16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

274. mál, kostnaður vegna athugunar á starfsemi Íslenska álfélagsins

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör þau sem hann gaf hér áðan. Ég verð á þeim örfáu mínútum sem ég hef til umráða að gera örlitla athugasemd við efnisinnihald þeirra svara sem fram komu hjá hæstv. ráðh.

Það er í fyrsta lagi þar sem hann segir að aldrei hafi verið ætlunin að Hafnarfjarðarbær tæki þátt í kostnaðinum, en síðan kemur fram að þegar kostnaðurinn lá fyrir þá var hann dreginn frá álgjaldinu, hlutfallslega dreginn frá því sem Hafnarfjarðarbær átti að fá samkvæmt þeim reglum sem um það hafa gilt. Það liggur náttúrlega í augum uppi að með því móti er verið að láta Hafnarfjarðarbæ greiða sinn hluta. Ég lít svo á, með tilvísun til þess sem ráðh. sagði að lokum, að þetta mál yrði áfram í athugun, að breyting geti orðið á þeirri ákvörðun sem tilkynnt var í bréfinu frá ríkisbókhaldinu, og Hafnarfjarðarbæ verði greitt álgjaldið að fullu eins og það kom frá Íslenska álfélaginu til ríkissjóðs.

Ráðh. vék hér að atriðum sem tilheyra liðnum tíma og vitnaði í bréf frá 1974. Þá er það 1973, það er 1975, það er 1976 sem átt hefur sér stað endurskoðun á reikningum álfélagsins af hálfu endurskoðendafyrirtækisins, sem um var samið á sínum tíma. En munurinn er sá, að fyrirtækið Íslenska álfélagið lítur á þetta sem útlagðan kostnað og það dregur frá útlagðan kostnað áður en það skilar álgjaldinu til ríkissjóðs.

Ég veit ekki til þess að áður hafi verið dregið af álgjaldinu hjá ríkissjóði sjálfum. Það hefur ekki gerst og það sem ráðh. sagði hér áðan staðfestir það. Endurskoðunarkostnaðinn, sem hefur orðið til vegna óska íslensku ríkisstjórnarinnar um sérstaka endurskoðun samkvæmt samningnum hefur álfélagið litið á sem sinn útlagða kostnað. Sú upphæð hefur komið inn í rekstrarkostnað fyrirtækisins og ekki verið til frádráttar af þeirri upphæð sem Íslenska álfélagið skilaði inn til ríkissjóðs og var til skipta.

En ef við hugleiðum þetta aðeins áfram og víkjum að þeim tölum sem í þessu dæmi eru, þá varð t.d. kostnaðurinn 1973 3 444 nýkr. en álgjaldið 1974, sem er það sem ber uppi þennan kostnað, er 717 þús. kr. Í ár er um allt aðrar upphæðir að ræða. Það eru 3 millj. 24 þús. sem Hafnarfjarðarbær fær árið 1981. Þá er búið að draga frá hjá ríkissjóði, ekki hjá Íslenska álfélaginu, 500 þús. kr.

Eins og fram kom hjá ráðh. er hér um að ræða ráðstöfun sem er gerð án vitundar og samþykkis Hafnarfjarðarbæjar. Samkv. túlkun þeirri sem kom fram í ræðu hans —þar til við lokasvar, þegar hann orðaði það svo að mótmæli Hafnarfjarðarbæjar væru til athugunar í rn. áfram — þá gæti farið svo að Hafnarfjarðarbær fengi ekki eina krónu af álgjaldinu, ef kostnaðurinn af athugun iðnrn. yrði sá hinn sami og álgjaldið væri.

Við sjáum af þessu hvað hér er í raun og veru að gerast, ráðslag sem ekki má viðgangast, því að álgjaldið til Hafnarfjarðarbæjar er samningsbundið gegn niðurfellingu þeirra gjalda sem önnur fyrirtæki í sveitarfélaginu borga í sveitarsjóð. Reglugerðin frá 10. júní 1976 gerir ráð fyrir, í framhaldi af samningnum, hvernig álgjaldsskiptingin skuli vera. En ég er sammála ráðh. í því að þetta verður að lögfesta, eins og þáv. iðnrh. lýsti sig reiðubúinn til þess að gera. Og ég trúi því ekki, þar sem hann nú gegnir embætti forsrh. í ríkisstj. og hefur lýst sig viljugan til endurskoðunar á þeim samningi eins og í honum stendur, að hann sé ekki reiðubúinn áður en þessu þingi lýkur til þess að lögfesta þann samning, sem ríkið þá gerði við Hafnarfjarðarbæ, en ég tel ekki nokkurn vafa á því að þar sé um skuldbindandi samning ríkissjóðs að ræða.