30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 61, sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þm. Framsfl., um rafvæðingu dreifbýlisins. Í þáltill. segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að á næstu tveimur árum, 1983 og 1984, verði nægjanlegt fjármagn tryggt svo ljúka megi rafvæðingu býla í sveitum sem miðist við að samveita nái til allra býla landsins með allt að 6 km eins vírs linu samkv. áætlun orkuráðs frá 14. apríl 1982. Jafnframt verði gerð og lögð fram áætlun um lausn á raforkumálum þeirra býla sem ekki hafa verið tengd samveitu að áætlunartímabili loknu.“

Í grg. segir m.a. svo:

„Á undanförnum árum hefur tekist að koma rafmagni frá samveitum til mikils meiri hluta allra sveitabýla í landinu. Árið 1971 voru um 930 býli án rafmagns. Nú eru þau býli, sem þessi till. til þál. fjallar um og lagt er til að verði tengd samveitu, nálægt 25–30. Í því þjóðfélagi sem við lifum í sjá allir og skilja hversu mikilvægt það er að raforka sé fyrir hendi þar sem mannlíf á annað borð er. Við Íslendingar erum svo lánsamir að eiga gnægð vatnsorku. Okkur ber skylda til að nýta þá orku er í fallvötnum landsins býr, en spara þess í stað innflutta olíu bæði til raforkuframleiðslu og upphitunar. Því er skynsamlegt og hagkvæmt að ljúka rafvæðingu dreifbýlisins sem fyrst.“

Mér er það ljóst að mörgum þeim er við þær aðstæður búa að hafa ekki fengið býli sín tengd samveitukerfinu hefur fundist biðin löng. Stjórnvöld hafa á hverjum tíma sem þessi mál hafa verið á dagskrá borið við fjármagnsskorti og af þeim sökum hefur þessum annars sjálfsögðu framkvæmdum miðað svo sorglega seint. Í þeirri þáltill. sem hér er mælt fyrir er lagt til að þessu verki ljúki á næstu tveimur árum. Sýnist það vera viðráðanlegt ef vilji og skilningur er á annað borð fyrir málinu. Ég hef orðið þess var, eftir að þáltill. þessi var lögð hér fram, að nokkrum aðilum hefur fundist of skammt gengið þar sem lagt er til að aðeins um eins vírs línu sé að ræða og vegalengd sé bundin við 6 km. Því er til að svara að í þeim áætlunum, sem vitnað er til, er í nokkrum tilfellum áætlað að leggja meira en eins vírs línu. Hins vegar er aukinn kostnaður svo gífurlega mikill við að leggja þriggja víra línu, að ég sé það í hendi mér að slík framkvæmd mundi kosta margra, margra ára drátt á framkvæmdum og nær ógerlegt að bíða eftir slíku. Eins vírs lína á hins vegar að koma að notum til allra venjulegra nota rafmagns, svo og til upphitunar og súgþurrkunar.

Það er að vísu rétt að mótorar, sem nota þarf, eru um helmingi dýrari ef um eins fasa mótora er að ræða. Verð á 15 hestafla eins fasa mótorum, sem notaðir eru í um 60% tilfella, t.d. við súgþurrkun, er rétt rúmar 27 þús. kr., en þriggja fasa aftur um 13 600 kr. Sá verðmunur breytir því ákaflega litlu hér um. Skynsamlegra væri að bæta þann mun á annan hátt.

Því má svo bæta við, að við hljótum að ætla að áfram verði unnið að styrkingu dreifikerfisins, og þessi býli munu þá trúlega njóta þeirra framkvæmda. Einhverjir munu sjálfsagt spyrja hvers vegna ekki sé lagt hér til að öll býli landsins verði tengd samveitukerfinu í þessum áfanga. Meginástæða þess er — eins og ég hef sagt hér að framan — sá kostnaður sem hér um ræðir og svo hitt, að vissulega koma aðrir möguleikar til greina til að rafvæða þau býli sem fjær standa. Í þáltill. segir m.a.:

„Jafnframt verði gerð og lögð fram áætlun um lausn á raforkumálum þeirra býla sem ekki hafa verið tengd samveitu að áætlunartímabilinu loknu.“

Megintilgangur þessarar þáltill. er að hraða svo sem frekast er kostur rafvæðingu dreifbýlisins. Ég treysti því að sú nefnd, er fær þetta mál til umfjöllunar, hraði svo störfum að mál þetta megi sem fyrst ná fram að ganga.

Herra forseti. Ég legg til að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn. og 2. umr.