13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

116. mál, grunnskóli

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 119 um breyt. á lögum um grunnskóla. Flm. þessa frv. auk mín eru þau Jóhanna Sigurðardóttir, Alexander Stefánsson, Guðrún Helgadóttir, Pétur Sigurðsson og Birgir Ísl. Gunnarsson. Þetta frv. var borið fram seint á síðasta vorþingi, en fékk þá ekki afgreiðslu og er endurflutt nú. Það felur í sér einfaldlega þá breytingu á grunnskólalögum, að inn í þau verði tekin ákvæði varðandi fræðslu um áhrif af neyslu áfengis og annarra ávana- og fíkniefna. Í 42. gr. laganna er kveðið svo á, að menntmrn. skuli setja grunnskólum aðalnámsskrá þar sem nánar er kveðið á um kennslu í þeim greinum sem taldar eru upp í 42. gr. í 11 stafliðum. Með samþykkt þessa frv. yrðu stafliðirnir 12.

Það var bent á það við flutning þessa máls s.l. vor, að það færi illa á því að ekki væri í grunnskólalögum ákvæði um fíkniefnafræðslu í skólum landsins. Jafnframt var þá bent á þá staðreynd, að í gildandi áfengislögum frá 1969 eru tvímælalaus ákvæði um þetta að því er áfengi varðar og einnig er til um þetta allítarleg og góð grg. með eldri áfengislögum frá 1954. Það er skemmst frá að segja, að enda þótt þessi ákvæði í nefndri reglugerð standi fyrir sínu hefur þeim verið mjög slælega framfylgt og sums staðar alls ekki.

Ég vil sérstaklega ítreka, sem kemur fram í þessari grg., að í þessum reglugerðarákvæðum um bindindisfræðslu er hvergi bent á að fræðslu þurfi varðandi önnur ávana- og fíkniefni en áfengi. Ákvæði varðandi fíkniefni sem slík, sem hafa komið til í íslensku þjóðlífi eftir að þessar reglugerðir voru samdar með eldri áfengislögum, eru sem sagt alls ekki fyrir hendi.

Sumir kunna að benda á að í deiglunni sé endurskoðun á grunnskólalögunum sem heild. Og það er rétt. Komið er út nál. þar sem gerðar eru allfjölþættar og viðamiklar brtt. við gildandi grunnskólalög. Ég tel þó engan veginn rétt að bíða þess með framkvæmd þess sem hér er farið fram á að þær brtt. nái í gegnum þingið. Við vitum af fyrri reynslu að þessi mál eru þung í vöfum og tekur oft langan tíma að koma þeim í gegnum Alþingi. Hér er því ekki eftir neinu að bíða. Hér er um að ræða gloppu í gildandi grunnskólalögum sem ekki er við hæfi að sé lengur látin ófyllt.

Í grg. þessa frv. nú er getið um að tveir menn frá menntmrn. hafi farið í náms- og kynnisferð til Bretlands í því skyni að kynna sér fræðslu um ávana- og fíkniefni innan skóla sem utan. Þessir menn voru þeir Sigurður Pálsson námsstjóri í kristnum fræðum, sem hefur jafnframt umsjón með bindindisfræðslu, og Ingvar Sigurgeirsson námsstjóri í samfélagsfræðum. Þessi ferð var farin í boði UNESCO, sem hefur að undanförnu staðið fyrir umfangsmiklum aðgerðum á sviði ávana- og fíkniefnamála og gefið út ítarlega skýrslu þar sem birtar eru niðurstöður rannsókna. Þessir tveir menn hafa gefið út mjög fróðlega og ítarlega skýrslu um þessa kynnisför sína og hef ég viðað að mér nokkrum fróðleik úr þessari skýrslu, sem ég tel að eigi erindi inn í framsögu þessa máls nú.

Það er ekki í fyrsta skipti sem hér er minnst á fræðslu um fíkniefni, en engin ákvörðun er enn tekin, framkvæmd öfl í lausu lofti og raunar varla hægt að segja að undirbúningur sé hafinn að gagni. Þessu frv. er ætlað að bæta hér úr, ef að lögum yrði. Á það benda þeir félagarnir í skýrslu sinni, og við vitum það raunar vel, að sú litla fræðsla sem hefur verið uppi höfð gegn fíkniefnum hefur hingað til aðallega beinst að áfengi og tóbaki. Fræðslan hefur að stórum hluta beinst að efnunum sjálfum, að skaðsemi þeirra og upplýsingum um verkan þeirra í notkun. Hins vegar eru nú uppi nýjar hugmyndir um að nálgast þetta viðfangsefni eftir dálítið ólíkum leiðum. Það er lagt mikið upp úr því að fræðslan fengist í ríkara mæli en áður aðstæðum og umhverfi nemendanna og að fræðslan sé í senn jákvæð og upplýsandi. Athyglinni er beint að áhrifavöldum í umhverfinu, svo sem félagahópum ekki hvað síst og vali á sjálfstæðum ákvörðunum við ólíkar aðstæður. Þetta er einmitt höfuðmarkmiðið, að þjálfa nemendur í að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelti staðgóðrar þekkingar, sem hjálpi þeim til að standa gegn utanaðkomandi áhrifum og þrýstingi og þá ekki hvað síst, eins og ég sagði, frá félagahópnum sem þau umgangast.

Ég geri þó ráð fyrir að þegar allt kemur til alls verði það vafalaust uppeldisleg mótun á heimilinu, innan fjölskyldunnar, sem þarna hefur úrslitaáhrif, en við megum ekki loka augum fyrir öllum þeim utanaðkomandi áhrifum sem börn og unglingar búa við í sínu uppeldi í dag. Heimilið og fjölskyldan leysir þó ekki allan vanda. Hér verður fleira að koma til. Þá höfum við helst augastað á fræðslu innan skólanna. En hvernig verður sú fræðsla framkvæmd? Það er hin stóra og vandasama spurning. Eins og bent er á í grg. þessa frv. er sérstaklega staðhæft að fræðsla sem er rangt við höfð geti haft verri áhrif en bætandi. Það er því verr af stað farið en heima setið með svona fræðslu, sé hún ekki vandlega undirbúin og markviss.

Miklar og víðtækar rannsóknir er búið að gera á undanförnum árum, erlendis aðallega, og eru slíkar rannsóknir í gangi núna í nágrannalöndum okkar bæði á vegum stjórnvalda í skóla- og heilbrigðiskerfinu og á vegum sjálfstæðra stofnana og áhugamanna. Ein af meginniðurstöðum þessara rannsókna er að leggja beri aukna áherslu á innan skólanna að fella fíkniefnafræðsluna inn í annað námsefni, og þá er staldrað fyrst og fremst við heilsufræði og samfélagsfræði. Það er að sjálfsögðu mikið vandaverk að semja slíkt kennsluefni, en mestu máli varðar þó, að ég hygg, að kennslan og fræðslan sé í höndum vel menntaðra, vel upplýstra og vel þjálfaðra kennara. Því hefur athyglin í vaxandi mæli beinst að þjálfun kennara í þessum efnum.

Í skýrslu þeirra félaga, Sigurðar og Ingvars, er vitnað alloft í fyrrv. námsstjóra í heilbrigðisfræðum í Bretlandi, sem er kona að nafni Mary Holmes. Hún er einn af aðalhöfundum umræddrar skýrslu á vegum UNESCO. Hún leggur áherslu á að gögnin sem kennarinn hafi í höndum skipti í rauninni minnstu máli, svo djúpt tekur hún í árinni. Kennarar og þjálfun þeirra sé aðalatriðið. Hún telur jafnframt að allar heimsóknir utanaðkomandi aðila í skólana orki tvímælis og séu stundum beinlínis óæskilegar. Þessi fræðsla eigi að tengjast daglegu skólastarfi og vera í höndum starfsliðs skólanna. Því er það, að menntun og þjálfun kennaranna er talin undirstöðuþáttur fræðslunnar til skólanemenda.

Í skýrslu þessari frá UNESCO er sérstaklega tekin fyrir sú fræðsluaðferð, sem ég aðeins minntist á áðan, sem byggist á að vekja ótta og hrylling hjá nemendum og hefur löngum verið talin ein sú líklegasta til að vara unglinga við fíkniefnaneyslu. Þessi aðferð er nú talin hæpin, hræðsluaðferðin svokallaða. Reynslan þykir hafa sýnt að hún sé gagnslítil þegar til lengdar lætur. Hún sé ofhlaðin af tilfinningum og feli auk þess oft í sér rangar upplýsingar. Oft sé með þessum hætti varpað óeðlilega sterku ljósi á þær hættur sem eru samfara fíkniefnaneyslu og auki á dulúðina í kringum hana, sem geti í vissum tilfellum frekar laðað að en fælt frá notkun fíkniefna. Í staðinn fyrir of einhliða upplýsingamiðlun þurfi því að koma fræðsla sem höfðar til viðhorfa og raunar einnig til tilfinninga og byggir upp sjálfstæði og dómgreind nemandans sem einstaklings. Hún þarf að tengjast daglegu lífi nemandans.

Herra forseti. Það er ljóst að við eigum hér vandasamt verkefni fyrir höndum, sem við verðum að ráðast til atlögu við af fullri alvöru og á öllum vígstöðvum í senn. Mikið undirbúningsstarf er óunnið hjá okkur, en mikið af góðum efnivið er þegar fyrir hendi og áhugasamir og hæfir menn sem eru reiðubúnir að leggja vinnu í þann undirbúning, sem veltur mikið á að vandað sé til svo sem kostur er. Við hljótum að byggja hér á reynslu nágrannaþjóða okkar, sem hafa kostað miklu fé og mikilli fyrirhöfn í að rannsaka þetta vandamál til hlítar og athuga vað sé helst til varnar.

Íslenskir skólar verða fyrir sitt leyti að vinna gegn þessum bölvaldi, fíkniefnaneyslunni, sem ógnar ungu fólki nú um heim allan og er, að ég hygg að ég megi fullyrða, útbreiddari nú orðið hjá okkur en við gerum okkur grein fyrir.

Ég minnist í því sambandi að mér var sagt af — ég heyrði það ekki sjálf — útvarpsviðtali í íslenska útvarpinu fyrir ekki mjög löngu, þar sem kom fram kona er sagði frá óhugnanlegri persónutegri reynslu sinni. Ung dóttir hennar, 13–14 ára, gerbreytti um alta hegðan. Hún missti áhuga á skólanum. Hún varð sljó og eins og utan við heiminn. Það var velt vöngum yfir því hvað ylli þessari breytingu á stúlkunni. Þegar loksins sannleikurinn kom í ljós reyndist barnið vera á kafi í neyslu eiturlyfja og hafði verið um nokkurt skeið án þess að nokkur innan fjölskyldunnar hefði hugmynd um það. Þetta minnir með nokkuð sláandi hætti á athyglisverða kvikmynd, sem nú er sýnd hér í bænum, um dýragarðsbörnin, þar sem 14 ára vestur-þýsk stúlka verður eiturlyfjaneyslu að bráð. Ég held að alþm. verðu tímanum vel með því að sjá þessa mynd, ef þeir hefðu tíma nú í jólaönnunum. Það er því og hlýtur að vera sjálfsögð krafa að ákvæðið sem þetta frv. felur í sér komi inn í grunnskólalögin strax og skapi, eins og segir í niðurlagi grg., „eðlilegan grundvöll að þessum vandmeðfarna fræðsluþætti innan skólanna.“

Ég ítreka það, sem kemur fram í grg., að hvorki hvarflar að mér né, að ég þori að fullyrða, samflm. að þessu máli að við teljum björninn unninn í baráttunni gegn fíkniefnaneyslunni þó að við fáum þetta inn í lög. Það væri auðvitað grunnhyggni af stærstu gráðu. En í grunnskólalögunum á þetta heima. Ég vona því að þetta mál, svo sjálfsagt sem það virðist vera, fái greiðan framgang í þinginu og að hv. menntmn., sem fær það til meðferðar, muni leggja sig fram um að afgreiða það fljótt og vel.

Ég minnist þess, að á flokksþingum flokks hæstv. menntmrh., sem því miður hefur séð ástæðu til að hverfa úr þingsal þegar þetta mál kom til umr., hefur samflokksfólk hans ítrekað gert tillögur sem stefna beinlínis í þessa átt, fela raunar í sér nákvæmlega þau ákvæði sem við erum að fara fram á nú að verði felld inn í grunnskólalögin. Ég þykist því vita að hæstv. menntmrh. og flokkurinn sem á bak við hann stendur séu þessu máli hlynntur.

Ég þarf ekki að efast, og ekkert okkar, um afstöðu skólamanna almennt til þessa máls. Ég hef kannað það og ég veit að það er samdóma álit þeirra að það sé einkennilegt, að ekki sé meira sagt, að ákvæði þetta varðandi skuli ekki að finna í grunnskólalögunum sem íslensku skólar starfa eftir.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði mátinu vísað til hv. menntmn.