29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

57. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á síðari ræðu hv. 1. flm. þessa litla frv. Hann virðist nota hvert tækifæri sem hér gefst til að flytja sömu ræðuna. Ég lái honum það ekki. Það er eðlilegt fyrir tilvonandi formann mikils stjórnmálaflokks að hasla sér völl í sölum Alþingis til að láta frá sér heyra. Ég lái honum síður en svo þó að hann komi hér og reyni að auglýsa skoðanir sínar og síns flokks.

Hann talaði heilmikið um frelsi og taldi það löst á okkar ræðum, sjálfstæðismanna, að við rugluðum saman frelsi og hagsmunum. Þessi punktur kom upp hjá hv. ræðumanni vegna þess að ég sagði að ég væri þeirrar skoðunar að kjarasamningar ættu að vera frjálsir, sem þýðir að það ættu að vera sem minnst afskipti ríkisvaldsins, þar á meðal löggjafarvaldsins, af kjarasamningum, en launþegar og vinnuveitendur ættu að ná samkomulagi sjálfir og standa síðan ábyrgir á grundvelli þeirra niðurstaðna. Þetta köllum við frjálsa kjarasamninga. Auðvitað snúast slíkir kjarasamningar um hagsmuni, en þeir eru jafnfrjálsir eftir sem áður. Orðaleiki geta menn stundað hérna eins og þeim sýnist, en þetta held ég að hvert mannsbarn hljóti að skilja.

Mér er auðvitað ljóst, að í langflestum tilfellum þarf ekki að verða uppi á teningnum það sem verið er að gera grein fyrir í frv. þeirra hv. fjórmenninga sem það flytja. Það eru undantekningartilvik að til þess þurfi að grípa. Þetta gerist fyrst og fremst hjá stærri fyrirtækjum. Ég skil mætavel að hv. flm. rennur það til rifja þegar á stórum vinnustað þarf að skipta orlofi niður á starfsmenn, þannig að allt orlofstímabilið sé nýtt, en það breytist frá ári til árs og hefur í langflestum tilvikum og í því tilviki sem ég veit að hann hefur til hliðsjónar þegar hann flytur þetta frv., sem er álverið í Straumsvík, ég þykist vita að hugmyndin sé þaðan komin, ekki verið stórkostlegt vandamál að ég held.

Hins vegar er það eðlilegt að ákveðinn hópur launþega vilji fá aukin réttindi. Auðvitað skirrast menn ekki við að neyta færis á að fá þm. til að flytja góð mál, svokölluð mál sem veita einhverjum réttindi, en er látið líta svo út að taki ekkert af öðrum í staðinn nema stórum aðilum sem hljóti að hafa efni á því. Þetta er auðvitað mál sem menn halda að þeir geti fengið einhver atkv. út á eða þeir halda sig vera að gera einhverjum greiða. Það er ósköp vel skiljanlegt. (VG: Er eitthvað rangt við að fá atkv.?) Nei, það er ekkert rangt við að fá atkv., en ég tel vera ástæðu fyrir hv. fim. að kanna hvort ekki sé um þetta atriði eins og önnur er snerta þá niðurstöðu kjarasamninga, sem lögin frá 1971 um orlof snúast um, að um það verði samið í kjarasamningum, hvort sem það er þetta frv. eða það fylgifrv. sem fylgir brbl. Þetta eru mín sjónarmið og út frá þeim sjónarmiðum hélt ég mína ræðu áðan.

Hins vegar gerðist það, að hv. flm. kom hér í ræðustól og fjallaði um nokkur uppáhaldsverkefni sín, eins og um opnunartíma sölubúða. Það sem ég þarf að segja við hv. flm. varðandi það mál er einfaldlega að það eru sveitarfélögin, það eru stjórnir sveitarfélaganna, sem ráða því.

Það er ekkert óeðlilegt þó að heill stjórnmálaflokkur hafi þá skoðun að eðlilegra sé að sveitarstjórnirnar hafi um þetta mál að segja, en Alþingi eigi ekki að setja löggjöf sem annaðhvort segi að óheimilt sé að hefta lokunartíma eða að vera skuli ákveðinn lokunartími. Lögin gera beinlínis ráð fyrir að það séu sveitarstjórnirnar sem ráðstafi þessu hver á sínum stað. Þá hlýtur að myndast samningur á milli neytenda, á milli þeirra sem starfa í verslununum og þeirra sem eiga verslanirnar. Þar er auðvitað um atkv. að tefla. Ef sveitarstjórnirnar hugsa um hag neytendanna reyna þær auðvitað að koma til móts við þeirra hag, því það er þeirra hagur sem skiptir máli. Ágreiningurinn í því máli snýst ekki um hvenær eigi að loka verslunum og hvort eigi að loka þeim, heldur hverjir það eru sem eigi um það að segja. Við vísum því á bug að það skuli vera löggjafarsamkundan. Við teljum að það eigi að vera sveitarstjórnirnar í landinu. Ég veit að hv. þm. hefur aðra skoðun. Það sem nú er til umr. fjallar ekki um lokunartíma sölubúða, en hann bryddaði upp á því máli og ég notaði tækifærið til að gera grein fyrir minni skoðun.

Hann ræddi líka um Aðalverktaka, svona til að drepa málinu á dreif, og minntist þar á formann Sjálfstfl. Ég man ekki betur en hann orðaði það hér áðan í sinni ræðu, en hann man það kannske ekki sjálfur og ég lái honum ekki heldur að gleyma einhverju af því sem hann hefur sagt hér úr ræðustól. En ég ætla að rifja upp, að það var einmitt á dögum hv. utanrrh. Benedikts Gröndals sem það mál var tekið til endurskoðunar og í þessu starfaði nefnd. Ég hef ekki enn séð hvað hefur komið út úr þeirri nefnd. Ég hlakka til að sjá það. Það er engin bundin hugmynd í mínum flokki varðandi Aðalverktaka. Aðalatriði þess máls er auðvitað að sem flest verktakafyrirtæki í landinu geti verið þar útboðsaðilar og það sé komið í veg fyrir einokun einstakra aðila varðandi það mál. Það er kjarni þess máls.

Loks ræddi hann um skólana, hvað menn kæmu upplýstir út úr skólum. Það er eðlilegt því hv. þm. vinnur við slík störf. Mér skilst að hann sé, og hef reyndar af því spurnir, mjög góðar sögukennari í Menntaskólanum í Reykjavík og kenni þar tilvonandi broddborgurum mannkynssöguna og Íslandssöguna. Ég veit að hv. þm. er mjög vel að sér a.m.k. fram undir 1960, þ.e. það sem hann hefur lesið í sögu. Eftir það hefur hins vegar eitthvað skolast til. Ég veit ekki af hvaða ástæðum það er.

Það er þannig með ýmsa þm., að þeir fá stundum hugmyndir og komast ekki út úr sínum hugmyndaheimi. Þeir spóla eiginlega alltaf í sínum hugmyndum, segja alltaf það sama aftur og aftur; samningar eru siðspilltir, skólakerfið upplýst, Morgunblaðið slæmt. Ég man ekki þessa súpu alla saman. Slíkur hugsunarháttur minnir mig stundum á gæludýr sem ég sá einu sinni í búri. Það var lítil mús. Hún hafði leikfang sem var hringur og inni í honum voru þrep. Hún gekk alltaf í þessum þrepum og komst ekkert úr stað. Hún var lokuð inni í þessu. Sjálfsagt hefur hún haldið að hún væri á miklu ferðalagi, en hún var alltaf lokuð inni í þessum hring. Ég sá nokkra samlíkingu með þessari mús og þeim sem talaði hér síðast.