14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

Um þingsköp

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bregða út af vana mínum og gera stutta athugasemd við þingsköp.

Við 2. umr. fjárlaga sem fram á hér að fara á eftir, hefur hvorki fjvn. né aðrir alþm. fengið í hendur fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1983, sem skýr lagafyrirmæli eru um að lögð skuli fram með fjárlagafrv. hverju sinni.

Í lögum nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála, segir svo í upphafi 14. gr.: „Ríkisstjórnin skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skulu þær fylgja fjárlagafrv.“ Þessi fyrirmæli um meðferð ríkisfjármála í umræðum á Alþingi voru sett fyrir forgöngu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, þ. á m. Alþb. og Framsfl. Eftir þessu, sem stundum hefur verið nefni frv. til lánsfjárlaga, hefur verið gengið utan dagskrár og af fjvn. að ósk minni hlutans, en óljós svör fengist, jafnvel óvíst talið að þetta mikilvæga þskj. eða hluti þess sjáist fyrir jól.

Það er jafnan svo, og undir það hafa ýmsir forráðamenn ríkisstj. tekið, að lánsfjárlög eru ekki síður stefnumótandi um ríkisfjármál en almenn fjárlög. Það er útilokað að ræða þann þátt ríkisfjármálanna, sem fram kemur í frv. til fjárlaga, þannig að heildaryfirsýn fáist um ríkisbúskapinn, nema á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun eða frv. að lánsfjárlögum.

Að þessu sinni er þingheimi ennþá meiri vandi á höndum en oft áður, þar sem fjárlagafrv. það sem hér á að taka til 2. umr. virðist svo óraunhæft miðað við stefnuyfirlýsingar ríkisstj. að milljarð skorti á að endar nái saman.

Ríkisstj. segist t.d. stefna að óbreyttri samneyslu á árinu 1983, en hundruð milljóna skortir á að tillit sé tekið til þess í fjárlagafrv. Um þetta eru ítarlegir útreikningar í nál. okkar í minni hl. fjvn.

Ríkisstj. áformar 8% niðurskurð framkvæmda í heild á árinu 1983. Á því er byggt í forsendum þessa fjárlagafrv. Ef þær forsendur bresta, sem fram kemur að sjálfsögðu í frv. til lánsfjárlaga fer þetta frv. úr böndum. Það eru því alveg sérstakar ástæður, herra forseti, sem liggja til þess að þessi umr. verður hrein sýndarumræða ef ekki liggja fyrir þær veigamiklu upplýsingar sem felast í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta að hann láti í ljós álit sitt á því, hvort það samrýmist góðum og þinglegum vinnubrögðum að 2. umr. fjárlaga fari fram án þess að fullnægt sé í einhverju fyrirmælum skýlausra laga um að fjárfestinga- og lánsfjáráætlun skuli liggja fyrir. Ég vil í því sambandi leggja sérstaka áherslu á þær aðstæður sem nú eru og ég hef hér tíundað. Ég hef gert hæstv. forseta viðvart um að ég mundi bera fram þessar óskir og vænti úrskurðar hans.