16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara fsp. hv. þm.

Hann minntist fyrst á það í sínum inngangi, að hægagangur mikill hefði verið á störfum stjórnarskrárnefndar. Þetta stafar af ókunnugleika hjá hv. þm. Þessi nefnd hefur núna að vísu starfað í fjögur ár, en ég tel að hún hafi starfað vel og ég veit það líka að hliðstæðar nefndir í okkar nágrannalöndum, sem undirbúið hafa á svipaðan hátt breytingar á stjórnarskrá eða nýja stjórnarskrá, hafa jafnan tekið miklu lengri tíma en þessi.

Hv. þm. spyr hvort samkomulag sé í sjónmáli í stjórnarskrárnefnd um tillögur í kjördæmamálum. Stjórnarskrárnefndin hefur hagað þannig störfum sinum, að hún hefur rætt rækilega allar helstu leiðir og kosti í kjördæmamálinu, og hún hefur lagt þar til grundvallar nokkur meginsjónarmið sem hún hefur frá upphafi verið sammála um. Það er í stuttu máli að tryggja jafnrétti milli stjórnmálaflokka, að draga úr misvægi atkv. eftir byggðarlögum og að tryggja betur persónukjör en nú er. Stjórnarskrárnefndin hefur unnið á þessum grundvelli, að kanna allar helstu hugsanlegar leiðir til lausnar á þessum vandamálum og látið reikna út hvernig hver einstök þeirra kæmi út miðað við alþingiskosningar um margra ára skeið. Niðurstöður af þessum könnunum hefur stjórnarskrárnefnd sett saman í skýrslu, sem nýlega hefur verið send þingflokkum eða alþm. og fjölmiðlum. Nefndin taldi eðlilegast að hafa þennan háttinn á og hún hefur ekki gert tillögur um ákveðna niðurstöðu eða ákveðna lausn á kjördæmamálinu, en talið er að með þessum útreikningum og rækilegum könnunum ætti að liggja nægilega traustur grundvöllur til þess að þm. gætu myndað sér sínar skoðanir. Í þessari skýrslu eru bæði reiknaðar út ýmsar leiðir miðaðar við að fjölga þm., en það eru einnig reiknaðar út leiðir og bent á leiðir til að leysa þessi vandamál án þess að fjölga þm.

Önnur spurning hv. þm. er sú, hvort mér sé kunnugt um tillögu eða jafnvel samkomulag forustumanna stjórnmálaflokka utan stjórnarskrárnefndar um breytingar í kjördæmamálum. Það er náttúrlega öllum kunnugt, að formenn stjórnmálaflokkanna hafa um alllangt skeið haldið fundi til að fjalla um kjördæmamálið. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að samkomulag hafi komist á milli þeirra um tiltekna tillögu eða lausn á því máli.

Þriðja spurningin: Hvenær er þess að vænta að hæstv. forsrh. leggi fram drög að nýrri stjórnarskrá fyrir Alþingi, þar sem verða tillögur um svokölluð kjördæmamál, og eru líkur á að slíkar tillögur njóti fyrir fram meirihlutafylgis hv. alþm.? Nú vil ég taka það fram að endurskoðun stjórnarskrárinnar almennt er langt komið og er senn að ljúka á vegum stjórnarskrárnefndar. Hún vinnur að því nú að taka saman skýrslu til þm., þingflokka og fjölmiðla um þau mál, þ.e. um endurskoðun stjórnarskrárinnar, að öðru leyti en snertir kjördæmamálið. Við stefnum að því að þessari greinargerð verði lokið á næstunni, a.m.k. fyrir áramót, og hún verði þá send þessum sömu aðilum. Ég hef gert ráð fyrir að frv. til nýrrar stjórnarskrár og þar með ákveðið kjördæmamál yrði lagt fyrir Alþingi þegar það kemur saman að nýju í janúarmánuði. Ég tel ekki að það sé nauðsynlegt að fyrir fram sé búið að tryggja meirihlutafylgi eða allsherjarsamkomulag alþm. um öll atriði, enda geri ég ráð fyrir að það mundi þá dragast mjög verulega. Hins vegar hef ég gert ráð fyrir að meðferð þessa frv. yrði að hætti þingmála, en til þess að fara með þetta mál á Alþingi yrðu kosnar sérstakar stjórnarskrárnefndir þm. í báðum deildum, eins og oftast hefur verið gert þegar stjórnarskrármál hafa verið til meðferðar. Þessar nefndir mundu þá væntanlega vinna saman og fara yfir frv. með svipuðum hætti og þingmál almennt.

Í fjórða lagi spyr hv. þm. hvað ég tel ji að Alþingi þurfi langan tíma til að fjalla um nýja stjórnarskrá, þar með talið kjördæmamál. Í framhaldi af því sem ég nú hef sagt og ef vel er unnið og vilji er fyrir hendi, þá tel ég að 4–6 vikur ættu að nægja á Alþingi.

Í fimmta lagi er spurt með hverjum hætti sé ætlað að kynna þjóðinni drög að nýrri stjórnarskrá, áður en Alþingi tekur um hana endanlega ákvörðun. Ég tel að það sé brýn nauðsyn að kynna þjóðinni þessi mál sem allra rækilegast. Þar veltur auðvitað mest á því að fjölmiðlarnir gegni skyldum sínum. Ég tel að hér hafi Ríkisútvarpið, bæði sjónvarp og hljóðvarp, mjög miklu hlutverki að gegna að kynna þjóðinni málið sem allra ítarlegast og hlutlaust. Ég geng út frá því að stjórnarskrárnefnd og ríkisstj. muni kanna hvernig hægt er að koma slíkri kynningu sem best fyrir og það að sjálfsögðu í samráði við stjórnmálaflokkana, en hér veltur auðvitað mjög og mest á stjórnendum Ríkisútvarpsins, að þeir sýni fullan skilning á því að almenningur eigi á vegum þessara fjölmiðla sem bestan kost á að kynnast öllum meginatriðum frv. til nýrrar stjórnarskrár.

Í sjötta lagi spyr svo hv. þm. hvort komi til greina að beita þingrofsrétti áður en drög að nýrri stjórnarskrá hafa verið lögð fram og umr. farið fram um hana og ennfremur hvort komi til greina að beita þingrofsrétti áður en breytingar hafa verið gerðar á svokölluðum kjördæmamálum. Ég vil taka það fram, sem ég held að hafi komið fram raunar áður, að mín stefna í þessu máli er að það Alþingi sem nú situr afgreiði frv. til nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland og þar með taldar breytingar á kjördæmamáli. Ég tel að bæði undirbúningur málsins sé með þeim hætti að slíkt eigi að vera hægt og ég vænti þess fastlega að þingheimur, eða a.m.k. nægilega mikill meiri hl. þm., sé á sama máli svo að þetta geti orðið að veruleika.