06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

118. mál, tollheimta og tolleftirlit

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það voru síðustu orð hæstv. ráðh. að það væru mest tæknileg atriði sem væru á ferðinni í þessu frv. Þó eru þau kannske nokkuð viðkvæm gagnvart þeim mönnum sem á skipum eru sem sigla frá Íslandi til útlanda og heim aftur.

Í 3. gr. er margvísleg upptalning. Í 6. lið segir: „Skrá yfir áhöfn farsins og eigur þær sem henni tilheyra.“ 7. liður: „Skrá yfir vista- og birgðaforða farsins.“

Í 4. gr. segir: „Stjórnandi fars sem er í millilandaferðum skal við komu inn á tollsvæði ríkisins hafa í sinni vörslu og læsa inni forða og birgðir sem eru umfram það sem heimilt er að hafa til frjálsra afnota í farinu. Á sama hátt skal farið með tollskyldan varning áhafnar sem ekki á að flytja í land og tollafgreiða. Stjórnandi fars ber ábyrgð á því að ekkert hverfi undan lás og að allt, sem undir lás skal vera, sé þar.“ Síðar í sömu grein segir: „Setja má í reglugerð ákvæði um, hvað telja ber hæfilegan forða og birgðir fars, svo og venjulegan farangur áhafnar.“

Það var einmitt út af þessu atriði sem ég vildi vekja máls á því að mikil umræða hefur farið fram meðal sjómanna og einnig í blöðum um að hér sé misbeitt valdinu á hvernig meta skuli þau atriði sem þessi grein fjallar um, þ.e. eignir farmannsins eða sjómannsins og smávistir sem hann hefur hugsað sér að flytja í land. Þetta er mjög viðkvæmt mál og skiptir miklu máli hvernig farið er með. Mér hefur verið tjáð af eftirlitsmönnum, þ.e. tollvörðum, að mjög strangt eftirlit sé hér á þéttbýlissvæðinu og jafnvel svo að smámatarpakki innsiglaður í plast og frágenginn 100% til öryggis sé tekinn, en á sama tíma sé heimilt að senda jafnstóran pakka sem gjöf til landsins og frítt í tolli. Slíkt ósamræmi er náttúrlega alveg óþolandi. Á sama tíma og þannig er að farið gagnvart farmanninum eða sjómanninum flæðir hér inn í landið — ég endurtek: það flæðir inn í landið til sendiráða og annarra manna, sem hafa tilskilin skjöl, alls konar varningur, kjúklingar, kalkúnar og hamborgarar og hvað það heitir nú allt saman.

Ég vek athygli á því á hv. Alþingi að slík meðferð er ekki sæmandi einum eða neinum. Þetta frv. fjallar um að setja í reglugerð ákvæði um hæfilegan forða og venjulegan farangur áhafnar. Þegar slík mismunun á sér stað er von að menn verði argir. Nýliðin ráðstefna Sjómannasambands Íslands gerði um þetta ákveðna ályktun. Ég held að ég viti til þess að einn hv. þm. hafi þá ályktun undir höndum og væri ekki á móti því að hún yrði lesin hér til áréttingar því að þess. mál verður að taka til athugunar og það sem fyrst. Ég er ekki að biðja um að þessir ágætu sjómenn eða farmenn fari að bera í land einhver ósköp, en það sé mannlega tekið á því sem þeir eru að gera í þessu efni. Það er lágmarkskrafa og sanngirni. Það er engin sanngirni að hvetja þá til að eyða peningum í óþarfa erlendis á sama tíma og aðrir aðilar fá að taka við sams konar varningi frítt og átölulaust og það í stórum stíl með ýmsu móti.