögunum, en við gerum ráð fyrir því að heilsugæslustöð taki til starfa á Ísafirði eftir ekki mjög langan tíma og þar með verði svæðið sett undir heilsugæslulögin nýju. Ég geri mér einnig vonir um að unnt verði að stíga skref í þessum efnum í Hafnarfirði áður en langur tími líður. Hið sama er reyndar að segja um Reykjavík, þar sem samkomulag hefur náðst milli borgaryfirvalda, fjmrn., heilbrmrn. og heimilislækna í Reykjavík um fyrirkomulag nýs kerfis hér í höfuðborginni, sem gæti vafalaust orðið okkur til styrktar og greitt götu þess að heilsuverndarkerfið gamla yrði lagt niður hér í Reykjavík. Viðræður hafa staðið yfir og standa nú yfir milli heilbrigðisyfirvalda og borgaryfirvalda í Reykjavík um þetta mál.

Ákvæði til bráðabirgða þarf sem sagt athugunar við. Á bak við það er þessi saga um heilsuverndarstarfið og hvernig það hefur aðlagast heilsugæslukerfinu á undanförnum árum.

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan áttu sæti í þeim starfshópi sem ég setti á laggirnar haustið 1981 nokkrir alþm. sem ég nefndi. Að sjálfsögðu tók frv. nokkrum breytingum í meðferð ríkisstjórnarinnar og heilbrmrn. Á þeim breytingum svo og á frv. í heild ber ég að sjálfsögðu fulla ábyrgð. En ég þakka þm. öllum fyrir gott starf af þeirra hálfu og ég er viss um að það var stuðningur að því fyrir starfsmenn heilbrmrn. að fá ráðleggingar þm. við meðferð málsins í stjórnarráðinu og rn.

Herra forseti. Ég tel að það væri mikilvægt ef samstaða tækist um mál þetta þannig að það yrði afgreitt á yfirstandandi þingi. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.