07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umr., sem mér finnst eiga betur heima á nefndarfundum í fjh.- og viðskn. Ed. Það er verið að ræða hér sama mál og var til umr. þar í morgun, vegna þess að það var kallað þar á ákveðinn prófessor og hann beðinn um að segja skoðun sína á því hvað mundi gerast ef brbl. yrðu felld. Í framhaldi af því spurðu menn hvernig bæri að skilja ákveðna setningu í 1. gr. Hann svaraði um hæl: Án þess að ég hafi nokkuð athugað það sýnist mér að það beri að skilja hana þannig, en tel að verði að athuga það nánar. — Viðkomandi maður hefur ekki athugað það nánar. Það hefur ekki heldur verið kallað á þá lögfræðinga sem stóðu að þessum texta. Svo standa menn hér upp, maður eftir mann, á Alþingi, hv. þm. Karvel Pálmason o.fl., og beita útúrsnúningum. Ég hélt að það væri betra að nota tíma Sþ. í eitthvað annað.

Það liggur alveg fyrir og það hefur aldrei neitt annað komið fram, að hér er eingöngu um að ræða skerðingu 1. des. Hverjum haldið þið að detti í hug að koma fram fyrir þjóðina og tilkynna ráðstafanir í efnahagsmálum, hvort sem það er forsrh. eða aðrir ráðh. eða þm., en meina allt annað? Halda menn að það sé farið að stunda slík vinnubrögð hér í landinu að menn ætti sér að setja hér lög, hvort sem það eru brbl. eða venjuleg lög, og ætli ekki einu sinni að hafa fyrir því að segja fólkinu í landinu hvað þeir eiga við, að hér eigi að viðhafa helmingsskerðingu á vísitölu jafnvel næstu áratugi eða þar til væntanlegur kosningasigur Sjálfstfl. verður að veruleika, á hvaða áratug sem það verður nú? Er það það sem menn eru að gera skóna hér? Ég skil ekki þessa umr. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem hér hefur annars farið fram og þá umr. sem hér fer fram um kjaraskerðingu. Menn tala um að það sé samasemmerki á milli kjaraskerðingar og breytingar á vísitölu. Hefur vísitölukerfið á Íslandi tryggt laun í gegnum tíðina? Hefur það gert að verkum að kaupmáttur launa er sá sem hann er? Þetta kerfi hefur verið í gangi hér síðan 1939 eða í rúm 42 ár og hvað ætli það sé oft þessi 42 ár sem kerfið hefur virkað fullkomlega án þess að nokkurt inngrip hafi verið? Árin eru reyndar bara þrjú, 1945 til 1947. Í átta ár hefur verið skerðing á vísitölunni samkv. lögum. Í 32 ár hefur verið annað inngrip í vísitöluna. Halda menn svo að þetta kerfi geri að verkum að þjóðin býr við þau kjör sem hún býr í dag? Og leyfa sér hvað eftir annað að tala um á Alþingi að það sé kjaraskerðing að skerða'þessa vísitölu! Nú eru þm. Sjálfstfl. orðnir bestir í þeirri umr. og hafa algerlega slegið þm. Alþb. út í þeirri speki. Þeir voru þó allgóðir í henni 1977 og 1978. Það er alveg eins og þessir ágætu menn hafi lært ræðurnar þeirra utanbókar. Þetta er rangt. Og það er ósæmilegt af þm. að halda uppi þessari umr. dag eftir dag og ár eftir ár á Alþingi því hún er bæði villandi og ósmekkleg.