02.12.1982
Sameinað þing: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

45. mál, stefnumörkun í húsnæðismálum

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef ásamt 11 öðrum þm. úr Sjálfstfl. lagt fram till. til þál. um stefnumörkun í húsnæðismálum á þskj. 46. Sú hugsun, sem við leggjum til grundvallar í stefnumörkun okkar, er sú, að sérhverri fjölskyldu verði gert kleift að eignast og búa í eigin húsnæði. Við teljum að það séu grundvallarmannréttindi að menn geti búið sæmilega um sig í þjóðfélaginu, átt efnahagslegu öryggi að fagna og haft tök á því að bæta umhverfi sitt smátt og smátt, eins og menn geta gert þegar þeir eru eigin húsbændur í eigin híbýlum.

Það er enginn vafi á að í því felst mikill þjóðfélagslegur sparnaður að menn búi í sínum eigin húsum. Viðhald allt verður jafnara og betra, menn leggja mikla vinnu fram, sýna eigin híbýlum meiri alúð en ef þeir búa í leiguhúsnæði. Þetta kennir reynslan okkur. Við sjáum það ekki síst á vordögum hversu mikla vinnu fólkið leggur fram til þess að bæta híbýli sín. Þessi vinna er lögð fram af ánægju og fjölskyldan stendur saman um það. Þetta er varnir gegn mengun frá skipum. 934 eitt höfuðeinkenni þjóðfélags okkar og má raunar segja að það sé í þjóðareðlinu.

Á síðustu árum hefur sú þróun orðið, að mikill samdráttur hefur verið í byggingu íbúðarhúsnæðis á vegum einstaklinga og raunar líka ef litið er á heildarbyggingarmagn. Það er til marks um það, að fyrir 3–4 árum voru 80–85% þeirra sem keyptu íbúðir af verktökum ungt fólk, jafnvel ungt fólk í skóla á aldrinum 18–30 ára. Með dugnaði, ráðdeildarsemi og með því að skiptast á tókst þessu fólki að lyfta Grettistaki eins og raunar foreldrar þess höfðu áður gert. Nú sést þetta fólk ekki lengur á þessum íbúðamarkaði, en á hinn bóginn hefur mér verið sagt af fasteignasölum að það leiti sér nú að tiltölulega litlum íbúðum, jafnvel gömlum og úr sér gengnum, ef þær fást með viðráðanlegum lánskjörum. Þetta unga fólk reynir síðan að endurbæta þessar íbúðir og koma þannig undir sig fótunum stig af stigi. Þetta er afleiðing verðbólgu og verðtryggingar. Það er enginn vafi á að þjóðfélagið hefur ekki stuðlað nægilega að þessari viðleitni þessa unga fólks, sem gerir hvort tveggja í senn að auka nýtingu og lengja endingartíma íbúðarhúsnæðis. Þessi viðleitni er þess vegna frá þjóðhagslegu sjónarmiði mjög gagnleg og það er mín skoðun, að þjóðfélagið verði að koma betur á móti því með sérstakri fyrirgreiðslu til endurbóta og lagfæringar á eldra húsnæði.

Till. okkar er í 14 liðum:

„1. Stefnt verði að 80% lánsfjármögnun fyrstu íbúðar á næstu 5 árum. Á árinu 1983 láni Byggingarsjóður ríkisins 25% byggingarkostnaðar staðalíbúðar til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn.“

Þetta markmið þýðir í raun 47% hækkun á fyrirgreiðslu Byggingarsjóðs frá því sem nú er.

Í 2. lið till. leggjum við til að lánstími verði lengdur í 42 ár. Frá ákvörðun lánsfjárhæðar til útborgunar verði lánshlutar látnir fylgja verðbreytingum í samræmi við byggingarvísitölu.

Eins og að þessu hefur verið staðið hjá Byggingarsjóði hafa lánin verið greidd í þrennu lagi með jöfnum útborgunum í krónutölu, sem þýðir það í raun að lán Byggingarsjóðs eru ekki nema um 12% af raunverulegum byggingarkostnaði staðalíbúðar. Hér gerum við þess vegna ráð fyrir að lán Byggingarsjóðs verði hækkuð í raun um rúmlega 100%.

Við leggjum til að lán til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn verði með hagstæðari lánskjörum en önnur lán og að leitað verði eftir frjálsu samstarfi við lífeyrissjóði í landinu um fjármögnun húsnæðislána. Ennfremur leggjum við til að framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verði ekki minni en sem svarar einu launaskattsstigi.

Orsakirnar fyrir hinum mikla samdrætti í byggingu íbúðarhúsnæðis eru vafalaust margvíslegar. Í sumum tilvikum er lóðaskorti sveitarfélaga um að kenna, en enginn vafi er þó á að sá fjármagnsskortur sem verið hefur hjá Byggingarsjóði ríkisins veldur þar miklu, en hann hefur haft það í för með sér að flestir lánaflokkar hafa verið skornir verulega niður og ekki hefur verið unnt að hækka lánin að raungildi þrátt fyrir erfiðari fjármögnunarmöguleika á hinum frjálsa markaði.

Vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á fjármagnsmöguleikum þeirra sem byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð teljum við, eins og ég sagði áður, nauðsynlegt að heildarlánin geti sem fyrst orðið sem næst 80% af raunverulegum byggingarkostnaði eða íbúðarverði.

Þegar sérstaklega stendur á geta þessi ákvæði átt við þá sem hafa af einhverjum ástæðum misst íbúðir sínar og standa uppi eignalausir eða eignalitlir. Að sjálfsögðu ber að líta á alla lánsmöguleika sem viðkomandi aðili á, bæði hjá lífeyrissjóðum bönkum og húsnæðislánakerfinu. Mjög brýnt er þó að Byggingarsjóður ríkisins geti strax hækkað lán sín verulega frá því sem nú er, og er sú hækkun, sem við setjum fram, algert lágmark að okkar mati. Við leggjum mikið upp úr því einnig að lenging lánstímans komi til þess að létta greiðslubyrði lántakenda, en eins og hv. þm, vita er það eitt höfuðeinkenni okkar þjóðfélags nú að æ fleiri eiga undir högg að sækja hjá lánastofnunum, þeir sem hafa ráðist í verkefni eins og byggingu íbúðarhúsnæðis, vegna hins skamma lánstíma sem verðtryggðu lánin eru veitt á í 60–70% verðbólgu. Ég tala nú ekki um þegar það fer saman að lífskjör versna, almenn greiðslugeta einstaklinganna dregst saman. Þá verða þessi lán þeim mun þyngri og niðurstaðan getur ekki orðið önnur en sú, að menn missa tök á fjármálum sínum og geta orðið fyrir verulegum eignamissi eða röskun á heimilishögum af þeim sökum.

Á síðustu árum hafa lánskjaravísitala og vísitala kauptaxta þróast í ólíkar áttir. Hækkun lánskjaravísitölu hefur orðið miklu meiri og gert greiðslubyrði lántakenda óeðlilega mikla. Það er því nauðsynlegt að skoða lánskjör þeirra, sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn, með hliðsjón af framangreindum orsökum.

Það má telja að þær breytingar á húsnæðislögunum sem ég hef verið að lýsa kosti Byggingarsjóð ríkisins rúmlega 50 millj., eða það var okkar niðurstaða þegar áætlun okkar var gerð, en sú tala þarfnast að sjálfsögðu endurskoðunar í ljósi þess að verðbólgan æðir nú upp með mun meiri hraða en áður var ætlað þannig að efnahagskerfið er í rauninni komið úr böndunum. Til þess að mæta því er lagt til að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verði ekki minna en sem nemur einu launaskattsstigi á næsta ári, sem þýddi tekjuaukningu fyrir Byggingarsjóð í kringum 70–80 millj. kr. Vegna þeirrar erfiðu fjárhagsstöðu, sem Byggingarsjóður er í nú og skapast hefur vegna fjársveltis seinustu ára, er nauðsynlegt að gera ráð fyrir sérstakri aukafjárveitingu á fjárlögum næsta árs til að rétta sjóðinn af og gera honum kleift að standa við skuldbindingar sínar. Æskilegt hefði verið að stíga stærra skref í húsnæðismálum strax, en þær erfiðu kringumstæður sem nú eru í efnahagsmálum valda því að við teljum það ekki raunhæft.

Ég vil í þessu sambandi rifja það upp, að fjárvöntun Byggingarsjóðs á næsta ári samkv. drögum sem gerð hafa verið fyrir það ár er um 432 millj. kr. og hjá Byggingarsjóði verkamanna um 163 millj. kr. Ástæðan er m.a. sú, að lögbundið framlag ríkissjóðs hefur verið skorið við nögl. Þannig gerir fjárlagafrv. t.d. ráð fyrir að framlög ríkissjóðs séu 148 millj., en ættu, ef miðað væri við eitt launaskattsstig. að vera 184 millj. Á það má líka benda, að sú fjármögnun sem átti að koma í gegnum lífeyrissjóðina hefur ekki tekist eins og búist hafði verið við. Samkv. þeirri áætlun, sem Húsnæðisstofnun hefur gert varðandi verkamannabústaði, eru tök á að lána til 188 nýrra íbúða á næsta ári, en umsóknir sem fyrir liggja og þær umsóknir sem samþykktar hafa verið og undirbúningur er heimill á byggingarframkvæmdum samkv. eru um 516 talsins á næsta ári, þannig að skakkinn þarna er um 330 íbúðir Þetta sýnir að kerfið er farið úr böndunum eins og að því hefur verið staðið.

Ef maður skoðar fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins á s.l. árum eða síðan ný lög voru sett um Húsnæðisstofnun ríkisins á árinu 1980 kemur í ljós, að frá 1980–1981 hækkaði það fjármagn sem Byggingarsjóður ríkisins hafði til ráðstöfunar til lánveitinga aðeins um 20%. Á milli áranna 1981 og 1982 nam hækkunin um 44%, þannig að það er eðlilegt að mikill hali hafi myndast, einkum ef það er haft í huga að nýjum lánaflokkum var bætt við þar sem mjög veruleg þörf var á fyrirgreiðslu. Ég vil þar nefna sérstaklega til lán til byggingar íbúða eða heimila fyrir aldraða og dvalarstofnana fyrir börn og aldraða. Þessi þáttur hefur stóraukist, en þó engan veginn nóg í þjóðfélaginu. Byggingarsjóður hefur ekki haft nein tök á að standa undir þeim fyrirheitum sem gefin voru. Lánaveitingar Húsnæðisstofnunar t.d. til íbúða fyrir aldrað fólk og til dagvistunarstofnana voru skornar niður í 17 millj. á þessu ári, en þegar frá áætlun fyrir Byggingarsjóð var gengið var upphaflega gert ráð fyrir að verja 30 millj. kr. til þess arna. Þarna er sem sagt um nær 50% niðurskurð að ræða vegna fjárvöntunar sjóðsins og niðurskurðar á framlögum úr ríkissjóði.

Við leggjum til í fimmta lagi að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verði ekki minna en sem svarar einu launaskattsstigi, en þar er eins og ég sagði áðan um 80 millj. kr. hækkun að ræða til Byggingarsjóðs.

Við teljum eðlilegt að lánshlutfall í félagslegum byggingum verði lækkað í 80%, en þó sé heimilt að lána 90% af byggingarkostnaði ef um sérstaklega erfiðar fjárhagsástæður lánþega er að ræða, sem getur m.a. stafað af heilsufarsástæðum eða öðru slíku.

Sú nýlunda er í þessari till. að við leggjum til að teknir verði upp verðtryggð:r bundnir reikningar í bönkum, sem veittu rétt til samsvarandi frádráttar frá tekjuskatti og skyldusparnaðurinn gerir nú og gæfu rétt til 10–15 ára láns til íbúðarbyggingar eftir 3–5 ára sparnað sem næmi allt að 15% af tekjum. Slíkt fjármagnsstreymi hefði ekki áhrif á bindiskyldu í Seðlabanka Íslands.

Tilgangurinn með þessari till. er tvíþættur. Annars vegar hefur það almennt uppeldislegt gildi og holl áhrif í þjóðfélaginu að auka sparnað ungs fólks, stuðla að því með óbeinum hætti að það taki upp frjálsan sparnað til þess að búa betur í haginn fyrir seinni tíma. Ef þessi tilraun tekst getur þessi sparnaður síðar auðveldað okkur fjármögnun húsnæðismálanna.

Ég vil í þessu sambandi einnig vekja athygli á þeirri hugmynd, þótt hún sé ekki sett fram hér í þessari till. til þál., að mjög kemur til greina að taka upp sérstakan sparnað fyrir þá sem eldri eru, t.d. á árunum 45–60 ára. Fólk á þessum aldri mætti taka upp sérstakan sparnað sem undanþeginn yrði tekjuskatti, allt að 15 eða 20% af tekjum, en kæmi síðan til útborgunar við 65 ára aldur. Þetta fé yrði að sjálfsögðu á verðtryggðum reikningum í bönkum. Ég er ekki í vafa um að með þessum hætti væri hægt að ná verulegu fé saman. Að sjálfsögðu yrðu reglur um innlegg að vera mjög strangar, fastar mánaðarlegar greiðslur t.d. sem hlutfall af tekjum. Reynslan er nú sú, að einmitt á þessum árum hafa menn rúm fjárráð og menn eru reiðubúnir að leggja nokkuð á sig ef þeir sjá fram á þjóðfélagslega þýðingu þess auk þess sem slíkur sparnaður mundi gefa fyrirheit um rúmari fjárráð í ellinni. Sparnaður af þessu tagi hefur verið tekinn upp erlendis, a.m.k. sums staðar. Ég hef séð reglur um þetta t.d. í Danmörku og tel rétt að þessi nýbreytni verði tekin upp. Ef ríkissjóður gefur slíkri uppsöfnun fjár sérstök fríðindi í formi skattaafsláttar er eðlilegt að löggjafinn hafi einnig eitthvað um það að segja til hvers þessu fé skuli varið.

Við getum líka sérstaklega rætt í því sambandi að slíkur sparnaður gæti staðið undir því að auðvelda öldruðum að kaupa íbúðir við sitt hæfi þegar þeir vilja minnka við sig, selja sín gömlu hús, veita skammtímafyrirgreiðslu til þess að auðvelda slík umskipti, enda leggjum við til að sérstakt átak verði gert í byggingu þjónustuíbúða og verndaðra þjónustuíbúða fyrir aldraða og fatlaða. Einnig verði sérstaklega athugað hvernig hægt sé að koma til móts við þá, sem eiga íbúðir fyrir, en vilja byggja sérhæfðar íbúðir fyrir aldraða og þurfa á lánsfjármagni að halda í stuttan tíma. Við gerum ráð fyrir að sjálfseignarstofnanir, ríki og sveitarfélög haldi áfram byggingu og rekstri slíkra stofnana svo sem verið hefur.

En jafnframt er nauðsynlegt að ráðist verði í byggingu á þessum svokölluðu vernduðu þjónustuíbúðum fyrir aldraða og öryrkja. Það er algengt að aldrað fólk búi lengur en það óskar sjálft í sínum gömlu einbýlishúsum eða stóru íbúðum vegna þess að það á ekki völ á öðru minna við sitt hæfi með þægilegum hætti. Það þarf þess vegna að örva þá byggingarstarfsemi á frjálsum markaði sem beinist að því að reisa sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða. Í þáltill. er gert ráð fyrir að sérstöku lánsfjármagni verði varið í þessu skyni til þess að veita fyrirgreiðslu í stuttan tíma. Eðlilegt er að slík lánsfyrirgreiðsla falli undir hið almenna bankakerfi. Slík starfsemi hefur mikinn þjóðfélagslegan sparnað í för með sér, eins og glöggt má sjá af því, að 13 íbúða fjölbýlishús fyrir aldrað fólk, sem reist hefur verið, hefur í raun tæmt 13 jafnmörg einbýlishús og sparað þannig verulega fjármuni í gatnagerð, holræsagerð og öðru sem til þarf.

Ég held að þessum þætti í íbúðamálum hafi ekki verið gefinn nægilegur gaumur. Það á auðvitað skýringu í því, að þessi starfsemi er ný af nálinni hér á landi, þótt nokkur hús hafi risið, og hefur ekki fengið fast form. En ég hygg að allir hv. alþm. geti nefnt einmitt mörg dæmi þess að aldrað fólk er lengur í sínum gömlu stóru íbúðum eða húsum en það sjálft óskar, er hrætt við breytingar vegna þess að það á sér ekki öruggt athvarf við sitt hæfi, hæfilega íbúð þar sem það getur haft muni sína í kringum sig, en býr þó við félagslegt öryggi. Enginn vafi er á að þessi þáttur í byggingarstarfseminni mun verða mjög verulegur á næstu árum hér á landi og það þarf þess vegna að hugsa fyrir því í tíma hvernig að fjármögnun hans verður staðið.

Við teljum eðlilegt að heimilaðar verði lánveitingar til einstaklinga og félaga til byggingar leiguíbúða. Það þarf að taka lög um húsaleigusamninga til endurskoðunar þegar í stað og breyta þeim þannig að þau hamli ekki leigusölu og að hvorki halli á rétt leigutaka né leigusala.

Reynslan er sú, að nokkur fjöldi fólks vill heldur búa í leiguíbúð en ráðast í kaup á eigin íbúð, þótt að sjálfsögðu hafi einstaklingar og fyrirtæki jafnan þörf fyrir leiguíbúðir til skamms tíma. Ég tala nú ekki um menn sem fara í aðra landsfjórðunga t.d. til náms. Það væri óhyggilegt að svara þessari eftirspurn einungis með þeim hætti að þorri leiguíbúða yrði í framtíðinni í eigu opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga. Sú tilhneiging er rík hjá mörgum að umgangast slíkar íbúðir af kæruleysi og allt of oft hefur hent að þær hafa drabbast niður. Það er þess vegna hagkvæmt fyrir þjóðfélagið í heild að einstaklingar eða fyrirtæki, svo sem tryggingafyrirtæki, hefji rekstur leiguíbúða svo sem er í nágrannalöndum okkar.

Við teljum að nauðsynlegt sé að koma til móts við þá aðila sem þurfa að framkvæma meiri háttar endurnýjun eða viðgerðir á íbúðarhúsnæði. Það er að vísu svo, að í lögunum frá 1980 er ráð fyrir þessu gert. Í lögunum er rannar gert ráð fyrir að miða lánsfyrirgreiðslu við það að um 10 ára gömul hús eða eldri sé að ræða, en vegna lítils fjármagns stofnunarinnar hefur húsnæðisstjórn orðið að breyta þessari reglu og eins og „praxísinn“ er nú er miðað við 20 ár.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þjóðhagslega þýðingu þess að húsnæði í landinu sé vel við haldið. Með síðustu skattalögum var því miður frá því horfið að viðhald á íbúðarhúsnæði væri frádráttarbært. Ég tel að það hafi verið mjög vafasamt skref, sérstaklega þegar um meiri háttar viðgerðir eða endurbætur er að ræða, eins og t.d. skemmdir af völdum alkalíefnahvarfa í sementi. Slíkar skemmdir eru talsvert útbreiddar, sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu, og er þar um verulegan kostnað að ræða fyrir húseigendur og vaxandi eftir því sem lengur dregst að bregðast við vandanum. Hér er verið að tala um varðveislu verðmæta fremur en ívilnun fyrir viðkomandi húseiganda, sem í flestum tilvikum á enga sök á þeim skemmdum sem orðið hafa á húseign hans. Þá vegur það þungt í þessu sambandi að slík frádráttarbærni ylli því að tekjur skiluðu sér betur til skatts en nú er og kæmu réttlátar niður. Vitað er að mjög mikið er um að viðgerðir á mannvirkjum eru ekki gefnar upp til skatts þar sem greiðandi hefur engan hag af því. Hér er því um það að ræða að uppræta skattsvik í þjóðfélaginu. Og eins og ég sagði áðan er nauðsynlegt að rýmka lánsskilyrði og hækka lán til viðhalds og endurbóta.

Ég hef flutt frv. um það hér á Alþingi- ég má segja að það hafi verið á síðasta þingi — að viðhald íbúðarhúsnæðis yrði aftur frádráttarbært. Sú till. fékk ekki náð fyrir augum meiri hlutans. Ef ég man rétt náðist það ekki einu sinni fram að frv. kæmist úr nefnd, heldur var lagst á það svo að raunverulegur vilji þm. kom ekki fram. Það er sláandi dæmi um þá auknu skattheimtu sem hér hefur verið, að eðlilegt viðhald íbúðarhúsa skuli ekki frádráttarbært þótt húsaleiga sé það. Ef maður hefur kostnað af húsnæði í gegnum húsaleigu er það að helmingi frádráttarbært, en ef maður býr í eigin húsnæði fær maður ekki, jafnvel þótt um verulegt viðhald sé að ræða, einn einasta eyri frádráttarbæran. Það var líka verulegt skref aftur á bak þegar sú regla var tekin upp að setja þak á vaxtakostnað vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Það er eftirtektarvert að þeir menn sem fyrir slíkum ráðstöfunum standa á tímum verðtryggingar í þjóðfélaginu eru sömu mennirnir og eignuðust íbúðarhús við þau skilyrði að verðbólgan borgaði lánin niður að verulegum hluta og þeir fengu þar að auki alla sína vexti frádráttarbæra frá tekjuskatti. Eiginlega sýnir fátt betur en þetta þá þröngu stöðu sem unga fólkið stendur frammi fyrir og veldur því að það heldur að sér höndum þegar um það er að ræða að eignast þak yfir höfuðið.

Við erum oft að tala um það, alþm., að nauðsynlegt sé að skapa hér heilbrigt og gott þjóðfélag, mismuna ekki þegnunum. Það er slagorð vinstri manna að allt slíkt eigi að gera að ofan með alls konar félagslegum átökum, með því að varpa allri ábyrgð af einstaklingnum sjálfum og láta ríkið með sína miklu alföðurhönd ráða og blessa alla í landinu. Við sjálfstæðismenn erum þessu andvígir. Við áttum allra flokka mestan þátt í því á sínum tíma að stuðla að því að íbúðareign varð svo algeng hér á landi að þess finnast engin dæmi annars staðar svo að mér sé kunnugt. Það er enginn vafi á að hin almenna efnahagslega hagsæld hefur haft holl og góð áhrif á þjóðfélagsgerðina sjálfa. Við þurfum ekki annað en horfa til þess hluta þjóðfélagsþegnanna sem hefur komist yfir íbúðarhúsnæði, — horfa á lifnaðarhætti þeirra og kjör og bera saman við þá sem eru að brjótast í þessu núna við þá miklu erfiðleika sem við er að stríða. Ef við horfum á þetta opnum augum sjáum við líka um leið að við erum að búa til tvær þjóðir í þessu landi — fólk sem hefur að vísu sama uppruna, talar sama tungutak og hefur sama rétt til góðs lífs. En þarna eru glögg skil — sömu skilin og eru á verðtryggingu lána og minni lánsfjárfyrirgreiðslu en áður, skilin á milli verðbólguflóðsins, skilin sem urðu til þegar vinstri stefnan varð á ný alls ráðandi í landinu. Það unga fólk sem nú er að vaxa upp dreymir ekki ný íbúðarhús í náinni framtíð, eins og foreldrar þess gátu leyft sér að dreyma um og komið í framkvæmd. Það verður að byrja á gömlum leiguhjöllum og laga þá til í besta falli. Ef þetta fólk er sæmilega duglegt að bjarga sér er sagt að það hafi svo miklar tekjur að það á þess engan kost að komast inn í verkamannabústaði. Til þess að fá að fara þangað inn verður fólkið að hafa mjög takmarkaðan efnahag. Unga fólkið sem duglegast er býr þess vegna við versta kostinn í þjóðfélaginu — það fólk sem á að taka við.

Ég hef hér fyrir framan mig töflu um hver hefur verið þróun í þéttbýli á Norðurlandi í sambandi við íbúðabyggingar. Þá kemur það í ljós, að á árinu 1980 var á Akureyri ráðist í smíði á 165 íbúðum. Á s.l. ári hrökk þessi tala niður í 56 og hinn 1. sept. s.l. hafði nýverið byrjað á 62 íbúðum á árinu. Ef athugað er hversu margar íbúðir voru í smíðum um áramót kemur í ljós að á Akureyri voru 374 íbúðir í smíðum 1. janúar 1981. 1. janúar 1982 voru íbúðirnar 305. 1. sept. s.l. voru þær ekki nema 172. Á tveim árum hafði þeim fækkað um ríflega helming. Hvað segir þetta okkur? Og á sama tíma og þetta gerist hefur hinn félagslegi þáttur jafnvel aukist í íbúðabyggingum. Þessar tölur sýna okkur svo glöggt sem verða má hversu þrengt hefur verið að unga fólkinu.

Það var algengt hér fyrir nokkrum árum að ungir menn kæmu sér saman, þeir hjálpuðu hver öðrum við að byggja, ganga frá steypumótum og öðru, leggja rafmagn og gera það sem til þarf. Múrarinn vann hjá trésmiðnum og rafvirkinn hjá múraranum. Þannig tókst þetta smátt og smátt og menn fengu efnahagslegan grundvöll fyrir sitt líf. En þetta hefur hrunið bókstaflega sagt. Í fyrstu lotu hefur þetta náttúrlega þau áhrif að miklar atvinnugreinar hér missa verkefni. Það fer fljótlega að gæta atvinnuleysis í stéttum byggingariðnaðarmanna. Það stuðlar ennfremur að því að byggingarframkvæmdir fyrirtækja í landinu hafa dregist saman. Það er ekki aðeins að íbúðabyggingarnar hafi dregist saman, heldur kemur þetta alls staðar við okkur. Á árinu 1980 var til dæmis heildarrúmmál þeirra húsa annarra en íbúðarhúsa sem hafin var smiði á 59.3 þús. rúmmetrar. Á næsta ári hrökk þessi tala niður í 33.1 þús. 1. sept. s.l. var hún rétt svipuð eða 33.2 þús. Ef við tökum slíkt húsnæði sem var í smíðum við síðustu áramót, eða 1. janúar 1981, voru rúmmetrarnir 209.3 þús., 1. sept. s.l. aðeins 146.8 þús. Þegar við erum að ræða almennt um það, hvernig stendur á þessum minni framkvæmdum en áður, fyrir utan erfiðari lánskjör bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, sjáum við auðvitað að þessu veldur þrengri staða fyrirtækja, verri efnahagur almennt og þröngsýni varðandi framtíðina.

Einn af forustumönnum SÍS lét þau orð falla í einkasamtali um daginn að sennilega mundu þjóðarframkvæmdir minnka um 20% á næsta ári. Um þessi mánaðamót er verið að skerða kjörin um 11–12% og menn taka þessu þegjandi af því að þeir vita að verra er í vændum. Á sama tíma og þetta er gert hækka ýmsar neysluvörur helmingi meira en kaupið. Það er þessi þrönga staða sem veldur því að við verðum að standa betur að íbúðamálunum í hinum opinberu sjóðum en við höfum gert.

Við tölum hér um 25% byggingarkostnað á næsta ári. Þetta er ekki hátt mark. Þetta er ekki óskaplega mikið. Þó er það svo mikið að í tillögum sem nefnd sem fjallar um þessi mál á vegum ríkisstj. hefur gengið frá er farið miklu skemmra. Þar er aðeins talað um að lána sem svarar 15% af raunverulegum byggingarkostnaði ef verðbólgan er tekin inn í dæmið. Við ætlum þó að reyna að stefna að 25 og munum standa við það ef að okkur kemur eftir næstu kosningar. Við munum ekki taka okkur til fyrirmyndar loforðaferil Þessarar hæstv. ríkisstj., sem öll er nú fjarverandi og kannske skiptir það engu máli. Við munum láta hin sviknu loforð þessarar hæstv. ríkisstj. verða okkur til varnaðar, ekki síst í húsnæðismálunum. Það vantaði ekki fögru orðin skömmu eftir að hún tók við völdum.

Þá leggjum við til að starfsemi Húsnæðisstofnunar verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar og tæknideild hennar lögð niður. Þetta er liður í tillögum okkar um að nauðsynlegt sé að sýna aukið aðhald og sparnað í ríkisrekstrinum. Um það hefur verið mikið talað á liðnum árum, en minna orðið úr efndum. Hér erum við með ákveðna tillögu í þeim efnum. Við viljum að lán til húsbyggjenda séu sem allra mest í höndum lánastofnana, enda sýnir vöxtur bankakerfisins glögglega að þar er nægur mannafli fyrir hendi, auk þess sem það mundi hafa hagræði í för með sér fyrir lánveitendur.

Við leggjum til að kannaðar verði leiðir til þess að lækka byggingarkostnað, m.a. með lækkun aðflutningsgjalda á byggingarefni, lækkun launaskatts og aðstöðugjalds. Þetta er gamalt markmið. Um þetta hefur oft verið rætt hér á hinu háa Alþingi, en minna orðið úr efndum. Það er nauðsynlegt að hrista þetta upp á nýjan leik, því að enn meiri og brýnni nauðsyn er til þess nú en áður að öllum kostnaði sé í hóf stillt svo sem verða má, eins dýrt og fjármagnið er orðið. Það var kannske hægt að standa undir meiri kostnaði meðan verðbólgan hjálpaði til við að greiða lánin niður. Sú tíð er liðin og þess vegna er enn nauðsynlegra en áður að hafa það í huga að halda kostnaðinum eins mikið niðri og unnt er.

Að síðustu leggjum við til að endurskoða þurfi löggjöf um byggingarsamvinnufélög.

Herra forseti. Ég hef hér gert nokkra grein fyrir stefnumörkun okkar sjálfstæðismanna í húsnæðismálum. Eins og ég sagði áður stefnir hún almennt að því að við getum áfram búið í landi þar sem menn eru sjálfs sín herrar í eigin húsnæði. Það er það almenna markmið sem við viljum vinna að. Það viljum við gera með því að lengja lánstímann umfram allt til þess að fólk geti staðið undir hærri lánum. Við teljum óhjákvæmilegt að lánsfjármögnun fyrstu íbúðar fari upp í 80% og setjum okkur það mark að við getum náð því á næstu fimm árum. Til þess að ná þessu mikla fjármagni, sem þarna þarf til að koma, viljum við vinna að því að hækka lán úr Byggingarsjóði ríkisins, taka upp nýja sparireikninga í bönkum, auka almennan sparnað í landinu með markvissum hætti og með skattaívilnunum til þess að fé sé lagt til hliðar í þessu skyni og við viljum jafnframt leita eftir frjálsu samkomulagi við lífeyrissjóðina til þess að ná þessu markmiði af því að við höfum þá trú að það muni gefa betri raun en sú lögbinding sem verið hefur og sem lífeyrissjóðirnir hafa ekki viljað standa við í raun. (GJG: Þetta er rangt hjá þm.) Þeir hafa ekki viljað standa við það.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði vísað til allshn.