06.12.1982
Efri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

104. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á lögum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins felur í sér nokkrar breytingar, eins og frsm. hefur vikið að.

1. gr. frv. fjallar um hlutverk Framleiðnisjóðs, og er þar um nokkra breytingu að ræða, sem má segja að komi fram í orðalagi. Á hinn bóginn eru gildandi lög um Framleiðnisjóð þess efnis, að hlutverk hans er mjög rúmt og getur rúmað alla þá þætti sem um er fjallað í 1. gr. þessa frv. Ekki er því í raun um mikla efnislega breytingu að ræða og hefur stjórn sjóðsins fullar heimildir til að ákveða framlög eða lánveitingar úr sjóðnum til þeirra verkefna sem fjallað er um í frv.

Önnur breyting, sem felst í þessu frv., er að breytt er uppsetningu stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og eru felldir niður þeir fulltrúar úr stjórninni sem tilnefndir eru af Búnaðarbankanum annars vegar og af Framkvæmdastofnun ríkisins hins vegar. Ætla verður að fulltrúum þessara stofnana hafi verið ætlað sæti í stjórn Framleiðnisjóðs til að tengja Framleiðnisjóð og störf hans við þessar fjármálastofnanir og tel ég það kost fremur en löst. Ég dreg því í efa að það væri til bóta ef þessi breyting væri gerð.

Í þriðja lagi felst í þessu frv. breyting á fjármögnun Framleiðnisjóðs. Er þar í fyrsta lagi gert ráð fyrir föstu framlagi á fjárlögum, sem er nákvæmlega sama upphæð og er í fjárlagafrv. fyrir árið 1983. Jafnframt er gert ráð fyrir að þessi fjárlagatala haldi gildi sínu árlega miðað við verðlagsbreytingar. Þá eru gerðar þær tillögur í þessu frv. að lækkað verði gjald á söluvörum landbúnaðarins, sem nú mun renna til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, og færist það að hluta til Framleiðnisjóðs.

Í sambandi við þá brtt. sem hér er gerð er rétt að rifja það upp, að á síðasta Alþingi voru gerðar breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins annars vegar og lögum um Búnaðarmálasjóð hins vegar. Þær breytingar voru gerðar eftir að starfað hafði nefnd sem skipuð var af landbrn. til þess að athuga og fjalla um þau gjöld sem renna til þessara sjóða. Frumvörp, sem samin voru af þessari nefnd, voru síðan afgreidd af Alþingi þannig að Alþingi er alveg nýlega búið að gera breytingar á þessum ákvæðum fyrrgreindra laga og sýnist vera vafasamt að taka þau ákvæði laganna upp að nýju til breytinga einu ári eftir að þeim hefur verið breytt af Alþingi.

Ég vil minna á að í þeim breytingum fólst að lækkað var svokallað stofnlánadeildargjald annars vegar og búnaðarmálasjóðsgjald hins vegar á söluvörum í alifugla- og svínarækt, fiskeldi, fiskrækt og land- og veiðileigu. Það var gert til að mæta kröfum frá framleiðendum í þessum búgreinum og til að auðvelda þeim að standa að þessum tekjustofni Stofnlánadeildar svo að um samkomulag yrði að ræða. Um þessi atriði tókst víðtækt samkomulag, sem ég teldi vera miður ef farið væri nú að rífa upp.

Á hinn bóginn var gerð sú breyting á ákvæðum laga um stofnlánadeildargjald, að heimilt er fyrir landbrh. að fella niður svokallað neytendagjald og jöfnunargjald sem rennur til Stofnlánadeildar landbúnaðarins af þeim söluvörum landbúnaðarins sem fluttar eru til útlanda svo fremi að útflutningsuppbætur dugi ekki. Þetta var m.a. gert til þess að framleiðsla loðdýrabúa gæti staðið nær því að vera jafnfætis slíkri framleiðslu í samkeppnislöndunum, enda er þar um algera samkeppnisvöruframleiðslu að ræða. Enn fremur var þetta gert til þess að ekki legðust á bændastéttina þau sjóðagjöld sem hér hafa verið nefnd þegar um útflutning er að ræða og útflutningsbætur duga ekki, en þá væri mjög ósanngjarnt að bændastéttin tæki á sig að greiða til Stofnlánadeildar landbúnaðarins sem svarar þreföldu venjulegu stofnlánadeildargjaldi. (EgJ: Hver leggur það til, ráðh.?) Þessar breytingar voru gerðar í fyrra og um þær varð allvíðtækt samkomulag og ég tel að það væri vafasamt af Alþingi að rífa það samkomulag upp nú.

Að öðru leyti vil ég ekki segja margt fleira um þetta frv. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að vilja auka tekjustofn Framleiðnisjóðs og gera honum kleift að ráðast í fleiri verkefni en hann hefur getað sinnt til þessa, en það er þó jafnframt við þetta að athuga að það komi ekki fram í því að sundra samkomulagi sem gert hefur verið varðandi þessi sjóðagjöld landbúnaðarins í heild sinni.

Lagt er til í fylgifrv. þessa frv., um breytingu á jarðræktarlögum, að fella niður það bráðabirgðaákvæði sem tekið var upp í lögin árið 1979, en það var þess efnis að heimild var gefin til að skerða jarðræktarframlög til einstakra verkefna en um leið að framlög samkv. jarðræktarlögum skyldu vera sem næst hin sömu að verðgildi og þau voru á árunum 1978 og 1979. Sá mismunur, sem þarna var á milli, skyldi renna til hagræðingar í landbúnaði og nýrra búgreina og tekjuöflunarleiða í sveitum og því fé vera ráðstafað að tillögu landbrh. samþykktri af ríkisstj., en að höfðu samráði við stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Þessi ákvæði laganna hafa verið framkvæmd á þann hátt sem lögin mæla fyrir um. Það hefur raunar verið gert á þann veg að leitað hefur verið eftir tillögum Framleiðnisjóðs og í megindráttum hefur verið fylgt þeim tillögum, þannig að aðild Framleiðnisjóðs að ráðstöfun á þessu hagræðingar- og nýbúgreinafé er ótvíræð.

Ég fel vafasamt að breyta þessum ákvæðum jarðræktarlaga. Það var fimm ára tímabil sem þessum ákvæðum var ætlað að standa, en senn eru liðin þrjú ár af þeim fimm árum sem þessi ákvæði laganna áttu að taka til. Hitt er út af fyrir sig rétt, að það hefur orðið skerðing á þessu fé í meðförum Alþingis þannig að ekki hefur verið að fullu staðið við verðtryggingarákvæði laganna, þó að hv. frsm. og flm. færi ekki með alls kostar réttar tölur um það atriði. Til að mynda var fé sem veitt var til þessara þarfa á árinu 1981 um eða yfir 7.6 millj., en hv. frsm. nefndi til muna lægri tölu.

Ég get tekið undir að ekki er hægt að sætta sig við þá tölu sem stendur í fjárlagafrv. fyrir næsta ár og vænti þess að hv. fjvn. muni breyta þeirri tölu svo að þessi fjárhæð verði nokkru rýmri. Mun ég beita mér fyrir því að svo verði gert eftir því sem unnt er, en auðvitað er það Alþingi sem tekur lokaákvörðun um fjárveitingar samkv. þeim lögum eins og í öðrum efnum.

Að þessum orðum mæltum sé ég ekki ástæðu til að fjalla um þetta frv. í lengra máli. Ég virði að sjálfsögðu áhuga hv. flm., en ég taldi rétt við 1. umr. málsins í Ed. að láta þær aths. falla sem hér hafa verið fluttar.