02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

64. mál, umferðaröryggisár

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 65 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um það hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar af hálfu yfirvalda hér á landi til þess að auka öryggi í umferðinni í tilefni norræna umferðaröryggisársins 1983 en á Norðurlöndunum hefur verið ákveðið að helga næsta ár sérstöku átaki í öryggismálum í umferðinni. Ástæðan til þess, að um þetta er spurt, er einkum sú að mér hefur fundist hljótt um það sem gera á hér á næsta ári ef eitthvað á að gera meðan annars staðar á Norðurlöndum eru hafðar uppi áætlanir um margháttaðar aðgerðir til þess að auka öryggi í umferðinni. Ég get nefnt hér nokkur dæmi. Það er ráðgert t.d. að halda fjórar ráðstefnur í Finnlandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð, sem eiga að fjalla um börn og umferð, öryggi bifreiða, hjólreiðamenn í umferðinni, áfengi og umferðarmál. Það á að gera sérstaka sjónvarpskvikmynd og það á líka að búa til það sem á nýskandínavísku er kallað TV-spots eða stuttar kynningarmyndir fyrir sjónvarp og hrinda á í framkvæmd sérstökum herferðum, ef nota má það orð, þ.e. upplýsingaherferðum, um ýmis atriði umferðarmála og hefur komið í ljós á þessu hausti hér á landi því miður að ekki er vanþörf á að gera hér sitt af hverju ef verða mætti til þess að auka öryggi vegfarenda.

Það hefur komið fram að alls staðar á Norðurlöndum nema hér er nýlokið endurskoðun umferðarlaga. Hér er í gangi endurskoðun umferðarlaga sem hefur staðið lengi, allt of lengi og óþarflega lengi, en vonandi fer þar að sjást árangur áður en langt um liður þó svo um það hafi ekki verið gefnar neinar yfirlýsingar hvenær þeirri endurskoðun, sem nú stendur yfir á umferðarlögunum, á að ljúka eða hvort hún á að standa kannske fram á næsta ár. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en við þessu er sem sé óskað svara.