20.10.1982
Neðri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

26. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Sjútvrn. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt.

Í fyrsta lagi: Hv. þm. Halldór Blöndal vefengdi það, að ég hefði boðið 20% fiskverðshækkun. Þetta er út af fyrir sig kannske ekki stórt mál, en ég gætti þess að hafa mann með mér þegar ég bauð þetta, Ólaf Davíðsson, og ég vil eindregið óska eftir því, þar sem svo var komist að orði að ég væri að segja ósatt, að hv. sjútvn. kalli á Ólaf Davíðsson og Kristján Ragnarsson og spyrji þá að þessu. Ég veit að það hefur komið fram að þetta var ekki gert í yfirnefnd, enda engin staða til þess þar sem ljóst lá fyrir áður en sá fundur yfirnefndar var haldinn að það yrði ekki samþykkt. En ég óska eftir því að þetta verði kannað og rætt og þessir menn að þessu sérstaklega spurðir báðir. — Ég get getið þess að Kristján Ragnarsson hafði ákveðnar ástæður til þess að hafna þessu, sem ég hef út af fyrir sig ekkert við að athuga, sem hafa komið fram hjá honum.

Hv. þm. sagði að afli hafi orðið 0.1 tonni minni á úthaldsdag hjá minni togurunum fyrri hluta ársins en í fyrra. Mér er ráðgáta hvar hv. þm. fær þetta. Í þeirri skýrslu, sem ég vísaði til frá starfshópi þeim sem ég skipaði, segir: Aflaminnkun janúar –maí miðað við sama tíma 1981 er áætluð 16% á hvert skip hjá minni togurum og samsetningarbreyting (aflaminnkun er öll í þorski) er talin rýra tekjur um 6% til viðbótar. Ef 0.1 tonn er 16%, þá — (Gripið fram í: Það er 1% of mikið.) Já, eitthvað kringum það — standast ekki mínar reikningskúnstir. En ég skal svo sannarlega afla mér gleggri upplýsinga um þetta. En þetta er undirskrifað af sjálfum Kristjáni Ragnarssyni, sem hv. þm. tekur nú manna trúanlegastan. (Gripið fram í.) Já, ég er hér með aðra skýrslu sem Kristján Ragnarsson undirskrifar. (HBI: Frá Þjóðhagsstofnun?) Hún hlýtur að vera miklu betri en Ólafur Davíðsson. Ég skal kynna mér hvernig í ósköpunum á þessu má nú standa.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason spurði um brbl. Ég er ég held að verði aldrei að taka afstöðu til. Ég er sannfærður um að hæstv. forsrh. leggur brbl. fram fyrir 1. des. Ég efast ekki um það. Ég hef ekki nokkra ástæðu til að halda annað. Ef svo fer ekki kann að vera að þingflokkur Framsfl. verði að fjalla um það. En ég get ekki á þessu stigi svarað fyrir þingflokkinn.