07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi sagði að mál þetta hefði ekki verið tekið föstum tökum og lítill áhugi virtist vera á því að standa við yfirlýsingu ríkisstj. frá því á öndverðu þessu ári og eins frá því í ágústmánuði s.l. Ég ætla því að leyfa mér að endurtaka það orðalag sem hér er um að tefla, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðræður verði teknar upp við samtök bænda um endurskoðun útflutningsbótakerfisins.“

Hér er aðeins um það rætt að taka upp viðræður og það hefur rn. gert. Það stendur ekkert um það í þessari yfirlýsingu til hvaða niðurstöðu þær viðræður eigi að leiða. Það stendur ekkert um það, sem fram kom í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að skerða eigi útflutningsbótaréttinn. Það er ekkert um að þessar viðræður eigi að leiða til þess að útflutningsbótarétturinn verði afnuminn í áföngum. Það er aðeins um það að ræða að athuga á hvern hátt megi breyta þessu kerfi þannig að uppbótaféð komi að betri notum. Að því hefur verið unnið. Að öðru leyti er engin fyrirsögn gefin um það í yfirlýsingu ríkisstj. hver niðurstaðan skuli verða. Miðaðvið þessa yfirlýsingu er það ákaflega vafasamt a.m.k. að bera það fram hér í ræðustól á Alþingi að á þessu máli hafi ekki verið tekið eins og til hefur verið ætlast.

Með sama hætti segir í yfirlýsingu ríkisstj. frá því í ágúst s.l.: „Þá mun ríkisstj. hefja viðræður við aðila að verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar um breytingar á skipan þeirra mála, sem stuðlað gætu að hjöðnun verðbólgu en tryggt um leið afkomu í þessum greinum.“

Meginatriði þessa máls er, eins og fram kom í mínu máli áðan, að um leið og breytingar verða á verðbótakerfi og vísitölukerfi verði sambærilegar breytingar í landbúnaði í þeim tilgangi að draga úr verðbólguþróun og koma þar með þessum þætti efnahagslífsins í betra horf. Hér er því ekki um vanefndir að ræða, sem fram kemur í máli hv. fyrirspyrjanda.

Varðandi það, sem hér hefur verið spurt um, hvort það fé, sem gefin voru fyrirheit um á þessu ári að yrði varið til að styðja svokallaða fækkun sauðfjár samkv. frjálsum samningum, sem voru 10 millj. kr., yrði notað í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið eða að einhverju leyti umfram það, þá er rétt að það komi fram að að sjálfsögðu verður þetta fé notað svo sem samningar gefa tilefni til, en ekki fram yfir það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð og tel þessa umr. raunar ekki hafa hafist af miklu tilefni.