21.10.1982
Sameinað þing: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

18. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa ánægju minni með þessa þáltill. sem ég hefði jafnvel kosið að fleiri þm. kjördæmisins hefðu átt kost á að skrifa upp á. Um það tjáir ekki að fást. Ég vil minna á að allt frá árinu 1978, í þeirri kosningabaráttu sem þá fór fram í Norðurl. e., gerði ég það að umræðuefni iðulega í ræðum mínum að augljóst væri að það þyrfti að efla mjög alla iðnaðaruppbyggingu í því kjördæmi, og þá einkum og sér í lagi á Eyjafjarðarsvæðinu. Á þessu hef ég klifað nánast á hverjum fundi sem fjallað hefur um atvinnumál í þessu kjördæmi síðan 1978. Það fer ekkert á milli mála að í því kjördæmi eins og víða á landinu eru skiptar skoðanir um hvernig atvinnuuppbyggingin skuli fara fram. Þar takast á að mínu mati tvö mjög sterk öfl. Annars vegar eru þeir menn sem vilja treysta á framtak einstaklingsins í þágu þjóðarheildar og hins vegar þeir sem telja að fátt sé hægt að gera nema þar hafi samvinnuhreyfingin fingurna í.

Ég lít svo á að atvinnuuppbyggingin í Norðurl. e. og þá einkum á Eyjafjarðarsvæðinu hafi truflast og tafist að verulegu leyti vegna þeirra deilna sem upp hafa komið um það hvernig að henni skuli staðið. Það er engu að síður ljóst að nú hefur fengist fram, eins og hv. 1. flm. þessarar till., Lárus Jónsson, gat um, mjög mikilsvert plagg þar sem er fundargerð bæjarráðs Akureyrar frá 28. sept. s.l., þar sem það er loksins staðfest svart á hvítu að bæjarráð hefur áhuga á því að orkufrekum iðnaði verði valinn staður á Eyjafjarðarsvæðinu, Akureyringum til styrktar í sinni atvinnuuppbyggingu, enda hafa menn gert sér það ljóst að orkufrekum iðnaði fylgir meira en þau atvinnutækifæri sem skapast í verksmiðjum.

Það er ýmiss konar þjónustuiðnaður, sem blómstrar við hlið þessara verksmiðja, og af sumum reiknað að þar skapist fjögur atvinnutækifæri á móti hverju einu. Ég hef sjálfur sagt að stóriðja í því formi sem við þekkjum hana væri ekki neitt allsherjar lausnarorð, heldur mættum við huga að ýmiss konar iðnaði. Þá hef ég t.d. nefnt að það væri vel þess virði að huga betur að því en gert hefur verið hvort ekki mætti nýta fisk og fiskhráefni til betri úrvinnslu til þess að gera verðmeiri afurðir úr þeim.

Sá ágreiningur sem hefur verið uppi í okkar kjördæmi um afstöðuna til þessara mála virðist fara minnkandi sem betur fer. Menn taka nú frekar en áður þann pólinn í hæðina að þessi leið sé sú leið sem fara verður, einfaldlega vegna þess að aðrir möguleikar gefast ekki.

Mig langar, herra forseti, að vitna hér í örstutta forustugrein sem ég skrifaði í Alþýðumanninn á Akureyri fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þar sagði ég m.a.:

„Hér á Akureyri er fyrst og fremst kosið um það hvert beri að stefna í þróun atvinnumála. Það er kosið um það hvort ungar og vinnufúsar hendur fái störf við sitt hæfi á næstu misserum og árum eða hvort Akureyringar leiti til annarra byggðarlaga um vinnu.

Akureyringar standa á tímamótum og um leið höfuðstaður Norðurlands. Rannsóknir, sem hæfustu menn hafa gert, sýna svo að ekki verður um villst að það er iðnaður og ýmsar þjónustugreinar sem verða að taka við öllu því vinnuafli er við bætist á næstu árum. Það er ljóst að fram til ársins 2000 fækkar atvinnutækifærum í landbúnaði um nokkur þúsund. Engin þörf verður fyrir aukið vinnuafl í fiskiðnaði. Líklegt er talið að þar verði um fækkun að ræða vegna síaukinnar vélvæðingar og örtölvubyltingar. Hið sama gildir um sjávarútveginn. Þetta eru staðreyndir sem ekki verða hraktar. Það er af þessum ástæðum að nú kjósa Akureyringar um það hvort mikið og nauðsynlegt átak verði gert í eflingu iðnaðar af öllu tagi“.

Ég vil í þessu sambandi minna á að t.d. Akureyringar hafa að nokkru leyti búið við falskt atvinnuöryggi á undanförnum árum. Það er nefnilega svo að stórfyrirtækjum, SÍS og KEA, hefur verið ætlað það tröllaukna hlutverk að efla svo iðnað í bænum að allt nýtt vinnuafl geti leitað þangað. En þrátt fyrir dugnað og hæfileika ýmist forustumanna þessara samtaka, sem um áraraðir hafa auðvitað verið mikilvægt afl í atvinnulífi Akureyringa, hefur það ekki dugað til. Þarna komum við einmitt að nokkrum kjarna í þessu máli. Menn hafa treyst um of á atvinnuuppbyggingu þessara samtaka og gleymt því um leið að það þarf meira til.

Það er öllum hv. þm. kunnugt að atvinnuástandið á Akureyri hefur verið nokkuð knappt, ekki eins gott og við höfum kosið að það væri. Þetta á einkum og sér í lagi við um byggingariðnaðinn, sem hefur átt við nokkra erfiðleika að stríða, þó að eitthvað hafi úr ræst og ekki komi til þess alvarlega verkefnaskorts sem við var búist fyrir tveimur mánuðum. Engu að síður er útlitið ekki gott þegar liður fram á næsta ár. Það eru ekki í sjónmáli nein þau ný atvinnutækifæri í þessu kjördæmi sem gætu veitt nýju vinnuafli störf. Þetta er eðli málsins samkvæmt mjög alvarlegt. Þessi mál verður að taka traustum tökum því að verði það ekki gert fljótlega þá getur skapast á þessu svæði, einkum og sér í lagi Eyjafjarðarsvæðinu, hreint vandræðaástand. Landbúnaðurinn hefur verið geysilega sterk stoð í öllu atvinnulífi þarna en af mörgum ástæðum getur hann ekki tekið við nýju vinnuafli á næstu árum, heldur eru allar líkur á því að vinnuaflið í landbúnaði fari minnkandi.

Ég vildi sem sagt, herra forseti, taka undir þessa till. að hluta til, en ítreka þó þá skoðun mína að ég tel í raun og veru ekki sjálfgefið að við þurfum við uppbyggingu atvinnulífsins að horfa eingöngu til stórrekstrarverksmiðja, heldur megi huga að öðrum greinum iðnaðar, sem eiga t.d. heima í kjördæmi af þessu fagi, þar sem ýmiss konar úrvinnsla bæði landbúnaðarafurða og sjávarafurða kemur mjög vel til greina. En það er alveg ljóst að nú er staða mála sú að það verður að taka afstöðu til þess, ef mönnum er alvara með að stofna til smíði nýs álvers hér á landi, hvar það álver eigi að vera. Og staðarvalsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu, sem virðist óvefengjanleg, að Eyjafjarðarsvæðið er það svæði sem helst kemur til greina til að taka við þeirri verksmiðju.

En af því að ég sá hæstv. iðnrh. hér inni áðan vildi ég spyrja hann að því, ef hann heyrir mál mitt, hvar þau mál standi nú í kerfinu sem snerta nýtt álver hér á landi. Við höfum ekkert um það heyrt hvert athugun þeirra mála er á veg komin. Væri afskaplega fróðlegt að heyra frá hæstv. iðnrh. hvar í pappírsbunkum iðnrn. hugmyndir hans og hans fjölmörgu ráðgjafa eru um það hvenær eigi að hefja framkvæmdir við nýtt álver og hvort nokkur afstaða hafi verið tekin til þess hvar slíkt álver eigi að vera. Nú sé ég að hæstv. iðnrh. er genginn í salinn og ætla þá að endurtaka spurningu mína til hans ef fyrri flm. till. hefur ekki gert það. Ég var að spyrja um það hvort nokkur ákvörðun hefði verið tekin í iðnrn. eða hvort það lægi fyrir hvenær hugsanlegt væri að hefja framkvæmdir við smíði nýs álvers hér á landi, hvort þau mál væru komin á þann rekspöl að þess mætti vænta að ákvarðanir yrðu teknar á næstu misserum, og þá hvort hans hv. rn. hefði tekið afstöðu til þeirra valkosta sem staðarvalsnefnd nefnir í sinni grg. eða sínum niðurstöðum m.a. um Eyjafjarðarsvæðið. Ég geri mér ljósa grein fyrir því að þetta mál hlýtur að tengjast mjög virkjun Blöndu og þeirri orku sem þaðan kemur, en ég held að það væri fróðlegt fyrir alla hv. þm. — og eins fyrir aðra landsmenn að fá upplýsingar um það núna hvort einhverjar ákvarðanir liggi fyrir. Það er stundum haft á orði að mikið sé talað, rætt, athugað og rannsakað á vegum iðnrn., og það er vel, vegna þess að það er undirstaða þess að hægt sé að taka einhverjar ákvarðanir. En ákvarðanir verður engu að síður að taka og þess vegna ber ég þessar spurningar fram til hæstv. iðnrh. í þeirri von að hann geti sagt okkur eitthvað um það hvar þessi mál standa nú.