07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem umr. beinast hér á Alþingi að íslenskum landbúnaði og niðurgreiðslum og útflutningsbótum. Ég tek heils hugar undir það. Þetta er gengið of langt, fúlgurnar orðnar allt of stórar. Ég fer ekki út í skýringar á því hér. Hér eru menn mér færari um það. Hitt vitum við mætavel, ef við nennum að hugsa nógu grannt um málið, að hér er aðeins einn anginn af okkar vandamálum í dag. Það er verðbólgan, sem hefur geisað hér áratugum saman, sem er að eyðileggja íslenskan landbúnað eins og aðra atvinnuvegi. Íslenskar landbúnaðarafurðir eru að sjálfsögðu ekki samkeppnisfærar við afurðir annarra þjóða þegar verðbólgan er margföld hér á við það sem gerist í viðskiptalöndum okkar. Sama blasir við í sjávarútvegi. Við erum að verða útilokuð á öllum mörkuðum vegna þess að okkar verðlag hlýtur að verða í samræmi við kostnaðinn við framleiðslu hér heima fyrir. Það kemur svo sem ekkert á óvart að heyra menn, sem helst vilja flæma alla bændur úr sveitum landsins, skera íslenskan landbúnað niður við trog og flytja smjör og kjöt á útsöluverði frá Efnahagsbandalagslöndunum, tala í svipuðum dúr og gert hefur verið nú. Hitt er vitað mál og ég er alveg sammála um það, að hér er mikill vandi á höndum. Og ég held að ég verði að segja íslenskum bændum til hróss að þeir hafa verið fúsir til samvinnu um að ráða bót á vandanum, m.a. með stórfelldri fækkun á bústofni að undanförnu. Þetta er hluti af okkar stóra vandamáli, sem við erum að glíma við á öllum sviðum, og það er óþarfi að tala í þeim tón sem nú og jafnan áður hefur verið talað til íslenskra bænda.