30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Efni þeirrar þáltill. sem hér er til umr. er að sjálfsögðu ekki nýtt af nálinni, eins og fram kom hjá hv. 4. þm. Vestf. sem hér talaði síðast. Hér er um að ræða mjög brýnt hagsmunamál fyrir þá aðila sem hlut eiga að máli og ekki vansalaust af hálfu löggjafar- og framkvæmdavalds að hafa ekki betur staðið að þessu á undanförnum árum og reynt að þoka þessum málum lengra áleiðis.

Hv. 4. þm. Vestf., sem hér var að ljúka máli sínu, nefndi það að honum finnst skjóta skökku við að í þáltill. væri vísað til áætlunar frá orkuráði dags. 14. apríl 1982. Það kann að vera að hér sé ekki rétt að málum staðið. En til skýringar vil ég segja honum og öðrum að hér er átt við áætlun frá orkuráði dags. 14. apríl 1982, þar sem línurnar, 17 talsins, eru taldar upp og gerð grein fyrir áætluðum kostnaði á verðlagi í mars 1982 við að ljúka þessum verkefnum. Auðvitað hafa verið gerðar áætlanir um þetta fyrr. Hér er aðeins vísað til þessa ákveðna plaggs, þegar þessi þál. er sett upp, og þá eins verið að gera grein fyrir því hvaða línur eða bæir eru eftir og þeirri kostnaðaráætlun, sem liggur fyrir frá orkuráði varðandi málið.

Hv. þm. sagði að áætlanir hefðu legið fyrir síðan 1974 eða 1975 um málið og jafnframt hafi áætlun um röð framkvæmda líka legið fyrir. Ég er hér með svipaða áætlun, frá orkuráði líka, sem dags. er 15. maí 1981. Frá henni og til þeirrar áætlunar sem ég vísaði til áðan hefur röð verið breytt. Ekki veit ég hvort það er fyrir tilviljun eða hvort nýjar upplýsingar hafa komið fram. Mig langar þó að geta þess, að sú lína sem á fyrri áætluninni var nr. 3 og nefnd Selárdalslína er þar talin vera með fimm bæi. Nú á nýrra plagginu er hún fyrst á blaði og talin vera með átta býli. Þetta þýðir auðvitað það að kostnaður á hvert býli verður minni og kannske þess vegna breytist röð í viðkomandi áætlun. Mig langar til að geta þess í því sambandi, að ég er hér með upplýsingar varðandi Blikalónslínu, sem jafnframt er ein af þeim sem hér er óunnið við og talin er hafa fimm býli. Ég er hér með undirskriftalista frá níu aðilum, sem hafa hug á að taka rafmagn inn ef sú lína yrði lögð, og þar að auki er á því svæði Rauðanúpsviti sem ekki er ólíklegt að mundi líka taka inn rafmagn. Þarna er hugsanlega um að ræða 10 aðila og þá mundi röðin eitthvað breytast ef þetta er af hálfu orkuráðs talin einhver forgangsröð eða bindandi röð um framkvæmdir. Þetta vildi ég að hér kæmi fram.

Mig langaði einnig að spyrja hv. 4. þm. Vestf., sem að vísu gekk nú úr salnum, um eitt atriði ef hann kemur í salinn aftur áður en ég hef lokið máli mínu. Í sambandi við þessa áætlun vil ég minna á það, að fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi áætlun um lagningu sjálfvirks síma. Hefur sú framkvæmd tekist vel og verið til fyrirmyndar. Ég álít þess vegna eðlilegt að við reynum að koma okkur niður á áætlun um sveitarafvæðinguna og reynum að ljúka þessu verkefni, að tengja við samveitur þau 30 býli sem hugsanlegt er að sé hagkvæmt eða mögulegt að tengja samveitum á þennan hátt.

Eins og kom fram í máli hæstv. iðnrh., þá munu það líklega vera um 60 jarðir sem ekki hafa verið tengdar. Þá eru þarna um það bil 30 jarðir, sem ekki falla undir þessa áætlun okkar, og þarf að sjálfsögðu, eins og till. gerir ráð fyrir, að huga að málum þeirra einnig. Hér er talað um að jafnframt verði gerð áætlun um lausn á raforkumálum þeirra býla sem ekki hafa verið tengd samveitum að áætlunartímabili loknu. Eru það þau býli þar sem fjarlægð er meiri en 6 km á milli.

Varðandi það vil ég geta þess, að t.d. á Grímsstöðum á Fjöllum hefur verið brugðist nú þegar við þessu að nokkru leyti samkv. svokallaðri Hólsfjallaáætlun. Þar er olía til raforkuframleiðslu greidd niður þannig, að búendur greiða svipað verð fyrir sína orku eins og ef þeir hefðu raforku frá samveitum. Eins er verið að gera tilraunir með að nýta vindorkuna úti í Grímsey. Það er að vísu enn sem komið er stefnt að því að hita upp vatn til þess að hita síðan með hús, en ef vel tekst til má hugsanlega einnig framleiða raforku með vindorkunni.

Þar sem hv. 4. þm. Vestf. hefur nú gengið í salinn langar mig aðeins að spyrja hann um eitt atriði. Hann sagði frá því í sinni ræðu áðan, að hann hefði lagt fram tillögur um viðbótarfjármagn við afgreiðslu fjárlaga á undanförnum árum og þær verið felldar af stjórnarliðum. Mig langar að spyrja hann hvort það sama hafi átt við frá því að þessi áætlun var samþykki 1974 eða 1975 til ársins 1978, meðan hann var að ég hygg stjórnarliði, hvort hann hafi þá lagt fram þessar till. og þær hafi þá einnig verið felldar af stjórnarliðum.

Ég vil aðeins að lokum ítreka það að ég tel að hér sé um mjög brýnt mál að ræða. Við verðum að takast á við það að ljúka þessari svokölluðu sveitaratvæðingu. Ég vil þó geta þess í sambandi við þær upphæðir, sem nú liggja fyrir í fjárlagafrv. til að vinna að þessu verkefni, að þar er gerð tillaga um 11.5 millj. kr. Tillaga Orkusjóðs var upp á 22 millj. til að leggja nýjar veitur og 8 millj. í viðbætur við eldri veitur í sveitum, samtals 30 millj. kr. Nú er það nokkuð ljóst, að af þessum 11.5 millj. sem áætlun er um í frv. þurfa þessar 8 millj. að nýtast til að bæta eldri veitur í sveitum. Það er ekki líklegt að hægt verði að draga mikið úr því. Þá eru aðeins 3.5 millj. eftir til að vinna að þessu brýna verkefni. Það er að sjálfsögðu ljóst að hér er um of litla upphæð að ræða til þess að nokkuð miði í þá átt sem æskilegt væri.

Sú áætlun sem ég gat um áðan, dags. 14. apríl og á verðlagi í mars 1982, gerir ráð fyrir því að heildarkostnaður við að ljúka þeim 17 línum, sem þar eru upp taldar, verði rúmar 16.5 millj. svo að okkur miðar skammt með aðeins 3.5 millj. til framkvæmda á næsta ári. Þess vegna vonast ég eindregið eftir því að við afgreiðslu fjárlaga nú takist okkur að þoka þessu máli eitthvað upp á við, eitthvað áleiðis. Hugsanlegt er að gera það með lántökum, annaðhvort í gegnum Byggðasjóð, eins og hér hefur verið nefnt, eða eftir einhverjum öðrum leiðum. Við vitum það líka, a.m.k. þeir sem sæti eiga í fjvn., að í fjárlagagerðinni er við ýmsan vanda að glíma. Þetta er, eins og hæstv. fjmrh. hefur orðað það, frv. að kreppufjárlögum sem nú er í meðferð. Okkur mun því sjálfsagt veitast erfitt að auka þetta fjármagn verulega, en ég ítreka það að ég vonast til þess að okkur takist að þoka málunum áleiðis og að við getum með nokkrum sóma lokið þessu verkefni á t.d. tveimur næstu árum eins og till. til þál. gerir ráð fyrir.