19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því að biðjast afsökunar á því að ég mun hafa sagt hér herra forseti í fyrri ræðu minni og þykir mér það mjög leitt en sterkur er vaninn.

Já, undarleg þótti mér ræða hæstv. fjmrh. Ég hygg t.d. að hann hefði nú ekki talað svona um hv. þm. Ragnar Arnalds, fyrrv. fjmrh., ef hann hefði verið hér inni því að síðan hann tók við embætti fjmrh. hefur hann ekki gert annað en hæla honum og það að makleikum að sjálfsögðu. En nú taldi hann allt ófært og í raun og veru svo illa að staðið í lokin að ógerningur var að hugsa sér hvernig ríkisbúskapurinn hefði verið rekinn frá apríllokum og til þessa dags því að þar var ekkert eftir. Allar tekjur þess árs voru þá uppurnar, að mér skildist, hjá hæstv. fjmrh., allt búið, en síðan hefur þetta nú einhvern veginn rambað og þó hefur hann ekki einu sinni selt eitt einasta ríkisfyrirtæki upp í þetta.

Hins vegar þótti mér þessi dagfarsprúði og indæli maður, sem hæstv. fjmrh. er nú, vera kominn í þennan sama tón og hæstv. ráðherrar eru og hafa verið frá því að þeir tóku við völdum, þennan hrokatón. Nú þegar þing er loksins komið saman eftir að þeir hafa haldið óbreyttum þm. utan við allar umr. og alla ákvarðanatöku þá segir hæstv. fjmrh.: Og svo skulu þeir voga sér í umr. Ja, það er ekki nema von þó að honum blöskri. Umr. á þingi. Auðvitað reiknuðu þeir með því að í framhaldi af þeirri þögn sem þeir hafa þó fengið í sumar þá héldu menn sjálfsagt áfram að þegja hér. Þvílík ósvinna. Nú voga menn sér hér í umr. Og það sem mér þótti enn leiðara — ég kunni ekki við þennan tón sem hann sendi nýjum þm. hér sem eru að flytja sitt mál. Mér fannst það lítilsvirðandi tónn og ólíkur þeim tóni sem þessi hæstv. ráðh. er vanur að gefa. Og svo talaði hann fagurlega í lokin um sanngirni. Það var svo sem til að kóróna allt saman að biðja um sanngirni, biðja um vægð eftir þá dóma sem hann hafði sjálfur fellt í sinni ræðu.

Já, hv. 5. landsk. þm. benti á það hér áðan að það væri alltaf talað um að ef ekkert hefði verið að gert þá hefði þetta nú farið svona og svona. Og auðvitað er það rétt sem hann kom að að auðvitað datt engum í hug annað en eitthvað yrði að gera. Spurningin var að eins um það, á hvern hátt átti að framkvæma þær aðgerðir sem gerðar voru. Heildarniðurstaðan í raun og veru af ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan var sú að þegar allt væri lagt saman, kaupskerðing og mildandi aðgerðir, þá kæmi plús út. Þá væri í raun og veru, þegar öll kurl væru til grafar komin, um mildandi aðgerðir gagnvart fólkinu í landinu að ræða. En það sem við vorum að tala um hér áðan varðar þessar tillögur í þessu frv. Þær eru vitanlega í órofa tengslum við þá stórkostlegu kjaraskerðingu sem varð í vor vegna þess að ríkisstj. varð ljóst að þrátt fyrir steinhjarta hennar, sem hv. 5. landsk. þm. kom hér inn á áðan, þá yrði hún þó í einhverju að sýna lit. Hún yrði að sýna lit í einhverju og það hefur hún verið að gera með þessu sem hér er til umr. sérstaklega núna.

Já, ég treysti mér alveg, hæstv. fjmrh., í það að fara í nákvæmt yfirlit varðandi kaupmátt lífeyrisþega, öryrkja og aldraðra á tíma síðustu ríkisstj. og kaupmátt þeirra í dag. Ég treysti mér til þess fyllilega og stend þar fyllilega uppréttur og það veit hæstv. fjmrh. að hér er ólíku saman að jafna. Kaupmáttur þessara aðila sem og annarra hefur stórkostlega farið niður. Og þegar hann er að bera saman kjaraskerðingu sem orðið hafði á tímum fyrri stjórnar og þá kjaraskerðingu sem varð í vor þá auðvitað er kaupmátturinn — hin raunverulegu kjör — vitanlega ólygnastur hér um. Og ég las það fyrir stuttu í ágætu riti sem Vísbending heitir og mun vera gefið út af hagfræðingum nokkrum sem ekki eru nú sérstaklega hliðhollir stjórnarandstöðunni að það þyrfti sko heldur betur að hækka kaupið á næsta ári ef ætti að ná kaupmætti síðasta árs. Og ég efast ekkert um að þessa vísbendingu, þessa sönnu vísbendingu, tekur hæstv. fjmrh. svo sannarlega til greina.

Vitanlega er hér verið að tala um það hvað fólkinu í landinu var rétt til baka eftir þá hrikalegu árás sem gerð var á lífskjör þess og ég segi: Það var smáræði eitt þegar litið er til þeirrar skerðingar. Það var smáræði eitt og það sanna kaupmáttartölurnar í dag. Hæstv. fjmrh. rengdi mig vitanlega ekkert um það að þrátt fyrir niðurgreiðslurnar í 3. gr. hefði hitunarkostnaður heimilanna á köldu svæðunum hækkað. Það er aðalatriði málsins að hér er um að ræða meira að segja enn þyngri byrði en áður var, miðað við hin skertu launakjör, enn þyngra hlutfall sem þetta fólk þarf að borga þrátt fyrir niðurgreiðslurnar vegna kjaraskerðingarinnar einnig. Þetta er auðvitað meginmálið því að fólkið spyr um það: Hvað þarf ég að borga mikinn hluta af launum mínum í hitunarkostnað húss míns? Um það spyr það og það hlutfall hefur hækkað en ekki lækkað þrátt fyrir það sem gert hefur verið vegna þess að Landsvirkjun hefur fengið nákvæmlega allar þær hækkanir sem hún hefur viljað — þetta óráðsíufyrirtæki, sem greinilega hefur undir þeirri styrku fjármálastjórn sem maður hélt nú að þar væri, hefur greinilega borið og ber ábyrgð á meginhluta þeirra skulda sem mönnum verður svo tíðrætt um hér af hálfu ríkisstj.

Ég skal ekki efna hér til almenns eldhúsdags um þessi mál en ég segi aðeins það varðandi kaupmátt lífeyrisþeganna, varðandi kaupmátt og kaupgetu aldraðra og öryrkja, varðandi kaupgetu láglaunafólksins í landinu þá skulum við hæstv. fjmrh. koma hér með okkar tötur um það hver þau kjör voru á dögum síðustu ríkisstj. og hver þau kjör eru í dag. Ég þori fyllilega í þann samanburð. Og sá samanburður er þessari ríkisstj. til minnkunar, til minnkunar segi ég vegna þess að ég trúi ekki enn að það hafi verið ætlunin að ganga svo hart til verks, sem þeir hafa í raun og veru gert. Ég held sem sé að í sumu, þó þeir eigi sér fáar afsakanir, viti þeir ekki einu sinni hvað þeir eru að gera.