28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

47. mál, frestun á greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til 1. um heimild til að fresta greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána, en það er flutt til staðfestingar á samhljóða brbl. nr. 57 frá 27. maí 1983. Brbl. voru sett til þess að létta greiðslubyrði húsbyggjenda vegna verðtryggðra lána, þar sem verðlag hafði hækkað meira en laun um nokkurt skeið. Voru lögin þáttur í aðgerðum af hálfu ríkisstj. til að aðstoða húsbyggjendur. Samkvæmt þeim gat ríkisstj. að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og Seðlabanka Íslands ákveðið að fresta greiðslum á allt að 25% af samanlagðri fjárhæð afborgana, verðtryggingarþátta og vaxta verðtryggðra lána Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og verðtryggðra íbúðalána banka og annarra lánastofnana er gjaldféllu á tilteknu tímabili, ef lántaki óskaði.

Greiðslum þeim sem frestað kynni að vera skyldi bætt við höfuðstól lánsins og lánstíminn lengdur eftir þörfum þannig að greiðslubyrði lánsins á hverjum tíma ykist ekki af þeim sökum og lánið væri með óbreyttum kjörum að öðru leyti svo og með hliðstæðum áfangagreiðslum og ella hefði verið.

Lögin hafa þegar komið til framkvæmda. Þess má og geta að ýmsir lífeyrissjóðir hafa gefið kost á sams konar greiðslufresti og hér hefur verið greint frá í kjölfar tilmæla þar að lútandi frá Sambandi almennra lífeyrissjóða og Landssambandi lífeyrissjóða. Af öðrum aðgerðum, sem snerta einnig aðstoð við húsbyggjendur, má nefna skuldbreytingu skulda húsbyggjenda og íbúðarkaupenda af hálfu banka og sparisjóða í samræmi við samkomulag sem gert var við ríkisbankana.

Aðrar aðgerðir sem gerðar hafa verið hafa verið hér til umr. og ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þær. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.