07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur spurst fyrir um hvenær frv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun verði lögð fram hér í þinginu og hvort lánsfjárlög verði afgreidd samhliða fjárlagafrv. og þá sérstaklega hvort þessi mál verði til afgreiðslu fyrir jól.

Það er rétt, sem kom fram í ræðu hans áðan, að það hefur verið allur gangur á því hvenær þessi mál hafa verið lögð fram hér í þinginu og hvenær þau hafa verið afgreidd. Stundum hafa þessi mál komið fram á haustþingi, stundum ekki. Oftast hefur liðið langur tími frá því að málin komu inn í þingið og þar til þau voru afgreidd og venjulegast hefur verið langt liðið á nýtt ár.

Nú eru aðeins tvær vikur þar til jólaleyfi hefst og sennilega jafnvel styttri tími en það, kannske ekki nema 9 vinnudagar þingsins. Það ætti því að vera nokkuð auðvelt að fullyrða að lánsfjárlög verði ekki afgreidd fyrir jól. Ég hygg að það sé líka nokkuð óvíst hvort frv. til lánsfjárlaga verður lagt fram fyrir jól með tilliti til þess hversu fáir dagar eru eftir til jóla. (Gripið fram í: Hvað voru margir dagar til jóla þegar fjárlagafrv. var lagt fram?) Þetta er reikningsdæmi sem ég býst við að hv. þm. þurfi ekki mína aðstoð við að reikna, svo að ég læt honum það eftir.

Ég minni á að fyrir einu ári var frv. til lánsfjárlaga lagt fram í þinginu 27. okt., en frv. var ekki afgreitt frá þinginu fyrr en 5. apríl. Það virðist því vera staðreynd, að hvort sem þessi frv. eru fyrr eða siðar á ferðinni í þinginu hljóta þau venjulegast afgreiðslu nokkuð seint. Satt best að segja man ég ekki betur en stjórnarandstaðan hafi lagt talsverðan metnað í það á s.l. vetri að koma í veg fyrir að lánsfjárlög væru afgreidd fyrir jól og héldi uppi málþófi í þinginu til að koma í veg fyrir það. Þeir vildu að vísu ekki viðurkenna að málþófið snerist um það, en við sem til þekktum bak við tjöldin vissum betur. Þetta hefur þegar komið fram, gerði það í umr. hér á Alþingi í fyrra, og er ekki ástæðulaust að það er rifjað upp nú. (FrS: Breytti það nokkru eftir jólin?) Hins vegar fór það svo, að frv. var býsna lengi í meðförum hér í þinginu, eins og menn muna, og var ekki afgreitt fyrr en undir vorið.

Ég hygg að óljóst sé um afgreiðslu ýmissa mála í þinginu, og eitt af þeim málum sem nokkuð er óljóst um afgreiðslu á er að sjálfsögðu lánsfjárlög. Með tilliti til þess hygg ég að sé meira virði að lánsfjárlögin og lánsfjáráætlun séu undirbúin sem best þannig að meiri líkur verði á að Alþingi afgreiði þau sæmilega tímanlega á næsta ári. Það skiptir greinilega ekki máli hvort lánsfjárlög eru afgreidd einum mánuðinum fyrr eða seinna og það gildir ekki það sama um lánsfjárlögin og um fjárlög, sem að sjálfsögðu verður að afgreiða fyrir áramót.

Ég vil nefna í þessu sambandi, að ýmis erfið úrlausnarefni eru fyrir hendi þar sem lánsfjáráætlun er og þessi úrlausnarefni hafa vissulega tafið fyrir þeim aðilum sem hafa verið að undirbúa gerð lánsfjáráætlunar. Ég nefni sem dæmi það mikla vandamál sem er fyrir hendi í Fiskveiðasjóði. Hann stendur frammi fyrir vandamálum sem hafa verið að safnast upp á mörgum undanförnum árum og að talsverðu leyti má rekja aftur til seinasta áratugs, en að nokkru leyti stafa af fjárhagserfiðleikum útgerðar um þessar mundir og greiðslufalli sem orðið hefur hjá mörgum útgerðarmönnum, sem veldur því að Fiskveiðasjóður er í sérstökum greiðsluerfiðleikum upp á tæpar 500 millj. kr. Þetta er það vandamál sem mjög !engi tafði fyrir því að stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands legði fram tillögur sínar um fjáröflun til sjóðanna og um skiptingu á framlögum til fjárfestingarlánasjóða, en þær tillögur komu í októbermánuði s.l.

Annað dæmi um vandasöm úrlausnarefni eru orkuframkvæmdir á næsta ári. Það liggja fyrir hugmyndir og tillögur um mjög verulegar orkuframkvæmdir. Ég get t.d. nefnt sem dæmi, að fyrstu tillögur og hugmyndir sem fram komu hjá Landsvirkjun um framkvæmdir á Landsvirkjunarsvæðinu voru um erlendar lántökur í því sambandi upp á 1000 millj. kr. Þar til viðbótar koma svo áformaðar framkvæmdir í sambandi við byggðalínur og Blönduvirkjun, sem hvort tveggja verður væntanlega á vegum Landsvirkjunar, upp á samanlagt um 550 millj. kr.

Það er alveg ljóst að við verðum að fara af mikilli gát á næsta ári í sambandi við erlendar lántökur. Það er alveg ljóst að við getum ekki leyft okkur að taka lán einfaldlega eftir því sem hugur girnist og framkvæmdahugur stendur til hjá hinum ýmsu aðilum. Það verður því að skera framkvæmdaáform talsvert mikið niður og það hlýtur að þurfa margvísleg samráð til þess að það verði gert af nægilegu viti. Erlendar skuldir eru vissulega ískyggilega háar í hlutfalli við þjóðarframleiðslu og greiðslubyrði af erlendum lánum hefur farið vaxandi. Ástæður þess eru margar, eins og menn þekkja. Vextir af erlendum lánum hafa verið óvenjulega háir á þessu ári. Einnig hefur deilitalan í þessum hlutföllum báðum, þ.e. þjóðarframleiðslan annars vegar og svo hins vegar útflutningsframleiðslan, verið að dragast saman, þannig að prósentutalan eða sjálft hlutfallið sem hér um ræðir hefur farið hækkandi. Einnig er það áhyggjuefni ef vaxandi viðskiptahalli, sem stafar af þessum sama samdrætti í þjóðarbúinu á eftir að stuðla að auknum erlendum skuldum.

Ég ítreka því, sem ég hef þegar nefnt, að það verður að fara að af ýtrustu varfærni. Reynslan sýnir að það er hyggilegra að undirbúa lánsfjárlög sem best og hefur ekki mikið upp á sig að leggja þau fram í þinginu mjög snemma ef þau eru hér svo til afgreiðslu í mjög marga mánuði. Ég verð því að svara spurningum hv. þm. þannig, eins og ég hef þegar gert, að það er einsýnt að lánsfjárlög verða ekki afgreidd fyrir jól og raunar með öllu óvíst að þau verði lögð fram fyrir jól. Hins vegar verður óhjákvæmilegt að taka endanlega afstöðu til þess hluta lántökunnar sem snýr að ríkisframkvæmdum, framkvæmdum A-hluta stofnana og B-hluta stofnana og lántökum í því sambandi, og ég geri ráð fyrir að haft verði samráð við fjvn. um þá hlið málsins og henni gerð grein fyrir hvað þar er um að ræða.

Um erlendar lántökur á árinu 1982 sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða nú, en mun gera það síðar, því að ég hef engin gögn í höndum um það mál. Þó vil ég segja það, að ég held að hv. fyrirspyrjandi Matthías Á. Mathiesen hafi tekið ansi stórt upp í sig þegar hann var að lýsa því hér áðan hvað væri búið að taka mikið af erlendum lánum án þess að heimildir væru fyrir hendi af hálfu Alþingis til þess. Það er á nokkrum misskilningi byggt. Ég hygg að það séu ákaflega fá dæmi þess að farið hafi verið fram úr lánsfjáráætlun umfram það sem felst í lántökum sem Alþingi hefur þegar veitt heimildir fyrir. Ég gæti nefnt tvö dæmi þar um. Það er annars vegar framkvæmdir Landsvirkjunar og hins vegar lántökur í þágu Járnblendifélagsins, en um hvort tveggja lágu fyrir formlegar heimildir þingsins og lántökur í þessu skyni eru æðistór partur af heildarlántökunum. Að öðru leyti hygg ég að lántökur hafi fyrst og fremst farið fram úr hjá atvinnufyrirtækjum almennt, sem taka lán bæði vegna skipainnflutnings og vegna vélakaupa og tækjakaupa með samþykki langlánanefndar, en allt eru þetta lántökur sem ekki þarf formlega heimild Alþingis til.

Ég mun gera Alþingi grein fyrir lántökum á árinu 1982 við síðara tækifæri, en ég hygg að málið sé ekki á þann veg sem hv. fyrirspyrjandi lýsti áðan.

Vissulega væri full ástæða til að fara einhverjum orðum um þessar tröllasögur, sem hv. fyrirspyrjandi var að segja úr nefnd einni hér í þinginu, sem hann á sæti í, hv. fjh.- og viðskn. Nd. Ég greip ekki þessar tröllasögur nægilega vel til þess að ég geti farið mörgum orðum um þær. Mér fannst þær einkennilegar margar hverjar, einkum og sér í lagi yfirlýsingar prófessora um að lög, sem sett eru í ákveðnum yfirlýstum tilgangi af hálfu ríkisstj., eigi að merkja eitthvað allt annað en öll þjóðin veit að þau merkja. Það eru einhverjir einkennilegir atburðir að gerast í fjh.- og viðskn. ef þar koma prófessorar og lýsa því yfir að lög merki eitthvað allt annað en allir, bæði stjórn, stjórnarandstaða og þjóðin öll, hafa talið að þau merktu. En ekki vil ég fara frekari orðum um þá atburði.

Hins vegar vil ég segja það um láglaunabæturnar, sem hv. fyrirspyrjandi gerði hér að umræðuefni, að það er ekki rétt að farið sé að borga þær út nú þegar og ekki heldur rétt að gefin hafi verið út reglugerð um þær. Hins vegar er hvort tveggja í undirbúningi og ég geri ráð fyrir því að reglugerð verði gefin út innan fárra daga, þannig að greiðslur geti átt sér stað fyrir jól. Að því er stefnt. Það er alveg ljóst að í brbl. er fullgild heimild til greiðslu þessara bóta og það jafnvel þótt lögin séu umdeild, eins og hv. þm. nefndi hér sérstaklega sem rök fyrir því að lagagrundvöllur væri hæpinn. Auðvitað skiptir ekki ýkjamiklu máli hvort lög eru umdeild eða ekki umdeild. Ef þau eru fyrir hendi, eins og er í þessu tilviki, eru þau fullgildur lagagrundvöllur og reglugerðir eru þá byggðar á þeim og þá þar með ákvörðun um greiðslu bóta.

Herra forseti. Ég hygg að ég hafi svarað þeim fsp. sem hér komu fram.