30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

35. mál, þingsköp Alþingis

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta mál vegna þess að það er mikið búið að vera til umr. hér frammi meðal þm. hvað einstakir þm. taka langan ræðutíma og tefja með því störf þingsins, þó ekki sé nema til að mæla fyrir einu máli eða svo. Ég hef að vísu ekki mikla reynslu hér af þingstörfum, en það sem af er þingi hefur mér hreinlega stundum fundist alveg óþolandi hvað langur tími fer í málflutning einstakra ræðumanna.

Í öðru lagi kvaddi ég mér hljóðs vegna þessa frv. Hér er talað um að þegar þáltill. er flutt og ef hún fjalli um stjórnskipan, utanríkis- eða varnarmál eða staðfestingu framkvæmdaáætlana, þá skuli fara fram um hana tvær umr. og ræðutími sé ótakmarkaður. Mig langar aðeins að benda á það sem ég heyrði um daginn og sel það ekki dýrara en ég keypti það, að við hæstarétt Bandaríkjanna fái flm. mála, stórra og mikilla mála, aðeins 10 mínútur og þeir verði bara að gera svo vel að ljúka máli sínu á þeim tíma. Ég held að það væri nær að við reyndum að koma máli okkar frá okkur á sem stystum tíma og læra að draga saman í sem fæst orð það sem við ætlum að segja, þannig að það skiljist jafnvel á stuttum tíma eins og ef hann væri aðeins lengri.

Ég er ansi hrædd um að það séu ekki margir sem skilji hvort eð er það sem er verið að tala um hér í klukkutíma, jafnvel 11/2 til 2, þegar allflestir eru hvort eð er farnir úr salnum. Það situr enginn hér undir 11/2–2 tíma ræðustagli.

Í sambandi við fyrirspurnirnar er ég hins vegar ekki sammála því að það eigi að meina öðrum þm. og ráðherrum að taka til máls en þeim sem bera upp fsp., vegna þess að fsp.-forminu er ætlað, eftir því sem ég kemst næst, að veita aðhald framkvæmdavaldinu og mér finnst að það geti vel komið til greina að fleiri megi taka til máls, en bara að takmarka ræðutímann enn meir, t.d. 2 mínútur á hvern einstakan, eins og nú er um aðra en fyrirspyrjandann.

Þá eru það utandagskrárumræður sem mig langar til að tala um líka í sambandi við þetta, vegna þess að mér finnst vanta í þetta. Hv. flm. talaði um að þetta væri einungis till. um hvernig þetta gæti litið út. Ég held að það væri þá kannske ekki úr vegi að rætt væri nánar um það hvort utandagskrárumræður gætu ekki alveg eins farið fram eftir að dagskrá lýkur, þ.e. eftir kl. 4, vegna þess að það mál sem er aðkallandi og brýnt kl. 2 að taka til umr. utan dagskrár ætti ekki síður að vera aðkallandi og brýnt kl. 4. En það hefði þann kost, að ef það væri tekið fyrir kl. 4, að þá vissu allir af því kl. 2 að það ætti að taka málið upp kl. 4. Segjum sem svo að fólk hefði áhuga á því að afla sér upplýsinga um eitthvað varðandi þetta mál. Þá gæti það haft tækifæri til þess í millitíðinni.

Ég ætla þá ekki að taka meiri ræðutíma í bili.