20.10.1982
Neðri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

26. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil vegna orðaskipta minna og hæstv. ráðh. um þau 4% sem bar á milli frá 16 í 20% segja að sjútvrh. er að sjálfsögðu kunnugt um að það var ekki fullnægjandi fyrir útgerðina að fá fiskverðið hækkað upp í 20% og enga niðurgreiðslu á olíu. Ef hæstv. sjútvrh. vill svo túlka þetta með þeim hætti að útgerðin hafi út af fyrir sig hafnað 20% fiskverðshækkun sem leið til lausnar á vandanum, þá má hann það mín vegna. En mér finnst það ekki merkilegur málflutningur. Staðreyndin er sú, að formanni LÍÚ var ekki boðið upp á neitt það sem hann gat sætt sig við fyrir útgerðina. Auðvitað vildi hann heldur 20% fiskverðshækkun en 16, en það veit hæstv. sjútvrh. jafnvel og ég, og vera að reyna að snúa málinu þannig er náttúrlega út í hött.